Skýrslan Íslensk netverslun komin út

Skýrslan Íslensk netverslun komin út

Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur gefið út skýrsluna „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“, en útgáfa skýrslunnar var styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og VR. Höfundur er Emil B. Karlsson.

Skýrslan sem greinist í þrjá kafla og fjallar á greinargóðan hátt um miklu breytingar sem verslun sem atvinnugrein stendur nú frammi fyrir, vegna þeirra stórstígu breytinga sem eru að verða í verslun og verslunarháttum hvar sem er í heiminum.

Í fyrsta kafla skýrslunnar er farið yfir áhrif og afleiðingar stafrænnar tækni á verslun almennt, með sérstakri áherslu á þau áhrif sem líklegt er að slíkt hafi á íslenska verslun. Í öðrum hluta skýrslunnar eru birtar niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskri verslun, þar sem m.a. er birt ítarleg samantekt á umfangi netverslunar hér á landi og netverslunar frá útlöndum, upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Einnig er þar að finna niðurstöður úr viðamikilli skoðanakönnun á netverslunarhegðun Íslendinga. Í þriðja kafla skýrslunnar eru síðan settar fram ályktanir byggðar á þeim rannsóknum sem kynntar eru í skýrslunni.

SVÞ fagna útkomu skýrslunnar, en hún kemur út á hárréttum tíma og er tímabært innlegg í umræðu um stöðu greinarinnar nú þegar hún stendur frammi fyrir meiri og víðtækari breytingum á allra næstu árum, en orðið hafa marga síðustu áratugi. Eru allir hagsmunaaðilar og áhugamenn um íslenska verslun og framtíð hennar hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.

Rannsókn á viðhorfi til íslenskrar verslunar

Rannsóknarfyrirtækið Zenter framkvæmdi nýlega rannsókn á viðhorfi Íslendinga til íslenskrar verslunar. Hér á eftir fylgja lýsing á aðferðarfræði rannsóknarinnar, þær spurningar sem lagðar voru fyrir þátttakendur, ásamt helstu niðurstöðum.

Lýsing á rannsókn
Framkvæmdaraðili: Zenter rannsóknir
Framkvæmdatími 4. til 18. desember 2017.
Aðferð: Netkönnun meðal könnunarhóps Zenter rannsókna, einstaklingar 18 ára og eldri.
Svarfjöldi: 1038 einstaklingar.
Svarhlutfall: 57%

Þátttakendur voru spurðir eftirfarandi spurninga:
„Hversu mikla eða litla þekkingu hefur þú á verslun á Íslandi?“
„Þegar á heildina er litið, hversu jákvæð eða neikvæð er upplifun þín af verslun á Íslandi?“
„Hversu mikið eða lítið traust berð þú til verslunar á Íslandi?“
„Hver af eftirfarandi fullyrðingum endurspeglar best viðhorf þitt til verslunar á Íslandi?“

Niðurstöður rannsóknar um ímynd verslunar á Íslandi
Nýlega framkvæmdi Zenter rannsóknir könnun fyrir Samtök verslunar og þjónustu á ímyndarþáttum er varða verslun á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum könnunar ber meirihluti Íslendinga mikið eða eitthvað traust til verslunar á Íslandi (67%). Niðurstöður sýna einnig að mikill meirihluti Íslendinga telur sig hafa mikla eða einhverja þekkingu á verslun á Íslandi (88%). Þar að auki benda niðurstöður til að flestir hafa jákvæða (40%) eða hvorki jákvæða né neikvæða (38%) upplifun á verslun á Íslandi. Að lokum voru þátttakendur spurðir um viðhorf til verslunar á Íslandi og sögðust 17% tala vel um verslun á Íslandi, 44% voru hlutlausir og 30% tala um hana á gagnrýninn hátt. Um 9% svarenda höfðu ekki sterka skoðun á verslun á Íslandi eða tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Hversu mikla eða litla þekkingu hefur þú á verslun á Íslandi?

Þekking

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar á heildina er litið, hversu jákvæð eða neikvæð er upplifun þín af verslun á Íslandi?Upplifun

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hversu mikið eða lítið traust berð þú til verslunar á Íslandi?

Traust

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hver af eftirfarandi fullyrðingum endurspeglar best viðhorf þitt til verslunar á Íslandi?

