Brotalamir í burðarvirki matvælaeftirlits

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.5.2017
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

Hver gætir varðmannanna?
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkur hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.

Í báðum þessum málum brást MAST þeim skyldum sem á stofnunina eru lagðar, annars vegar með þögn sinni um ófullnægjandi aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og hins vegar með gildishlöðnum yfirlýsingum um tiltekna matvælaframleiðslu. Málin eru til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um starfshætti MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda og því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Blaðagreinin á pdf sniði.

Örnámskeið fyrir flóttafólk um íslenska verslun og þjónustu

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 24.5.2017
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi standa fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.

,,Atvinnulífið vill leggja sitt af mörkum til þess að hvetja þennan hóp til þátttöku í íslensku atvinnulífi. Hæsta hlutfall á íslenskum vinnumarkaði vinnur við verslun og þjónustustörf sem jafnframt er oft fyrsti viðkomustaður fólks sem er taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu._8100057

Samstarfið hófst í morgun, miðvikudaginn 24. maí, með örnámskeiði þar sem farið var yfir ferlið frá uppbyggingu ferilsskrár og þar til hafin eru störf á vinnustað. Hvernig getur þessi hópur sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri eru í boði, hvernig er íslensk vinnustaðamenning og hvernig gengur þessum hópi almennt.  Mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi og Hagvangi verða með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins koma með innlegg. Í undirbúningi eru heimsóknir til fyrirtækja og t.a.m. hefur Eimskip boðist til að bjóða í heimsókn og kynna vinnustaðinn og fara yfir praktísk atriði.

,,Við fögnum þessu framtaki enda mjög mikilvægt að við hlúum vel að þessum hópi og hjálpum þeim að komast inn í íslenskt samfélag og þar gegnir þátttaka á vinnumakaði mikilvægu hlutverki. Það er mikilvægt að læra líka um hluti eins og vinnustaðamenningu sem skiptir afar miklu máli en getur verið erfitt að átta sig á þegar maður er nýkominn til nýs lands með annarri menningu“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

,,Að óbreyttu er líklegra að skortur verði á vinnuafli á Íslandi og að sama skapi tekur tíma að þjálfa og mennta nýtt starfsfólk, ekki síst til að hæfileikar og menntun hvers og eins nýtist. Að auki fáum við nýja þekkingu og fjölbreyttari reynslu inn í landið.“ segir Andrés að lokum.

Nánari upplýsingar gefa:

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.  andres@svth.is / 820-4500
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi. brynhildur@redcross.is /699-4627

Fréttatilkynning á pdf sniði.

 

 

SVTH-logo-NYTT_03 - 2010Rauði krossinn lógó

Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári 

Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 24.5.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í meira en þrjú ár. Skýrist það m.a. af hækkandi gengi krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Íslandi er bæði stór innflytjandi og útflytjandi af hrávörum og því hafa verðsveiflur á erlendum hrávörumörkuðum töluverð áhrif hér á landi. Í því ljósi er áhugavert að skoða þróun og horfur á hrávörumarkaði.

Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014, tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016. Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári sem skýrist af sterkari vexti, væntinga um kröftugri eftirspurn í heimsbúskapnum auk samþykktra takmarkana á olíuframboði.

Verðvísitala matvæla og drykkja hefur lækkað á árinu
Sé verðvísitala Alþjóðabankans fyrir matvæli (mæld í Bandaríkjadölum) skoðuð sést að vísitalan hefur lækkað um 4,6% frá janúar til apríl 2017. Verðvísitala Alþjóðbankans fyrir drykki (mæld í Bandaríkjadölum) hefur einnig lækkað frá byrjun árs, eða um 5,4%.

Í þessu samhengi mætti nefna að matur og drykkur námu um 10% af heildarinnflutningi til Íslands árið 2015. Því er ljóst að samspil styrkingar krónunnar ásamt hagstæðum ytri áhrifum hefur komið sér vel fyrir neytendur. Innlendur launakostnaður hefur hækkað verulega sem hefur áhrif á söluverð vegna hærri kostnaðar í innlendri matvælaframleiðslu. Þó er vert að hafa í huga að tæplega 40% matarútgjalda íslenskra heimila eru vegna vörutegunda sem njóta tollverndar. Háir tollar gera innlendum framleiðendum kleift að halda verði hærra en nemur heimsmarkaðsverði á sambærilegum vörum.

