Einkarekstur eða ríkisrekstur

Einkarekstur eða ríkisrekstur

Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ um hlutverk einkarekstrar og ríkisrekstrar birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í vikunni:

Í blönduðum hagkerfum gegnir hið opinbera jafnan tvenns konar hlutverki. Annars vegar hlutverki reglusetjara, sem einnig hlutast til um að einkageirinn fari eftir settum leikreglum, og hins vegar nokkurs konar stuðningshlutverki, þ.e. þegar það fæst við mótun stefnu og aðgerða sem tryggja eiga þróun innviða sem stuðla að hagvexti og heilbrigðri auðlindanýtingu. Einkageirinn stendur aftur á móti að jafnaði undir meginhluta hagvaxtar. Í því ljósi sætir almennur atvinnurekstur á vegum hins opinbera stöðugri gagnrýni, enda þurfa óvenjulegar aðstæður að vera uppi til þess að réttlætanlegt geti talist að opinberir aðilar standi í slíkri starfsemi. Megin­ástæðan er sú að einkaframtakið er jafnan mun betur búið til að takast á við hefðbundinn atvinnurekstur óháð atvinnugreinum.

Þeir hvatar sem eru til staðar í umhverfi einkarekstrar stuðla almennt að skynsamlegri nýtingu fjármuna enda stýrir eftirspurn því hvort vara eða þjónusta stendur til boða, í hvaða mæli og undir hvaða kringumstæðum. Til að setja umfjöllunina í samhengi má sem dæmi benda á að Raftækjasala ríkisins var aflögð fyrir mörgum áratugum og einnig einkasala ríkisins á eldspýtum. Nær aldarfjórðungur er síðan Lyfjaverslun ríkisins var komið í hendur einkaaðila og Bifreiðaeftirlit ríkisins var lagt af og starfsemin gefin frjáls að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeir sem muna þá tíma þegar starfsemi þessara opinberu stofnana og fyrirtækja var „í blóma“, geta fæstir hugsað sér að starfsemi þeirra verði endurreist. Reynslan sýnir að starfsemin er mun betur komin í höndum einkaaðila.

 

Aukin umsvif hins opinbera

 

Í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gengið út frá því að rekstrar- og heildarafkoma opinberra fyrirtækja aukist umfram væntar breytingar á verðlagi. Hafa verður í huga að frá efnahagshruninu hefur verið lögð áhersla á afkomubata hjá þessum fyrirtækjum, þó að árangurinn hafi ekki alltaf verið augljós. Myndin sem upp er dregin vekur nokkurn ugg því af henni má draga þá ályktun að ekki sé inni í myndinni að draga úr umsvifum hins opinbera í starfsemi sem einkageirinn gæti að mörgu leyti annast. Í því ljósi er fyrir löngu orðið tímabært að ráðist verði í heildarúttekt á þeim atvinnurekstri sem ríkið stendur ennþá fyrir. Í slíkri úttekt þyrfti fyrst og fremst að draga fram hvaða rök mæla með ríkisrekstri, þar sem hann er ennþá stundaður. Í þessu sambandi benda samtökin sérstaklega á rekstur ÁTVR, sem annast smásölu ríkisins á áfengi og framleiðslu neftóbaks og rekstur Fríhafnarinnar ehf., sem er dótturfélag Isavia ohf., og stundar verslunarrekstur með snyrtivörur, sælgæti, ferðamannanauðsynjar, áfengi og tóbak í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Starfsemi þessara fyrirtækja sætir reglulega gagnrýni, ekki síst vegna þeirrar einokunarstöðu sem þau njóta í skjóli ríkisvaldsins. Hér er rétt að minna á þau dæmi sem nefnd voru í upphafi, sem eru öll dæmi um einokunarrekstur sem hið opinbera stundaði, en ákvað góðu heilli að hverfa frá.

