19/03/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Viðtalið birtist í dag í Morgunblaðinu og á mbl.is.
Hátt yfirvinnukaup kann að skýra langa vinnuviku
Þegar verslunar- og þjónustufyrirtæki auglýsa laus hlutastörf á yfirvinnutíma er enginn skortur á umsóknum, en treglega gengur að manna fullar stöður á hefðbundnum dagvinnutíma. Þetta segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, en þetta fjallaði hún um á ársfundi SVÞ í síðustu viku og benti þar á að fylgja mætti fordæmi Dana þar sem yfirvinnukaup er hlutfallslega lægra en grunnlaunin aftur á móti hærri.
„Á Íslandi er launakostnaður fyrirtækja hlutfallslega sá sami og á hinum löndunum á Norðurlöndunum, en samt eru hinar Norðurlandaþjóðirnar að borga töluvert hærri grunnlaun. Þá bjóða hin löndin starfsfólki yfirleitt upp á meiri sveigjanleika svo það geti aðlagað vinnustundirnar betur eigin þörfum,“ segir Margrét og bendir á að hátt yfirvinnukaup kunni að skýra hvers vegna vinnuvikan er eins löng og raun ber vitni hjá meðal Íslendingnum. „Íslendingar vinna 15% meiri yfirvinnu en Danir og hlýtur m.a. að stafa af því að verið er að skapa ákveðna hvata þegar yfirvinnugreiðslur eru háar en grunnlaunin lág. Samt skilar þessi ofuryfirvinna á Íslandi okkur ekki miklu, og heildarafköstin eru svipuð og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þó að vinnuvikan sé mun lengri.“
Íslenska yfirvinnulaunakerfið, þar sem tiltölulega ströng viðmið gilda um á hvaða tímum dags og á hvaða dögum vikunnar á að borga yfirvinnu, kann að vera barn síns tíma að sögn Margrétar, og hefur kannski hentað best þegar yfirleitt var ekki nema ein fyrirvinna á heimilum og líf fólks einfaldara og fábrotnara. Í dag gæti verið öllum fyrir bestu að innleiða nýja hugsun, þar sem fólk gæti t.d. ráðið meira um það á hvaða tímum dagsins og vikunnar það vinnur. „Það hentar ekki endilega öllum best að vinna frá 8 til 4 eða 9 til 5. Ég sé fyrir mér að hjá sumum fjölskyldum þætti foreldrunum eftirsóknarvert að geta skipt deginum á milli sín, þar sem önnur fyrirvinnan hefur störf snemma og hin seint, með betri tíma fyrir báða til að sinna börnum og heimili á morgnana og kvöldin. Svo eru sumir sem fagna því að eiga frí í miðri viku eða geta raðað vöktum sínum þannig að falli að áhugamálum og fjölskyldulífi.“
Segir Margrét að tæknin sé þegar til staðar til að skapa þennan sveigjanleika með lítilli fyrirhöfn fyrir alla og útbúa vaktakerfi þar sem starfsfólkið getur ráðið meiru um vinnutíma sinn. „Vinnufyrirkomulagið gæti verið að hluta fast, og að hluta sveigjanlegt, en af hinu góða fyrir starfsmenn ef hægt er að auka sveigjanleikann frá því sem nú er. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur þurfa að standa saman að þessum breytingum.“
Margrét segir einnig að tækniframfarir séu þegar farnir að valda miklum breytingum á vinnumarkaði og áríðandi að vinnuveitendur hjálpi starfsfólki sínu að aðlagast breyttum aðstæðum með menntun og þjálfun við hæfi. Margir óttast að störf í verslun og þjónustu séu í hættu og má t.d. finna veitingastaði sem taka við pöntunum í gegnum tölvu, og matvöruverslanir þar sem viðskiptavinirnir afgreiða sig sjálfir. „Sum störf munu hverfa, en það verða til ný störf í staðinn og þurfa vinnuveitendur að hjálpa starfsfólki sínu að vera í stakk búið fyrir breytingarnar.“
Margrét er með þessu ekki að segja að senda þurfi hvern sölumann og þjón á námskeið í forritun, heldur frekar að tryggja að fólk læri að taka tæknina í þjónustu sína. „Það þarf ekki að umturna störfum fólks og menntun, heldur einfaldlega tryggja að sem flestir geti verið samstiga þróuninni, læri í vinnunni og bæti við sig færni jafnóðum.“
07/02/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 7. 2.2018
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Í nýrri könnun eins virtasta markaðsfyrirtækis landsins mælist íslensk verslun með 67% traust íslensku þjóðarinnar. Til hamingju verslunarmenn, til hamingju Íslendingar.
Sjálfstæðisbaráttan tengdist verslun
Það er mikilvægt hverri atvinnugrein að starfa í sátt og samlyndi við samfélag sitt. Íslensk verslun hefur um aldir verið nátengd hagsmunum þjóðarinnar, enda var það eitt af stóru hagsmunamálunum í sjálfstæðisbaráttu okkar, að verslunin kæmist í okkar eigin hendur. Sú barátta stóð lengi og var að lokum farsællega til lykta leidd af sjálfstæðishetjum okkar, eins og svo vel er lýst í því stórkostlega ritverki “ Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900 – 2010”, sem nýlega kom út.