Heimsmarkaðsverð á olíu stöðugt
Olíuverð hefur hækkað í kjölfar ákvörðunar OPEC – ríkjanna um að takmarka framleiðslumagn. Þrátt fyrir framleiðslutakmarkanir OPEC, hefur fatið af olíu farið hæst í 56 dollara á þessu ári. Það sem hefur haft dempandi verðáhrif á markaðinn er; aukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu, aukning í olíubirgðum í Bandaríkjunum, aukin olíuframleiðsla í Líbýu á undanförnum vikum og tortryggni gagnvart áhrifum takmarkana OPEC á olíuframleiðslu. Aftur á móti hefur Rússland náð samkomulagi við Saudi Arabíu um að framlengja framleiðslutakmörkunina til mars á næsta ári.

Samspil orkuverðs og matarverðs
Orkuverð hefur aðallega áhrif á matvöruverð í gegnum tvær leiðir. Í fyrsta lagi er eldsneyti lykilkostnaður í framleiðslu og flutningi matvæla. Orkunotkun er meira en 10% af kostnaði við landbúnaðarframleiðslu. Í öðru lagi hafa breytingar á orkuverði áhrif á hvata í viðskiptum og stuðning við lífeldsneyti, sem er að hluta til knúið áfram af markmiði um að vera óháðari innflutningi af hrávöruolíu.

Til lengri tíma mun ný tækni draga úr eftirspurn eftir olíu
Stór hluti af olíunotkun í heiminum tengist flutninga- og fólksbifreiðum. Sú tæknibylting, sem nú á sér stað með þróun rafmagnsbíla, sjálf-aksturs bílum, minni og sjálfkeyrandi hópbifreiðum, mun hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu. Hið sama á við um þrívíddarprentun, sem mun spara sendingar- og geymslukostnað.

Eins og nefnt var hér að ofan er ljóst að áhrif hækkandi gengis og lækkandi alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hefur stuðlað að því að verðbólgan hefur haldist lág, enn sú þróun kann að snúast við taki áhrifin þeirra að fjara út.

Alþjóðabankinn spáir því að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar á olíumarkaði og verð á hráolíu hækki og verði að meðaltali 55 dollara fatið á þessu ári. Þá spáir Alþjóðabankinn því að verð á matvælum eigi eftir að hækka fram til 2020.

Blaðagreinin á pdf sniði.

 

 

 

 

Stafrænn veruleiki – fjórða iðnbyltingin

Grein birt í Vísbendingu 11. maí 2017
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Þær breytingar sem allar atvinnugreinar, ekki hvað síst verslun og þjónusta standa nú frammi fyrir, eru meiri og róttækari en nokkur dæmi eru um. Breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum, gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Hér skiptir ekki máli hvað atvinngreinin heitir, áhrifanna mun gæta á öllum sviðum atvinnulífsins.

Hraðar og sögulegar framfarir
„Í dag stöndum við á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar“ var nýlega haft eftir Klaus Schwab, stofnanda Alþjóða efnahagsþingsins (World Economic Forum). Þessi bylting lýsir sér í hröðum og sögulegum framförum á ólíkum sviðum, eins og erfðavísindum, gervigreind, örtækni og líftækni. Allar þessar ótrúlegu breytingar eru síðan að leggja grunninn að altækari byltingu en við höfum áður séð sem mun gjörbreyta atvinnulífi og vinnumarkaðnum öllum á aðeins örfáum árum.

Ögrandi verkefni framundan
Það eru því ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir.Vinnumarkaðinn mun óhjákvæmilega að þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum. Það má hins vegar gefa sér að ákveðið þjóðfélagslegt umrót verði þegar slík umbreyting á sér stað. Slíkt hefur alltaf gerst við slíkar aðstæður. Spurningin er einungis hversu víðtækt þetta umrót verður. Tvö dæmi úr fortíðinni: Í upphafi 20. aldar störfuðu 40% vinnafls í Bandaríkjunum í landbúnaði, nú starfa 2% vinnuafls þar í landi í greininni. Þegar hraðbankar voru hins vegar kynntir til sögunnar á sjötta áratug liðinnar aldar, áttu flestir von á dagar bankagjaldkera væru taldir. Þeim hefur reyndar fjölgað síðan þá.

Helmingur starfa sjálfvirk árið 2055
Samkvæmt nýrri skýrslu frá McKinsey Global Institue mun næstum helmingur af öllu störfum verða sjálfvirk árið 2055. Hins vegar geta ýmis atriði haft áhrif á þessa þróun, t.a.m. geta stjórnmálamenn og almenningsviðhorf gagnvart nýrri tækni, seinkað innleiðingu hennar um 20 ár. Skýrslan bendir til þess að hreyfingin í átt að sjálfvirkni leiði til þess að framleiðni muni aukast í heimsbúskapnum. Samkvæmt líkani þeirra getur framleiðni á alþjóðavísu aukist um 0,8 til 1,4 prósent á ári. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur einnig átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuaflsins.
Ein af afleiðingunum af þessu er t.a.m. að störf í verslunargeiranum munu breytast, minna verður í boði af störfum þar sem lítillar menntun er krafist, en meiri þörf verður á fólki með bæði góða félagslega- og tæknilega færni, svo það geti leiðbeint viðskiptavinunum í gegnum möguleikana sem tæknin býður upp á.

Aðlaga þarf virðiskeðjuna
Verslunin er sannarlega ein þeirra atvinnugreina sem verða að aðlaga virðiskeðju sína að þessum breytta veruleika. Verslunarfyrirtæki verða að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mikilvægasta eign hvers fyrirtækis verður því gagnagrunnurinn yfir viðskiptavinina, en með því móti geta fyrirtæki veitt einstaklingsþjónustu með hjálp gervigreindar og þar með áætlað hvað hver viðskiptavinur er helst að leita eftir. Í þessu sambandi mætti nefna að fyrirtæki geta t.d. samtvinnað gervigreindartækni við sýndarveruleikabúnað sem settur yrði upp í veslunum til að geta gefið notandanum tækifæri til að átta sig betur á vörunni og hvernig hún myndi nýtast honum.

Óvissa um áhrif tækniþróunar
Eins og rakið er hér að ofan er töluverð óvissa um áhrif tækniþróunar á vinnumarkaðinn. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem munu opnast. Hætta er þó á að hinir hefðbundnu mælikvarðar dugi skammt til að meta þessar veigamiklu breytingar. Hið raunverulega verðmat á fjórðu iðnbyltingunni hefur ekki farið fram. Í þessu sambandi má nefna að hefðbundnir mælikvarðar á framleiðni mæla ekki aukinn ábata neytenda af nýrri tækni, þ.e. tækninni við að hámarka nýtingu frítíma viðskiptavina sinna sem mælikvarðarnir hafa hingað til ekki tekið tillit til. Sem dæmi um þennan falda ábata, þá er hagur neytenda af því að nýta sér netbankaþjónustu til að mynda mun meiri en kostnaðurinn sem bankarnir rukka fyrir þjónustuna, en þessi hagur er alla jafna ekki mældur.
Fjórða iðnbyltingin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun, en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.

Vísbending 17. tbl. 2017

Hátt vaxtastig dregur úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 23.3.2017

„Þrátt fyrir batnandi umhverfi er snýr að tollum og vörugjöldum þá eru vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf. Ef horft er til OECD og BRIC ríkja þá eru raunvextir á Íslandi einna hæstir, svipar til vaxtastigs í Rússlandi – er það landið sem við viljum bera okkur saman við?,“ þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders, formanns Samtaka verslunar og þjónustu á ársfundi samtakanna sem haldinn var í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Margrét sagði ennfremur að samkeppnin hafi aldrei verið jafn mikil, á sama tíma og verslun er að aukast þá er samkeppnin orðin harðari. „Þjónustufyrirtæki og verslunareigendur verða að varða veginn til að efla samkeppnishæfni sína og mæta þörfum nýrrar kynslóðar sem kýs að versla á netinu.“ Á fundinum var kynnt ný greining Hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar og þjónustu í tengslum við ársfund SVÞ. Þar kemur meðal annars fram að einkaneysla hafi aukist í takti við aukinn kaupmátt og að það stefni í lengsta vaxtarskeið einkaneyslu hér á landi. Í greiningu bankans kemur fram að hagvöxturinn sé ekki knúinn áfram af óhóflegri skuldsetningu heldur sýna tölur það að skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið lækkandi undanfarin ár. Álagning í smásölu hefur lítið breyst undanfarin ár en fer lækkandi í heildverslun.

