Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar jókst velta dagvöruverslana í apríl um 9,3% að nafnvirði frá sama mánuði í fyrra og um 12,6% að raunvirði. Skýringuna á þessari aukningu má að mestu rekja til þess að páskarnir voru í apríl síðastliðnum en ekki í samanburðarmánuðinum í fyrra – heldur í mars. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nemur veltuaukningin að raunvirði um 6,9%. Samkvæmt þessu er greinilegt að landsmenn gera betur við sig í mat og drykk en í fyrra. Verð á dagvöru er nú 2,9% lægra en fyrir ári samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar og fer lækkandi milli mánaða.
Innlend faraverslun heldur áfram að dala þó nokkur munur sé á milli einstakra verslanakeðja. Ræður þar nokkru að fataverslunum hefur fækkað. Þá er líklegt að áhrif tímasetningar páskanna hafi ekki sömu áhrif í árssamanburði og þegar horft er til dagvöruverslana. Færri söludagar í apríl síðastliðnum en í samanburðarmánuðinum í fyrra hafa áhrif til lækkunar á veltu. Þá ferðuðust landsmenn mikið til útlanda í apríl og kortavelta Íslending erlendis jókst umtalsvert, en sem kunnugt er fer töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fram erlendis.
Skýringin á því að velta í byggingavöruverslun í apríl minnkaði um 2% frá sama mánuði í fyrra er tvímælalaust vegna færri söludaga í apríl á þessu ári en i fyrra og því frekar um mánaðarsveiflu að ræða frekar en almennan samdrátt. Horft yfir veltu byggingavöruverslana síðustu sex mánaða í samanburði við sama tímabil í fyrra sýnir veltuaukningu um 11%.
Verðlækkanir
Verð í nánast öllum vöruflokkum hefur lækkað í árssamanburði. Þannig lækkaði til dæmis verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörp, hljómtæki o.s.frv.), um 18% í apríl sl. frá apríl í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þó ber að hafa í huga að hugsanlegar gæðabreytingar á þessum vörutegundum kunna að torvelda verðsamanburð. Velta á þessum tegundum raftækja. jókst um 28% að raunvirði á síðasta tólf mánaða tímabili.
Þá lækkaði verð á rúmum um 8,3% og velta sérverslana með rúm jókst um 45,4% að raunvirði á tímabilinu.
Kortavelta íslenskra heimila
Greiðslukortavelta íslenskra heimila hér innanlands nam 62,8 milljörðum kr. í apríl og 11,9 milljörðum í útlöndum. Útlendingar keyptu hins vegar hér á landi með kortum sínum fyrir 18,2 milljarða. Munurinn á því sem Íslendingar greiddu með kortum sínum erlendis og útlendingar greiddu hér á landi nam því 6,4 milljörðum.
Talnaefni
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,3% á breytilegu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 12,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í apríl um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í apríl 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5,8% á breytilegu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í apríl um 4,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í apríl síðastliðnum og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 24,3% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 20,7% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 4,5% lægra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 12% í apríl á breytilegu verðlagi og minnkaði um 13,3% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -14,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í apríl um 1,5% frá apríl í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 6,2% meiri í apríl en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 15,8% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,3% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 18,9% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur minnkaði í apríl um 2% í apríl á breytilegu verðlagi og dróst saman um 0,6% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,4% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 3,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í apríl um 3,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 10,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, dróst saman um 7,6% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Grein birt í Vísbendingu 11. maí 2017 Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Þær breytingar sem allar atvinnugreinar, ekki hvað síst verslun og þjónusta standa nú frammi fyrir, eru meiri og róttækari en nokkur dæmi eru um. Breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum, gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Hér skiptir ekki máli hvað atvinngreinin heitir, áhrifanna mun gæta á öllum sviðum atvinnulífsins.
Hraðar og sögulegar framfarir
„Í dag stöndum við á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar“ var nýlega haft eftir Klaus Schwab, stofnanda Alþjóða efnahagsþingsins (World Economic Forum). Þessi bylting lýsir sér í hröðum og sögulegum framförum á ólíkum sviðum, eins og erfðavísindum, gervigreind, örtækni og líftækni. Allar þessar ótrúlegu breytingar eru síðan að leggja grunninn að altækari byltingu en við höfum áður séð sem mun gjörbreyta atvinnulífi og vinnumarkaðnum öllum á aðeins örfáum árum.
