Ráðstefna SSSK – 3. mars
Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn og er ferðamannaverslun ársins 2016. Verðlaunaafhendingin fór fram í Hafnarhúsi, Listasafns Reykjavíkur þann 16. febrúar en þetta er í 21. skipti sem verðlaunin eru veitt.
Alls voru 11 verslanir tilnefndar til Njarðarskjaldarins í ár; Epal í Hörpu, Eymundsson í Austurstræti og á Laugavegi, Gilbert úrsmiður á Laugavegi, Gjóska á Skólavörðustíg, GÞ skartgripir og úr í Bankastræti, Handprjónasambandið á Skólavörðustíg, Islandia í Bankastræti, Nordic Store í Lækjargötu, Upplifun í Hörpu og Orr gullsmiðir á Laugavegi.
Njarðarskjöldurinn er viðurkenning og hvatningarverðlaun sem veitt eru árlega til verslana eða verslunareigenda fyrir góða þjónustu og ferskan andblæ í ferðaþjónustu. Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.
Í dómnefnd Njarðarskjaldarins sitja fulltrúar frá Höfuðborgarstofu fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Miðborginni okkar, Félagi atvinnurekanda, Samtökum verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtökum Íslands, Global Blue á Íslandi og Premier Tax Free á Íslandi. Í rökstuðningi tilnefningarinnar kemur eftirfarandi fram:
,,Orr gullsmiðir er afsprengi Kjartans Kjartanssonar. Verslunin sem er jafnframt gullsmíðaverkstæði hefur frá fyrstu tíð verið staðsett í miðborg Reykjavíkur. Lengi vel var hún staðsett neðarlega við Laugaveginn en fluttist nýlega um set og hefur haldið sínum takti. Hönnun Orr hefur frá fyrstu tíð verið feikilega vinsæl á meðal erlendra ferðamanna enda er hún einstök og efnisval og frágangur fyrsta flokks. Gullsmíðaverkstæðið er staðsett í sama húsi og verslunin sem gefur henni aukna dýpt. Þjónustustig og tungumálakunnátta starfsfólks er til fyrirmyndar sem og aðgengi að versluninni. Orr skartgripaverslun er björt og stílhrein með góða lýsingu þannig að vörurnar njóta sín til fulls. Stílhreint útlit, glæsileg hönnun, hæft starfsfólk ,sem hefur hvort í senn gaman af vinnunni og faglega þekkingu á vörunni gerir Orr að ákjósanlegum stað til verslunar fyrir erlenda ferðamenn.“
Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar fór velta í smásöluverslun í janúar almennt vaxandi líkt og undanfarna mánuði að undanskilinni fata- og skóverslun, sem dróst nokkuð saman frá janúar í fyrra. Verðlag var lægra í öllum vöruflokkum sem mælingin nær til nema áfengi, sem hækkaði þó aðeins um 0,5% frá janúar í fyrra.
Velta í stærsta vöruflokknum, dagvöruverslun, jókst í janúar um 4,3% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra og um 7,5% þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi ásamt daga- og árstíðabundnum þáttum. Verð á dagvöru var 1,3% lægra en tólf mánuðum áður. Þá jókst sala áfengis um 5% í mánuðinum miðað við janúar í fyrra.
Svo virðist sem frekar dauft hafi verið yfir fataútsölum í janúar af veltutölum að ráða. Veltan dróst saman um 12,1% á breytilegu verðlagi. Hafa verður í huga að fataverslunum fækkaði um áramótin og neytendur virðast ekki hafa fært innkaupin til þeirra verslana sem fyrir eru, alla vega ekki enn sem komið er. Verð á fötum var 2,9% lægra en í sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.
Mun meiri verðlækkun var á útsölum með raftæki í janúar og meiri vöxtur í sölutölum. Þannig var verð á svokölluðum brúnum raftækjum 14,5% lægra en fyrir ári síðan. Í þeim flokki eru t.d. sjónvörp, hljómflutningstæki o.fl. Stærri heimilistæki, eða svokölluð hvít raftæki, lækkuðu í verði um 9% á milli ára. Velta í hvítum raftækjum jókst um 23,8% að krónutölu og velta í brúnum raftækjum var óbreytt á milli ára.
Velta byggingavöruverslana jókst um 20,2% frá janúar í fyrra. Þar ræður miklu að byggingaframkvæmdir og viðhald húsnæðis er mikið um þessar mundir auk þess sem veðurfar hefur verið einkar hagstætt til byggingaframkvæmda.
Í janúar var greiðslukortavelta heimilanna hér innanlands 9% meiri en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í janúar var 7,1 milljarður kr. sem er 17,6% hærri upphæð en fyrir ári síðan. Erlendir ferðamenn sem hingað koma hafa vaxandi áhrif á íslenska verslun. Þannig var greiðslukortavelta útlendinga hér á landi 17,4 milljarðar kr. í janúar sem er 49% aukning frá síðasta ári.
Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 7,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í janúar um 15,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í janúar síðastliðnum og 1,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,1% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 9,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,9% lægra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði árið áður.
Velta skóverslunar minnkaði um 3,2% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 1,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í janúar um 2,9% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 11,4% meiri í janúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 22,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 23,8% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 2,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 20,2% í janúar á breytilegu verðlagi og jókst um 20,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 1,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í janúar um 15,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 15,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, var óbreytt á milli ára á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 23,8% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Félag atvinnurekenda, Samtök verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtök Íslands, Global Blue á Íslandi og Premier Tax Free Worldwide – Ísland bjóða þér að vera við afhendingu hvatningarverðlauna Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila.
Afhendingin fer fram Þann 16. febrúar 2017, kl. 17.30 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17.
Dagskrá:
Kynnir
– Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar
Ávarp
– Áshildur Bragadóttir, forstöðukona Höfuðborgarstofu
Gamanmál
– Ari Eldjárn
Afhending Njarðarskjaldar 2016
– Kynning á þeim verslunum sem tilnefndar eru til verðlaunanna
– Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra afhendir verðlaunin
Léttar veitingar verða í boði.
Hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt árlega til verslana eða verslunareigenda fyrir framúrskarandi þjónustu og verslun við ferðamenn í Reykjavík og auknum ferskleika verslunarreksturs í borginni.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í morgun menntaverðlaun atvinnulífsins á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn á Hilton Reykjavík Nordica.
Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka. Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma.
„Ég er afar stoltur af því að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd starfsfólks Alcoa Fjarðaáls. Innan Fjarðaáls starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks sem eru öll sérfræðingar á sínu sviði. Lykillinn að því að hámarka og viðhalda þekkingu, hæfni og reynslu innan fyrirtækisins er að allt starfsfólk sé reiðubúið að miðla sín á milli í gegnum fræðslustarf og skipulag fyrirtækisins. Ég vil því óska starfsfólki Alcoa Fjarðaáls til hamingju með Menntaverðlaunin og þakka þeim fyrir framlag sitt,“ segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls.
Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.
Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.
Alcoa Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa á undanförnum árum unnið að því að efla áhuga ungs fólks á Austfjörðum á verk- og tæknimenntun. Kennarar lögðu sitt af mörkum og aðstaða til kennslu var bætt, námsframboð á verklegum valgreinum var aukið og nemendur hvattir til nýsköpunar auk þess sem þeim var boðið að heimsækja Fjarðaál og kynna sér starfsemi fyrirtækisins. Verkefnið heppnaðist mjög vel en fjöldi þeirra sem völdu verk- og tækninám að loknum grunnskóla tvöfaldaðist á aðeins þremur árum. Eitthvað sem atvinnulífið hefur lengi kallað eftir.
„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki í iðnaði að beita sér fyrir því að verk- og tækninámi sé haldið á lofti, það eflt og áhersla lögð á mikilvægi þess. Samvinna atvinnulífsins, skólakerfisins og sveitarfélaganna er lykilatriði í því að árangur náist og að orðum fylgi athafnir. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til eflingar verk- og tæknináms, sem og efla þekkingu og hæfni innan fyrirtækisins,“ segir Magnús.
Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er menntasproti ársins 2017. Keilir var stofnaður árið 2007 og starfar á Ásbrú í Reykjanesbæ á gamla varnarsvæði Bandaríska hersins.
Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp. Keilir hefur lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur.
Hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi.
„Fyrir hönd starfsfólks Keilis tek ég í auðmýkt við þessari skemmtilegu viðurkenningu. Við höfum reynt að fara nýjar leiðir við að bjóða fólki menntaúrræði. Þessi hvatning frá Samtökum atvinnulífsins hvetur okkur til frekari dáða. Við þökkum fyrir okkur,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis.
Á myndinni hér til hliðar eru frá vinstri Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis, Árni Sigfússon stjórnarformaður og forseti Íslands.
Í dómnefnd sátu Karen Kjartansdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson sérfræðingur hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2015.
Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.
Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.
Þriðjudaginn 24. janúar sl. bauð SSSK upp á námskeið fyrir skólastjórnendur um ánægju og vellíðan á vinnustað. Á námskeiðinu var farið yfir grundvallaratriði varðandi starfsánægju og samskipti, samskiptafærni, fjallað um viðhorf til verkefna, og vinnustaðar. Sérstaklega var unnið með hrós og endurgjöf og fleiri leiðir til að hlúa að góðu andrúmslofti / vinnustaðamenningu.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og framkvæmdastjóri SHJ ráðgjafar sá um námskeiðið og var með framsögu.
Námskeiðið var mjög vel sótt og almenn ánægja með námsefnið og fyrirlesarann.