Örnámskeið fyrir flóttafólk um íslenska verslun og þjónustu

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 24.5.2017
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi standa fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.

,,Atvinnulífið vill leggja sitt af mörkum til þess að hvetja þennan hóp til þátttöku í íslensku atvinnulífi. Hæsta hlutfall á íslenskum vinnumarkaði vinnur við verslun og þjónustustörf sem jafnframt er oft fyrsti viðkomustaður fólks sem er taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu._8100057

Samstarfið hófst í morgun, miðvikudaginn 24. maí, með örnámskeiði þar sem farið var yfir ferlið frá uppbyggingu ferilsskrár og þar til hafin eru störf á vinnustað. Hvernig getur þessi hópur sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri eru í boði, hvernig er íslensk vinnustaðamenning og hvernig gengur þessum hópi almennt.  Mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi og Hagvangi verða með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins koma með innlegg. Í undirbúningi eru heimsóknir til fyrirtækja og t.a.m. hefur Eimskip boðist til að bjóða í heimsókn og kynna vinnustaðinn og fara yfir praktísk atriði.

,,Við fögnum þessu framtaki enda mjög mikilvægt að við hlúum vel að þessum hópi og hjálpum þeim að komast inn í íslenskt samfélag og þar gegnir þátttaka á vinnumakaði mikilvægu hlutverki. Það er mikilvægt að læra líka um hluti eins og vinnustaðamenningu sem skiptir afar miklu máli en getur verið erfitt að átta sig á þegar maður er nýkominn til nýs lands með annarri menningu“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

,,Að óbreyttu er líklegra að skortur verði á vinnuafli á Íslandi og að sama skapi tekur tíma að þjálfa og mennta nýtt starfsfólk, ekki síst til að hæfileikar og menntun hvers og eins nýtist. Að auki fáum við nýja þekkingu og fjölbreyttari reynslu inn í landið.“ segir Andrés að lokum.

Nánari upplýsingar gefa:

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.  andres@svth.is / 820-4500
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi. brynhildur@redcross.is /699-4627

Fréttatilkynning á pdf sniði.

 

 

SVTH-logo-NYTT_03 - 2010Rauði krossinn lógó

Hátt vaxtastig dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 23.3.2017

„Þrátt fyrir batnandi umhverfi er snýr að tollum og vörugjöldum þá eru vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf. Ef horft er til OECD og BRIC ríkja þá eru raunvextir á Íslandi einna hæstir, svipar til vaxtastigs í Rússlandi – er það landið sem við viljum bera okkur saman við?,“ þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders, formanns Samtaka verslunar og þjónustu á ársfundi samtakanna sem haldinn var í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Margrét sagði ennfremur að samkeppnin hafi aldrei verið jafn mikil, á sama tíma og verslun er að aukast þá er samkeppnin orðin harðari. „Þjónustufyrirtæki og verslunareigendur verða að varða veginn til að efla samkeppnishæfni sína og mæta þörfum nýrrar kynslóðar sem kýs að versla á netinu.“ Á fundinum var kynnt ný greining Hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar og þjónustu í tengslum við ársfund SVÞ. Þar kemur meðal annars fram að einkaneysla hafi aukist í takti við aukinn kaupmátt og að það stefni í lengsta vaxtarskeið einkaneyslu hér á landi. Í greiningu bankans kemur fram að hagvöxturinn sé ekki knúinn áfram af óhóflegri skuldsetningu heldur sýna tölur það að skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið lækkandi undanfarin ár. Álagning í smásölu hefur lítið breyst undanfarin ár en fer lækkandi í heildverslun.

Aðrir framsögumenn á fundinum voru ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kobrún R. Gylfadóttir, Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur og Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Fundarstjóri var Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra talaði um í sínu ávarpi að almennt sé ekki talið að net- og tæknibyltingin ryðji hefðbundnum verslunum alfarið úr vegi heldur muni „stafræn verslun“ og hefðbundin verslun frekar renna saman og nýta kosti hvorrar annarrar. Hún sagði ennfremur að Íslendingar þyrftu að gera sér grein fyrir þessum breytingum og taka þátt í þróuninni með því að laga sína starfsemi sem mest að nýjum og síbreytilegum þörfum neytenda.

