Að lifa af í breyttum heimi verslunar og þjónustu

Að lifa af í breyttum heimi verslunar og þjónustu

Edda Blumenstein skrifar:

Síðasliðin fjögur ár hafa rúmlega 3.000 verslanir lokað í Bretlandi samkvæmt nýlegri könnun Office for National Statistics (október 2018) og bandarískir risar sem eitt sinn voru markaðsleiðtogar hafa einfaldlega þurft að „loka sjoppunni“ – þar með talið keðjurnar Toys‘R US og Sears. Hvað veldur?

Markaðsumhverfið hefur stórbreyst og fyrirtækin gátu einfaldlega ekki aðlagast nýjum veruleika eins og auknum væntingum neytenda, aukinni samkeppni – og Amazon!

Amazon er orðin ein mesta ógn hefðbundinna verslunar- og þjónustufyrirtækja í dag. Fyrirtækið er í stanslausri sókn við að styrkja stöðu sína í bæði núverandi og nýjum vöruflokkum, kynna nýjungar og fara fram úr væntingum viðskiptavina. Amazon er einnig í harðri samkeppni við Google, skv. könnun frá 2017 byrjuðu 52% vöruleita meðal bandarískra neytenda á Amazon í samanburði við 26% á leitarvélum eins og Google (heimild: Raymond James Research, 2017).

Áskoranirnar eru því gríðarlegar, markaðsumhverfið stöðugt að breytast og stóra spurningin er því:

Hvernig geta fyrirtæki lifað af í þessum breytta heimi? Er stafræn innleiðing eina svarið?

Stafræn innleiðing hefur verið mikið í umræðunni og ekki að ástæðulausu. Stafrænar lausnir eru nauðsynlegt skref í átt að nútíma verslun og þjónustu. En stafrænar lausnir leysa ekki allar þær áskoranir sem verslunar- og þjónustufyrirtæki standa frammi fyrir.

Til þess að aðlagast breyttu verslunarumhverfi, lifa af, dafna og ná samkeppnisforskoti þá þurfa fyrirtæki að þróa með sér hæfni í að Skynja, Grípa og Umbreyta (sjá mynd). Fyrsta skrefið snýst um að skynja tækifæri og ógnanir í innra og ytra umhverfi fyrirtækisins, t.d. frá viðskiptavinum, samkeppnisaðilum og samstarfsaðilum. Næsta skref snýst um að grípa réttu tækifærin, með tilliti til væntinga viðskiptavina og getu fyrirtækisins. Að lokum þarf fyrirtækið að geta innleitt breytingarnar. Öll skrefin þurfa því að vera til staðar og vinna saman svo að fyrirtæki nái að umbreytast. Fyrirtæki sem býr t.d. yfir mikilli þekkingu á umhverfinu og veit nákvæmlega hvaða tækifæri það vill grípa mun ekki ná árangri ef það getur ekki innleitt breytingar á borð við nýja verkferla og menningui. Til að ná árangri þurfa þessir þættir ekki eingöngu að vera til staðar heldur einnig í stöðugri notkun.

3 lykilskref_EB

Verslunar- og þjónustufyrirtæki sem tileinka sér ofangreinda þrjá þætti eiga mun meiri möguleika á að ná árangri en þau sem halda uppi hefðbundnum hætti. Umbreyting í átt að nýjum veruleika er því miklu stærra og meira en bara stafræn innleiðing. Stafræn innleiðing er klárlega lykilskref í átt að breyttum veruleika en verkefnin eru mun fleiri og ferlið endar aldrei því tæknin er stöðugt að þróast, væntingar viðskiptavina eru stöðugt að breytast og samkeppnin er stöðugt að aukast.

Í þessu samhengi eru verslunar- og þjónustufyrirtæki að fara úr svokallaðri „Multi Channel“ stefnu og innleiða hjá sér „Omni Channel“ stefnu (sjá mynd). Multi channel stefna leggur megin áherslu á að starfrækja mismunandi tegundir kanalar sem þjóna ýmist tilgangi sölu, auglýsinga eða samskipta t.d. verslun og netverslun, samfélagsmiðlar, hefbundir auglýsingamiðlar og símaver. Omni Channel snýst aftur á móti fyrst og fremst um að mæta væntingum viðskiptavina, hvar, hvenær og hvernig sem þeir vilja eiga samskipti við fyrirtækið. Hlúa þarf að heildarkaupferli viðskiptavina, sem krefst breyttrar hugsunar eigenda, stjórnenda, markaðs- og sölufólks.

