Hlutfall desemberverslunar minnkar

Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar var jólaverslun í desember síðastliðnum meiri en í sama mánuði árið áður í flestum tegundum verslunar. Þannig var mun meira keypt af raftækjum og húsgögnum fyrir þessi jól en árið áður. Matarinnkaup voru þó með svipuðu sniði og undanfarin ár en velta áfengisverslunar jókst frá fyrra ári um 6,8%.

Þó jólaverslun fari að langmestu leyti fram í desember hefur heildarhlutfall hennar verið að færast fram til nóvember. Líklega hafa útsölur í nóvember síðastliðnum, eins og sú sem kennd er við Black Friday, hvatt neytendur til að ljúka innkaupunum fyrir hátíðarnar fyrr en ella. Þess utan virðist sem jólaverslunin undanfarin ár hafi smám saman verið að dreifast yfir fleiri mánuði ársins og hlutfall jólaverslunar í desember hafi minnkað.

Á meðan velta í flestum tegunda verslana var meiri í desember en í nóvember, er því öfugt farið í byggingavöru- og húsgagnaverslun. Velta í byggingavöruverslun var 19,5% minni í desember en í nóvembermánuði á undan og velta húsgagnaverslunar minnkaði 1,3% á milli þessara mánaða. Fataverslun var hins vegar næstum tvöfalt meiri í desember en í mánuðinum á undan. Ef faraverslun í desember er hins vegar borin saman við sama mánuð fyrir ári sést að velta hennar jókst um 2,8% á milli ára.

Það er líklega tímanna tákn að sala á tölvum fari minnkandi á meðan mikill vöxtur er í sölu snjallsíma. Þannig gegna snjallsímar í vaxandi mæli hlutverki einstaklingstölva. Í desember jókst sala snjallsíma um 35,4% frá desember í fyrra en sala á tölvum dróst saman um 4,9% að nafnvirði á sama tíma.

Smásöluverslun 2015
Þegar horft er yfir veltu í verslun allt árið 2015 í samanburði við árið á undan sést að í veltuhæsta vöruflokknum, dagvöruverslun, var afar lítill munur á milli ára. Veltan jókst að nafnvirði um 1,4% en dróst saman að raunvirði um 0,9%. Öðru máli gegnir um verslun með varanlega neyslumuni eins og raftæki sem sótti mjög í sig veðrið á árinu. Lægra verðlag á þessum vörum virðist hafa hvatt til þess að neytendur endurnýjuðu heimilistækin í auknum mæli. Sala á snjallsímum 2015 jókst um fjórðung frá árinu áður. Árið 2015 var hins vegar ekki hagsælt fyrir fataverslun sem dróst saman um 1,2% frá árinu áður.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 2,4% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og minnkaði um 0,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum minnkaði velta dagvöruverslana í desember um 0,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 2,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í desember 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 6,8% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 8,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í desember um 4,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,1% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 2,8% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,4% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar dróst saman um 3,7% í desember á breytilegu verðlagi og minnkaði um 2,7% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 2,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í desember um 1,0% frá desember í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 13,2% meiri í desember en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 18,9% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 0,1% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í desember um 6,3% á breytilegu verðlagi og um 9,0% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,5% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum minnkaði um 4,9% í desember á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 35,4%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 16,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 18,2% á milli ára. Verð á öllum raftækjum fer lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum 8,4% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan og á litlum raftækjum var verðið 2,6% lægra.

Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson (arni@bifrost.is) og  Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is), forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar í síma 822 1203

Fréttatilkynning RSV.

Erlend kortavelta verslana var 1,6 milljarður í desember

Erlend kortavelta verslana var 1,6 milljarður í desember

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var erlend greiðslukortavelta hér á landi alls 9,4 milljarðar kr. í desember síðastliðnum sem var 2,9 milljörðum kr. hærri upphæð en í sama mánuði fyrir ári eða hækkun sem nemur um 44,5% á milli ára. Ef borin er saman erlend kortavelta desembermánaða síðustu fjögurra ára sést að hún hefur aukist um 133% á tímabilinu
Vörukaup útlendinga í verslunum í desember var kærkomin viðbót við jólaverslun Íslendinga. Erlend kortavelta í verslunum nam alls 1,6 milljarði kr. í mánuðinum. Hæstum upphæðum var varið til kaupa í dagvöruverslunum, 316 millj. kr., og þar næst til fatakaupa (líklega aðallega útivistafatnaður), 309 millj. kr.
Ferðamenn greiddu í desember jafn háa upphæð með kortum sínum fyrir gistingu eins og í verslun,  eða 1,6 milljarð kr.

Þá greiddu ferðamenn rúmlega einn milljarð kr. á veitingahúsum í desember síðastliðnum sem er 55% hærri upphæð en í desember fyrir ári.
Greinilegt er að erlendir ferðamenn hafa verið á ferð og flugi innanlands í desember, því aukning í kortaveltu fyrir farþegaflutninga tvöfaldaðist á milli ára. Þar vega flugferðir þyngst. Erlend kortavelta vegna flugferða nam 1,3 milljarði kr. í desember. Þá greiddu útlendingar 470 millj. kr. fyrir bílaleigubíla í desember sem er 49% hærri upphæð en fyrir ári.

Kortavelta e. útgjaldaliðum 12 2015
Meira en þriðjungsaukning árið 2015
Erlend kortavelta hér á landi allt árið 2015 nam alls 154,4 milljörðum kr. sem er 37,6% hærri upphæð en sambærileg kortavelta 2014. Gisting var stærsti útgjaldaliðurinn, eða 30,7 milljarðar kr. og þar á eftir velta í verslunum sem nam 22,7 milljörðum kr. Að meðaltali greiddi hver erlendur ferðamaður með greiðslukorti sínu hér á landi árið 2015 um 122 þús. kr. sem er 6% hærri upphæð en meðalferðamaðurinn greiddi árið 2014.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í desember greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 133 þús. kr. Það er 9,5% hærri upphæð en meðalferðamaðurinn eyddi  í desember í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam hækkunin um 7,4% á milli ára.
Athyglisvert er að ferðamenn frá Sviss greiddu langhæstu meðalupphæðina í desember, eða 621 þús. kr. á hvern ferðamann. Þá greiddi meðalferðamaðurinn frá Noregi 369 þús. kr.  Í þriðja sæti voru ferðalangar frá Danmörku sem greiddu að meðaltali 234 þús. kr. í mánuðinum.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.

Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson (arni@bifrost.is, GSM 868 4341) og Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is).

www.rsv.is