Samantekt frá SVÞ – Samkeppnishæfni íslenskrar verslunar

Samantekt

Segja má að verslun standi á tímamótum hvað framtíðina varðar og  því er engin tilviljun hversu áberandi umræða er í samfélaginu um netverslun og önnur málefni verslunar. Verslunin mun breytast meira á næstu 5 árum en hún hefur gert síðustu 50 ár. Í því tilliti má nefna að Svensk Handel, systursamtök SVÞ í Svíþjóð, spá að verslunum í Svíþjóð muni fækka um allt að 5 þúsund til og með árinu 2025 sökum aukinnar samkeppni við netverslanir. Gera má ráð fyrir að nokkur straumhvörf séu að verða í viðhorfi fólks þar sem neytendur eru nú sífellt kröfuharðari; þeir vilja fjölbreytni og að vörurnar séu afhentar með þeim hætti sem best samræmist daglegu lífi þeirra. Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem leiðir til lægri verðbólgu í stað þess að hækka verð.  Alþjóðavæðingin nær ekki síður til verslunarinnar vegna aukinnar samkeppni milli staðbundinna verslana hér á landi þar sem fyrirhugað er að stórir erlendir aðilar komi inn á markaðinn. Þessi aukna samkeppni mun að óbreyttu leysa úr læðingi krafta sem koma samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri sem síðar geta stuðlað að lægra verði til neytenda. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Þróun kaupmáttar launa undanfarin  misseri, fjölgun ferðamanna og afnám tolla og vörugjalda hafa ýtt undir vöxt innlendra verslana. Það er hins vegar margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við.  Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum.

Skýrsluna má nálgast hér.

Minnkandi vöxtur í erlendri kortaveltu

Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hér á landi 16,8 milljörðum króna í febrúar sem er 27,5% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Ferðamenn í febrúar voru 47,3% fleiri en í febrúar í fyrra. Dregið hefur úr vexti kortaveltu á hvern ferðamann og greinilegt að erlendir ferðamenn fara sparlegar með útgjöld sín en áður var. Auk gengisáhrifa, sem orsaka þessa þróun, hafa orðið verðlagshækkanir í krónum talið á gistingu, veitingaþjónustu og pakkaferðum innanlands. Þrátt fyrir minnkandi vöxt geta ferðaþjónustuaðilar enn vel við unað því umtalsverð aukning er í erlendri kortaveltu þegar á heildina er litið.

Ferðamenn draga úr útgjöldum
Meðaltalsaukning erlendrar kortaveltu síðustu tólf mánaða var um 56% og því er 27,5% hækkun í febrúar töluvert undir því meðaltali. Þegar horft er til meðaltals- kortaveltu á hvern Kortavelta e. flokkum 02 2017erlendan ferðamann minnkaði hún um 13,4% frá febrúar í fyrra.
Dæmi um útgjaldalið þar sem kortavelta dróst saman á hvern ferðamann er verslun. Hver ferðamaður varði í febrúar 25% lægri upphæð til kaupa í fataverslun  en fyrir ári síðan. Þar er fyrst og fremst um að ræða íslenskan útivistafatnað. Einu tegundir verslana þar sem aukning var í veltu á hvern erlendan ferðamann voru tollfrjáls verslun og dagvöruverslun. Ætla má að erlendir ferðamenn færi í auknum mæli kaup sín á mat og drykkjarvöru frá veitingahúsum til verslana með hækkandi verðlagi en forðist kaup í dýrari sérvöruverslunum eins og á íslenskum útivistarfatnaði.

Innlend verðhækkun á gistingu og veitingahúsum
Minnkandi kortaveltu á hvern erlendan ferðamann má að mestu rekja til styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Auk gengisþróunar var verð á gistingu 9,5% hærra, í íslenskum krónum, í febrúar miðað við sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Samkvæmt sömu mælingu hækkaði verð á innlendum pakkaferðum um 12,8% á milli ára og verð á veitingahúsum hækkaði um 4,6%. Verð á flugfargjöldum fer hins vegar lækkandi og sem dæmi lækkaði verð á innanlandsflugi um 10,6%.
Heildarvelta útlendinga áfram uppávið
Þrátt fyrir að dregið hafi úr vexti á erlendri kortaveltu hér á landi miðað við þann mikla vöxt sem verið hefur síðustu misseri og hver ferðamaður eyði minna en áður var, geta ferðaþjónustuaðilar vel við unað því fjölgun ferðamanna vegur upp hin óhagstæðu áhrif gengis og verðlags. Ferðamenn greiddu í heildina með kortum sínum í febrúar liðlega þrjá milljarða kr. fyrir gistingu sem er um 36% hærri upphæð en í febrúar í fyrra. Þá nam erlend kortavelta í ýmsa ferðaþjónustu, sem aðallega eru  innlendir ferðaskipuleggjendur, 2,8 milljörðum en það er 24% hækkun frá febrúar í fyrra.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 113 þús. kr. í febrúar, eða um 11,6% minna en í janúarMeðalvelta pr. ferðamann 02 2017. Það er um 13,4% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í febrúar eða 188 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn fylgja fast á eftir og eru í öðru sæti með 186 þús. kr. á hvern ferðamann. Kanadamenn koma þar næst með 170 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

www.rsv.is

Aukin kaupgleði en minni umsvif fataverslunar

Aukinn kaupmáttur og vaxandi væntingar er jafnan ávísun á aukna kaupgleði. Þess sjást meðal annars merki í neyslu á mat og drykk. Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar eykst velta í dagvöruverslunum jafnt og þétt. Í febrúar var velta dagvöruverslana 3% meiri en í sama mánuði í fyrra og að jafnaði hefur velta dagvöruverslana aukist um 6% síðustu 12 mánuði. Þar sem verð á matvælum fer lækkandi er magn þess sem keypt meira en velta í krónum gefur til kynna. Velta áfengisverslunar vex einnig og var 8% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra.
Athygli vekur að í hinum mikla hagvexti, sem að nokkru er drifinn áfram af aukinni neyslu, skuli velta í fataverslun dragast saman. Velta fataverslana var 12,4% minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á þessu tólf mánaða tímabili lækkaði samt verð á fötum um 7,3%.  Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar. Veltutölurnar byggja á upplýsingum frá öllum stærstu verslunarkeðjum, sem selja föt hér á landi. Sumar þeirra hafa lokað hluta af fataverslunum sínum.
Ætla má að hluti skýringar á minnkandi verslun með fatnað sé aukin netverslun frá útlöndum auk þess sem sterkar vísbendingar eru um að landsmenn kaupi stóran hluta fata þegar þeir ferðast til útlanda. Þetta á hins vegar ekki við um skóverslun því hún jókst um 23,7% í febrúar. Verð á skóm í síðasta mánuði var 6,1% lægra en í sama mánuði í fyrra.
Hraður vöxtur er jafnframt í húsgagnaverslun, sem jókst um 13,9% á tólf mánaða tímabili, og byggingavöruverslun, sem jókst um 14,2% frá febrúar í fyrra. Verð á húsgögnum fer lækkandi en verð á byggingavörum hækkaði lítillega í árssamanburði.
Eftir langt tímabil vaxtar í raftækjaverslunum og verslunum með skyldar vörur, virðist sem heldur hafi dragið úr vextinum. Sala á minni raftækjum, svokölluðum brúnum vörum, jókst vissulega um 10,3% í febrúar frá febrúar í fyrra en velta stærri heimilistækja var svipuð og í fyrra.
Greiðslukortavelta heimilanna innanlands var 57,2 milljarðar kr. í febrúar. Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 16,8 milljarðar kr. sem er næstum 30% af innlendu veltunni. Tölur um einstaka útgjaldaliði erlendar kortaveltu hér á landi sýnir að langstærstu upphæðir sem fara til verslana er til kaupa í dagvöruverslunum. Hins vegar virðist sem dragi úr vexti veltu á kaupum útlendinga á útivistarfatnaði, sem e.t.v. má rekja til styrkingar krónunnar að undanförnu. Athygli vekur að debetkortavelta Íslendinga í útlöndum jókst um 54% frá febrúar í fyrra, samkvæmt tölum Seðlabankans.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 8% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í febrúar um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í febrúar síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,4% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 7,3% lægra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 23,7% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 31,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 25% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 6,1% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 13,9% meiri í febrúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 19,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 12,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,8% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 14,2% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 14% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,1% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá minnkaði velta gólfefnaverslana um 1,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í febrúar um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 13,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 10,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 0,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Minni kortavelta á hvern erlendan ferðamann í janúar

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í janúar 17 milljörðum króna samanborið við 12 milljarða í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða tæplega helmings aukningu frá janúar 2016. Þó um töluverða aukningu sé að ræða jókst kortaveltan ekki í sama hlutfalli og fjöldi þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í mánuðinum. 136 þúsund ferðamenn komu til landsins um Leifsstöð í janúar eða 75% fleiri en í sama mánuði í fyrra og var kortavelta á hvern ferðamann því tæplega 15% lægri í janúar síðastliðnum samanborið við janúar í fyrra. Gengi krónunnar hefur styrkst töluvert undanfarið ár en ef sama breyting frá janúar í fyrra er reiknuð í bandaríkjadal dróst kortavelta á hvern ferðamann  einungis saman um tvö prósent. Þá hefur verðlag ferðaþjónustuafurða farið hækkandi undanfarna tólf mánuði en sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 11% frá janúar í fyrra, veitingastaða um 5% og pakkaferða innanlands um 13% mælt í íslenskum krónum. Af þessu má ráða að Íslandsferð í janúar síðastliðnum var töluvert dýrari fyrir erlenda ferðamenn en sambærileg ferð í janúar í fyrra og kann það að útskýra neyslubreytingar að hluta.

Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem inniheldur ýmsar skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa nam rúmum þremur milljörðum í janúar, 44% meira en í janúar í fyrra. Greiðslukortavelta flokksins er jafnan fjörug í byrjun árs enda eru margar skipulagðar ferðir pantaðar og greiddar fyrirfram. Í janúar var þessi útgjaldaliður næst veltuhæstur í tölum um kortaveltu erlendra ferðamanna á eftir farþegaflutninga og velti hærri fjárhæðum en gistiþjónusta sem jafnan vermir annað sætið.

Erlendir ferðamenn greiddu í janúar 57,9% meira fyrir gistiþjónustu með kortum sínum en í sama mánuði í fyrra. Alls nam greiðslukortavelta til gististaða rúmum 2,9 milljörðum í janúar eða ríflega milljarði meira en í sama mánuði í fyrra. Upphæðin nú er ríflega tvöfalt hærri en árið 2015 og þrefalt hærri en árið 2014.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna til bílaleiga jókst um 52,7% frá janúar í fyrra og nam 1,1 milljarði í mánuðinum. Þá nam greiðslukortavelta veitingaþjónustu tæpum einum og hálfum milljarði í janúar og var 56,4% meiri en í janúar 2016.

Í janúar greiddu erlendir aðilar 4,5 milljarða með kortum sínum fyrir flugsamgöngur samanborið við 3,2 milljarða í janúar í fyrra. Er um 43,6% aukningu að ræða á milli ára. Þó ársaukningin nú sé rífleg er hún nokkuð lægri en árshækkun milli sömu mánaða eins og hún hefur birst í tölum RSV undanfarið ár, en á milli áranna 2015 og 2016 jókst velta flokksins 136%. Ekki er ótrúlegt að hluti þeirrar aukningar sem verið hefur á greiðslukortaveltu flokksins undangengna 12 mánuði hafi verið vegna aukinna erlendra umsvifa íslenskra flugfélaga í ársbyrjun 2016.

Erlend greiðslukortavelta í verslunum jókst um 45% í janúar frá sama mánuði í fyrra, eða sem nemur tæpum 1,7 milljarði kr.. Mest jókst veltan í dagvöruverslun og tollfrjálsri verslun, um 80% frá fyrra ári en minnst í annarri verslun, 12,9% og fataverslun 27,1%.Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 128 þús. kr. í janúar, eða um 7% meira en í desember. Það er um 15% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.Meðalvelta pr. ferðamann 01 2017
Ferðamenn frá Kanada greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í janúar eða 227 þús. kr. á hvern ferðamann. Svisslendingar eru í öðru sæti með 213 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

 

Vöxtur í öllum flokkum nema fötum og skóm

Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar fór velta í smásöluverslun í janúar almennt vaxandi líkt og undanfarna mánuði að undanskilinni fata- og skóverslun, sem dróst nokkuð saman frá janúar í fyrra. Verðlag var lægra í öllum vöruflokkum sem mælingin nær til nema áfengi, sem hækkaði þó aðeins um 0,5% frá janúar í fyrra.
Velta í stærsta vöruflokknum, dagvöruverslun, jókst í janúar um 4,3% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra og um 7,5% þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi ásamt daga- og árstíðabundnum þáttum. Verð á dagvöru var 1,3% lægra en tólf mánuðum áður. Þá jókst sala áfengis um 5% í mánuðinum miðað við janúar í fyrra.
Svo virðist sem frekar dauft hafi verið yfir fataútsölum í janúar af veltutölum að ráða. Veltan dróst saman um 12,1% á breytilegu verðlagi. Hafa verður í huga að fataverslunum fækkaði um áramótin og neytendur virðast ekki hafa fært innkaupin til þeirra verslana sem fyrir eru, alla vega ekki enn sem komið er. Verð á fötum var 2,9% lægra en í sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.
Mun meiri verðlækkun var á útsölum með raftæki í janúar og meiri vöxtur í sölutölum. Þannig var verð á svokölluðum brúnum raftækjum 14,5% lægra en fyrir ári síðan. Í þeim flokki eru t.d. sjónvörp, hljómflutningstæki o.fl. Stærri heimilistæki, eða svokölluð hvít raftæki, lækkuðu í verði um 9% á milli ára. Velta í hvítum raftækjum jókst um 23,8% að krónutölu og velta í brúnum raftækjum var óbreytt á milli ára.
Velta byggingavöruverslana jókst um 20,2% frá janúar í fyrra. Þar ræður miklu að byggingaframkvæmdir og viðhald húsnæðis er mikið um þessar mundir auk þess sem veðurfar hefur verið einkar hagstætt til byggingaframkvæmda.

Í janúar var greiðslukortavelta heimilanna hér innanlands 9% meiri en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í janúar var 7,1 milljarður kr. sem er 17,6% hærri upphæð en fyrir ári síðan. Erlendir ferðamenn sem hingað koma hafa vaxandi áhrif á íslenska verslun. Þannig var greiðslukortavelta útlendinga hér á landi 17,4 milljarðar kr. í janúar sem er 49% aukning frá síðasta ári.

Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 7,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í janúar um 15,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í janúar síðastliðnum og 1,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,1% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 9,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,9% lægra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði árið áður.

Velta skóverslunar minnkaði um 3,2% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 1,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í janúar um 2,9% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 11,4% meiri í janúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 22,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 23,8% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 2,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 20,2% í janúar á breytilegu verðlagi og jókst um 20,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 1,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í janúar um 15,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 15,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, var óbreytt á milli ára á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 23,8% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Erlend kortavelta 232 milljarðar 2016

Í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar segir að í desember hafi erlend greiðslukortavelta numið 14,9 milljörðum króna samanborið við 9,4 milljarða í desember 2015. Um er að ræða ríflega 58% aukningu frá sama mánuði árið áður. Allt árið 2016 greiddu erlendir ferðamenn 232 milljarða hérlendis með kortum sínum, meira en helmingi meira en árið 2015 þegar greiðslukortaveltan var 154,4 milljarðar. Nærri lætur að erlend greiðslukortavelta hafi verið fjórðungur heildarveltu greiðslukorta hérlendis árið 2016 en öll velta greiðslukorta á Íslandi á árinu 2016 nam 1.006 milljörðum. Af þeirri upphæð var velta innlendra korta 773 milljarðar og velta erlendra korta 232 milljarðar eins og áður sagði.

Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Mest jókst greiðslukortavelta farþegaflutninga með flugi í desember, um 155,5% frá desember 2015 en velta flokksins nam 3,3 milljörðum í desember síðastliðnum. Hluti greiðslukortaveltu flokksins er tilkominn vegna starfsemi innlendra flugfélaga á erlendri grundu. Sem dæmi um mikinn vöxt í kortaveltu flugfélaga var nam greiðslukortavelta flokksins um 700 milljónum í desember 2014 samanborið við 3,3 milljarða í desember síðastliðnum og hefur því fjórfaldast á tveimur árum.

Greiðslukortavelta gististaða jókst í desember um 61,3% frá fyrra ári og greiddu erlendir ferðamenn 2,6 milljarða fyrir gistingu í mánuðinum samanborið við 1,6 milljarð í desember árið 2015. Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem meðal annars inniheldur starfsemi ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja nam 2,2 milljörðum í desember síðastliðnum og jókst um 46,4% frá sama mánuði árið áður.

Um 1,5 milljarðar fóru um posa veitingastaða í desember eða 49,5% meira en í desember í 2015. Þá jókst velta bílaleiga um 69,1% frá desember í fyrra en greiðslukortavelta bílaleiga nam 794 milljónum í desember síðastliðnum samanborið við 469 milljarða í sama mánuði árið áður.

Greiðslukortavelta í verslun nam tveimur milljörðum í desember og jókst um 25% frá fyrra ári. Líkt og undanfarna mánuði var vöxturinn mestur í flokkum óvaranlegrar neysluvöru líkt og dagvöru 50,5% og tollfrjálsri verslun 52,8% en minni í fataverslun, 13,1% og annarri verslun 1,2%.

Í desember komu 124.780 ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 76% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Alls komu 1.767.726 ferðamenn um Leifsstöð á árinu, 40% fleiri en árið 2015.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 119 þús. kr. í desember, eða um 6% meira en í nóvember. Það er um 3,6% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.Kortavelta pr. ferðamann 12 2016

Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í desember eða 313 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 256 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn og Danir koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.