Í fyrirlestri hjá SVÞ nk. þriðjudag kl.8.30-10 mun ég fara yfir ítarlega í þessi þrjú lykilskref og hvernig verslunar og þjónustu fyrirtæki geta, með því að tileinka sér þau, innleitt hjá sér Omni Channel hugsun í sölu og markaðssetningu.

3 lykilskref_EB

Höfundur: Edda Blumenstein
Ráðgjafi og Doktorsnemi í Organisational change og Omni channel

Að drepa málum á dreif

Að drepa málum á dreif

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu í dag, 25. janúar:

Í nýliðnum desember voru liðin sjö ár frá því að Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sendu erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þar sem samtökin kvörtuðu formlega undan innleiðingu íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins. Tilefni þessarar kvörtunar var, eins og flestum ætti nú að vera kunnugt, þau höft sem lögð eru á innflutning á fersku kjöti, þar sem gert var ráð fyrir því að allt kjöt skuli vera í frosti í þrjátíu daga, áður en vogandi væri að bjóða það íslenskum neytendum.

Í október sl. fékkst loks endanleg niðurstaða í þessa löngu baráttu SVÞ, þegar Hæstiréttur Íslands kvað upp þann dóm, að umrædd höft á innflutningi á fersku kjöti hafi verið í andstöðu við ákvæði EES-samningsins og þ.a.l. falið í sér samningsbrot af hálfu hérlendra stjórnvalda. Var þessi niðurstaða staðfesting á dómi héraðsdóms í málinu, en jafnframt hafði EFTA dómstóllinn kveðið upp efnislega sambærilegan dóm í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn íslenska ríkinu. Á öllum stigum var tekið undir þær kvartanir sem SVÞ settu fram í upphafi. Framganga íslenska ríkisins í þessum málarekstri öllum er kapítuli út af fyrir sig, en þrátt fyrir að hafa eytt tugum milljóna króna í málsvörn sína, tókst því ekki að sýna fram á nein haldbær rök fyrir umræddum innflutningstakmörkunum. Framganga íslenska ríkisins í málinu getur því ekki kallast annað en hrein sneypuför.

Í umræðunni undanfarnar vikur hafa margir kosið að drepa málinu á dreif og þar með draga athyglina frá því sem er aðalatriði þessa máls, sem er hin skýra og ótvíræða dómsniðurstaða. Umræðan hefur meira snúist um sýklalyfjaónæmi og um matvælaöryggi almennt. Sú umræða á alltaf rétt á sér, óháð umræddri dómsniðurstöðu. Stjórnvöld eiga, ekki frekar en aðrir, annan kost en að virða niðurstöðu dómstóla. Niðurstaðan í þessu dómsmáli er eins skýr og verða má og hljóta viðbrögð stjórnvalda, í formi viðeigandi lagafrumvarpa, að verða lögð fram nú þegar Alþingi kemur saman á ný.

Það er aðalatriði þessa máls.

Hin stóra áskorun

Hin stóra áskorun

Andrés Magnússon skrifar í Kjarnann, 29. desember sl.: 

Fyr­ir­tæki í verslun og þjón­ustu standa nú frammi fyrir meiri og stærri breyt­ingum í öllu rekstr­ar­um­hverfi sínu, en nokkru sinni fyrr. Breytt neyslu­hegðun alda­mó­ta­kyn­slóð­ar­innar (e. X and Y gener­ation) og breytt krafa hennar til þjón­ustu hvers konar mun hafa og hefur raunar þegar haft í för með sér miklar breyt­ingar í verslun og þjón­ustu. Breyt­ingar þessar ger­ast svo hratt að menn mega hafa sig allan við að fylgj­ast með og óhætt er að full­yrða að breyt­ing­arnar munu ger­ast á enn meiri hraða á allra næstu árum. Það er nákvæm­lega ekk­ert sem bendir til ann­ars.

