Faggilding á Íslandi | Opinn fundur 25.ágúst n.k.

Faggilding á Íslandi | Opinn fundur 25.ágúst n.k.

Faggilding á Íslandi

Menningar- og viðskiptaráðuneytið og faggildingarsvið Hugverkastofunnar í samvinnu við Samtök verslunar- og þjónustu og Samtök iðnaðarins bjóða til opins kynningarfundar um málefni faggildingar á Íslandi. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 25. ágúst kl. 10-12 á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35.

Á fundinum mun Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, fjalla um hlutverk faggildingar í Svíþjóð og hvernig faggilding nýtist þar í starfi sænskra stjórnvalda ásamt því að taka þátt í umræðum gesta.

  • Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.
  • Í opnu nútíma hagkerfi er faggilding lykill að því að tryggja opin og frjáls alþjóðleg viðskipti með vottun á framleiðslu. Faggilding getur þannig auðveldar íslenskum framleiðslufyrirtækjum aðgang að erlendum mörkuðum. Faggilding getur einnig nýst við annað opinber eftirlit, svo sem bifreiðaskoðun, og mikil tækifæri eru til að auka notkun faggildingar við framkvæmd opinbers eftirlits.
  • Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats. Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu. Hluti af þeirri vinnu er að endurnýja samstarfssamning milli ISAC og SWEDAC, en samningurinn verður undirritaður sama dag. Með samningnum er ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu.

Viðburðurinn er í boði Stjórnarráðs Íslands, Hugverkastofunnar, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu.

Fundinum verður einnig streymt hér!

Kjólar, borvél, dálítill biti af trjónukrabba og verkefni hins opinbera

Kjólar, borvél, dálítill biti af trjónukrabba og verkefni hins opinbera

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, skrifar á Vísi þann 16. ágúst: 

Hinn sérvitri ég nær klökknaði af gleði þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið birti lykiltölur um rekstur hins opinbera á vefsíðunni opinberumsvif.is. Upplýsingarnar vekja upp ýmsar spurningar um breiðu línurnar og ég sá t.d. á fésbókinni að spurt var hvort sjávarútvegurinn gæti ekki lagt meira af mörkum svo lækka mætti verð á áfengi (innskot: Mér sýnist netverslanabransinn vera að takast á við það verkefni). Þó mér finnist upplýsingarnar frábærar segja þær bara hluta af sögunni. Með því að skoða einvörðungu þessa tilteknu heimasíðu er t.d. hægt að álykta sem svo að útgjöld ríkisins séu í góðu horfi. Hver vill ekki leggja sem mest fjármagn í heilbrigðismál, öldrun, menntamál, o.s.frv.? Eins og hagsýnir heimilisrekendur þekkja skiptir hins vegar ekki síst máli hvernig fjármununum er eytt.  

Kjólar og borvél 

Þegar reikningarnir ógna fjárhag heimilisins hef ég spurt konuna hvort hún hafi hreinlega rými í fataskápnum fyrir nýja kjóla. Svör hennar felast oftlega í hvössum ábendingum, t.d. á þá leið að ég hafi nýverið keypt flottustu gerð af borvél. Slík svör virka um stund en leysa þó ekki aðsteðjandi vanda. Vísitölufjölskyldan skammast sín, segir svo upp áskriftinni af mogganum, dregur úr föndri og fatakaupum og reynir að sannfæra sjálfa sig um að það sé aðeins stigsmunur á lambahakki og lambasteik. Að ætla sér að skoða nákvæmlega hvernig ríkið eyðir fé er hins vegar ekki fyrir meðalmenni. Það þarf að snæða skepnuna bita fyrir bita. Heildarmáltíðin yrði hins vegar jafnvel svo löng að meðlimum vísitölufjölskyldu mundi ekki nægja lífaldurinn til. Undir lokin yrði verulega hætt við ofneyslu matarvíns og samfara kæruleysi, djammviskubit daginn eftir. En reynum þetta. Ég byrja smátt.  

