Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.
Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi. Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.
Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak á sviði umhverfismála. Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænu skiptum:
• Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og meðhöndlun úrgangs)
• Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
• Hvetja til grænnar neyslu
Naumur tími
Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við . Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.
Mikilvægi hringhagkerfisins
Hringhagkerfi styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfi snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.
Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að ná, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn. Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni. Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.
Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda
Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m. getur verslun boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt. Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig. Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti nýtt til að skapa samkeppnisforskot. Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.
Að endingu
Smásalar gegna lykilhlutverki í að hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra. Smásalar eru nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.
Á næstu vikum munu samtökin birta fleiri og ítarlegri samantektir um einstaka þætti í hringhagkerfinu.
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.