 

Þörf á allsherjarendurskoðun

 

Það eru fleiri svið þar sem full ástæða er fyrir hið opinbera að skoða með það að leiðarljósi að koma auga á hagræðingartækifæri sem felast í yfirfærslu starfsemi til einkaaðila. Að mati SVÞ er af nógu að taka í þeim efnum, en þar kemur starfsemi eftirlitsgeirans fyrst upp í hugann en hana mætti í mörgum tilvikum færa í í hendur faggiltra fyrirtækja, sem vinna eftir ströngu og faglegu evrópsku regluverki. Eins og fyrr var nefnt ákváðu stjórnvöld að færa bifreiðaskoðun frá hinu opinbera til einkaaðila fyrir rúmlega tuttugu árum. Reynslan af þeirri breytingu er nær undantekningarlaust góð. Því má spyrja hvort ekki sé ástæða til að feta þá slóð áfram. Í ljósi reynslunnar er rökrétt ályktun að það geti verið afar góður kostur.

SVÞ vilja því beina þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að hefja allsherjarendurskoðun á þeim atvinnurekstri sem enn er stundaður af hinu opinbera. Samtökin vilja í því sambandi benda á, hvort auðveldasta leiðin til að ná markmiðum um bætta afkomu í opinberum rekstri, sé ekki einfaldlega að færa hann yfir til einkaaðila.

 

 

 

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí sl. Greinin er eftir Eyjólf Árna Rafnsson formann Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Samtaka iðnaðarins, Helga Bjarnason formann Samtaka fjármálafyrirtækja, Helga Jóhannesson formann Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólaf Halldórsson formann Samtaka verslunar og þjónustu og Magnús Þór Ásmundsson formann Samtaka álfyrirtækja.

EES-samningurinn er eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og hornsteinn að bættum lífskjörum almennings. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á viðskiptafrelsi sem er grundvallað á EES-samningnum. EES-samstarfið hefur fært Íslendingum mikinn ábata á liðnum aldarfjórðungi, lífskjör hafa batnað og atvinnulífið eflst.

Farsælt EES samstarf, sem nú fagnar 25 ára afmæli, tryggir með fjórfrelsinu frjálsa för fólks, vöru, þjónustu og fjármagns um alla Evrópu. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst fámennum löndum eins og Ísland sannarlega er.

EES-samstarfið nær ekki til nýtingar auðlinda eins og sést af því að það eru Norðmenn sjálfir sem ákveða hvernig nýta skuli olíu- eða gaslindirnar þar. Það eru Finnar og Svíar sem ákveða hvernig skuli höggva skóga hjá sér. Og það eru Íslendingar sem ákveða hvort eða hvernig nýta eigi jarðhitann, vatnsaflið eða vindinn sem stöðugt blæs. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar af Evrópusambandinu.

Samstarfið nær hins vegar til þess að vörur sem eru á markaði þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtingu og tæknilega staðla á hverju sviði fyrir sig. Gert er ráð fyrir að samkeppni ríki á sem flestum sviðum þar á meðal um orkusölu enda sé það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur.

Smám saman hafa kröfur aukist um betri nýtingu orku, aukna notkun endurnýjanlegra orkulinda og um orkusparnað. Jafnt og þétt verða loftslagsmál og orkumál samofnari enda er notkun jarðefnaeldsneytis meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem við verðum að takast á við.

Íslendingar hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og eru í samstarfi við Evrópulöndin um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir Íslands af þessu samstarfi eru mjög miklir og þátttaka í viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir tryggir jafna samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar og fleiri fyrirtækja hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu.

Löggjöf um orku- og loftslagsmál mun halda áfram að þróast og auk löggjafar sem nú er til meðhöndlunar á Alþingi (þriðji orkupakkinn) eru á döfinni enn frekari breytingar á lögum og reglum sem þessu sviði tengjast. Íslensk raforkulög taka þegar mið af því að Íslendingar hafa  innleitt fyrsta og annan orkupakka ESB og hefur sú ákvörðun reynst farsæl hingað til.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð heldur börnum okkar og barnabörnum.

Lambakjötsskortur á Íslandi

Lambakjötsskortur á Íslandi

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Morgunblaðið 4. maí sl. 

Það er skortur á lambakjöti á Íslandi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Engu að síður er þetta staðreynd. Ekki svo að skilja að ástæðan fyrir þessum „vanda“ sé sú að ekki séu nægar birgðir lambakjöts í landinu. Vandinn er nefnilega af annarri tegund, en samt heimatilbúinn.

