Dómur er fallinn – en hvað svo?

Dómur er fallinn – en hvað svo?

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifaði grein á Vísi þann 12. nóvember. Í greininni fjallar hann um skort á aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við dómi Hæstaréttar þar sem staðfest var lögmæti innflutnings á fersku kjöti. Ríkið skapar sér nú skaðabótaskyldu með því að halda áfram að gera ferskt kjöt upptækt við komu til landsins. Greinina í heild sinni má lesa á vef Vísis hér.

Niðurgreidd samkeppni

Niðurgreidd samkeppni

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. september:

Eins og öllum er kunnugt eykst netverslun hröðum skrefum hvar sem er í heiminum, en þessari þróun er afar vel lýst í nýútkominni skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem ber heitið „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“.

Þó að netverslun hafi þróast hægar hér á landi en víða í nágrannalöndum okkar, eykst hún nú með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Jafnframt eykst hin alþjóðlega samkeppni á þessum markaði.

 

Póstsendingar frá þróunarríkjum

Því fer fjarri að hin alþjóðlega samkeppni í netverslun fari fram við jöfn samkeppnisskilyrði.

Á grundvelli áratugagamals alþjóðasamnings (Universal Postal Union), sem á rætur sínar að rekja allt aftur á 19. öld og Ísland er aðili að, ber póstþjónustufyrirtækjum í þróuðum ríkjum að greiða 70-80% af kostnaði við póstsendingar sem þangað berast frá ríkjum sem flokkast sem þróunarríki. Þróunarríki greiða aðeins 20-30% af þessum kostnaði.

Fyrir mörg þróunarríki hefur þessi samningur reynst vel við að koma framleiðsluvörum þessara ríkja inn á alþjóðlega markaði.

 

Kína er skilgreint sem þróunarríki

Niðurgreiddur Kína póstur

Svo undarlega sem það kann að hljóma flokkast Kína sem þróunarríki eftir skilningi þessa gamla samnings. Þetta þýðir á mannamáli að stór hluti kostnaðar af þeim póstsendingum sem koma hingað til lands frá Kína er í raun niðurgreiddur af íslenskum neytendum. Íslandspósti, sem er opinbert hlutafélag og í 100% eigu íslenska ríkisins, ber skylda til að dreifa öllu því mikla magni póstsendinga sem berast hingað til lands með þessum hætti, og með þeim skilmálum sem fyrr var lýst.

Því fer fjarri að þessi staða sé bundin við Ísland. Í nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlantsála, sætir þetta kerfi sífellt meiri gagnrýni. Til Danmerkur, svo dæmi sé tekið, berast á hverjum degi um 40.000 póstsendingar frá Kína. Verslun á Norðurlöndum finnur mjög fyrir þeirri ósanngjörnu samkeppni sem þarna birtist og opinber póstþjónusta í þessum löndum er að sligast undan því álagi og þeim kostnaði sem þessu fylgir.

 

Samkeppnisstaðan

Innlend verslun (bæði hefðbundin og netverslun) stendur augljóslega höllum fæti gagnvart þessari ójöfnu samkeppni. Ekki nóg með að sendingarkostnaðurinn sé niðurgreiddur, heldur bendir allt til að stór hluti þess varnings sem kemur til landsins með þessum hætti komi án þess að greiddur sé af honum virðisaukaskattur. Að sama skapi er í einstökum tilvikum um að ræða sendingar á vörum sem brjóta gegn hugverka- og hönnunarvernd, þ.e. falsaðar vörur eða vörur sem ekki hafa verið framleiddar í samræmi við viðurkennda öryggisstaðla.

Þetta er staða sem ekki er hægt að una við lengur enda ljóst að samkeppni þrífst ekki við slíkar aðstæður. Aðstæður þar sem framleiðsla í Kína er niðurgreidd af íslenska ríkinu sem og öðrum ríkjum í hinum vestræna heimi. Netverslanir hér á landi og í nágrannalöndum okkar munu ekki geta keppt við stór ríki sem njóta slíkrar forgjafar og að sama skapi mun kostnaður póstrekenda vegna þessa falla á innlenda neytendur. Hér verða stjórnvöld einfaldlega að spyrna við fótum.

Frosin stjórnsýsla

Frosin stjórnsýsla

Frosin stjórnsýsla
Birt á visir.is 19.07.2018

Fyrir sjö árum sendu SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem samtökin tóku af skarið og kvörtuðu undan innleiðingu hérlendra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES samningsins. Var þannig í pottinn búið, og er enn, að íslenska ríkið hefur sett höft á innflutning á fersku kjöti og skal allt slíkt kjöt fryst áður en það kemur inn á borð íslenskra neytenda. Sem afleiðing þessa er íslenskum neytendum gert að velja á milli innlendrar framleiðslu, fersk eða frosin, og þíddu erlendu kjöti. Er óumdeilt að slík samkeppni er verulega einsleit og vali neytenda gefið langt nef enda felur frystiskylda á kjöti í sér verulega eftirgjöf á gæðum.Á síðastliðnu ári kvað EFTA dómstóllinn upp hin rökrétta dóm að hérlend frystiskylda fæli í sér ótvírætt brot gegn EES skuldbindingum íslenska ríkisins. var dómurinn í fullu samræmi við röksemdir SVÞ í kvörtun sinni til ESA. Þrátt fyrir veruleg fjárútlát í vörn sinni tókst íslenska ríkinu ekki að sýna fram á nein rök fyrir umræddum innflutningshöftum. Á góðri og kjarnyrti íslensku kallaðist þessi sneypuför stjórnvalda fyrir dómstólnum heimaskítsmát hvað varðar grundvöll fyrir þessum höftum á starfsumhverfi verslana og valfrelsi neytenda.

