Verslun og þjónusta – verðþróun einstakra vöruflokka

Samantekt
Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um að sterk staða krónunnar undanfarin misseri skili sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs á mörgum innfluttum vörum. Í því samhengi  er borin saman verðlagsþróun einstakra vöruflokka m.t.t. styrkingu krónunnar.  Raunveruleikinn er talsvert flóknari en slíkur einfaldur samanburður gerir ráð fyrir þar sem horft er framhjá veigamiklum þáttum sem hafa áhrif á vöruverð í landinu. Þessar aðferðir taka til dæmis ekki tillit til mögulegra áhrifa vegna verðþróunar erlendra aðfanga, þróunar launakostnaðar, flutningskostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þ.a.l. á verðþróun vara á innlendum markaði. Eins hafa breytingar á vsk talsverð áhrif. Til samanburðar má benda á að vísitala innfluttra mat- og drykkjavara reiknuð án vsk lækkar um 5,1% borið saman við 1,54% án vsk – þar sem vsk breyttist úr 7% í 11% þann 1. janúar 2015 er nauðsynlegt að taka tillit til slíkra breytinga.

Skýrslan er aðgengileg hér.

Minnkandi velta fataverslunar í október

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt mælingar fyrir október sem sýna að velta í fata- og skóverslun dróst saman í október síðastliðnum í frá sama mánuði í fyrra þó svo að verð á fötum hafi verið 5,9% lægra en fyrir ári.  Ef borin er saman velta í fataverslun síðustu þrjá mánuði við sömu þrjá mánuði í fyrra sést að nánast engin breyting var á veltunni á milli ára. Vert er að minnast þess að um síðustu áramót voru felldir niður tollar af fötum sem hvati til aukinnar sölu á fötum hér innanlands. Þannig var ætlunin að sporna gegn þeirri þróun að Íslendingar sem ferðist til annarra landa kaupi í miklu magni föt í útlöndum og fataverslunin flyttist heim í staðinn.

Á þessu ári hefur gengi íslensku krónunnar styrkst verulega og þar með er hagstæðara fyrir landsmenn að versla erlendis núna en í fyrra. Enda var greiðslukortavelta Íslendinga erlendis í október síðastliðnum 19% meiri en í október í fyrra, sem gefur vísbendingu um að aukning hafi verið innkaupum landsmanna erlendis. Líklega eru fatakaup þar innifalin.

Dagvara og heimili
Áframhaldandi aukning var í sölu annarra vöruflokka í október. Þannig jókst sala í dagvöruverslun um 4,3% frá október í fyrra. Sala dagvöru síðastliðna þrjá mánuði var 7,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.

Heimilin endurnýja húsgögnin fyrir jólin. Í október jókst sala húsgagna um 19,2% frá sama mánuði og í fyrra. Þar af jókst velta sérverslana með rúm um 23,5% frá því í fyrra. Þegar borin er saman velta húsgagna síðustu þriggja mánaða við sömu mánuði í fyrra jókst veltan um 26%. Sór heimilistæki, líkt og kæliskápar og þvottavélar, njóta einnig aukinna vinsælda í aðdraganda jóla. Sala á slíkum tækjum jókst um 13,5% frá október í fyrra.

Gólfefni
Nú er í fyrsta sinn birt veltuvísitala gólfefna. Vísitalan byggir á veltutölum frá flestum sérverslunum í landinu með gólfefni, auk byggingavöruverslana og annarra sem verslana sem selja gólfefni. Velta gólfefna jókst um 33,8% í október í samanburði við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum reiknast aukningin á milli ára vera 32,5%.
Stefnt er að því að bæta við enn fleiri flokkum byggingavöru á næstunni.