Ögrandi verkefni framundan
Það eru því ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir.Vinnumarkaðinn mun óhjákvæmilega að þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum. Það má hins vegar gefa sér að ákveðið þjóðfélagslegt umrót verði þegar slík umbreyting á sér stað. Slíkt hefur alltaf gerst við slíkar aðstæður. Spurningin er einungis hversu víðtækt þetta umrót verður. Tvö dæmi úr fortíðinni: Í upphafi 20. aldar störfuðu 40% vinnafls í Bandaríkjunum í landbúnaði, nú starfa 2% vinnuafls þar í landi í greininni. Þegar hraðbankar voru hins vegar kynntir til sögunnar á sjötta áratug liðinnar aldar, áttu flestir von á dagar bankagjaldkera væru taldir. Þeim hefur reyndar fjölgað síðan þá.
Helmingur starfa sjálfvirk árið 2055
Samkvæmt nýrri skýrslu frá McKinsey Global Institue mun næstum helmingur af öllu störfum verða sjálfvirk árið 2055. Hins vegar geta ýmis atriði haft áhrif á þessa þróun, t.a.m. geta stjórnmálamenn og almenningsviðhorf gagnvart nýrri tækni, seinkað innleiðingu hennar um 20 ár. Skýrslan bendir til þess að hreyfingin í átt að sjálfvirkni leiði til þess að framleiðni muni aukast í heimsbúskapnum. Samkvæmt líkani þeirra getur framleiðni á alþjóðavísu aukist um 0,8 til 1,4 prósent á ári. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur einnig átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuaflsins.
Ein af afleiðingunum af þessu er t.a.m. að störf í verslunargeiranum munu breytast, minna verður í boði af störfum þar sem lítillar menntun er krafist, en meiri þörf verður á fólki með bæði góða félagslega- og tæknilega færni, svo það geti leiðbeint viðskiptavinunum í gegnum möguleikana sem tæknin býður upp á.
Aðlaga þarf virðiskeðjuna
Verslunin er sannarlega ein þeirra atvinnugreina sem verða að aðlaga virðiskeðju sína að þessum breytta veruleika. Verslunarfyrirtæki verða að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mikilvægasta eign hvers fyrirtækis verður því gagnagrunnurinn yfir viðskiptavinina, en með því móti geta fyrirtæki veitt einstaklingsþjónustu með hjálp gervigreindar og þar með áætlað hvað hver viðskiptavinur er helst að leita eftir. Í þessu sambandi mætti nefna að fyrirtæki geta t.d. samtvinnað gervigreindartækni við sýndarveruleikabúnað sem settur yrði upp í veslunum til að geta gefið notandanum tækifæri til að átta sig betur á vörunni og hvernig hún myndi nýtast honum.
Óvissa um áhrif tækniþróunar
Eins og rakið er hér að ofan er töluverð óvissa um áhrif tækniþróunar á vinnumarkaðinn. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem munu opnast. Hætta er þó á að hinir hefðbundnu mælikvarðar dugi skammt til að meta þessar veigamiklu breytingar. Hið raunverulega verðmat á fjórðu iðnbyltingunni hefur ekki farið fram. Í þessu sambandi má nefna að hefðbundnir mælikvarðar á framleiðni mæla ekki aukinn ábata neytenda af nýrri tækni, þ.e. tækninni við að hámarka nýtingu frítíma viðskiptavina sinna sem mælikvarðarnir hafa hingað til ekki tekið tillit til. Sem dæmi um þennan falda ábata, þá er hagur neytenda af því að nýta sér netbankaþjónustu til að mynda mun meiri en kostnaðurinn sem bankarnir rukka fyrir þjónustuna, en þessi hagur er alla jafna ekki mældur.
Fjórða iðnbyltingin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun, en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.
Samantekt frá SVÞ
Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í þrjú ár. Skýrist það m.a. af styrkingu krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár; sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014 , tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016 – síðan þá hefur hrávöruverð leitað upp á við. Enn er þó langt í land með að hrávöruverð nái þeim hæðum sem það var í á árunum 2007 og 2008.
