16/03/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 16.3.2016
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið var lagafrumvarp um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis afgreitt úr allsherjar- og
menntamálanefnd Alþingis sl. þriðjudag. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum áfanga enda studdu samtökin frumvarpið í umsögn sinni um málið, bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu.
SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi.
SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.
SVÞ gagnrýna hins vegar að ekki er tekið til endurskoðunar bann við auglýsingum á áfengi. Í því samhengi benda SVÞ á að þrátt fyrir umrætt bann er heimilað að flytja inn til landsins blöð og tímarit sem innihalda áfengisauglýsingar og áfram munu íslenskir neytendur hafa áfengisauglýsingar fyrir augunum í gegnum erlendar sjónvarpsrásir sem sendar eru út hér á landi sem og á Internetinu. Svo mun verða áfram og á meðan mun áðurnefndur aðstöðumunur því áfram vera innlendri framleiðslu í óhag þar sem íslenskir framleiðendur munu áfram standa höllum fæti við að koma vöru sinni á framfæri við neytendur.
Eins og áður segir fagna SVÞ því að málið hafi verið afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd og telja samtökin mikilvægt að málið komist á dagskrá Alþingis og fái þar þinglega meðferð þannig að unnt verði að greiða atkvæði um málið á þinginu.
Fréttatilkynning til útprentunar.
Umsögn um 13. mál – Verslun með áfengi og tóbak 11.2.16
01/02/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 1.2.2016
EFTA-dómstóllinn hefur skilað áliti sínu um innflutningsbann íslenska ríkisins á fersku kjöti þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
Hæstiréttur hafði áður staðfest að leita skuli álits EFTA-dómstólsins á nánar tilteknum atriðum í tengslum við mál sem eitt aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, þ.e. Ferskar kjötvörur ehf., rekur gegn íslenska ríkinu vegna synjunar um að flytja til landsins ferskt kjöt frá Hollandi. Fyrirtækið stefndi íslenska ríkinu og krafist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir vegna synjunar á beiðni um heimild til að flytja til landsins ferskt nautakjöt. Synjunin grundvallaðist á innflutningsbanni sem SVÞ hafa áður kvartað undan til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en samtökin telja að umrætt bann gangi gegn ákvæðum EES-samningsins. Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi bann varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum.
Undir rekstri máls Ferskra kjötvara í héraði krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómsstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn og var sú krafa staðfest af Hæstarétti gegn mótmælum íslenska ríkisins.
Niðurstaða EFTA-dómstólsins er afgerandi í þessu máli þar sem segir m.a. að samrýmist ekki EES-löggjöf að ríki, sem aðild á að EES-samningnum, setji reglur, þar sem þess er krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sæki um sérstakt leyfi áður en varan er flutt inn, og áskilji að lagt sé fram vottorð um að kjötið hafi verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Þá er með öllu hafnað þeim röksemdum íslenska ríkisins um að taka beri tillit til einangraðar landfræðilegrar legu Íslands og ónæmisfræðilegs varnarleysis dýraflóru landsins og hugsanlegra afleiðinga á líf og heilsu manna, við skýringu EES-löggjafar. Í því samhengi verður að hafa hugfast að Ísland fullyrti að það beri fullt traust til dýraheilbrigðiseftirlits sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur.
SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá EES-ríkjum gangi gegn ákvæðum EES-samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA hefur áður komist að og staðfest er í niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Fréttatilkynning til útprentunar.
Niðurstaða EFTA-dómstólsins.
20/01/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.1.2016
Lækkun og helst afnám tolla á svína- og alifuglakjöt er eitt af baráttumálum Samtaka verslunar og þjónustu, enda bera neytendur umtalsverðan kostnað af verndartollunum eins og glögglega kemur fram í útreikningum efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Þar sést að íslenskir neytendur greiða alls um fjóra milljarða króna á ári vegna tollverndar á innflutt svína- og alifuglakjöti.
Lækkun tollverndarinnar eða afnám hennar yrði veruleg kjarabót fyrir heimilin í landinu enda er alifuglakjöt vinsælasta kjöttegundin hérlendis með tæplega þriðjungs markaðshlutdeild. Sala svínakjöts er í þriðja sæti rétt á eftir lambakjöti en töluverð aukning hefur verið í sölu svínakjöts hérlendis að undanförnu og nam aukningin tæpum 12% á síðasta ári.
Samkvæmt útreikningum efnahagssviðs SA mun ávinningur heimilanna í landinu nema 21.249 krónum á ári að jafnaði ef tollar af svína- og alifuglakjöti verða lækkaðir um helming. Væru tollarnir felldir niður að fullu myndi hvert heimili spara 32.938 krónur að meðaltali á ári.
Við útreikningana var miðað við sölu svína- og kjúklingakjöts á síðasta ári. Ávinningur heimilanna yrði að líkindum meiri, því lækkun eða afnám tollanna mun væntanlega stuðla að aukinni neyslu þessara kjöttegunda.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á verðbreytingum vegna afnáms vörugjalda og breytinga á tollum hafa sýnt að breytingarnar hafa skilað sér sem varanleg verðlækkun til hagsbóta fyrir neytendur.
Viðhengi með útreikningum.
Fréttatilkynning til útprentunar.