Litli bitinn 

Á síðasta ári hafði Vinnueftirlit ríkisins 1.020,3 millj. kr. til að sinna verkefnum sínum. Unnin voru 68,6 ársverk hjá stofnuninni og kostaði því hvert þeirra tæplega 14,9 millj. kr. En í hvað fóru peningarnir? Flestir vita af vinnueftirliti og þekkja e.t.v. gagnsemi þess lauslega. Vinnueftirlitið heimsækir vinnustaði, metur aðstæður, m.a. með tilliti til heilsu starfsmanna, og passar m.a. að vinnuveitendur hafi undirbúið ýmsar öryggisráðstafanir. Nánari skoðun gefur til kynna að Vinnueftirlitið afli tekna og hvaða koma þær? Nærtækast er að átta sig á því með því að skoða verðskrá stofnunarinnar. Í fyrsta hluta verðskrárinnar er að finna gjöld fyrir skráningu og eftirlit með virkni ýmiskonar véla og tækja og fyrir þjónustu við ýmiskonar mælingar og prófanir. Í öðrum hluta er að finna gjöld fyrir námskeið, m.a. til réttinda til að nota vinnuvélar. Í þriðja þættinum er að finna gjöld fyrir fyrirlestra, mælingar og viðurkenningu á erlendum réttindum. En þá vaknar sú spurning hvort þetta sé allt nauðsynlegt?  

Trjónukrabbinn 

Eftirtektarsamur maður hélt því einu sinni fram að trjónukrabbinn, „framundan þeim veraldarútnánara sem Dalasýsla er“, væri af stjarnfræðilegri stofnstærð. Kallaði hann eftir rannsókn dýrðarmanna fyrir sunnan á dýrinu og vildi „fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með“.  

Voru kjólarnir og borvélin óþarfakaup? 

Nú er ég svo heppinn að stresstaska með plöggum er fyrirliggjandi og ég get stytt mér leið að svari. Æðsti eyðslugagnrýnandi ríkisheimilisins hefur ítrekað tjáð sig og um það má t.d. lesa hér og hér: 

Ríkisendurskoðun telur að stofnunin ætti að einbeita sér að tilteknum kjarnaþáttum, þ.e. stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar, en láta öðrum sem mest eftir sérhæfða þjónustu og ráðgjöf um vinnuvernd[L]eggur Ríkisendurskoðun til að kannað verði hvort flytja megi hluta vinnuvélaeftirlits stofnunarinnar til faggiltra skoðunarstofa og stjórnsýslu þess til [Samgöngustofu]. Hér er m.a. átt við eftirlit með farandvinnuvélum, tækjum sem áföst eru bifreiðum og öðrum hjólatækjum sem aka utandyra, og er um margt hliðstætt bifreiðaeftirliti. Að mati Ríkisendurskoðunar gæti slíkt fyrirkomulag orðið bæði hagkvæmara og skilvirkara en það sem nú tíðkast og auk þess hentugra fyrir þá sem notfæra sér þjónustuna. […] 

Ríkisendurskoðun telur að samþætting Vinnueftirlitsins á eftirliti, fræðslu og ráðgjöf sé óheppileg. […].  

Þarna hefur einhver verið í því hlutverki að benda á kjólana og fyllt heila stresstösku af plöggum. Ég sé ekki betur en að fagráðherrann hafi í kjölfarið bent á borvélina. Lítið virðist hins vegar hafa gerst.  

Er ég virkilega sá eini sem skammast mín undir svona kringumstæðum? 

Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 9. september sl.

Aðvörun: Í þessari grein er orðið „eftirlit“ svo margtuggið að það mætti halda að engin hafi annast eftirlit með skrifunum. Það er í stuttu máli kórrétt og sennilega ámælisvert.

Ef maður gúgglar orðin „eftirlit brást“ fást fjölmargar leitarniðurstöður. Ef tekin eru handahófskennd dæmi virðast menn t.d. telja að eftirlit hafi brugðist á sviði starfsemi vistheimila, opinberra innkaupa, umhverfismála, heilbrigðismála, fjármálastofnana, rekstrar sendiráða, dýravelferðar og matvæla, fiskeldis, landamæragæslu og mannvirkjagerðar. Ef lesið er milli línanna vaknar oft grundvallar spurningin hvort það sé virkilega svo að engin hafi eftirlit með eftirlitinu? Margar ástæður geta reynst vera fyrir því að eftirlit bregst. Til að mynda taldi ein af rannsóknarnefndum Alþingis að slíka ástæðu mætti rekja til útbreidds skeytingarleysis í umgengni við eftirlit, skilningsleysi á því hvað gerir eftirlit virkt og trúverðugt og áhrifa pólitískra ráðninga. Önnur rannsóknarnefnd taldi ekkert mikilvægara en að eftirlitsaðilar væru óháðir og eftirlitsheimildir þeirra væru ótvíræðar.

Hvað gerist þegar eftirlit bregst?

Þegar eftirlit hefur brugðist getur komið til þess að Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis dragi af því ályktanir. Endapunkturinn er oft sá að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ályktar um brestina. Fjölmiðlar taka við og við skrælingjarnir eigum ekki orð yfir því allsherjareftirlitsleysi sem ríkir. Sumir ganga svo langt að kalla eftir afsögn einhvers eða jafnvel refsingu. Það eru oft endalok málsins.

Af hverju gerum við þetta ekki betur?

En er ekki til skilvirkari leið til eftirlits með eftirliti en eftiráeftirlit sem skilar eftirlitsniðurstöðu sem efnislega felur í sér að einhver annar hafi brugðist við eftirlit? Svarið við spurningunni er jákvætt, bæði skilvirkara og vandaðra eftirlit með eftirliti er ekki bara til heldur er það í notkun á Íslandi. „HA!“ mundi einhver eflaust segja, „getur það verið?“

Um síðustu áramót voru 269.825 fólksbílar skráðir á Íslandi og eigendur þeirra fara með bílinn í reglulega skoðun á skoðunarstöð. Skoðunarstöðvum hefur verið falið að hafa eftirlit með því að ökutæki séu í ásættanlegu ásigkomulagi enda getur notkun þeirra verið frekar hættuleg. Til að skoðunarstöð sé heimilt að stunda bifreiðaskoðun þarf hún hafa hafa fengið svokallaða faggildingu. Í grófum dráttum er faggilding ekkert annað en vottorð um að starfsemi skoðunarstöðvarinnar sé í lagi, starfsmennirnir viti hvað þeir eru að gera og „eitthvað annað“ sé ekki að hafa áhrif á niðurstöðu skoðunar. Til að skoðunarstöð fái faggildingu og viðhaldi henni þarf hún að uppfylla ýmis skilyrði. Skilyrðin eru í grundvallaratriðum ákveðin á alþjóðlegum vettvangi og stefna þau að því að auka traust neytenda á vörum og þjónustu. Þegar ég fer með bílinn í skoðun get ég treyst því að einhver hefur eftirlit með skoðunarstöðinni. Því þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að kaupa köttinn í sekknum og haldi út á þjóðveginn á stórhættulegu tæki eða labbi ella heim eftir að skráningarnúmerið hefur að ósekju verið fjarlægt af bílnum.

Og hvað svo?

En þá kynni einhver að spyrja: „Fyrst fargsnyrpling er til (Innskot: Það getur verið erfitt að muna orðið faggilding) af hverju hafa ekki allir eftirlitsaðilar faggildingu?“. Á því eru margar skýringar og meðal þeirra eru lítil meðvitund um tilvist faggildingar, takmarkaður skilningur á faggildingu, m.a. af hálfu stjórnvalda og neytenda, og sérstakur áhugi þeirra sem hafa eftirlit á því að sæta ekki of miklu eftirliti sjálfir og þá helst aðeins eftirliti frá þeim sem þeir þekkja.

Aðgerðarleysi stjórnvalda skaðar starfsemi faggiltra fyrirtækja

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.

SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.

Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA