13/03/2017 | Fréttir, Viðburðir
Fimmtudaginn 23. mars kl. 8.30 hefst aðalfundur SVÞ í Kviku, á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins við Borgartún 35 í Reykjavík.
Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir:
Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8.00
8.30 Setning fundar
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar samtakanna
- Lýst kjöri formanns
- Lýst kjöri þriggja meðstjórnenda
- Ákvörðun árgjalda
- Kosning löggilts endurskoðanda
- Lýst kjöri í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
- Lagabreytingar
- Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál
Tilnefningar fulltrúa SVÞ í fulltrúaráð SA.
Framboð til formanns og meðstjórnenda í stjórn SVÞ.
Vinsamlega skráið þátttöku í aðalfundi hér fyrir neðan.
Oops! We could not locate your form.
Hér má skrá þátttöku á ráðstefnuna „Bylting og breytingar í þjónustu og verslun“ sem haldin verður í tengslum við aðalfund samtakanna.
09/03/2017 | Fréttir
Allt frá 2009 hefur tilhögun á gjalddögum virðisaukaskatts verið með þeim hætti að hverjum gjalddaga hefur í raun verið skipt í tvennt. Þannig hefur þeim gjalddaga sem nú er 15. mars verið skipt með þeim hætti að helmingur gjaldanna hefur verið greiddur þann dag og seinni helmingurinn 5. apríl. SVÞ hafði á sínum tíma forgöngu að því að þetta fyrirkomulag var tekið upp, enda aðstæður með þeim hætti í ársbyrjun 2009 að nauðsynlegt var fyrir hið opinbera að koma til móts við atvinnulífið með þessum hætti. Lagaheimildin sem þetta fyrirkomulag hefur byggst á hefur verið framlengd um ár í senn allar götur síðan.
Þegar þetta mál kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á haustþingi 2016, var ekki vilji til að festa þetta fyrirkomulag í sessi til framtíðar, þó svo að viss fyrirheit hafi áður verið gefin um það. Skrifstofa SVÞ hefur undanfarnar vikur gert það sem í hennar valdi stendur til að fá þessu breytt, en án árangurs. Ráðuneytið hefur bent á í því sambandi að aðstæður í efnahagslífinu séu allt aðrar en árið 2009.
Hins vegar liggur fyrir að innan fjármálaráðuneytisins er hafin vinna við að fækka gjalddögum opinberra gjalda, með það að markmiði að gera greiðslur til ríkisins gagnsærri og auðveldari og er stefnt að því að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi á haustþingi 2017. SVÞ styðja þau áform heilshugar og munu leggja sig fram um að nýtt og betra fyrirkomulag á innheimtu opinberra gjalda geti komið til framkvæmda í ársbyrjun 2018.
08/03/2017 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Það ríkti mikil gleði og kátína á glæsilegri ráðstefnu SSSK 3. mars sl. í Hörpunni. Yfirskrift ráðstefnunnar sem haldin var í fullum sal Norðurljósa var „SKÖPUM FRAMTÍÐINA – Nýjasta tækni og vísindi“
Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og og nefndi mikilvægi þess að við höfum ólíka og fjölbreytta valkosti í skólastarfi.
Að loknu ávarpi formanns steig í pontu forsetafrú Íslands Eliza Reid, sem heillaði ráðstefnugesti með alúðlegri framkomu og persónutöfrum.
Fyrirlestra fluttu Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri NÚ með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Stofnaðu skóla! Áhugasviðstengdir grunnskólar. Er það framtíðin?, Ingvi Hrannar Ómarsson, verkefnastjóri í nýsköpun, skóla- og tækniþróun í grunnskólum í Skagafirði með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Framtíðin þeirra“, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og eigandi Köru Connect og Tröppu ehf. var með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Netfæddir nemendur“. Síðust tók til máls Anna Steinsen stofnandi og eigandi KVAN og jógakennari með erindi sem var með yfirskriftina „Lykill að hamingju barna er að þjálfa samskipti og styrkleika“
Miklar og góðar undirtektir voru við erindum allra fyrirlesara. Milli atriða voru ráðstefnugestir þjálfaðir í keðjusöng og tilheyrandi klappi og hreyfingu undir leiðsögn Nönnu Hlífar Ingvadótturfrá Landakotsskóla. Skemmtu allir sér mjög vel í þessu atriði sem var óvænt og skemmtilegt.
Ráðstefnan fór fram undir styrkri stjórn Ingibjargar Jóhannsdóttur skólastjóra Landakotsskóla.
Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar í Björtuloftum.
Myndir frá ráðstefnu.
06/03/2017 | Fréttir, Viðburðir
Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur, mun fjalla um í sinni framsögu áhrif stafrænu byltingarinnar á verslun og þjónustu og þær breytingar sem eru framundan í þeim efnum. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu í dag. Þróunin er hröð og á sér stað um allan heim því verður fróðlegt að heyra í einum helsta sérfræðingi nútímans á þessu sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu. Þá mun Landsbankinn kynna niðurstöður nýrrar greiningar á stöðu, þróun og horfum í íslenskri verslun. Jafnframt mun formaður SVÞ, Margrét Sanders, og ráðherra ferðamála, iðnaðar, og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir halda tölu.
Oops! We could not locate your form.
20/02/2017 | Fréttir, Greining
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í janúar 17 milljörðum króna samanborið við 12 milljarða í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða tæplega helmings aukningu frá janúar 2016. Þó um töluverða aukningu sé að ræða jókst kortaveltan ekki í sama hlutfalli og fjöldi þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í mánuðinum. 136 þúsund ferðamenn komu til landsins um Leifsstöð í janúar eða 75% fleiri en í sama mánuði í fyrra og var kortavelta á hvern ferðamann því tæplega 15% lægri í janúar síðastliðnum samanborið við janúar í fyrra. Gengi krónunnar hefur styrkst töluvert undanfarið ár en ef sama breyting frá janúar í fyrra er reiknuð í bandaríkjadal dróst kortavelta á hvern ferðamann einungis saman um tvö prósent. Þá hefur verðlag ferðaþjónustuafurða farið hækkandi undanfarna tólf mánuði en sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 11% frá janúar í fyrra, veitingastaða um 5% og pakkaferða innanlands um 13% mælt í íslenskum krónum. Af þessu má ráða að Íslandsferð í janúar síðastliðnum var töluvert dýrari fyrir erlenda ferðamenn en sambærileg ferð í janúar í fyrra og kann það að útskýra neyslubreytingar að hluta.
Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem inniheldur ýmsar skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa nam rúmum þremur milljörðum í janúar, 44% meira en í janúar í fyrra. Greiðslukortavelta flokksins er jafnan fjörug í byrjun árs enda eru margar skipulagðar ferðir pantaðar og greiddar fyrirfram. Í janúar var þessi útgjaldaliður næst veltuhæstur í tölum um kortaveltu erlendra ferðamanna á eftir farþegaflutninga og velti hærri fjárhæðum en gistiþjónusta sem jafnan vermir annað sætið.
Erlendir ferðamenn greiddu í janúar 57,9% meira fyrir gistiþjónustu með kortum sínum en í sama mánuði í fyrra. Alls nam greiðslukortavelta til gististaða rúmum 2,9 milljörðum í janúar eða ríflega milljarði meira en í sama mánuði í fyrra. Upphæðin nú er ríflega tvöfalt hærri en árið 2015 og þrefalt hærri en árið 2014.
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna til bílaleiga jókst um 52,7% frá janúar í fyrra og nam 1,1 milljarði í mánuðinum. Þá nam greiðslukortavelta veitingaþjónustu tæpum einum og hálfum milljarði í janúar og var 56,4% meiri en í janúar 2016.
Í janúar greiddu erlendir aðilar 4,5 milljarða með kortum sínum fyrir flugsamgöngur samanborið við 3,2 milljarða í janúar í fyrra. Er um 43,6% aukningu að ræða á milli ára. Þó ársaukningin nú sé rífleg er hún nokkuð lægri en árshækkun milli sömu mánaða eins og hún hefur birst í tölum RSV undanfarið ár, en á milli áranna 2015 og 2016 jókst velta flokksins 136%. Ekki er ótrúlegt að hluti þeirrar aukningar sem verið hefur á greiðslukortaveltu flokksins undangengna 12 mánuði hafi verið vegna aukinna erlendra umsvifa íslenskra flugfélaga í ársbyrjun 2016.
Erlend greiðslukortavelta í verslunum jókst um 45% í janúar frá sama mánuði í fyrra, eða sem nemur tæpum 1,7 milljarði kr.. Mest jókst veltan í dagvöruverslun og tollfrjálsri verslun, um 80% frá fyrra ári en minnst í annarri verslun, 12,9% og fataverslun 27,1%.Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 128 þús. kr. í janúar, eða um 7% meira en í desember. Það er um 15% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Kanada greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í janúar eða 227 þús. kr. á hvern ferðamann. Svisslendingar eru í öðru sæti með 213 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.
20/02/2017 | Fréttir, Viðburðir
Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála sem er veitt árlega.
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2016. Kuðungurinn verður afhentur á Degi umhverfisins 25. apríl.
Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.
Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 17. mars næstkomandi, merktar ,,Kuðungurinn 2016″, á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.
Upplýsingar á vef ráðuneytisins um fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa Kuðunginn.