Samfélagsmiðlar gefa rödd
Fullyrða má að fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafn óvæga gagnrýni og verslunin hefur mátt sæta, og hefur verslunin margoft verið skotspónn þeirra sem hafa séð sér hag í því að tortryggja hana. Nú í seinni tíð hefur almenningur fengið rödd í gegnum samfélagsmiðlana. Virðist sú umræða vera að ná jafnvægi og snúast meira um neytendavernd, þjónustu og upplýsta umræðu sem verslunin fagnar. Það vita allir sem reynt hafa hversu erfitt getur verið að rísa undir gagnrýni sem þessari. Íslensk verslun hefur hingað til staðið allt slíkt af sér og það er engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.
Tæplega 70% traust
Það er sérstakt ánægjuefni að finna hversu mikillar velvildar íslensk verslun nýtur núna meðal þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi umræðunnar. Í fyrrgreindri könnun kemur fram að um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi. Þessi niðurstaða er mjög ánægjuleg, ekki síst í því ljósi þess að opinber umræða um atvinnugreinina var óneitanlega fremur neikvæð á s.l. ári. Að finna að verslunin nýtur svo mikils trausts og velvildar hjá þjóðinni er greininni mikil hvatning til þess að gera enn betur.
Sóknarhugur á tíma breytinga
Íslensk verslun er í sóknarhug. Framundan eru miklar áskoranir í síbreytilegu umhverfi, umhverfi sem tekur meiri og hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Íslensk verslun er staðráðin í því að aðlaga sig að þessum breytingum, vera áfram öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi og halda áfram að þjóna vel kröfuhörðum neytendum. Þannig gerum við betur, þannig eflist íslensk verslun og þannig höldum við þessu öfluga trausti Íslendinga – okkur öllum til hagsbóta.
Blaðagrein 7.2.2018 – Íslensk verslun nýtur trausts
18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 12.10.2017
Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.
Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.
Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.
Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.
Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.
Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.
Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!
Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.
Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.
Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla
18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 11.10.2017
Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.
Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.
Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.
Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.
Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.
Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.
Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.
Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).
04/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).
Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.
Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en á bensíni.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.
Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI) fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.
Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.
Samantektina má nálgast hér.
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu
13/07/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt undir Skoðun á visir.is
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Verslun á Íslandi hefur óumdeilanlega búið við mikla erlenda samkeppni í gegn um tíðina, enda þekkt að stór hluti af ferðum Íslendinga til útlanda eru gagngert farnar til þess að kaupa ýmis konar varning. Þessa mánuðina er landinn einmitt að slá metið í ferðalögum en á fyrri hluta þessa árs innrituðu 290 þúsund Íslendingar sig í flug út í heim frá Keflavíkurflugvelli.
Nýjar áskoranir
Burtséð frá þessu horfist íslensk verslun nú í augu við nýjar og meiri áskoranir en áður þekkist. Annars vegar hlýtur koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem þegar hafa tekið ákvörðun um að halda innreið sína inn á hinn litla íslenska smásölumarkað, óhjákvæmilega breyta því starfsumhverfi sem greinin hefur búið við. Hins vegar er eðli verslunar sem slíkrar að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hluti hennar fer fram á netinu, þar sem neytendur hafa val um að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja hvar sem er í heiminum. Þróun þessi er mjög hröð um þessar mundir og allt eins líklegt að verslun eins og við þekkjum hana í dag muni ganga í gegn um meiri breytingar á næstu fimm árum en nokkru sinni fyrr.
Starfsumhverfið hefur breyst til batnaðar, en…
Stór skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að gera starfsumhverfi íslenskrar verslunar sem líkast því sem það er í samanburðarlöndunum. Þar stóð síðasta ríkisstjórn vel að verki. Þar vegur þyngst afnám almennra vörugjalda og afnám tolla á öðrum vörum en ýmsum tegundum landbúnaðarvara. Og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Niðurfelling tolla hefur ekki náð til þeirra landbúnaðarvara sem mestu skipta og verða íslenskir neytendur því að óbreyttu áfram að sætta sig við að kaupa þessa nauðsynjavöru á mun hærra verði en neytendur í flestum nágrannalöndum okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta einmitt sá stóri munur sem enn er á starfsumhverfi íslenskrar verslunar og verslunar í samanburðarlöndunum.
Ávinningurinn skili sér til neytenda
Allt bendir til þess að núverandi stjórnvöld hafi vilja til að jafna þann aðstöðumun sem íslensk verslun býr enn við að þessu leyti, neytendum til hagsbóta. Fyrri hluta næsta árs kemur til framkvæmda nýr samningur íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins, sem m.a. fjallar um aukinn tollfrjálsan innflutning landbúnaðarvara til landsins. Það skiptir öllu máli að neytendur fái notið ábatans af þeim samningi til hins ýtrasta.
Rangar og villandi fullyrðingar
Því miður er það svo að ýmsir stjórnmálamenn sjá sér enn hag í því að tortryggja verslunina og sumir þeirra hafa haldið því blákalt fram að skattkerfisbreytingar síðustu ára hafi ekki skilað sér til neytenda. Slíkt er firra eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á undanförnum mánuðum og misserum. Verra er þó þegar þessir sömu stjórnmálamenn halda því fram að felldir hafi verið niður tollar af landbúnaðarvörum, án þess að innistæða sé fyrir slíkum fullyrðingum. Það hlýtur að vera hægt að gera kröfu um að ekki sé farið rangt með staðreyndir, ekki síst hjá þeim sem besta þekkinguna eiga að hafa.