23/10/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í opnuviðtali í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 18. október sl. segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ eðli smásölu vera að breytast. Samkeppniseftirlitið taki ekki nægt tillit til alþjóðlegs eðlis smásölumarkaðar og verði að fara að horfa víðar á málin. Netverslun sé það sem koma skal. Umfjöllun má sjá á vef Viðskiptablaðsins hér og í tölublaðinu frá 18. október.
Mynd: Haraldur Guðjónsson fyrir Viðskiptablaðið
22/10/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í opnuviðtali í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 18. október sl. vakti Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ athygli á því að kerfið sé of seint að bregðast við breyttum aðstæðum. Þetta hafi alvarleg áhrif á atvinnulífið. Umfjöllun má sjá á vef Viðskiptablaðsins hér og tölublaðinu frá því 18. okt.
Mynd: Haraldur Guðjónsson fyrir Viðskiptablaðið
24/09/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. september:
Eins og öllum er kunnugt eykst netverslun hröðum skrefum hvar sem er í heiminum, en þessari þróun er afar vel lýst í nýútkominni skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem ber heitið „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“.
Þó að netverslun hafi þróast hægar hér á landi en víða í nágrannalöndum okkar, eykst hún nú með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Jafnframt eykst hin alþjóðlega samkeppni á þessum markaði.
Póstsendingar frá þróunarríkjum
Því fer fjarri að hin alþjóðlega samkeppni í netverslun fari fram við jöfn samkeppnisskilyrði.
Á grundvelli áratugagamals alþjóðasamnings (Universal Postal Union), sem á rætur sínar að rekja allt aftur á 19. öld og Ísland er aðili að, ber póstþjónustufyrirtækjum í þróuðum ríkjum að greiða 70-80% af kostnaði við póstsendingar sem þangað berast frá ríkjum sem flokkast sem þróunarríki. Þróunarríki greiða aðeins 20-30% af þessum kostnaði.
Fyrir mörg þróunarríki hefur þessi samningur reynst vel við að koma framleiðsluvörum þessara ríkja inn á alþjóðlega markaði.
Kína er skilgreint sem þróunarríki
Svo undarlega sem það kann að hljóma flokkast Kína sem þróunarríki eftir skilningi þessa gamla samnings. Þetta þýðir á mannamáli að stór hluti kostnaðar af þeim póstsendingum sem koma hingað til lands frá Kína er í raun niðurgreiddur af íslenskum neytendum. Íslandspósti, sem er opinbert hlutafélag og í 100% eigu íslenska ríkisins, ber skylda til að dreifa öllu því mikla magni póstsendinga sem berast hingað til lands með þessum hætti, og með þeim skilmálum sem fyrr var lýst.
Því fer fjarri að þessi staða sé bundin við Ísland. Í nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlantsála, sætir þetta kerfi sífellt meiri gagnrýni. Til Danmerkur, svo dæmi sé tekið, berast á hverjum degi um 40.000 póstsendingar frá Kína. Verslun á Norðurlöndum finnur mjög fyrir þeirri ósanngjörnu samkeppni sem þarna birtist og opinber póstþjónusta í þessum löndum er að sligast undan því álagi og þeim kostnaði sem þessu fylgir.
Samkeppnisstaðan
Innlend verslun (bæði hefðbundin og netverslun) stendur augljóslega höllum fæti gagnvart þessari ójöfnu samkeppni. Ekki nóg með að sendingarkostnaðurinn sé niðurgreiddur, heldur bendir allt til að stór hluti þess varnings sem kemur til landsins með þessum hætti komi án þess að greiddur sé af honum virðisaukaskattur. Að sama skapi er í einstökum tilvikum um að ræða sendingar á vörum sem brjóta gegn hugverka- og hönnunarvernd, þ.e. falsaðar vörur eða vörur sem ekki hafa verið framleiddar í samræmi við viðurkennda öryggisstaðla.
Þetta er staða sem ekki er hægt að una við lengur enda ljóst að samkeppni þrífst ekki við slíkar aðstæður. Aðstæður þar sem framleiðsla í Kína er niðurgreidd af íslenska ríkinu sem og öðrum ríkjum í hinum vestræna heimi. Netverslanir hér á landi og í nágrannalöndum okkar munu ekki geta keppt við stór ríki sem njóta slíkrar forgjafar og að sama skapi mun kostnaður póstrekenda vegna þessa falla á innlenda neytendur. Hér verða stjórnvöld einfaldlega að spyrna við fótum.
25/07/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Frosin stjórnsýsla
Birt á visir.is 19.07.2018
Fyrir sjö árum sendu SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem samtökin tóku af skarið og kvörtuðu undan innleiðingu hérlendra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES samningsins. Var þannig í pottinn búið, og er enn, að íslenska ríkið hefur sett höft á innflutning á fersku kjöti og skal allt slíkt kjöt fryst áður en það kemur inn á borð íslenskra neytenda. Sem afleiðing þessa er íslenskum neytendum gert að velja á milli innlendrar framleiðslu, fersk eða frosin, og þíddu erlendu kjöti. Er óumdeilt að slík samkeppni er verulega einsleit og vali neytenda gefið langt nef enda felur frystiskylda á kjöti í sér verulega eftirgjöf á gæðum.Á síðastliðnu ári kvað EFTA dómstóllinn upp hin rökrétta dóm að hérlend frystiskylda fæli í sér ótvírætt brot gegn EES skuldbindingum íslenska ríkisins. var dómurinn í fullu samræmi við röksemdir SVÞ í kvörtun sinni til ESA. Þrátt fyrir veruleg fjárútlát í vörn sinni tókst íslenska ríkinu ekki að sýna fram á nein rök fyrir umræddum innflutningshöftum. Á góðri og kjarnyrti íslensku kallaðist þessi sneypuför stjórnvalda fyrir dómstólnum heimaskítsmát hvað varðar grundvöll fyrir þessum höftum á starfsumhverfi verslana og valfrelsi neytenda.
Þrátt fyrir ljúf loforð stjórnvalda gagnvart ESA um að bæta úr þessum ágöllum og aflétta umræddum höftum hafa stjórnvöld enn ekki gripið til slíkra aðgerða átta mánuðum frá því að dómur féll í málinu. Í átta mánuði hafa stjórnvöld verið meðvituð um eigin sök án þess að hafa sýnt vilja í verki til að bæta hér úr. Er svo komið að ekki eingöngu þolinmæði neytenda og verslana er á þrotum heldur einnig þolinmæði ESA. Hefur stofnunin nú gefið stjórnvöldum þrjá mánuði til þess að svara fyrir það hvers vegna ekki hafi verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að framfylgja dómi EFTA dómstólsins um innflutningstakmarkanir sem féll í nóvember í síðasta ári.
Nú dugar ekkert fyrir hérlend stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus og krossleggja fingur um að þetta reddist heldur þarf að bretta upp ermar og ráðast í þær breytingar sem gera þarf til að uppfylla skyldur ríkisins. Sofandaháttur stjórnvalda í þessu máli má ekki viðgangast mikið lengur og er það skýr krafa verslunar og neytenda að stjórnvöld virði þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist, hvort sem það eru samningar eða dómar.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
13/04/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.
Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.
Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.
Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.
28/03/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28.03.18.
Á Íslandi jafnt sem annars staðar vex netverslun nú hröðum skrefum. Sífellt stærri hópur neytenda kýs að haga viðskiptum sínum með þessum hætti, ekki síst yngra fólkið, s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials eða Generation Y). Þessi þróun mun ekkert gera nema halda áfram á næstunni, aðeins á mun meiri hraða en hingað til.
Nýjar áskoranir fyrir alla
Breytingar sem þessar hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki. Samkeppnin tekur á sig nýjar myndir, en í netverslun er samkeppnin fyrst og fremst alþjóðleg og þannig þvert á landamæri ríkja. Þó að samkeppnin sé alþjóðleg er engu að síður mikilvægt að allir aðilar á markaði, standi jafnt að vígi, hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum. Þessar breytingar hafa nefnilega ekki aðeins í för með sér áskoranir fyrir fyrirtækin sem keppa á þessum markaði. Áskorunin er ekki síðri fyrir tollayfirvöld, en þeim ber að tryggja að greidd séu lögboðin gjöld af viðskiptum sem fara fram með þessum hætti og þannig stuðla að heilbrigðri samkeppni hvað innheimtu gjalda varðar.
Netverslun eykst hröðum skrefum
Á sl. ári voru um 550.000 sendingar til einstaklinga sem keypt höfðu vöru í netviðskiptum tollafgreiddar hér á landi. Var þar um 60% aukningu að ræða frá árinu 2016 og óhætt er að fullyrða að þessi tala fer hækkandi með hverju ári. Samkvæmt lögum eru eingöngu sendingar sem eru annað hvort gjafir eða þar sem verðmæti innihaldsins er 2.000 kónur eða minna undanþegnar virðisaukaskatti. Eins og staðan er núna má fullyrða að stór hluti sendinga komi til landsins án þess að greidd séu af þeim lögboðin opinber gjöld, fyrst og fremst virðisaukaskattur. Ríkissjóður verður þar með af verulegum skatttekjum, sem miðað við umfangið hljóta að nema hundruðum milljóna króna. Þess utan er póstþjónusta í Kína, þaðan sem stærstur hluti þessara sendinga kemur, niðurgreidd af stjórnvöldum þar í landi sem augljóslega vegur þungt í alþjóðlegri samkeppni.
Allir sitji við sama borð
Eins og öllum má ljóst vera er samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar mjög þröng við þær aðstæður sem hér er lýst, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Aftur á móti er samkeppni mikilvægur hlekkur í að efla innlenda starfsemi og stuðla að framþróun á þeim mörkuðum þar sem samkeppni ríkir. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að aðilar sitji við sama borð er viðkemur opinberum kröfum og samspil við leikreglur á samkeppnismarkaði. Því er krafan vegna netviðskipta einfaldlega sú að tryggt verði að greiddur verði virðisaukaskattur af öllum vörum sem keyptar eru í formi netviðskipta til landsins, nema af þeim vörum sem óumdeilanlega eru undanþegnar skattskyldu. Þar sem hér fara saman hagsmunir hins opinbera og hagsmunir íslenskrar verslunar, er þetta svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það.