07/05/2018 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.
Nánari upplýsingar gefa:
- Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
- Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225
Fréttatilkynning
Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti
28/11/2017 | Fréttir
Allt sem þú vildir vita um fersk matvæli, en þorðir ekki að spyrja um
Samtök verslunar og þjónustu og Neytendasamtökin boða til fundar fimmtudaginn 7. desember nk. kl. 8.30 – 10.00 í Gullteigi A, Grand Hóteli Reykjavík.
Morgunverður í boði frá kl. 8.00.
Dagskrá:
Umfjöllun um dóm EFTA-dómstólsins um skilyrði fyrir innflutningi á matvælum
Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður hjá BBA og fyrrverandi framkvæmdastjóri innra markaðssviðs Eftirlitsstofnunar EFTA.
Innflutningur ferskra matvæla – Áhætta fyrir heilsu manna?
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis
Verndarstefna á kostnað neytenda
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
Fundarstjóri verður Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Oops! We could not locate your form.
14/11/2017 | Fréttir
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins.
EFTA-dómstóllinn kvað fyrr í dag upp dóm sinn þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti og er niðurstaðan því í fullu samræmi við upphaflega kvörtun SVÞ. SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018.
SVÞ fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er enn einn áfangasigur í baráttu samtakanna í máli þessu sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Fréttatilkynning til útprentunar.
Dómur EFTA dómstólsins.
20/12/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.
Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.
Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.
Fréttatilkynning á pdf sniði.
Hlekkur á frétt ESA.
18/11/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 18.11.2016
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í dag að innflutningsbann á fersku kjöti fæli í sér brot gagnvart EES-skuldbindingum íslenska ríkisins og er því ólögmætt. Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ en samtökin hafa undanfarin ár vakið athygli á málinu og barist fyrir afnámi bannsins en upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem ESA komst að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi innflutningsbann á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum.
Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt. Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð. Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis. Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.
SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá aðildarríkjum EES-samningsins gangi gegn ákvæðum samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA og EFTA-dómstóllinn, og nú Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa áður komist að. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Nánari upplýsingar gefa:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558
Fréttatilkynning á pdf sniði