Lambakjöt er nokkuð eftirsótt vara, ekki síst lambahryggurinn, en það er sú afurð lambsins sem lang mest spurn er eftir meðal neytenda. Hingað til hefur innanlandsframleiðslan dugað vel til að sinna innlendri eftirspurn árið um kring. Nokkrar afurðastöðvar fluttu hins vegar umtalsverðan hluta af lambahryggjum sem féll til við sláturtíð 2018 úr landi, bæði ferska og frosna, á verði sem er langt undir því verði sem innlendri verslun stendur til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var meðal skilaverð á frosnu hryggjunum 879 kr/kg, en örlítið hærra á þeim fersku. Það verð sem versluninni hefur staðið til boða var þá, a.m.k. tvöfallt þetta verð. Nú er svo komið að skortur er á innlendum lambahryggjum, þegar fjórir mánuðir eru þar til sláturtíð hefst á ný. Á sama tíma hafa afurðastöðvar ýmist boðað verulega verðhækkun á þeim hryggjum sem á annað borð eru til, skömmtun, að viðskiptin verði skilyrt eða einfaldlega að pöntunum sé hafnað. Það skal tekið fram að flestar afurðarstöðvar hér á landi eru í eigu bænda, ekki síst sauðfjárbænda.

Einstök aðildarfyrirtæki SVÞ hafa þegar sent beiðni til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins, þar sem óskað er eftir því að tollfrjáls innflutningur á lambahryggjum verði heimilaður, til þess að unnt verði að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni og koma í veg fyrir umtalsverða verðhækkun á lambakótilettum í sumar. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð ráðuneytisins við þessari sjálfsögðu ósk. Í því svari munu birtast viðhorf stjórnvalda í kjölfar nýgerðra kjarasamninga, til þess hvort vegi þyngra heildarhagsmunir íslenskra neytenda eða sérhagsmunir afurðarstöðva, sem notað hafa skattfé til þess að niðurgreiða lambakjöt til erlendra neytenda og ætla síðan að hækka verð á íslenska neytendur vegna heimatilbúins skorts.

 

Neysluhegðun unga fólksins breytir verslun

Neysluhegðun unga fólksins breytir verslun

Í sérblaði um netverslun sem fylgdi Fréttablaðinu þann 20. apríl sl. var vitnað í grein Ingvars F. Ingvarssonar, aðalhagfræðings sem birst hafði í Viðskiptablaðinu 24. janúar. Í sérblaði Fréttablaðsins sagði:

Í upphafi árs skrifaði Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, pistil þar sem kemur fram að þrátt fyrir öran vöxt netverslunar fer enn stærsti hluti smásöluverslunar fram í hefðbundnum verslunum. Mikill uppgangur netverslunar og breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar er að umbylta umhverfi verslunarinnar og felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu, segir í pistli Ingvars. Hann bendir á skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar og tekur fram að kaup Íslendinga um netið voru um 2,9% af heildarveltu íslenskrar verslunar á meðan algengt er að netverslun í nágrannalöndum okkar nemi um 10% af heildarveltu.

Ingvar Freyr bendir á að á Norðurlöndum er umfang netverslunar einna hæst í Svíþjóð. Ingvar segir það mikilvægt og nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki nýti sér stafræna tækni áður en erlendir keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð. Aukin hnattvæðing þar sem samkeppnin um neytandann er hörð skapar jafnframt ný tækifæri. Breytingar í rekstrarumhverfi í verslun og þjónustu kallar á breytta hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika, skrifar Ingvar meðal annars en pistil hans má finna á heimasíðu SVÞ.

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 17. apríl sl.:

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Í hagfræðinni er rætt um harmleik almenninganna (e. tragedy of the commons) þegar einstakir aðilar nýta sameiginlegar auðlindir óhóflega þegar litið er til heildarhagsmuna samfélagsins. Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, lét þá skoðun sína í ljós í ræðu hinn 29. september 2015 að harmleikur væri á sjóndeildarhringnum (e. tragedy on the horizon). Þar vísaði hann til loftslagsmála þar sem vandinn er sá að borgarar dagsins í dag eiga erfitt með að sjá afleiðingar gjörða sinna fyrir þar sem þær munu ekki koma að fullu fram fyrr en næstu kynslóðir hafa tekið við keflinu.