En hvaða breyt­ingar eru handan við horn­ið? Það eru fjöl­mörg stór við­fangs­efni sem fólk í þessum atvinnu­greinum stendur nú frammi fyr­ir. Meðal ann­ars má nefna:

  • Gervi­greind (e. artificical intellegence) er notuð í sífellt meira mæli til að koma til móts við þarfir við­skipta­vina. Hversu hratt og vel geta íslensk fyr­ir­tæki nýtt sér þessa tækni með hag­kvæmum hætti?
  • Neyt­endur nota í auknum mæli radd­leit og radd­stjórn­un­ar­tækni (e. voice-recognition). Nú þegar eru stjórn­völd að vinna að því að tryggja að Íslend­ingar geti notað móð­ur­málið með þess­ari nýju tækni. En hvernig geta íslensk fyr­ir­tæki nýtt sér hana sem best og tryggt að þau séu sam­keppn­is­hæf við risa á borð við Amazon og Goog­le?
  • „Blockchain“ tæknin mun halda áfram að þró­ast. Mun hún verða í auknum mæli nýtt til að rekja ferli vöru frá selj­anda til kaup­anda og hvernig munu íslensk fyr­ir­tæki geta nýtt hana til þess?
  • Verða vél­menni meg­in­hluti vinnu­aflsins í vöru­húsum á allra næstu árum?
  • Verða alþjóð­legir risar á borð við Amazon og Ali­baba alls ráð­andi í við­skiptum á næst­unni? Hlut­deild þeirra er þegar orðin ískyggi­lega mikil að margra mati.
  • Munu versl­un­ar­mið­stöðvar í þeirri mynd sem við nú þekkjum umbreyt­ast eða jafn­vel hverfa?

Allt eru þetta mál sem þegar eru ofar­lega í umræð­unni innan versl­un­ar- og þjón­ustu­geirans í nágranna­löndum okk­ar. Fyrir fyr­ir­tæki í verslun og þjón­ustu á Íslandi er lífs­spurs­mál að vel með þró­un­inni og aðlaga sig að þess­ari nýju tækni og þessum stóru breyt­ingum til að við­halda sam­keppn­is­stöðu sinni.

Allt þetta leiðir okkur svo að því stóra og aðkallandi máli; Hvernig er mennta­kerfið okkar í stakk búið að takast á við þann nýja veru­leika sem við blasir? Þær breyt­ingar sem hér hafa verið gerðar að umræðu­efni munu kalla á breytta hugsun og breytt vinnu­brögð innan mennta­kerf­is­ins svo búa megi starfs­fólk fram­tíð­ar­innar undir nýjan veru­leika. Og mennta­kerfið verður að bregð­ast strax við, ekki eftir tvö ár eða tíu, því tækni­þró­unin í atvinnu­líf­inu geys­ist áfram á ógn­ar­hraða.

Rétt við­brögð mennta­kerf­is­ins við þeim breyt­ingum sem við bla­sa, skipta sköpum um það hvernig íslenskum fyr­ir­tækjum í verslun og þjón­ustu mun reiða af í þeim breytta veru­leika sem við blas­ir. Þarna verða allir að stefna í sömu átt, stjórn­völd, sam­tök atvinnu­rek­enda og sam­tök laun­þega. Þetta er hin stóra áskorun sem við blasir í upp­hafi árs 2019.

Að drepa málum á dreif

Fasteignaskattar í hæstu hæðum

Í dag, 20. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, í Morgunblaðinu:

Tekjur sveitarfélagana af fasteignasköttum hafa aukist gífurlega á undanförnum árum. Nú er svo komið að aldrei í sögunni hafa sveitarfélögin á Íslandi haft jafnmiklar tekjur á hvern íbúa af þessum skattstofni. Að meðaltali greiðir hver Íslendingur 70% meira í fasteignaskatt á árinu 2018 en hann gerði fyrir tuttugu árum. Fasteignaskattarnir eru ekki aðeins háir í sögulegu samhengi, heldur eru þeir einnig mun hærri en í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við. Fasteignaeigendur greiða þessi árin um 1,5% af vergri landsframleiðslu í fasteignaskatta, en það er næstum því tvöfalt hærra hlutfall en meðaltalið í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Flest sveitarfélög með hámarksálagningu

