07/10/2018 | Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
Umhverfisdagur atvinnulífsins verður haldinn miðvikudaginn 17. október 2018 í Hörpu Norðurljósum kl. 8.30-12.
Um árlegan viðburð er að ræða en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Sameiginleg dagskrá samtakanna hefst kl. 8.30 og stendur til 10. Málstofur hefjast kl. 10.30 og standa til kl. 12. Boðið verður upp á létta hádegishressingu og netagerð að lokinni dagskrá. Hægt er að skrá sig á sameiginlega hlutann eingöngu sem lýkur kl. 10.
DAGSKRÁ
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA
Sigsteinn Grétarsson, Arctic Green Energy
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og um langa hríð yfirmaður hjá loftslagssamningi S.þ.
Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ
UMHVERFISVERÐLAUN ATVINNULÍFSINS 2018
Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnenfndar og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.
Málstofa um alþjóðaviðskipti og loftslagsmál kl. 10.30-12
Loftslagsvænt sérmerkt ál
Guðrún Þóra Magnúsdóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Rio Tinto á Íslandi
Árangur sjávarútvegsins í loftslagsmálum
Hildur Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá HB Grandi
Loftslagsvæn sjálfbær ferðaþjónusta
Nafn fyrirlesara staðfest síðar.
Ábyrgar fjárfestingar
Brynjólfur Stefánsson, sérfræðingur hjá Íslandssjóðum.
Kolefnishlutlaus orku- og veitustarfsemi 2030
Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku náttúrunnar
Málstofustjóri er Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Málstofa um grænar lausnir atvinnulífsins kl. 10.30-12
Framtíð sorpförgunar
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og stofnandi Environice
Vistvæn mannvirki
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænnar byggðar
Kolefnisfótspor fyrirtækja
Kristján Geir Gunnarsson, forstjóri Odda
Er plastið á leið úr búðunum?
Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
Endurnýjanlegt eldsneyti og sjálfbærar samgöngur
Margrét Ormslev, fjármálastjóri CRI
Málstofustjóri er Rakel Garðarsdóttir, stofnandi Vakandi.
Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA hér.
02/10/2018 | Fræðsla, Fréttir, Stafræn viðskipti, Viðburðir
VINSAMLEGAST ATHUGIÐ AÐ UPPSELT ER Á VIÐBURÐINN
SVÞ ásamt Rannsóknasetri verslunarinnar efna til morgunverðarráðstefnu um íslenska netverslun, fimmtudaginn 11. október kl. 8:30-10:00 í Norðurþingi á Hótel Natura.
Í kjölfar útgáfu nýrrar skýrslu um íslenska netverslun (sem finna má á www.svth.is/netverslun) mun fjallað um stöðu íslenskrar netverslunar og þær áskoranir sem í henni felast.
DAGSKRÁ
Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar kynnir nýútkomna skýrslu: Íslenskt netverslun – stafræn þróun og alþjóðleg samkeppni
Reynslusögur frá íslenskum netverslunum:
Aðalfyrirlesari: Pelle Petterson, sérfræðingur í netverslun með erindið The Challenge of Selling Across Borders: An Ecommerce Entrepreneur’s Insights.
Á síðustu árum hefur Pelle skapað sér nafn fyrir frábæran árangur innan vefverslunargeirans á Norðurlöndum. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna, svo sem besti frumkvöðullinn í Svíþjóð og besti nýliðinn í Noregi. Í síðasta starfi sínu var Pelle yfir omnichannel og netverslun (omnichannel and ecommerce) hjá Cervera, og náði ævintýralegum árangri með +670% aukningu í veltu á milli ára. Í dag starfar Pelle við sérfræðiráðgjöf í netverslun og omnichannel og vinnur með stórum smásöluverslunum og þekktum vörumerkjum við að byggja upp vefverslanir. Þú getur fræðst meira um Pelle hér á LinkedIn.
Aðgangseyrir er 2.500 kr og er morgunverður innifalinn. Skráning fer fram hér fyrir neðan.
ATH! Ráðstefnan er upphaf glæsilegrar fræðsludagskrár SVÞ haustið 2018 þar sem fjallað verður um starfræna verslun og markaðssetningu á netinu, jafnt fyrir verslanir og þjónustu. Sjáðu dagskrána hér.
26/09/2018 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Verslun
Á tímabilinu 2008 til 2017 hækkaði framleiðni vinnuafls í heild- og smásöluverslun um 3,7% á ári. Framleiðnivöxturinn var meiri í smásölu en heildverslun og meiri en í atvinnulífinu í heild. Þannig var árlegur vöxtur í framleiðni vinnuafls í smásölu 4,5%, um 1,8% í heildverslun og um 1,5% hjá öllum atvinnugreinum í heild sinni. Ein skýring sem nefnd hefur verið fyrir lægri vexti í framleiðni í heildverslun er sú að lítið hafi verið um tækninýjungar í greininni.
Skýrslan er hugsuð sem viðbót við skýrsluna Íslensk netverslun –áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni.
Skýrsluna má nálgast hér.
25/09/2018 | Fréttir, Greining, Verslun
Á dögunum gaf Rannsóknarsetur verslunarinnar út skýrsluna Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni þar sem fjallað er um áhrif stafrænnar tækni á verslun og verslunarhegðun Íslendinga.
Í skýrslunni birtast í fyrsta sinn tölur um veltu innlendar netverslunar og netverslun Íslendinga frá öðrum löndum. Gagnasöfnunin sem tölurnar byggja á er einstök og ekki er vitað til að slík gagnasöfnun hafi átt sér stað áður.
Á skýringarmyndinni hér fyrir neðan má sjá helstu tölur varðandi netverslun Íslendinga innanlands og skýrsluna í heild sinni má sjá á svth.is/netverslun.