Í ræðu sinni fjallaði Carney um áskoranir sem þessu fylgja en hann telur hættu á að loftslagsbreytingar geti leitt til fjármálakreppu og versnandi lífskjara. Til þess að gefa mynd af harmleiknum í nútímanum telur Carney rétt að upplýsingar um koltvísýringslosun liggi fyrir. Af þeim sökum hefur hann mælst til þess að leiðandi ríki heimshagkerfisins hvetji fyrirtæki til þess annars vegar að upplýsa hreinskilnislega um losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að gera áætlanir um að draga úr umhverfisáhættu. Í ræðu Carney, þar sem hann fjallar um loftslagsmál og fjármálakerfið og ber ensku yfirskriftina „A global approach to sustainable finance“ segist hann fullviss um vangetu leikenda á fjármálamarkaði til að leiða umbreytingar hagkerfisins í átt til minni koltvísýringslosunar.

Carney telur lykilatriði að ríkisstjórnir setji leikreglur og skapi umgjörð um loftslagsmál sem einkageirinn geti tekið mið af við ákvarðanatöku um fjárfestingar. Þó að Carney ætli stjórnvöldum þannig leiðandi hlutverk leggur hann hins vegar áherslu á að fjármálamarkaðir verði að leggja sitt af mörkum. Þá telur hann skynsamlegt að ríkt tillit sé tekið til umhverfisáhættu við greiningu kerfisáhættu.

 

Þung áhersla á aðgerðir

Í ljósi smæðar og öfgakenndra hagsveiflna í íslensku hagkerfi er afar mikilvægt að hafa augun á þróun helstu áhættuþátta hverju sinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð þung áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu en um þessar mundir eru 197 ríki aðilar að því og svo virðist sem 185 þeirra hafi lokið við að fullgilda það.

Með samkomulaginu er stefnt að því að halda hlýnun jarðar vel innan við 2 gráður á öldinni, bæta aðlögunargetu fyrirtækja og stofnana og tryggja að fjármagn flæði í þróunarverkefni sem eru loftslagsvæn. Þar kveður við nýjan tón í þeim skilningi að ætlunin virðist að hvetja til mun meiri samdráttar koltvísýringslosunar en áður, atvinnulífinu er ætluð virk þátttaka og áformað er að nýta markaði til að ná árangri.

Alþjóðastofnanir kalla eftir því að losun gróðurhúsalofttegunda verði rétt verðlögð á skilvirkum mörkuðum og þannig verði fyrirtæki hvött til þróunar í átt til loftslagsvænni lausna. Efndir skuldbindinga samkvæmt samkomulagi kalla á verulegar umbreytingar og í því felast áskoranir. Ef rétt er haldið á spilunum felast hins vegar einnig töluverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í þeim breytingum sem efndirnar hafa í för með sér.

 

Íslenskur fjármálamarkaður

Gerð íslenska hagkerfisins kallar á að tekið sé tillit til umhverfisáhættu við gerð áfallasviðsmynda fyrir íslenskan fjármálamarkað. Gera má ráð fyrir að sú áhætta birtist um þessar mundir einkum sem umbreytingaráhætta (e. transition risk) vegna óljóss kostnaðarauka sem fyrirtæki gætu þurft að takast á við vegna breytinga á starfs- og rekstrarháttum í ljósi hertra umhverfiskrafna.

Ef við bregðumst ekki við með réttum hætti með vel undirbúnum aðgerðum munu tekjuáföll og glötuð tækifæri hafa ófyrirséðar afleiðingar. Allt útlit er fyrir að staða loftslagsmála eigi eftir að hafa mikil áhrif annars vegar á daglegan rekstur fyrirtækja og hins vegar á fjárfestingaákvarðanir. Það er því skynsamlegt og í mörgum tilvikum orðið löngu tímabært fyrir fjárfesta og fyrirsvarsmenn fyrirtækja að taka tillit til loftslagsmála við undirbúning fjárfestingar- og stefnumótunarákvarðana.