Viðhorf

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Könnunin á pdf sniði

Mesta velta en minnsti vöxtur erlendra greiðslukorta í júlí

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 33,2 milljörðum króna í júlí síðastliðnum og hefur aldrei verið hærri. Verulega hefur þó dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu erlendra ferðamanna undanfarin misseri en vöxtur kortaveltu erlendra ferðamanna var 4,7% frá júlí í fyrra. Undanfarna þrjá mánuði hefur kortaveltan vaxið að meðaltali um 5,5% borið saman við sama tímabil í fyrra. Til samanburðar var ársvöxtur tólf mánaða tímabilsins þar á undan 39%.

Mestur vöxtur kortaveltu í júlí var í flokki farþegaflutninga eða 29,5% eða 975 milljónir króna. Standa farþegaflutningar þannig að baki tveimur þriðju hlutum vaxtar erlendrar kortaveltu í mánuðinum. Hluti starfsemi innlendra flugfélaga fer fram erlendis og því óvíst að allur sá veltuvöxtur tengist ferðamönnum sem sækja Ísland heim.

Greiðslukortavelta gististaða jókst um 9,5% í júlí síðastliðnum og nam 6,9 milljörðum króna í mánuðinum, 596 milljónum meira en í sama mánuði 2016. Gistináttatölur Hagstofunnar fyrir júlí hafa ekki verið birtar þegar þetta er skrifað en ef tekið er mið af verðvísitölu gistingar í Vísitölu neysluverðs hækkaði verðlag gististaða um 3,3% og er magnbreytingin því 5,9%.

Erlendir ferðamenn greiddu 3,1% minna í verslun í júlí síðastliðnum borið saman við júlí 2016. Mestur var samdrátturinn í minjagripaverslun en hún minnkaði um 18,3% frá sama mánuði í fyrra. Þá dróst tollfrjáls verslun saman um 7,3% og önnur verslun um 11%. Aukning var í tveimur flokkum verslunar, dagvöruverslun 11% og fataverslun 2%.

Erlend kortavelta veitingastaða nam 3,7 milljörðum í júlí síðastliðum eða um 4,1% meira en í júlí í fyrra. Vöxturinn nemur 147 milljónum króna á milli ára. Greiðslukortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta sem meðal annars inniheldur þjónustu ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir jókst um 4,8% á milli ára og nam 4,6 milljörðum í júlí síðastliðnum. Þá nam greiðslukortavelta bílaleiga ríflega þremur milljörðum í júlí eða 7,6% meira en í júlí í fyrra.

Kortavelta eftir þjóðerniMeðalvelta pr. ferðamann e. þjóðerni 07 2017

Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 122 þús. kr. í júlí, eða um 2% minna en í júní. Það er um 9% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þús. kr. á hvern ferðamann. Bretar eru í öðru sæti með 160 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 141 þús. kr. á mann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Sala á netinu fer vaxandi sem hluti af alþjóðlegri smásölu

Blaðagrein birt undir Skoðun í Viðskiptablaðinu 30.7.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
Í Evrópu eykst netverslun jafnt og þétt og er búist við að sala á netinu muni aukast um 14% á árinu 2017, á meðan sala í hefðbundinni verslun eigi eftir að dragast saman um 1%. Smásala á netinu er því nú þegar að taka umtalsverða markaðshlutdeild frá hefðbundinni smásölu. Myndin að neðan sýnir þróun hlutdeildar af alþjóðlegri smásölu á síðastliðnum árum og spá sérfræðinga um þróunina á næstu árum.

Þróun innlendrar netverslunar er í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum. Til að mynda kemur fram í könnun Gallup að Íslendingar séu meðal þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Ef hlutfall netviðskipta á Norðurlöndunum á síðasta ári er skoðað kemur í ljós að Svíar hafa lægsta hlutfall viðskipta við erlenda netverslun . Sænsk netverslun hefur náð að skapa sér hagstæða stöðu, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals, með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður, s.s. vefsíður fyrir farsíma og einfaldar lausnir hvað varða kaupferlið.

