03/01/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Mikið hefur verið rætt við okkar fólk í fjölmiðlum í kringum hátíðarnar. Á aðfangadag birtist umfjöllun á mbl.is þar sem rætt var við Margréti Sanders, formann SVÞ, um jólaverslunina og samkeppnishæfni íslenskrar verslunar. Umfjöllunina má sjá hér: https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2018/12/24/islensk_verslun_samkeppnishaef/
03/01/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í samtali við mbl.is á milli jóla og nýárs, sagði Margrét Sanders, formaður SVÞ, að kaupmenn hafi fundið áhrif kjaradeilnanna snemma.
Sjá má umfjöllunina á vef mbl.is hér: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/12/27/finna_fyrir_ahrifum_kjaradeilna/
03/01/2019 | Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon skrifar í Kjarnann, 29. desember sl.:
Fyrirtæki í verslun og þjónustu standa nú frammi fyrir meiri og stærri breytingum í öllu rekstrarumhverfi sínu, en nokkru sinni fyrr. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar (e. X and Y generation) og breytt krafa hennar til þjónustu hvers konar mun hafa og hefur raunar þegar haft í för með sér miklar breytingar í verslun og þjónustu. Breytingar þessar gerast svo hratt að menn mega hafa sig allan við að fylgjast með og óhætt er að fullyrða að breytingarnar munu gerast á enn meiri hraða á allra næstu árum. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til annars.
En hvaða breytingar eru handan við hornið? Það eru fjölmörg stór viðfangsefni sem fólk í þessum atvinnugreinum stendur nú frammi fyrir. Meðal annars má nefna:
- Gervigreind (e. artificical intellegence) er notuð í sífellt meira mæli til að koma til móts við þarfir viðskiptavina. Hversu hratt og vel geta íslensk fyrirtæki nýtt sér þessa tækni með hagkvæmum hætti?
- Neytendur nota í auknum mæli raddleit og raddstjórnunartækni (e. voice-recognition). Nú þegar eru stjórnvöld að vinna að því að tryggja að Íslendingar geti notað móðurmálið með þessari nýju tækni. En hvernig geta íslensk fyrirtæki nýtt sér hana sem best og tryggt að þau séu samkeppnishæf við risa á borð við Amazon og Google?
- „Blockchain“ tæknin mun halda áfram að þróast. Mun hún verða í auknum mæli nýtt til að rekja ferli vöru frá seljanda til kaupanda og hvernig munu íslensk fyrirtæki geta nýtt hana til þess?
- Verða vélmenni meginhluti vinnuaflsins í vöruhúsum á allra næstu árum?
- Verða alþjóðlegir risar á borð við Amazon og Alibaba alls ráðandi í viðskiptum á næstunni? Hlutdeild þeirra er þegar orðin ískyggilega mikil að margra mati.
- Munu verslunarmiðstöðvar í þeirri mynd sem við nú þekkjum umbreytast eða jafnvel hverfa?
Allt eru þetta mál sem þegar eru ofarlega í umræðunni innan verslunar- og þjónustugeirans í nágrannalöndum okkar. Fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu á Íslandi er lífsspursmál að vel með þróuninni og aðlaga sig að þessari nýju tækni og þessum stóru breytingum til að viðhalda samkeppnisstöðu sinni.
Allt þetta leiðir okkur svo að því stóra og aðkallandi máli; Hvernig er menntakerfið okkar í stakk búið að takast á við þann nýja veruleika sem við blasir? Þær breytingar sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni munu kalla á breytta hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika. Og menntakerfið verður að bregðast strax við, ekki eftir tvö ár eða tíu, því tækniþróunin í atvinnulífinu geysist áfram á ógnarhraða.
Rétt viðbrögð menntakerfisins við þeim breytingum sem við blasa, skipta sköpum um það hvernig íslenskum fyrirtækjum í verslun og þjónustu mun reiða af í þeim breytta veruleika sem við blasir. Þarna verða allir að stefna í sömu átt, stjórnvöld, samtök atvinnurekenda og samtök launþega. Þetta er hin stóra áskorun sem við blasir í upphafi árs 2019.
