Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, ræddi jólaverslun í heimsfaraldri í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 þann 5. nóvember sl.
Í viðtalinu kemur fram að jólaverslunin mun færast mikið yfir á netið eftir aukningu í netverslun í COVID. Íslenskar verslanir hafa tekið sér taki hvað varðar netverslun til að mæta samkomutakmörkunum í faraldrinum. Andrés segist ekki hafa áhyggjur af því að koma vörum heim til neytenda því að auknir möguleikar séu að skapast til að koma vörum til neytenda, með aukinni samkeppni á þeim markaði.
Andrés segir mikilvægt að íslenskar verslanir skapi sér samkeppnisforskot á stóra erlenda netverslunaraðila þar sem alþjóðleg samkeppni eykst sífellt. Almennt fer 20-25% innlendrar verslunar fram í nóvember og desember. Nú eru Íslendingar ekki að ferðast erlendis og íslensk verslun hefur notið góðs af því og má búast við því að jólaverslunin muni líka njóta þess, auk þess sem kaupmáttur hérlendis er enn sterkur. Hann segir einnig verslunardaga á borð við dag hinna einhleypu, svartan föstudag og rafrænan mánudag draga til sín mikið af jólaversluninni.