Stjórnendur efnahagsmála hafa sýnt merkjanlegan og aukinn áhuga á að tryggja að íslenska fjármálakerfið ráði við umbreytingar í víðum skilningi. Möguleikar fjármálakerfisins til að takast á við áföll virðast um þessar mundir mun betri en oft áður. En betur má ef duga skal. Það ríður á að íslensk stjórnvöld og seðlabanki átti sig á í sameiningu á stóru myndinni af því hvernig íslensk fyrirtæki geta lagað sig á skilvirkan hátt að umbreytingum vegna loftslagsmála. Með öðrum orðum verða stjórnendur efnahagsmála að senda frá sér sem skýrust skilaboð sem fyrirtæki geta tekið tillit til við áætlanagerð.

Gera verður ráð fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum kalli á mikið fjármagn sem mun að mestu leyti koma beint eða óbeint frá einkageiranum. Í því samhengi mun áhugi fjárfesta og fjármálastofnana á fjármögnun ráðast af þeim áhættum sem henni fylgja, þ.m.t. áhættu vegna ófyrirséðra breytinga á leikreglum og beitingu efnahagslegra hvata til aukinna fjárfestinga. Hagstæð fjármögnun mun aðeins nást undir fyrirsjáanlegum kringumstæðum.

Sérfræðingar frá háskólanum í Cambridge hafa bent á þrjá þætti sem þeir telja ráða miklu um hve berskjölduð fyrirtæki eru vegna breytinga á leikreglum um loftslagsmál: a) Losun í starfsemi fyrirtækis, b) óbein losun í aðfangakeðju fyrirtækis og þá sérstaklega vegna notkunar jarðefnaeldsneytis, og c) losun vegna notkunar á vöru og þjónustu sem fyrirtæki selur.

 

Þörf á markvissum aðgerðum

Ljóst er að þörf er á markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi er samþætting loftslags- og tæknistefnu mikilvæg. Erlendis munu stjórnvöld líklega einkum beina aðgerðum sínum að starfsemi sem felst t.d. í námurekstri, olíuvinnslu og orkufrekum iðnaði. Aðgerðirnar verða væntanlega í formi reglusetningar eða -breytingar eða annarra aðgerða sem munu hafa mikinn kostnað í för með sér.

Það getur ekki talist óábyrgt að ætla að þær atvinnugreinar sem óundirbúnar verða fyrir mestum umbreytingaráhrifum geti lent í svipaðri stöðu og fjármálageirinn eftir áföll alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Með fyrirsjáanleika að leiðarljósi þurfa stjórnendur efnahagsmála að senda atvinnulífinu skýr og samræmd skilaboð þannig að einkageirinn hafi möguleika á að tileinka sér nýja hugsun í fjárfestingum og fjármögnun verkefna.

Geirar atvinnulífsins búa við mismikla umbreytingaráhættu. Augljóst er að námuvinnsla, raforkuframleiðsla úr jarðefnaeldsneyti og olíuiðnaður lenda í hæsta áhættuflokki. Áhættan kann svo að smitast yfir á skuldabréfamarkaði þar sem skuldabréf útgefin af þessum fyrirtækjum eru seld. Þau fyrirtæki sem menga mest eru hins vegar í bestum færum til þess að bæta sig og því kann samstarf við stjórnendur þeirra að vera lykillinn að lausn sem skilar góðum árangri. Fjárfestar geta haldið stöðum í þessum greinum en freistað þess á móti að hafa áhrif á stjórnendur í átt til minni losunar.

 

Gróðurhúsalofttegundir verðlagðar

Stjórnvöld geta verðlagt losun gróðurhúsalofttegunda og með því haft áhrif á kauphegðun neytenda. Með því móti verða framleiðendur óhjákvæmilega að takast á við neikvæð ytri áhrif framleiðslunnar. En skilaboðin verða að vera skýrari því enn er kolefnisskattlagning opin fyrir þeirri gagnrýni að vera bara enn ein skattlagningin.