Anna Felländer sagði í framsögu sinni að stafræna tæknivæðingin sé að gerast mjög hratt og hafi mikil áhrif bæði á hagkerfið í heild sinni, einstaklinga og fyrirtæki. „Það er að eiga sér stað hröð kerfisbreyting í sölu- og þjónustugeirum vegna áhrifa stafrænnar byltingar. Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin að takast á við þessar stafrænu breytingar. Það sem skiptir sköpum er að klæðskerasníða stafræna þjónustu og sölu byggt á þörfum neytandans og innleiða það í alla virðiskeðjuna.“

Daníel Svavarsson, hagfræðingur sagði í erindi sínu að forsendur verslunar væru nú með besta móti. „Einkaneyslan eykst hröðum skrefum í takt við vaxandi kaupmátt og bætta stöðu heimilanna. Á sama tíma hefur kakan einnig stækkað með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna en neysla þeirra á vörum og þjónustu var alls um 29% af heildarveltunni á síðasta ári. Arðsemi verslunarfyrirtækja hefur vaxið síðustu ár og er vel viðundandi miðað við aðra geira“.  Daníel talaði um að velta um helmingi verslunargreina væru í sögulegu hámarki meðan aðrir geirar höfðu ekki að fullu náð sér á strik. Hann sagði þróunina markast meðal annars af verslun ferðamanna hér á landi en einnig af aukinni verslun Íslendinga á ferðalögum erlendis og á netinu. „Neytendur virðast vera varkárari í eyðsluútgjöldum sínum en á fyrri uppgangstímum sem endurspeglast meðal annars í því að sala á ýmsum dýrari neysluvörum svo sem bílum og fellihýsum er enn lagt frá þeim hæðum sem hún náði fyrir hrun, “ sagði Daníel ennfremur.

Á aðalfundi SVÞ sem haldinn var í morgun var Margrét Sanders endurkjörin formaður samtakanna. Núverandi stjórn SVÞ skipa ásamt formanni, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar ehf., Gústaf B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka ehf. og Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. Þeir sem sitja fyrir í stjórn SVÞ eru Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Kvosin ehf.

Anna Felländer – kynning

Greining Landsbanka Íslands um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi

Myndir frá ráðstefnu SVÞ 23.3.2017

Nánari upplýsingar veitir:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500

Margrét Sanders formaður SVÞ
Sími:  863 9977

 

 

 

SVÞ fagna frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.3.2017

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis, þar sem bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu, fagna samtökin markmiði þess um afnám þess einkaleyfis.

SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. SVÞ ítreka í þessu samhengi mikilvægi þess að hið opinbera dragi sig út úr smásölurekstri hvers konar en sama skapi verði lagaumgjörð þannig úr garði gerð að einkaaðilum verði treyst til að annast slíkan rekstur sem hér um ræðir. Þannig verði með lögum búið þannig um þessa starfsemi að gætt verði að þeim sjónarmiðum sem gæta þarf að þegar um er að ræða sölu á áfengi eða aðra vöru sem kallar á aðgát hvað varðar eiginleika hennar.

Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi. Þá fagna SVÞ sérstaklega því frumkvæði í frumvarpinu um að fella úr lögum banni við áfengisauglýsingum enda hefur núverandi bann ekki staðið í vegi fyrir að áfengisauglýsingar hafi birst hér á landi, m.a. í erlendum miðlum, og þannig mismunað framleiðendum eftir hvort um er að ræða innlenda eða erlenda aðila.

SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.

Fréttatilkynningin á pdf sniði

Umsögn SVÞ um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Aðgerðarleysi stjórnvalda skaðar starfsemi faggiltra fyrirtækja

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.

SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.

Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA

SVÞ efast um að búvörusamningar standist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.

Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.

Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.

Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.

Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga

Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál