Fréttatilkynning send á fjölmiðla 16.3.2016
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið var lagafrumvarp um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis afgreitt úr allsherjar- og
menntamálanefnd Alþingis sl. þriðjudag. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum áfanga enda studdu samtökin frumvarpið í umsögn sinni um málið, bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu.
SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi.
SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.
SVÞ gagnrýna hins vegar að ekki er tekið til endurskoðunar bann við auglýsingum á áfengi. Í því samhengi benda SVÞ á að þrátt fyrir umrætt bann er heimilað að flytja inn til landsins blöð og tímarit sem innihalda áfengisauglýsingar og áfram munu íslenskir neytendur hafa áfengisauglýsingar fyrir augunum í gegnum erlendar sjónvarpsrásir sem sendar eru út hér á landi sem og á Internetinu. Svo mun verða áfram og á meðan mun áðurnefndur aðstöðumunur því áfram vera innlendri framleiðslu í óhag þar sem íslenskir framleiðendur munu áfram standa höllum fæti við að koma vöru sinni á framfæri við neytendur.
Eins og áður segir fagna SVÞ því að málið hafi verið afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd og telja samtökin mikilvægt að málið komist á dagskrá Alþingis og fái þar þinglega meðferð þannig að unnt verði að greiða atkvæði um málið á þinginu.