Þá ættu stjórnvöld að styrkja stoðir þeirra geira sem vinna hvað harðast að loftslagsjákvæðum tæknibreytingum.Benda má að Alþjóðaorkumálastofnunin (e. International Energy Agency – IEA) hefur gefið út leiðbeiningar um hagkvæm stýritæki sem henta í hverju tilfelli. Stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að auka þekkingu á stöðu tækniþróunar á sviði losunarmála.

Með vel ígrunduðum aðgerðum geta stjórnvöld dregið úr áhættu sem tengist þróun tækninýjunga en smám saman dregið úr stuðningi sínum og hleypt tækninni óstuddri í samkeppnisumhverfi. Stuðningur stjórnvalda ætti þannig að vera ríkur í upphafi, dragast hægt og rólega saman og falla niður um það leyti þegar tæknin verður samkeppnishæf eða þegar ljóst er að tækniþróun skilar ekki tilætluðum árangri. Mat á virkni aðgerða kallar óhjákvæmilega á losunarbókhald í einhverri mynd.

Í ljósi framangreinds má benda á að Evrópusambandið hefur ýtt undir þróun markaða fyrir græn skuldabréf. Á þeim veita fjárfestar lán til fyrirtækja gegn skuldbindingum um að lánsfjármunir verði nýttir í umhverfisvænum tilgangi. Mikil aukning hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa síðustu ár. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) beitt sér fyrir samræmdri verðlagningu losunar og mælst til þess að aðildarríkin leggi mat á losunaráhrif við fjárlagagerð (e. Green budgeting). Alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki bjóða þegar upp á aðstoð við gerð græns bókhalds sem hefur þann tilgang að kortleggja umhverfisáhættuþætti og gera fyrirtækjum mögulegt að undirbúa breyttar áherslur.

Fjármálamarkaðir og loftslagsaðgerðir

Súrnandi eftirmarkaður bílaleigubíla

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ skrifar í Viðskiptablaðið 14. mars sl.:

Þegar neytendur kaupa lausafjármuni með nokkurra ára nýtingu í huga vanda þeir oftast valið. Val milli muna sem standa til boða ræðst að miklu leyti af upplýsingum um eiginleika og ástand sem fyrir liggja þegar kaupin eru gerð. Upplýsinga er jafnan aflað úr fjölmiðlum, á netinu eða með beinum eða óbeinum samskiptum við seljendur og jafnvel aðra neytendur. Traust og trú á viðskiptaumhverfinu og efnahagslegir hvatar hafa jafnframt áhrif á hvernig kaupandi nýtir fyrirliggjandi upplýsingar.

Atferlishagfræðin, sem á rætur sínar að rekja til hagfræði, sálfræði og atferlisgreiningar, skoðar m.a. hvernig kaupendur nýta upplýsingar. Svo nærtækt dæmi sé tekið töldu hagfræðingarnir Akerlof og Schiller að vantraust á kaupsýslufólki og fyrirtækjum í kjölfar bankahruns gæti haft stigmagnandi neikvæðar afleiðingar. Vantraust elur af sér óvissu, óvissan veldur samdrætti í neyslu sem aftur dregur úr neysluvilja neytenda þar sem þeir vilja spara ef enn skyldi harðna á dalnum. Úr verður nokkurskonar „kapphlaup niður á botn“ þar sem neikvæðni elur af sér meiri neikvæði. Í slíku ástandi er hætt við að viðskipti verði stjrál, kostnaðarsöm og óskilvirk.

Í grein Akerlof frá árinu 1970 tekur hann dæmi af markaðnum með notaða bíla. Hann fylgir amerískri málvenju og kallar lélega notaða bíla sítrónur (e. lemons) en góða notaða bíla ferskjur (e.peaches). Akerlof gengur útfrá því að kaupandi viti ekki hvort notaður bíll sem hann hyggst kaupa sé sítróna eða ferskja. Seljandinn, sem hefur hugsanlega notað bílinn í mörg ár, séð um viðhald hans og svo framvegis, býr yfir meiri upplýsingum og getur lagt raunhæft mat á hvað geti talist eðlilegt söluverð. Í hagfræðinni er þá rætt um að upplýsingar séu ósamhverfar. Við þessu geta kaupendur brugðist með ýmsum hætti t.d. með því að fá óháðan aðila til að framkvæma ástandsskoðun áður en kaup eru ákveðin, telji þeir slíka skoðun svara kostnaði.

