Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 26. ágúst sl.:

Blóm gleðja

Sennilegast eru fáir sem heimsækja blómaverslanir daglega en þeim virðist þó hafa fjölgað sem kaupa blóm og plöntur í því skyni að fegra heimilið eða gleðja aðra. Ég leyfi mér að halda því fram að minningar manna um ferðir í blómaverslanir snúi fyrst og fremst að ferðum í litlar og huggulegar blómaverslanir sem eru reknar af fólki sem er annt um blóm og plöntur og hefur mikla þekkingu á hvernig ber að setja þær fram og annast þær. Flestar blómaverslanir eru litlar, oft einstaklings- eða fjölskyldufyrirtæki. Blóm gleðja og starfsfólk blómaverslana eyðir starfsorkunni í að gera einmitt það að verkum, að við gleðjumst.

Grunnrekstur blómaverslunar er ekki margbrotinn. Viðskiptavinir sækja þangað blóm og plöntur og e.t.v. gjafarvörur og tækifæriskort. Það er tilvistarforsenda blómaverslana að meginsöluvörurnar séu til staðar. Söluvörurnar eru í eðli sínu ferskvörur og eðlilega hafa blómaverslanir sóst eftir því að bjóða upp á vörur sem eru framleiddar á Íslandi.

Hvaðan koma blómin og plönturnar?

Eitt sinn gátu blómaverslanir keypt vörur beint frá bónda en það er ekki lengur hægt. Vilji blómaverslanir hafa íslenskar vörur á boðstólum þurfa þær að kaupa þær í tveimur blómaheildverslunum. Hjá þeim mæta blómaverslanir oft afgangi. Fyrir stóra viðskiptadaga eins og konudaginn hefur þeim jafnvel aðeins staðið til boða fyrirframákveðinn og mjög smár skammtur af söluvörum.

Auðvitað gerist það reglulega í viðskiptum að viðskiptavilji dvínar og við því bregðast menn oft með því að beina viðskiptunum annað. Vegna stöðunnar geta blómaverslanir aðeins snúið sér til erlendra birgja. En í innflutningnum er enn eina hindrunina að finna; þau blóm og plöntur sem blómaverslanir þurfa á að halda bera afar háa skatta.

Hlutur ríkisins í gleðinni

Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því að þegar þeir kaupa eina rós í blómaverslun þá hefur verslunin e.t.v. þegar greitt nálega 150 kr. í tolla og virðisaukaskatt af blómi sem kostaði 80 kr. í innkaupum. Enn ýktari dæmi mætti taka, sum blóm kosta 25 kr. í innkaupum en hið opinbera hefur fengið nálega 130 kr. þegar varan er boðin til sölu.

Svona hefur þetta að meginstefnu verið í tuttugu og fimm ár hið minnsta. Ríkisvaldið ákvað að innlendir blóma- og plöntuframleiðendur skyldu njóta verndar fyrir samkeppni erlendis frá. Verndin er í formi svo hárra tolla að engin kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Á þessum tíma hefur hins vegar margt breyst. Neytendur vilja allt önnur blóm og plöntur, innlendum framleiðendum hefur fækkað verulega, blómaverslunum hefur fækkað, aðrar verslanir en blómaverslanir eru með blóm á boðstólum, blómaverslanir geta ekki lengur keypt beint af bónda og heildsölurnar ráða ferðinni.

Tvær kylfur og engin gulrót

Ekki hafa orðið teljandi breytingar á tollum af blómum og plöntum. Þegar gerðir hafa verið fríverslunarsamningar virðist þess jafnan hafa verið gætt að blómaverslanir og viðskiptavinir þeirra njóti ekki góðs af þeim. Þegar alþjóðasamfélagið felldi niður tolla af vörum sem koma frá fátækustu ríkjum heims var gengið sérstaklega úr skugga um íbúar þeirra kæmust ekki upp með að selja blómaverslunum afskorin blóm á hagstæðu verði.

Það má með sanni segja að umhverfi blómaverslana sé undarlegt. Hvorki innlendir birgjar né ríkisvaldið virðist hafa áhuga á að þær séu starfandi. Viðskiptavilji getur verið sveiflukenndur enda eru menn stundum dyntóttir. Afstaða ríkisvaldsins hefur hins vegar verið óbreytanleg og ósanngjörn.

 

Tollar af blómum geta numið nær þreföldu innkaupsverði

Tollar af blómum geta numið nær þreföldu innkaupsverði

SVÞ sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu rétt í þessu:

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, f.h. Hagsmunahóps blómaverslana, hafa óskað eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tollar af innfluttum blómum og plöntum verði teknir til endurskoðunar.

Möguleikar íslenskra blómaverslana til innkaupa á innlendum blómum og plöntum hafa farið þverrandi enda hefur samþjöppun í innlendri framleiðslu og heildsölu í mörgu tilliti leitt til fákeppni. Viðskiptaáhugi heildverslana og innlendra framleiðenda virðist vera takmarkaður og vegna takmarkaðs framboðs eru dæmi þess að heildverslanir hafi úthlutað blómaverslunum innkaupakvóta þegar að vinsælum blómum kemur.

Þrátt fyrir að tollarnir hafi í grundvallaratriðum ekki tekið breytingum í 25 ár hefur innflutningur á blómum og plöntum aukist, m.a. vegna mikilla breytinga á eftirspurn neytenda, innlendu framboði og fjölda innlendra framleiðenda. Tollarnir eru afar háir og sem dæmi má nefna getur viðskiptaverð tíu stykkja búnts af rauðum rósum, sem algengt er sé verðlagt í heildsölu erlendis á 500–650 kr., numið 1.460–1.800 kr. eingöngu vegna tolla en þá á eftir að bæta við flutningskostnaði og öðru því sem innflutningi tengist.

Í erindi SVÞ er m.a. vísað til greinargerðar samtakanna þar sem fram kemur að ýmis blóm og plöntur beri í mörgum tilvikum afskaplega háa tolla þrátt fyrir að framleiðsla á þeim sé ekki til staðar innanlands eða afar takmörkuð. Svo rík samkeppnisvernd í þágu innlendra framleiðenda takmarkar ekki einvörðungu verulega getu blómaverslana til þess að bregðast við óskum neytenda heldur kemur hún harkalega niður á rekstri verslananna en þær eru margar smáar að sniðum og í sumum tilvikum fjölskyldufyrirtæki.