Nýkjörin stjórn, frá vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Jón Örn Valsson, Ída Jensdóttir, Kristján Ómar Björnsson formaður, Guðmundur Pétursson, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Sigríður Stephensen og María Sighvatsdóttir.
Á aðalfundi SSSK sem haldinn var þriðjudaginn 25. apríl síðast liðinn í Kviku, Húsi atvinnulífsins var Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri Grunnskólans NÚ kjörinn formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður.
Meðstjórnendur voru kjörnir: Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf., Ída Jensdóttir skólastjóri leikskólans Sjálands og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn vor kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf. og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar koma aukin umsvif í byggingaframkvæmdum greinilega fram í sölutölum byggingavöruverslana í marsmánuði. Þetta á bæði við um almennar byggingavörur svo og sérhæfðar verslanir sem selja gólfefni. Sömuleiðis var umtalsverð veltuaukning hjá húsgagnaverslunum og verslunum sem selja stór heimilistæki. Velta húsgagnaverslana jókst um 21,2% frá mars í fyrra og verð á húsgögnum lækkaði um 8,9% á þessu tímabili og velta byggingavöruverslana jókst um 13,3% en verð á byggingaefni hélst óbreytt frá mars í fyrra. Velta stórra raftækja jókst um 9,5% og verð þeirra var 5,9% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Athyglisvert er að velta í dagvöruverslun var nokkru meiri í mars síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra. Þetta þrátt fyrir að páskarnir hafi verið í mars í fyrra en mánuði síðar ár, – en páskamánuðurinn er jafnan mun söluhærri en næstu mánuðir á undan og eftir. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nam veltuaukning dagvöruverslana 5,1%. Verð á dagvöru fer lækkandi, eins og á flestum öðrum vörutegundum, og var 2,2% lægra en fyrir ári síðan.
Velta fataverslunar í mars var 6,4% minni en í sama mánuði í fyrra. Kemur þar annars vegar til að hætt var rekstri nokkurra stórra fataverslana í byrjun þessa árs og hins vegar að staðið hefur yfir endurskipulagning á öðrum fataverslunum að undanförnu. Þar að auki má ætla að töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fari fram erlendis þar sem mikil aukning hefur orðið í ferðum landsmanna til útlanda. Fatakaupmenn sem RSV hefur rætt við eru almennt sammála um að þó dregið hafi úr fatasölu á heildina litið sé aukning í sölu á dýrari merkjavöru, sem sé mjög samkeppnisfær við sambærilegar vörur í erlendum verslunum. Þannig virðist sem mestur samdráttur sé í sölu ódýrari fatnaði.
Óvenjulegt er að merkja samdrátt í sölu snjallsíma, eins og reyndin var í mars. En sala þeirra dróst saman um 16,9% frá sama mánuði í fyrra. Líklegasta skýringin er að í mars fyrir ári var nýkomin á markað ný útgáfa af vinsælum snjallsímum en sú var ekki raunin í ár.
Velta í dagvöruverslun jókst um 0,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 2,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta áfengisverslana í mars saman um 100% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,2% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 6,4% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 5% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 6,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í mars um 0,1% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 21,2% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,8% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 11,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 13,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 13,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 15,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í mars um 4,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 16,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 9,5% á milli ára.
Á ráðstefnu SVÞ þann 23. mars sl. sem haldin var í tengslum við ársfund samtakanna fjallaði Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur, í sinni framsögu um áhrif stafrænu byltingarinnar á verslun og þjónustu og þær breytingar sem eru framundan í þeim efnum. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu í dag. Þróunin er hröð og á sér stað um allan heim og því var afar fróðlegt að heyra í einum helsta sérfræðingi nútímans á þessu sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu.
Á ráðstefnunni kynnti Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans niðurstöður nýrrar greiningar á stöðu, þróun og horfum í íslenskri verslun. Á sama tíma var gefið út glæsilegt veftímarit um íslenska verslun.
Auk þess sem formaður SVÞ, Margrét Sanders, og ráðherra ferðamála, iðnaðar, og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir héldu tölu á ráðstefnunni sem fór fram undir styrkri stjórn Guðmundu Óskar Kristjánsdóttur viðskiptastjóra verslunar og þjónustu hjá Landsbankanum.