Sú staða getur komið upp að seljendur notfæri sér markvisst að kaupendur eru lakar upplýstir en þeir og selji, eða reyni að selja, sítrónur sem ferskjur. Geri kaupendur sér grein fyrir að seljendur séu í svikahug ganga þeir útfrá að allir notaðir bílar séu sítrónur og verðleggja þá í samræmi við það.

Þessar vangaveltur Akerlofs um sítrónumarkaðinn í Ameríku virðist eiga við um markað fyrir notaða bíla á Íslandi nú um mundir. Ljóst virðist að átt hafi verið við kílómetramæla bílaleigubíla sem hafa verið seldir á eftirmarkaði. Segja má að undir slíkum kringumstæðum gangi hið sígilda „sítrónu-vandamál“ aftur. „Sítrónan“ er bílaleigubíll sem almennur neytandi hefur eignast að leigunotum loknum. Neytendur eru margir í þeirri stöðu að líkur eru á að þeir eigi bíl sem þeir hafa greitt of mikið fyrir. Seljandinn hefur fallið í freistni, sniðgengið góða viðskiptahætti og notfært sér trúgirni kaupandans í ljósi upplýsinga sem hann einn bjó yfir. Reyndar virðist seljandinn hafa gengið lengra og nýtt tæknina til þess að vekja ranga hugmynd í huga kaupenda um ástand bíla á eftirmarkaði.

Undir þessum kringumstæðum skapast hætta á keðjuverkun í samræmi við forspár Akerlofs. Neytendur taka að draga úr kaupum á notuðum bílaleigubílum og þar sem upplýst hefur verið um hve auðvelt það er fyrir hvern og einn að „falsa“ kílómetrastöðu smitast aðrir notaðir bílar af óvissunni. Bílasalar virðast ekki hafa verið meðvitaðir um háttsemina og þeim því ómögulegt að tryggja gæði söluferlisins eins og til var ætlast.

Óvissan er tekin að magnast. Neytendur geta dregið úr óvissunni með tvennum hætti, annars vegar með því að láta ávallt vinna ítarlegt ástandsmat á bílum fyrir kaup og hins vegar með því að halda að sér höndum. Báðar leiðirnar hafa samfélagslegan kostnað í för með sér auk þess sem gera má ráð fyrir að það hægi á söluhraða bíla. Til að vinna gegn þessum áhrifum gæti ríkisvaldið gripið til aðgerða í formi samræmds og traustvekjandi eftirlits.

Reyndar hefur hið opinbera þegar yfirumsjón með slíku eftirliti. Frá árinu 2009 hafa fólksbílar fyrst sætt aðalskoðun á fjórða ári eftir skráningu, annað hvert ár í tvö næstu skipti, og árlega eftir það. Leigubílar eru hinsvegar ávallt skoðaðir árlega. Yfir stendur innleiðing á Evrópugerð þar sem gert er ráð fyrir að við aðalskoðun beri skoðunaraðilum að yfirfara kílómetramæla bifreiða. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að þeir sem eiga við kílómetramæla ökutækja sæti refsingu.

Sterkar vísbendingar eru um að bílaleigubílar séu eknir álíka mikið á fyrsta einu til einu og hálfu árinu og fólksbílar í eigu einstaklinga eru eknir á fyrstu þremur til fjórum árum eftir nýskráningu. Mikill akstur kemur jafnan niður á ástandi bíla. Vanræksla á viðhaldi bíla kemur jafnan fram við aðalskoðun.

Að mati SVÞ er því eðlilegt að bílaleigubílar sæti árlegri aðalskoðun. Í ljósi þeirrar óvissu sem Procar-málið hefur orsakað, og með hliðsjón af ríkum hagsmunum heiðarlegra seljenda og hrekklausra kaupenda hlýtur annað að teljast bæði óásættanlegt og óréttlætanlegt.