Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á orð fjármálaráðherra.

Miðvikudaginn 13. janúar 2026 var birt frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra vegna tíðinda af spám greiningardeilda bankanna um þróun verðbólgu í janúar. Í fréttinni mátti finna myndband með viðtali við ráðherra þar sem hann sagðist ekki rengja spá Landsbankans um 0,7 prósentustiga hækkun verðbólgu sem ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þróunar á verðlagningu fólksbifreiða. Í viðtalinu sagði ráðherra m.a. eftirfarandi:

Það er hins vegar þannig að núna um áramótin eru ekki bara að verða breytingar á vörugjöldum heldur er það líka þannig að verð á bílum hefur verið að hækka alþjóðlega þannig að ég ætla ekki að rengja spánna en þetta er meira en það sem við höfðum gert ráð fyrir.

Stöðugt verð þrátt fyrir að ráðherra segi annað

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á þessi orð þar sem þeir telja sig ekki hafa orðið vara við þessa alþjóðlegu verðþróun ráðherrans. Nægir því til stuðnings að benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands gefur til kynna að innkaupsverð bifreiða hafi farið hækkandi svo einhverju nemi að undanförnu. Sömu sögu segja gögn sem endurspegla þróun kaupverðs frá Hagstofu Íslands, Eurostat og Evrópska Seðlabankanum. Þvert á móti má halda því fram að verð hafi verið óvenjulega stöðug, a.m.k. frá byrjun árs 2024, og litlum breytingum tekið eftir að verð hækkuðu á árunum í kringum heimsfaraldur og upphaf Úkraínustríðsins. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sagt í fréttum frá spám greiningaraðila sem eru heilt yfir á þeirri skoðun að verðstöðugleika muni áfram gæta á alþjóðavísu en verð fólksbifreiða muni þó áfram verða há árið 2026.

Ekki brugðist við

Það má hins vegar segja í hálfkæringi að ákveðið sannleikskorn sé fólgið í orðum ráðherra ef horft er til framtíðarþróunar innkaupsverðs nýrra tengiltvinnbifreiða eftir að hærra vörugjaldi hefur við það verið bætt. Þannig vill nefnilega til að SVÞ og Bílgreinasambandið bentu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ítrekað og með rökstuddum hætti á að gera þyrfti breytingar á tillögum nefndarinnar, um hækkun vörugjalds, í ljósi breytinga á alþjóðlegri prófunaraðferð tengiltvinnbifreiða. Við því var hins vegar ekki nægilega brugðist og af þeim sökum mun hækkun vörugjalda koma mun harðar niður á kaupendum slíkra bifreiða en annarra á næstu árum.

Á þennan hátt má sumsé halda því fram að þróun á sviði prófunaraðferða í samblandi við innlent fyrirkomulag vörugjalds muni leiða til mikillar hækkunar bæði innanlands sem og í öðrum þeim ríkjum sem leggja skatta á eigendur ökutækja með vísan til skráðrar losunar, a.m.k. að því marki sem þau hafa ekki brugðist við og lagfært fyrirkomulag skattlagningarinnar til mótvægis. Með svona leiðréttingu, sem er sett fram af ákveðinni lagni, getur ráðherra áfram haldið því fram að verðþróun fólksbifreiða hér á landi tengist þróun alþjóðlega.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins.

Grein Benedikts S. Benediktssonar má lesa í Viðskiptablaðinu Smelltu HÉR!