Samtök verslunar og þjónustu fylgjast grannt með þróun í alþjóðaviðskiptum, sérstaklega í ljósi nýrra tolla sem Bandaríkin hafa innleitt á fjölbreyttan vöruinnflutning. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, að áhrifin séu enn óljós hér á landi – en mikilvægt sé að vera viðbúinn.

„Enn sem komið er er ekki unnt að koma auga á bein áhrif tollahækkana og verðlag á neytendamarkaði á Íslandi,“ segir Benedikt.

Bandaríkin hafa beitt 10% viðbótartollum á fjölbreyttan innflutning vegna ágreinings um viðskiptahætti. Ísland hefur ekki gripið til hefndaraðgerða, en fylgst er með hvort áhrif gætu birst í verðlagi á íslenskum markaði.

„Á íslenskum neytendamarkaði eru ýmsar bandarískar vörur á boðstólum á borð við sætar kartöflur, morgunkorn, ávexti, sósur, rúsínur, brauð, gosdrykki, safa, baunir og kornmeti, grænmeti, hveiti, fæðubótarefni, hjólbarða, matarolíur og margt fleira. Við sjáum ekki að verðlagning þessara vara ætti að breytast beinlínis vegna tolla, a.m.k. enn sem komið er,“ segir Benedikt.

Hann bendir á að svigrúm til að meta langtímaáhrif tollanna sé enn af skornum skammti, en að það sé brýnt að hafa auga með þróuninni: „Ef svo óheppilega myndi fara að Ísland yrði fyrir barðinu á breiðvirkum hefndartollum annara ríkja, sem myndu þá væntanlega helgast af einhvers konar einangrunarstefnu, gætu áhrifin orðið allt önnur, beinni og miklu meiri. Á þessum tímapunkti virðist það þó heldur ólíkleg sviðsmynd,“ segir Benedikt.

SVÞ tekur undir mikilvægi þess að greina möguleg áhrif tolla á aðfangakeðjur íslenskra fyrirtækja, sérstaklega þar sem vörur framleiddar eða seldar undir bandarískum vörumerkjum kunna að verða fyrir verðbreytingum.