Samkvæmt lögum er hámarksálagning fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði 1,65% af fasteignamati. Langflest sveitarfélögin nýta sér þetta hámark, en eins og staðan er núna er vegin meðalskattprósenta fasteignaskatts einungis 0,02% frá mögulegri hámarksálagningu. Hún hefur farið hækkandi á síðustu árum þar sem fleiri sveitarfélög hafa fært skattprósentuna upp í leyfilegt hámark.

Reykjavík sker sig úr

Þó að flest sveitarfélög nýti sér lagaheimildina til hins ýtrasta, sker Reykjavíkurborg sig úr, þar sem rúmlega helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis á landinu er í höfuðborginni. Reykjavík leggur eins háa fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og lög leyfa. Því rennur meirihluti þeirra skatta sem innheimtir eru á landinu í formi fasteignaskatts til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis

Hin gífurlega hækkun fasteignaskatta undanfarin ár, samhliða mikilli hækkun fasteignamats, hefur þegar haft veruleg áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis til hækkunar. Fasteignaskattarnir hafa mjög íþyngjandi áhrif á rekstur fasteignafélaganna og hafa þar með leitt af sér verulega hækkun á leiguverði atvinnuhúsnæðis. Áhrif þessa eru augljóslega mest í Reykjavík, þar sem stærstur hluti atvinnuhúsnæðisins í landinu er.

Hin aðkallandi spurning er því þessi: Vilja borgaryfirvöld stuðla að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í borginni, með myndarlegri lækkun fasteignaskatta? Ef þau með athöfnum sínum svara spurningunni neitandi, eru borgaryfirvöld að senda þau skilaboð að fyrirtæki skuli frekar hasla sér völl utan höfuðborgarinnar, eigi þau kost á slíku.

Staðreyndavillur Georgs Bjarnfreðarsonar

Staðreyndavillur Georgs Bjarnfreðarsonar

Í dag, 17. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Margréti Sanders stjórnarformann, í Morgunblaðinu:

Traust og trúnaður er hin almenna regla í samskiptum vinnuveitenda og starfsfólks. Það er sem betur fer alger undantekning þegar samskipti þessara aðila eru á hinn veginn. Enda er það ein meginforsendan fyrir farsælum og árangursríkum atvinnurekstri að samskipti vinnuveitandans og starfsfólks hans séu byggð á trúnaði og trausti, þ.e. gagnkvæmri virðingu. Fullyrða má að atvinnurekendur upp til hópa, hvort sem þeir eru starfandi í verslun, þjónustu eða öðrum atvinnugreinum, leggi sig fram um að hafa þessi samskipti á sem bestan veg.

Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa.

Hafa skal það sem sannara reynist en SVÞ hafa á undanförnum árum lagt sig fram við að eiga gott samstarf við VR á sem flestum sviðum. Þetta samstarf á ekki hvað síst að stuðla að bættri starfs- og endurmenntun félagsmanna VR, enda hafa báðir aðilar litið svo á að með því verði hinn almenni starfsmaður búinn undir þær miklu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í verslun og þjónustu á allra næstu árum. Breytt starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja kallar óhjákvæmilega á breyttar kröfur um hæfni starfsfólks.

Við lítum svo á að kröftum SVÞ og VR verði mun betur varið í að vinna í sameiningu við að takast á við þær miklu áskoranir sem eru framundan í stað þess að munnhöggvast um veruleika sem er flestum mjög fjarlægur. SVÞ mun a.m.k. leggja sig fram um að hafa samskiptin á þeim nótum og áfram hvetja sitt fólk til að hlúa vel að starfsfólki sínu og byggja upp gagnkvæmt traust vinnuveitanda og starfsfólks. Það er von SVÞ að VR sjái hag síns fólks að sama skapi betur borgið með því að tryggja slíkan framgang síns fólks í stað þess að mála upp þá hræðilegu mynd af framandi vinnusambandi sem auglýsingar undanfarið hafa teiknað upp.