Netverslunin skapar tækifæri
Þegar sala á vöru og þjónustu fer fram á netinu, dregur úr þörf seljanda að byggja upp eigin vörumerki til að skapa traust. Ef vörurnar eru samkvæmt loforðum og greiðsla og afhending samkvæmt samningnum, fær seljandinn góða endurgjöf sem er mikils virði vegna þess að það gefur kaupenda ákveðna ábyrgð gagnvart því að vera blekktur.
Það er þó full ástæða til að gæta varúðar og fylgjast með þróuninni. „First mover advantage“, þ.e., sá sem er fyrstur felur í sér mikinn ávinning. Viðskiptavettvangurinn sem nær til sín fyrstu fylgjendunum skapar forskot gagnvart samkeppnisaðilanum. Það er hægt að rekja til svokallaðs stafræns traust sem að eykst eftir því sem vettvangurinn fær fleiri fylgjendur. Þegar valinn er vettvangur er það oft sá sem er með mesta traustið sem verður fyrir valinu og er jafnframt sá sem er með flesta fylgjendur. Í þessu samhengi getur ákveðin einokunarstaða skapast á markaði. Þá er mikilvægt að undirstrika að engin samstaða er um hvernig regluverk eigi að vera á þeim mörkuðum sem að þessi nýi stafræni vettvangurinn hefur áhrif.

Áhrif betur upplýstra neytenda og netverslunar
Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð- og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir síðan til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem síðar leiðir af sér minni verðbólgu í stað þess að hækka verð. Á þennan hátt er hægt að nýta stafrænu tæknina til að auka virði þeirra vara sem seldar eru í verslunum. Á sama tíma eru verðin sífellt gagnsærri, því viðskiptavinurinn getur betur borið saman við verð annars staðar svo samkeppnin eykst sífellt.

Aukin sjálfvirkni, skilvirkari flutningar og birgðastjórnun
Virðiskeðja í verslun heldur áfram að sjálfvirknivæðast. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuafls. Í báðum tilfellum lækkar kostnaður fyrirtækja sem síðar getur leitt til minni verðbólgu.

Þá mun gervigreind nýtast við sjálfvirka gagnaöflun og mat sem að eykur hagkvæmni og dregur úr viðskiptakostnaði. Fyrirtæki geta þannig veitt einstaklingsþjónustu með hjálp aukinnar gervigreindar, með því að áætla hvað hver viðskiptavinur kýs sér helst.

Lærum af reynslu Svía
Íslensk fyrirtæki verða að tileinka sér hina nýju tækni ef þau ætla að halda viðskiptavinum sínum því aukin netverslun leiðir af sér að viðskiptavinir geta verslað við fyrirtæki hvar sem er í heiminum í krafti aukinnar alþjóðavæðingar. Til að mynda með því að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mjög örar breytingar eru að eiga sér stað og því er nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að nýta sér stafrænu tæknina áður en keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð.

Umfjöllun í Viðskiptablaðinu

Greinin á pdf sniði

Samdráttur í veltu íslenskra dagvöruverslana í júní

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar dróst velta dagvöruverslana saman um 3,6% í júní frá sama mánuði í fyrra. Costco er ekki með í mælingunni heldur aðeins þær verslanir sem voru á markaði fyrir komu verslunarrisans. Costco kaus að veita ekki upplýsingar um veltu sína þegar eftir því var leitað.  Síðastliðin ár hefur vöxtur í veltu dagvöruverslana verið nokkuð stöðugur og er samdrátturinn nú nokkuð úr takti við þá þróun. Líklegt er að Costco hafi klipið af markaðshlutdeild þeirra verslana sem fyrir voru á markaði og það skýri samdráttinn.

Þá er athyglisvert að verð á dagvöru lækkar í hraðari takt undanfarna tvo mánuði en sést hefur um alllangt skeið. Verð á dagvöru var 3,9% lægra í júní síðastliðnum en í júní í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Verðið í júní lækkaði um 1,1% frá mánuðinum á undan. Verðmæling Hagstofunnar nær ekki til verðlags í Costco.
Þó velta dagvöruverslana hafi dregist saman að krónutölu þá jókst hún um 0,3% að raunvirði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum á einu ári. Þetta felur í sér að þótt veltan hafi dregist saman að nafnvirði er magn þess sem selt er nánast það sama og fyrir ári síðan í þeim dagvöruverslunum sem voru á markaði fyrir komu Costco.
Sveiflur í veltu dagvöruverslunar hefur löngum í takt og veltu áfengissölu. Sala áfengis í júní jókst um 7,8% frá sama mánuði í fyrra og er því nokkuð frábrugðin veltu á dagvöru að þessu sinni. Verð á áfengi var óbreytt frá fyrra ári.

