Lambakjötsskortur á Íslandi

Lambakjötsskortur á Íslandi

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Morgunblaðið 4. maí sl. 

Það er skortur á lambakjöti á Íslandi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Engu að síður er þetta staðreynd. Ekki svo að skilja að ástæðan fyrir þessum „vanda“ sé sú að ekki séu nægar birgðir lambakjöts í landinu. Vandinn er nefnilega af annarri tegund, en samt heimatilbúinn.

Lambakjöt er nokkuð eftirsótt vara, ekki síst lambahryggurinn, en það er sú afurð lambsins sem lang mest spurn er eftir meðal neytenda. Hingað til hefur innanlandsframleiðslan dugað vel til að sinna innlendri eftirspurn árið um kring. Nokkrar afurðastöðvar fluttu hins vegar umtalsverðan hluta af lambahryggjum sem féll til við sláturtíð 2018 úr landi, bæði ferska og frosna, á verði sem er langt undir því verði sem innlendri verslun stendur til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var meðal skilaverð á frosnu hryggjunum 879 kr/kg, en örlítið hærra á þeim fersku. Það verð sem versluninni hefur staðið til boða var þá, a.m.k. tvöfallt þetta verð. Nú er svo komið að skortur er á innlendum lambahryggjum, þegar fjórir mánuðir eru þar til sláturtíð hefst á ný. Á sama tíma hafa afurðastöðvar ýmist boðað verulega verðhækkun á þeim hryggjum sem á annað borð eru til, skömmtun, að viðskiptin verði skilyrt eða einfaldlega að pöntunum sé hafnað. Það skal tekið fram að flestar afurðarstöðvar hér á landi eru í eigu bænda, ekki síst sauðfjárbænda.

Einstök aðildarfyrirtæki SVÞ hafa þegar sent beiðni til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins, þar sem óskað er eftir því að tollfrjáls innflutningur á lambahryggjum verði heimilaður, til þess að unnt verði að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni og koma í veg fyrir umtalsverða verðhækkun á lambakótilettum í sumar. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð ráðuneytisins við þessari sjálfsögðu ósk. Í því svari munu birtast viðhorf stjórnvalda í kjölfar nýgerðra kjarasamninga, til þess hvort vegi þyngra heildarhagsmunir íslenskra neytenda eða sérhagsmunir afurðarstöðva, sem notað hafa skattfé til þess að niðurgreiða lambakjöt til erlendra neytenda og ætla síðan að hækka verð á íslenska neytendur vegna heimatilbúins skorts.

 

Að drepa málum á dreif

Að drepa málum á dreif

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu í dag, 25. janúar:

Í nýliðnum desember voru liðin sjö ár frá því að Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sendu erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þar sem samtökin kvörtuðu formlega undan innleiðingu íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins. Tilefni þessarar kvörtunar var, eins og flestum ætti nú að vera kunnugt, þau höft sem lögð eru á innflutning á fersku kjöti, þar sem gert var ráð fyrir því að allt kjöt skuli vera í frosti í þrjátíu daga, áður en vogandi væri að bjóða það íslenskum neytendum.

Í október sl. fékkst loks endanleg niðurstaða í þessa löngu baráttu SVÞ, þegar Hæstiréttur Íslands kvað upp þann dóm, að umrædd höft á innflutningi á fersku kjöti hafi verið í andstöðu við ákvæði EES-samningsins og þ.a.l. falið í sér samningsbrot af hálfu hérlendra stjórnvalda. Var þessi niðurstaða staðfesting á dómi héraðsdóms í málinu, en jafnframt hafði EFTA dómstóllinn kveðið upp efnislega sambærilegan dóm í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn íslenska ríkinu. Á öllum stigum var tekið undir þær kvartanir sem SVÞ settu fram í upphafi. Framganga íslenska ríkisins í þessum málarekstri öllum er kapítuli út af fyrir sig, en þrátt fyrir að hafa eytt tugum milljóna króna í málsvörn sína, tókst því ekki að sýna fram á nein haldbær rök fyrir umræddum innflutningstakmörkunum. Framganga íslenska ríkisins í málinu getur því ekki kallast annað en hrein sneypuför.

Í umræðunni undanfarnar vikur hafa margir kosið að drepa málinu á dreif og þar með draga athyglina frá því sem er aðalatriði þessa máls, sem er hin skýra og ótvíræða dómsniðurstaða. Umræðan hefur meira snúist um sýklalyfjaónæmi og um matvælaöryggi almennt. Sú umræða á alltaf rétt á sér, óháð umræddri dómsniðurstöðu. Stjórnvöld eiga, ekki frekar en aðrir, annan kost en að virða niðurstöðu dómstóla. Niðurstaðan í þessu dómsmáli er eins skýr og verða má og hljóta viðbrögð stjórnvalda, í formi viðeigandi lagafrumvarpa, að verða lögð fram nú þegar Alþingi kemur saman á ný.

Það er aðalatriði þessa máls.

Stefna ríkinu vegna kjötsins

Stefna ríkinu vegna kjötsins

Birt í Fréttablaðinu 29. nóvember 2018

Stefna ríkinu vegna kjötsins

„Stjórnvöld eru ekki að sinna þeirri skyldu sinni að breyta reglunum eins og leiðir af dómi Hæstaréttar að skuli gera. Þetta hefur þá bara þessar afleiðingar að það hefur skapast skaðabótaskylda gagnvart kjötinnflytjendum þangað til þetta er lagað,“ segir Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður, sem hefur fyrir hönd Haga stefnt íslenska ríkinu vegna höfnunar á innflutningi á fersku kjöti. „Við gáfum stjórnvöldum færi á að greiða bætur strax. Þetta var skammur frestur eða ein vika en það kom svar að Ríkislögmaður ætlaði að leita umsagnar. Við teljum ekki efni til slíks enda er búið að dæma í Hæstarétti og þess vegna var ákveðið að stefna strax. Svo krefjumst við álags á málskostnað út af þessum ítrekuðu brotum ríkisins og því að greiða ekki skaðabætur strax.“ Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segist vita til þess að fleiri kjötsendingar séu væntanlegar til landsins á allra næstu dögum og vikum. „Kannski er stjórnvöldum bara sama um þessar skaðabætur en þá verða þau bara að segja það að þau séu tilbúin að greiða bætur til að friða talsmenn landbúnaðarins. Þótt fjárhæðirnar í þessu máli séu ekki háar þá vaknar sú spurning hvort einhver þurfi að taka af skarið og flytja inn fyrir 100 milljónir til að hreyfa við stjórnvöldum?“ – sar

Dómur er fallinn – en hvað svo?

Dómur er fallinn – en hvað svo?

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifaði grein á Vísi þann 12. nóvember. Í greininni fjallar hann um skort á aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við dómi Hæstaréttar þar sem staðfest var lögmæti innflutnings á fersku kjöti. Ríkið skapar sér nú skaðabótaskyldu með því að halda áfram að gera ferskt kjöt upptækt við komu til landsins. Greinina í heild sinni má lesa á vef Vísis hér.