Þrátt fyrir ljúf loforð stjórnvalda gagnvart ESA um að bæta úr þessum ágöllum og aflétta umræddum höftum hafa stjórnvöld enn ekki gripið til slíkra aðgerða átta mánuðum frá því að dómur féll í málinu. Í átta mánuði hafa stjórnvöld verið meðvituð um eigin sök án þess að hafa sýnt vilja í verki til að bæta hér úr. Er svo komið að ekki eingöngu þolinmæði neytenda og verslana er á þrotum heldur einnig þolinmæði ESA. Hefur stofnunin nú gefið stjórnvöldum þrjá mánuði til þess að svara fyrir það hvers vegna ekki hafi verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að framfylgja dómi EFTA dómstólsins um innflutningstakmarkanir sem féll í nóvember í síðasta ári.

Nú dugar ekkert fyrir hérlend stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus og krossleggja fingur um að þetta reddist heldur þarf að bretta upp ermar og ráðast í þær breytingar sem gera þarf til að uppfylla skyldur ríkisins. Sofandaháttur stjórnvalda í þessu máli má ekki viðgangast mikið lengur og er það skýr krafa verslunar og neytenda að stjórnvöld virði þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist, hvort sem það eru samningar eða dómar.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Menntakerfið og fjórða iðnbyltingin

Menntakerfið og fjórða iðnbyltingin

Menntakerfið og fjórða iðnbyltingin

 

Óhætt er að slá því föstu að fjórða iðnbyltingin muni hafa gríðarlegar samfélagslegar breytingar í för með sér. Hún mun verða knúin áfram af meiri og stórkostlegri tækninýjungum en áður hafa sést, nýjungum á borð við gervigreind, vélmenni, dróna og sýndarveruleika. Allar þessar breytingar eru af þeirri stærðargráðu að óhjákvæmilegt er að þær munu hafa veruleg áhrif á allt atvinnulíf eins og við þekkjum það í dag og þar með á allt daglegt líf fólks.

Þessar breytingar, sem eru aðeins handan við hornið, kalla á meiri og áður óþekktar áskoranir fyrir okkur öll. Það á ekki hvað síst við um menntakerfið. Stóra spurningin er því hvort menntakerfið okkar verður í stakk búið til að takast á við þessar breytingar. Hvernig búum við fyrirtæki í verslun og þjónustu undir þessar breytingar allar? Verður menntakerfið nógu fljótt að aðlaga sig að nýjum þörfum þessara mikilvægu atvinnugreina? Sennilega er ástæða til að hafa vissar áhyggjur, sagan segir manni nefnilega að „kerfið“ er mun seinna að bregðast við öllum breytingum en atvinnulífið, stundum miklu seinna.

Hvernig munu verslanir framtíðarinnar líta út? Verða þær kannski meira og minna „sjálfvirkar“ þar sem viðskiptavinir „skanna“ sig inn og út úr verslunum? Munu milliliðalaus viðskipti frá framleiðendum til neytenda verða næsta skref í þesssri þróun? Allt eru þetta áleitnar spurningar sem margir eru að velta fyrir sér nú um stundir.

Fjórða iðnbyltingin og allar þær breytingar sem hún mun kalla á, er stærsta áskorunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir nú um stundir. Það skiptir lykilmáli við aðlögun að þeim breytingum verði aðlögun menntakerfisins sett í fyrsta sæti. Það er ein megin forsendan fyrir því að atvinnulíf á Íslandi haldi stöðu sinni inn í framtíðina og þar með forsendan fyrir því að unga fólkið okkar sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum, fái þau tækifæri sem það á skilið.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

 

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt álit sitt vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutning á svokölluðum sérostum. Um er að ræða mál sem upp kom í kjölfar lögfestingu á búvörusamningum en við þinglega meðferð málsins kom fram vilji Alþingis um að liðka fyrir innflutningi á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Því átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári tollasamningsins, þ.a. á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þá skyldi þeim ostum vera úthlutað samkvæmt hlutkesti en ekki undirorpnir útboðsgjöldum. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.

Fyrir liggur að mistök þessi voru tilkomin vegna atvika er varða lagaskrifstofu Alþingis og var í kjölfarið þrýst á um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum til að koma þessum tollfrjálsa innflutningi á. Því lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á tollalögum til að leiðrétta þessi mistök og var í frumvarpinu lagt til að opna skyldi tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði 230 tonn.

Hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga. Þá leggur nefndin einnig til að fyrir 1. nóvember 2018 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum.

SVÞ gagnrýna harðlega þessa afgreiðslu atvinnuveganefndar og telja hana atlögu af þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækanna sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Telja SVÞ afgreiðslu þessa ganga freklega gegn hagsmunum bæði verslunar og neytenda til þess eins að vernda innlenda hagsmuni án þess þó að framleiðsla sérosta eigi sér hér stað.