Mikilvæg skref í starfsmenntamálum
Framtíð verslunar og þjónustu byggir á hæfni starfsfólksins sem stendur að baki henni. Með það í huga hafa SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) tekið höndum saman í metnaðarfullu átaki sem miðar að því að styrkja stöðu starfsfólks og fyrirtækja í greininni til ársins 2030.
Í vikunni var vefsíðan Ræktum vitið formlega opnuð – en hún er mikilvægur þáttur í því að gera markvissa hæfniþróun aðgengilega fyrir íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Verkefnið byggir á samningi sem SVÞ, VR og LÍV undirrituðu árið 2023 og snýr að aukinni sí- og endurmenntun í greininni.
Formleg opnun vefsíðunnar ‘Ræktum vitið’
Sérstakur viðburður um stöðu og mikilvægi sí- og endurmenntunar í verslun og þjónustu var haldin mánudaginn 17. febrúar sl, þar sem fjallað var um leiðir til að efla hæfni starfsfólks í takt við breyttar kröfur atvinnulífsins. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, lögðu áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki taki virkan þátt í menntun starfsfólks og hvernig slík nálgun getur aukið samkeppnishæfni íslenskrar verslunar.
Menntastefna skiptir sköpum
Á viðburðinum kynnti Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, niðurstöður könnunar sem sýna að menntastefna fyrirtækja hefur afgerandi áhrif á það hvort starfsfólk sækir sér sí- og endurmenntun. Þar kom fram að 70% starfsfólks í fyrirtækjum með menntastefnu hefur nýtt sér slíkt nám, á meðan hlutfallið er mun lægra hjá fyrirtækjum án skýrrar stefnu.
Auk þess kynnti Dr. Edda Blumenstein, fagstjóri við Háskólann á Bifröst, nýtt nám í verslun og þjónustu sem hefst haustið 2025. Námið leggur áherslu á hagnýta þekkingu og leiðtogafærni og markar nýtt skref í uppbyggingu menntunar fyrir starfsfólk í greininni.
Leiðir til árangurs – Nýttu ChatGPT til að hanna Menntastefnu fyrirtækisins.
Rúna Magnúsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ, fór yfir sérstaka ChatGPT fyrirmæla handbók sem leið fyrir fyrirtæki til að móta skýra menntastefnu og nýta sér nýjustu tækni við hæfniþróun starfsfólks. Þar kom m.a. fram hvernig gervigreindartól á borð við ChatGPT geta einfaldað stefnumótun í sí- og endurmenntun og gert fyrirtækjum auðveldara að innleiða markvissa hæfniþróun.
Metnaðarfull markmið til 2030
Samstarf VR, LÍV og SVÞ byggir á þremur lykilmarkmiðum sem stefnt er að því að ná fyrir árið 2030:
✅ 80% starfsfólks í verslun og þjónustu taki þátt í sí- og endurmenntun með það að markmiði að efla hæfni sína.
✅ 80% starfsfólks með íslensku sem annað tungumál nái B1 hæfni í íslensku samkvæmt Evrópska tungumálarammanum, sem eykur möguleika þeirra á vinnumarkaði og styrkir þjónustu í greininni.
✅ Þróuð verði aðferðafræði fyrir vottun hæfni sem gerir starfsfólki og fyrirtækjum kleift að sýna fram á viðurkennda færni á sviði verslunar og þjónustu.
Þessi markmið eru ekki aðeins mikilvæg fyrir starfsfólk í greininni heldur fyrir alla íslenska verslun og þjónustu – því betur menntað starfsfólk þýðir sterkari fyrirtæki og betri þjónusta til neytenda.
SVÞ hvetur öll fyrirtæki í verslun og þjónustu til að kynna sér Ræktum vitið og taka þátt í því að móta framtíð greinarinnar.
Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ settu vefinn Ræktum vitið formlega í gang
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ var fundarstjóri
Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR fór yfir niðurstöður könnunar um stöðu sí og endurmenntunar hjá stjórnendum og starfsfólki í verslunar og þjónustugreinum.
Dr. Edda Blumenstein, fagstjóri hjá Háskólanum Bifröst, kynnti nýtt nám í verslun og þjónustu sem skólinn býður upp á frá hausti 2025.
Rúna Magnúsdóttir, markaðs og kynningastjóri SVÞ sagði frá ChatGPT Fyrirmæla Handbókinni til að hanna skýra Menntastefnu fyrirtækisins.
___________