Erlend kortavelta
Íslensk verslun nýtur góðs af auknum kaupmætti og vaxandi einkaneyslu. Jafnframt er ljóst að aukinn straumur erlendra ferðamanna hefur nokkur áhrif á verslun. Í október síðastliðnum var heildargreiðslukortavelta erlendra ferðamanna 17,5 milljarðar króna sem er 67,1% hærri upphæð en í október í fyrra

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í október um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í október 0,9% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 11,4% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 10,9% á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 0,5% hærra í október síðastliðnum og 0% lægra en í mánuðinum á undan. Þess ber að geta að 1. janúar 2016 var áfengi fært í neðra þrep VSK en áfengisgjald hækkað. Í gögnum sem hér er stuðst við eru sýndar breytingar á veltu án VSK og þarf því að túlka tölur með tilliti til þessarar kerfisbreytingar

Fataverslun dróst saman um 7,1% í október miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 1,3% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 8,6% í október á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í október um 3,9% frá október í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 19,2% meiri í október en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17% á föstu verðlagi.
Velta sérverslana með rúm jókst um 23,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi.
Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 16,5% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 1,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í október um 12,2% á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í október um 2,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 34,3%.
Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 4,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,5% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV

Jólaverslun 2016

Áætlað er að jólaverslunin aukist um 10,3% frá síðasta ári og að velta í smásöluverslun verði um 85 milljarðar kr. án virðisaukaskatts í nóvember og desember. Þetta er mesti vöxtur í jólaverslun á milli ára frá bankahruninu. Rannsóknaseturs verslunarinnar birtir hér spá um jólaverslunina þar sem þetta kemur fram.
Af spánni má draga þá ályktun að hver Íslendingur verji að jafnaði 53.813 kr. til innkaupa í nóvember og desember, sem rekja má til árstímans. Í fyrra nam þessi upphæð 49.156. Vöxturinn á milli ára er því 9,5%. Tekið skal fram að mannfjöldi eykst um 1,1% á þessu tímabili samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar.

Í samantekt Rannsóknasetursins um jólaverslunina er einnig að finna umfjöllun um neyslubreytingar sem tengjast jólaversluninni.

Sækja skýrsluna Jólaverslun 2016

Veltuaukning í allri tegund verslunar

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.

Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.

Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

6,5 milljarðar í gistingu í ágúst

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í ágúst 30,6 milljörðum króna samanborið við 22,2 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða tæplega 38% aukningu frá ágúst í fyrra. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt tæpa 162 milljarða með kortum sínum en til samanburðar var erlend greiðslukortavelta allt árið í fyrra 154,4 milljarðar króna. Kortavelta á tímabilinu janúar til ágúst 2016 er því um 5% meiri en allt árið í fyrra.

Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Tæpir 6,5 milljarðar króna fóru um posa gististaða í ágúst en gististarfsemi er veltuhæsti flokkurinn í kortaveltu ferðamanna. Upphæðin nú er 32,3% hærri en í ágúst 2015 þegar erlendir ferðamenn greiddu 4,9 milljarða króna til gististaða með kortum sínum. Erlend greiðslukortavelta til gististaða er jafnframt 4,8% hærri en í júlí síðastliðnum og hefur því aldrei verið meiri í einum mánuði.

Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend greiðslukortavelta til flugfélaga jókst um 128% frá fyrra ári. Erlendir aðilar greiddu í ágústmánuði 3,1 milljarða fyrir flugferðir samanborið við tæpan 1,4 milljarð í fyrra. Ekki fer öll starfsemi innlendra flugfélaga fram á Íslandi og því stafar hluti greiðslukortaveltu þeirra af ferðalögum til annarra áfangastaða en Íslands.

