Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 12.6.2017 Viðtal við Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðing SVÞ

Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi stóðu nýlega fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.
Á örnámskeiðinu var farið yfir hvernig væri best að gera ferilskrá, hvernig flóttafólk geti sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri séu í boði, hvernig íslensk vinnustaðamenning sé og hvernig þessum hópi gangi almennt. Guðríður Hjördís Baldursdóttir, mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi, og Guðjón Sveinsson, ráðgjafi frá Hagvangi, voru með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins komu með innlegg.

Tenging við íslenskt atvinnulíf
Að sögn Ingvars Freys Ingvarssonar, aðalhagfræðings hjá SVÞ, kviknaði hugmyndin að námskeiðinu þegar horft var til þess hvernig hægt væri að tengja flóttamenn við íslenskt atvinnulíf og auka tækifæri þessa hóps hér á landi. „Við ákváðum í framhaldinu að tala við Rauða krossinn sem tók strax mjög vel í hugmyndina en þar er mjög mikil þekking og reynsla á málefnum flóttafólks,“ segir Ingvar Freyr.

Ágætisþátttaka var á námskeiðinu og voru flestir frá Mið- Austurlöndum. Að sögn Ingvars Freys höfðu þátttakendur mjög mismunandi bakgrunn og reynslu. „Til dæmis var einn með masterspróf í verkfræði sem hafði starfað í Kína. Það er því mjög mikilvægt að við horfum til þeirrar þekkingar sem er í hópnum og veitum þeim ólík tækifæri. Þessi hópur skiptir íslenskt atvinnulíf máli.“

Hópurinn heimsótti Eimskip þar sem vinnustaðurinn var kynntur og starfsemi hans.

Ingvar Freyr segir að SVÞ sjái fram á áframhaldandi samstarf við Rauða krossinn. „Þetta heppnaðist alveg rosalega vel, mikil ánægja var í hópnum og það sköpuðust miklar umræður.“