Aðrir framsögumenn á fundinum voru ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kobrún R. Gylfadóttir, Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur og Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Fundarstjóri var Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra talaði um í sínu ávarpi að almennt sé ekki talið að net- og tæknibyltingin ryðji hefðbundnum verslunum alfarið úr vegi heldur muni „stafræn verslun“ og hefðbundin verslun frekar renna saman og nýta kosti hvorrar annarrar. Hún sagði ennfremur að Íslendingar þyrftu að gera sér grein fyrir þessum breytingum og taka þátt í þróuninni með því að laga sína starfsemi sem mest að nýjum og síbreytilegum þörfum neytenda.

Anna Felländer sagði í framsögu sinni að stafræna tæknivæðingin sé að gerast mjög hratt og hafi mikil áhrif bæði á hagkerfið í heild sinni, einstaklinga og fyrirtæki. „Það er að eiga sér stað hröð kerfisbreyting í sölu- og þjónustugeirum vegna áhrifa stafrænnar byltingar. Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin að takast á við þessar stafrænu breytingar. Það sem skiptir sköpum er að klæðskerasníða stafræna þjónustu og sölu byggt á þörfum neytandans og innleiða það í alla virðiskeðjuna.“

Daníel Svavarsson, hagfræðingur sagði í erindi sínu að forsendur verslunar væru nú með besta móti. „Einkaneyslan eykst hröðum skrefum í takt við vaxandi kaupmátt og bætta stöðu heimilanna. Á sama tíma hefur kakan einnig stækkað með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna en neysla þeirra á vörum og þjónustu var alls um 29% af heildarveltunni á síðasta ári. Arðsemi verslunarfyrirtækja hefur vaxið síðustu ár og er vel viðundandi miðað við aðra geira“.  Daníel talaði um að velta um helmingi verslunargreina væru í sögulegu hámarki meðan aðrir geirar höfðu ekki að fullu náð sér á strik. Hann sagði þróunina markast meðal annars af verslun ferðamanna hér á landi en einnig af aukinni verslun Íslendinga á ferðalögum erlendis og á netinu. „Neytendur virðast vera varkárari í eyðsluútgjöldum sínum en á fyrri uppgangstímum sem endurspeglast meðal annars í því að sala á ýmsum dýrari neysluvörum svo sem bílum og fellihýsum er enn lagt frá þeim hæðum sem hún náði fyrir hrun, “ sagði Daníel ennfremur.

Á aðalfundi SVÞ sem haldinn var í morgun var Margrét Sanders endurkjörin formaður samtakanna. Núverandi stjórn SVÞ skipa ásamt formanni, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar ehf., Gústaf B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka ehf. og Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. Þeir sem sitja fyrir í stjórn SVÞ eru Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Kvosin ehf.

Anna Felländer – kynning

Greining Landsbanka Íslands um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi

Myndir frá ráðstefnu SVÞ 23.3.2017

Nánari upplýsingar veitir:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500

Margrét Sanders formaður SVÞ
Sími:  863 9977

 

 

 

SVÞ fagna frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.3.2017

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis, þar sem bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu, fagna samtökin markmiði þess um afnám þess einkaleyfis.

SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. SVÞ ítreka í þessu samhengi mikilvægi þess að hið opinbera dragi sig út úr smásölurekstri hvers konar en sama skapi verði lagaumgjörð þannig úr garði gerð að einkaaðilum verði treyst til að annast slíkan rekstur sem hér um ræðir. Þannig verði með lögum búið þannig um þessa starfsemi að gætt verði að þeim sjónarmiðum sem gæta þarf að þegar um er að ræða sölu á áfengi eða aðra vöru sem kallar á aðgát hvað varðar eiginleika hennar.

Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi. Þá fagna SVÞ sérstaklega því frumkvæði í frumvarpinu um að fella úr lögum banni við áfengisauglýsingum enda hefur núverandi bann ekki staðið í vegi fyrir að áfengisauglýsingar hafi birst hér á landi, m.a. í erlendum miðlum, og þannig mismunað framleiðendum eftir hvort um er að ræða innlenda eða erlenda aðila.

SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.

Fréttatilkynningin á pdf sniði

Umsögn SVÞ um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis