Þorbjörg Helga vill keyra framtíðina í gang!

Þorbjörg Helga vill keyra framtíðina í gang!

Í tilefni af opinni ráðstefnu SVÞ á morgun, fimmtudaginn 14. mars, var Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Köru connect ehf., í viðtali hjá Heimi og Gulla Í bítinu á Bylgunni í morgun.

Óhætt er að segja að Þorbjörg hafi látið íslenskt atvinnulíf og opinbera geirann heyra það. Benti hún m.a. á skort á starfrænni stefnu fyrir Ísland og sagði okkur ekki vera eins framarlega og við höldum.

Viðtalið má heyra hér.

Ráðstefnan ber yfirskriftina Keyrum framtíðina í gang! og mun Þorbjörg Helga stíga á stokk, en aðalræðumaður er Greg Williams, aðalritstjóri tímaritsins WIRED. Frekari upplýsingar og skráning er hér: https://svth.is/keyrum-framtidina-i-gang/

Margrét Sanders í viðtali í Viðskiptablaðinu

Margrét Sanders í viðtali í Viðskiptablaðinu

Mynd: Haraldur Guðjónsson fyrir Viðskiptablaðið

Í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag, 28. febrúar, birtist veglegt viðtal við fráfarandi formann SVÞ, Margréti Sanders. Sjá má viðtalið í heild sinni í blaðinu en einnig hafa verið birtar greinar úr viðtalinu á vb.is. Hér fyrir neðan finnurðu hlekki í þær:

Verslunin nútímavæðist. Fráfarandi formatður SVÞ er ánægð með árangurinn í tollamálum en hefði viljað lækka launatengdu gjöldin.

Ný verslunarbraut í Verzló. Aukin menntun verslunarfólks og þjónusta er svar við erlendri samkeppni netrisa, að sögn fráfarandi formanns SVÞ.

Margrét Sanders hættir formennsku í SVÞ. Eftir að hafa verið formaður Samtaka verslunar og þjónustu frá árinu 2014 býður Margrét sig ekki fram á aðalfundi 14. mars.

Sveigjanleiki þýðir ekki hringl. Margrét Sanders fráfarandi formaður SVÞ segir aukinn sveigjanleika í vinnutíma starfsfólk jafna fjölskylduábyrgð foreldra.

 

 

Afstaða SVÞ varðandi skoðun bílaleigubifreiða

Afstaða SVÞ varðandi skoðun bílaleigubifreiða

Í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks hefur umræða um að átt hafi verið við kílómetramæla bílaleigubíla verið í hámæli. Að minnsta kosti tvær bílaleigur hafa viðurkennt að hafa stundað slíka háttsemi. Þegar álitsgjafar hafa verið spurðir hvað sé til ráða til að tryggja að slík háttsemi eigi sér ekki stað virðast þeir allir nefna nauðsyn þess að óháðir aðilar yfirfari kílómetrastöðu og kílómetramæla bifreiðanna með reglulegum hætti. Hins vegar hefur menn greint annars vegar á um hvort eftirlitið eigi að vera í höndum skoðunarstöðva ökutækja eða einhverra annarra óskilgreindra aðila, og hins vegar hvert umfang eftirlitsins á að vera.

Afstaða SVÞ er sú að best fari á því að eftirlitið eigi sér stað við aðalskoðun bílaleigubíla og að nauðsynlegt sé að auka tíðni hennar. Frá upphafi árs 2009 hafa fólksbílar farið fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir skráningu, annað hvert ár í tvö næstu skipti, og árlega eftir það. Þetta á við um alla fólksbíla nema leigubíla, sem skoðaðir eru árlega. Sterkar vísbendingar eru hins vegar um að bílaleigubílar séu eknir álíka mikið á fyrsta einu til einu og hálfu árinu og fólksbílar í eigu einstaklinga eru eknir á fyrstu þremur til fjórum árum eftir nýskráningu. Við þetta bætist að nú stendur yfir innleiðing á Evrópugerð þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að við aðalskoðun beri skoðunaraðilum að yfirfara kílómetramæla bifreiða. Þá er kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að beita þá refsingu sem eiga við kílómetramæla ökutækja. SVÞ telja því eðlilegt að bílaleigubílar fái aðalskoðun ár hvert eins og leigubílar.

Fölsun kílómetrastöðu er alvarlegt vandamál á alþjóðavísu. Hingað til hafa Íslendingar hins vegar lítt verið meðvitaðir um tíðni og útbreiðslu slíkrar fölsunar þó Evrópusambandið hafi talið tilefni til að bregðast sérstaklega við. Regluleg bifreiðaskoðun er framkvæmd til að treysta umferðaröryggi. Skilvirknirök mæla með því að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin með því að auka skoðunartíðni bílaleigubíla. Með slíkri aðgerð yrði traust á eftirmarkaði ökutækja endurreist og neytendum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti á eftirmarkaði veitt nauðsynleg vernd gegn því að ökutækið sé í verra ástandi en aldur og staða kílómetramælis gefa til kynna.