20/12/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Í dag, 20. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, í Morgunblaðinu:
Tekjur sveitarfélagana af fasteignasköttum hafa aukist gífurlega á undanförnum árum. Nú er svo komið að aldrei í sögunni hafa sveitarfélögin á Íslandi haft jafnmiklar tekjur á hvern íbúa af þessum skattstofni. Að meðaltali greiðir hver Íslendingur 70% meira í fasteignaskatt á árinu 2018 en hann gerði fyrir tuttugu árum. Fasteignaskattarnir eru ekki aðeins háir í sögulegu samhengi, heldur eru þeir einnig mun hærri en í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við. Fasteignaeigendur greiða þessi árin um 1,5% af vergri landsframleiðslu í fasteignaskatta, en það er næstum því tvöfalt hærra hlutfall en meðaltalið í hinum ríkjum Norðurlandanna.
Flest sveitarfélög með hámarksálagningu
Samkvæmt lögum er hámarksálagning fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði 1,65% af fasteignamati. Langflest sveitarfélögin nýta sér þetta hámark, en eins og staðan er núna er vegin meðalskattprósenta fasteignaskatts einungis 0,02% frá mögulegri hámarksálagningu. Hún hefur farið hækkandi á síðustu árum þar sem fleiri sveitarfélög hafa fært skattprósentuna upp í leyfilegt hámark.
Reykjavík sker sig úr
Þó að flest sveitarfélög nýti sér lagaheimildina til hins ýtrasta, sker Reykjavíkurborg sig úr, þar sem rúmlega helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis á landinu er í höfuðborginni. Reykjavík leggur eins háa fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og lög leyfa. Því rennur meirihluti þeirra skatta sem innheimtir eru á landinu í formi fasteignaskatts til borgarsjóðs Reykjavíkur.
Áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis
Hin gífurlega hækkun fasteignaskatta undanfarin ár, samhliða mikilli hækkun fasteignamats, hefur þegar haft veruleg áhrif á leiguverð atvinnuhúsnæðis til hækkunar. Fasteignaskattarnir hafa mjög íþyngjandi áhrif á rekstur fasteignafélaganna og hafa þar með leitt af sér verulega hækkun á leiguverði atvinnuhúsnæðis. Áhrif þessa eru augljóslega mest í Reykjavík, þar sem stærstur hluti atvinnuhúsnæðisins í landinu er.
Hin aðkallandi spurning er því þessi: Vilja borgaryfirvöld stuðla að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í borginni, með myndarlegri lækkun fasteignaskatta? Ef þau með athöfnum sínum svara spurningunni neitandi, eru borgaryfirvöld að senda þau skilaboð að fyrirtæki skuli frekar hasla sér völl utan höfuðborgarinnar, eigi þau kost á slíku.
18/12/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Margrét Sanders, stjórnaformaður SVÞ, var í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, 18. desember þar sem hún ræddi um auglýsingar VR með Georg Bjarnfreðarson í aðalhlutverki.
Margrét segir að í auglýsingunni séu atvinnurekendur teiknaðir upp sem vonda fólkið. „Að atvinnurekendur ætli sér að fara illa fólk, að þeim þyki ekki vænt um fólkið sitt, að atvinnurekendur vilji græða sem mest og henda fólkinu út í hafsauga, þarna fara menn of langt og það er það sem okkar fólk er bara mjög reitt yfir.“
Margrét segir að það myndi eitthvað heyrast í VR ef Samtök verslunar og þjónustu færu að tala um að starfsmenn væru að stela úr verslunum. „Við erum að tala um glæpastarfsemi.“
Viðtalið í heild sinni má heyra á vef Rásar 2 hér.
18/12/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ var í viðtali í beinni í kvöldfréttum RÚV, mánudagskvöldið 17. desember. Í viðtalinu ræðir Andrés meðal annars aukningu jólaverslunar í nóvember og verslun ferðamanna í miðbænum.
Viðtalið má sjá á vef RÚV hér.