Um 57% aukning varð á milli ára í greiðslukortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta en flokkurinn inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Erlendir ferðamenn greiddu 3,5 milljarða á veitingahúsum í ágúst í ár eða 29,7% meira en íkortavelta-e-flokkum-08-2016 ágúst í fyrra og þá jókst greiðslukortavelta í verslun um 23,2% frá fyrra ári og var í ár 4,4 milljarðar. Í ágúst greiddu erlendir ferðamenn tæpar 900 milljónir fyrir menningar- afþreyingar og tómstundastarfsemi eða 47,2% meira en í sama mánuði árið 2015.
Í júlí komu 241.559 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 27,5% fleiri en í sama mánuði í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 127 þús. kr. í ágúst, eða um 5% minna en í júlí. Það er um 8% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 150 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 146 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 139 þús. kr. Athygli vekur þó að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 171 þús. kr. á hvern ferðamann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.

www.rsv.is

Sala húsgagna eykst um þriðjung

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinna mublera landsmenn hjá sér heimilin sem aldrei fyrr. Í ágúst síðastliðnum var velta í húsgagnasölu 36% meiri en í sama mánuði í fyrra.  Síðastliðna sex mánuði hefur sala húsgagna verið að jafnaði um þriðjungi meiri en á sama tíma og í fyrra. Þó viðskipti með húsgögn hafi ekki náð sömu hæðum og var fyrir hrun hefur þessi tegund verslunar verulega rétt úr kútnum að undanförnu. Sala húsgagna var í ágúst síðastliðnum 66% meiri að magni til (á föstu verðlagi) en í ágúst 2010.  Hins vegar þegar húsgagnasala er borin saman við ágúst 2007 sést að salan þá var 29% meiri en hún var í ágúst síðastliðnum. Ef fram heldur sem horfir verður húsgagnasala orðin meiri eftir ár en hún var fyrir hrun.

Aukinn ferðamannastraumur hefur jákvæð áhrif á sölu húsgagna. Þó vissulega séu erlendir ferðamenn ekki tíðir viðskiptavinir húsgagnaverslana þá krefst umbúnaður ferðaþjónustuaðila mikilla fjárfestinga. Reglulega þarf að endurnýja húsgögn og húsbúnað á hótelum, heimagististöðum og í gistihúsum. Húsgagnaverslanir njóta góðs af því.

Sala í stærsta vöruflokk smásöluverslunar, sem er matur og drykkjavörur, eykst áfram hratt. Í ágúst síðastliðnum var 8,4% meiri sala en í ágúst í fyrra, sem er álíka vöxtur og hefur verið undanfarna mánuði. Að öllu jöfnu eru ekki miklar sveiflur í veltu í flokki dagvöruverslana og því er þessi vöxtur nokkuð mikill þegar horft er yfir lengra tímabil.

Byggingavöruverslun blómstrar nú sem aldrei fyrr, og kemur sjálfsagt fæstum á óvart. Í síðasta mánuði var næstum 20% meiri velta en í sama mánuði í fyrra. Í þeim tölum er bæði sala vegna nýbygginga og endurnýjunar á húsnæði.
Heldur meiri sala var í raftækjum, tölvum og snjallsímum í ágúst síðastliðnum en 12 mánuðum áður. Í ágúst eru venjulega útsölur á raftækjum. Sú vörutegund sem mestar sveiflur urðu í, í þessum vöruflokki, voru tölvur. Líklega hefur upphaf skólaársins í ágúst, og endurnýjun á tölvum þess vegna, haft þar mest áhrif.

Litlar breytingar voru á veltu fata- og skóverslana í ágúst. Verðlag hefur þó lækkað töluvert í samanburði við ágúst í fyrra sem ræðst fyrst og fremst af afnámi 15% tolla á fatnað um síðustu áramót.

Verðlag hefur almennt lítið breyst í smásöluverslunum. Verð á dagvöru og áfengi hefur hækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum, verð á fötum lækkaði á sama tímabili um 6,2% og verð á húsgögnum hækkaði um 2%.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,4% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í ágúst um 8,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,8% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,4% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 18,6% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 18% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í ágúst síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 0,3% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 6,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,2% lægra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 0,8% í ágúst á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -4,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,2% frá ágúst í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 35,7% meiri í ágúst en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 7,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 19,6% í ágúst á breytilegu verðlagi og jókst um 18,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í ágúst um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 4,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 6,2% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.