Verð á raftækjum, farsímum og tölvum hefur lækkað umtalsvert. Í júní var t.d. verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörpum, hljómflutningstækjum, brauðristum o.fl.) 19,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og á farsímum lækkaði verðið á sama tímabili um 14,1%. Líklegt er að þarna gæti áhrifa frá innkomu Costco, þó aðrir þættir gætu haft áhrif, eins og lægra innkaupsverð frá framleiðendum ásamt styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Tekið skal fram að gæðabreytingar hafa áhrif á verðlagsmælingu Hagstofunnar sem hér er stuðst við.

Fataverslun
Velta fataverslunar á Íslandi heldur áfram að dragast saman og er varla svipur hjá sjón miðað við sölu á fötum fyrir áratug síðan eða fyrir hrun bankanna. Það sem af er þessu ári hefur velta stærstu fataverslana landsins dregist saman enn frekar eins og sést á meðfylgjandi skýringarmynd. Ástæða hins skarpa samdráttar á þessu ári er lokun nokkurra fataverslana og hagræðing sem átt hefur sér stað í fataverslun í byrjun árs. Enn er boðuð fækkun fataverslana. Talið er að fataverslun hafi í auknum mæli færst til útlanda, bæði með auknum ferðalögum landsmanna til annarra landa svo og vegna mikillar aukningar í netverslun með föt frá útlöndum. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní en í sama mánuði í fyrra.

Talnaefni
Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,5% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 0,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í júní saman um 0,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í júní 1,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 7,8% á breytilegu verðlagi í júní miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í júní um 1,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0 lægra í júní síðastliðnum og 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 18,2% í júní miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 16,1% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,5% lægra í júní síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 7,1% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 12,2% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 11,4% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í júní um 4,5% frá júní í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 12,9% meiri í júní en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,4% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 3,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,7% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í júní um 12,2% í júní á breytilegu verðlagi og jókst um 13,7% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum jókst í júní um 29,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 8,2%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 19,9% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 15,3% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV

 

Enn dregur úr vexti kortaveltu ferðamanna

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna í maí síðasliðnum samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1% og hefur ekki verið minni frá því RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er vafalítið sterkt gengi krónunnar.

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%. Dagvöruverslun var eini flokkur verslunar þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra. Meðal annarra flokka kortaveltunnar sem drógust saman frá fyrra ári eru bílaleigur en erlend greiðslukortavelta þeirra var 0,6% lægri í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og var 1,7 milljarðar í maí síðastliðnum.
Kortavelta e. flokkum 05 2017
Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu. Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum.

Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí  síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra.

Gengi og verðlag
Gengi krónunnar hefur styrkst mjög hressilega síðasta árið og var 23% hærra í maí síðastliðnum borið saman við sama mánuð í fyrra ef miðað er við viðskiptavog SÍ. Gengi krónunnar hefur styrkst mis-mikið gagnvart viðskiptagjaldmiðlum á tímabilinu en sem dæmi var krónan 35% sterkari gagnvart sterlingspundi en 20% sterkari gagnvart Bandaríkjadal samanborið við maí í fyrra. Í mars greindi RSV frá því að ofan á þá gengistyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Í maí er verðhækkun frá fyrra ári töluvert hóflegri en þá. Sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 1% í íslenskum krónum frá maí í fyrra, verðlag veitingahúsa um 4% og verð pakkaferða innanlands um 3% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegar bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis.

Kortavelta eftir þjóðerni
Töf verður á birtingu talna Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna og því ekki hægt að birta kortaveltu á mann eftir þjóðerni. Í töflunni hér til hliðar má sjá greiðslukortaveltu eftir helstu þjóðernum í maí síðastliðnum samanborið við maí í fyrra.

kortavelti e. þjóðerni 05 2017Töflunni er raðað eftir breytingu í milljónum króna í dálknum lengst til hægri. Í töflunni sést að mestu munar um auknar tekjur Bandaríkjamanna frá maí í fyrra en kortavelta þeirra jókst um 1,5 milljarð frá fyrra ári eða um 22,5%. Mest minnkar greiðslukortavelta Norðmanna, um 200 mkr. og Kanadabúa, um 194 mkr. frá fyrra ári.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.