24/09/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. september:
Eins og öllum er kunnugt eykst netverslun hröðum skrefum hvar sem er í heiminum, en þessari þróun er afar vel lýst í nýútkominni skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem ber heitið „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“.
Þó að netverslun hafi þróast hægar hér á landi en víða í nágrannalöndum okkar, eykst hún nú með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Jafnframt eykst hin alþjóðlega samkeppni á þessum markaði.
Póstsendingar frá þróunarríkjum
Því fer fjarri að hin alþjóðlega samkeppni í netverslun fari fram við jöfn samkeppnisskilyrði.
Á grundvelli áratugagamals alþjóðasamnings (Universal Postal Union), sem á rætur sínar að rekja allt aftur á 19. öld og Ísland er aðili að, ber póstþjónustufyrirtækjum í þróuðum ríkjum að greiða 70-80% af kostnaði við póstsendingar sem þangað berast frá ríkjum sem flokkast sem þróunarríki. Þróunarríki greiða aðeins 20-30% af þessum kostnaði.
Fyrir mörg þróunarríki hefur þessi samningur reynst vel við að koma framleiðsluvörum þessara ríkja inn á alþjóðlega markaði.
Kína er skilgreint sem þróunarríki
Svo undarlega sem það kann að hljóma flokkast Kína sem þróunarríki eftir skilningi þessa gamla samnings. Þetta þýðir á mannamáli að stór hluti kostnaðar af þeim póstsendingum sem koma hingað til lands frá Kína er í raun niðurgreiddur af íslenskum neytendum. Íslandspósti, sem er opinbert hlutafélag og í 100% eigu íslenska ríkisins, ber skylda til að dreifa öllu því mikla magni póstsendinga sem berast hingað til lands með þessum hætti, og með þeim skilmálum sem fyrr var lýst.
Því fer fjarri að þessi staða sé bundin við Ísland. Í nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlantsála, sætir þetta kerfi sífellt meiri gagnrýni. Til Danmerkur, svo dæmi sé tekið, berast á hverjum degi um 40.000 póstsendingar frá Kína. Verslun á Norðurlöndum finnur mjög fyrir þeirri ósanngjörnu samkeppni sem þarna birtist og opinber póstþjónusta í þessum löndum er að sligast undan því álagi og þeim kostnaði sem þessu fylgir.
Samkeppnisstaðan
Innlend verslun (bæði hefðbundin og netverslun) stendur augljóslega höllum fæti gagnvart þessari ójöfnu samkeppni. Ekki nóg með að sendingarkostnaðurinn sé niðurgreiddur, heldur bendir allt til að stór hluti þess varnings sem kemur til landsins með þessum hætti komi án þess að greiddur sé af honum virðisaukaskattur. Að sama skapi er í einstökum tilvikum um að ræða sendingar á vörum sem brjóta gegn hugverka- og hönnunarvernd, þ.e. falsaðar vörur eða vörur sem ekki hafa verið framleiddar í samræmi við viðurkennda öryggisstaðla.
Þetta er staða sem ekki er hægt að una við lengur enda ljóst að samkeppni þrífst ekki við slíkar aðstæður. Aðstæður þar sem framleiðsla í Kína er niðurgreidd af íslenska ríkinu sem og öðrum ríkjum í hinum vestræna heimi. Netverslanir hér á landi og í nágrannalöndum okkar munu ekki geta keppt við stór ríki sem njóta slíkrar forgjafar og að sama skapi mun kostnaður póstrekenda vegna þessa falla á innlenda neytendur. Hér verða stjórnvöld einfaldlega að spyrna við fótum.
20/09/2018 | Fréttir, Greining
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst kortavelta Íslendinga í innlendri fataverslun um 13,1% í ágúst síðastliðnum og nam tæpum 2,2 milljörðum í ágúst nú samanborið við rúman 1,9 milljarða í ágúst í fyrra. Raunar hefur fataverslun einnig vaxið undanfarna mánuði og hefur kortavelta í flokknum aukist um 17% ef tímabilið apríl til ágúst 2018 er borið saman við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur 1,6 milljörðum yfir tímabilið. Er þetta til marks um ágætan kaupmátt landsmanna þessi misserin og þá kann opnun H&M hérlendis í lok ágúst í fyrra að skýra vöxtinn að hluta.
Netverslun Íslendinga hjá innlendum netverslunum með föt jókst á sama tímabili um 29% og nam 379 milljónum í samanburði við ríflega 11 milljarða í búðum og nam netverslunin því 3,4% af kortaveltu flokksins.
Raftækjaverslun var ágæt fyrir HM í fótbolta
Maí- og júnímánuðir standa nokkuð upp úr þegar kortavelta í raf- og heimilistækjum er skoðuð í samanburði við mánuðina í kring. Þannig jókst velta raftækja um 11,5% í júní og júlí, frá sömu mánuðum í fyrra, samanborið við hóflegri vöxt mánuðina áður og nokkurn samdrátt í júlí. Ekki er ólíklegt að heimsmeistaramótið í fótbolta sem hófst í júní hafi átt sinn þátt í aukningunni og margir hafi ákveðið að endurnýja sjónvarpstækin fyrir keppnina.
Raf- og heimilistækjaverslun er sú gerð verslunar sem er hvað lengst komin í netverslun en 7,8% þeirrar verslunar fór í gegn um netið í ágúst síðastliðnum. Hlutfallið sveiflast þó nokkuð milli mánaða en sem dæmi fór það hæst í 12,2% í nóvember 2017 í tengslum við Svartan föstudag (Black friday) og netmánudag (Cyber Monday).