Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021

Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021

Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021 var haldinn 19. maí s.l. Gestur fundarins var Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Dagný Jónsdóttir, formaður SH hóf umræðuna með því að draga saman helstu staðreyndir um stöðu einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja innan heilbrigðiskerfisins. Vakti hún m.a. athygli á því að um þriðjungur árlegra heimsókna sjúklinga til læknis eru til þess hóps sem eru aðilar að Samtökum heilbrigðisfyrirtækja. Þau tækju hins vegar einungis til sín um 5% af því fjármagni sem hið opinbera ver til heilbrigðismála. Sérgreinalæknar og fyrirtækin sem þeir væru með á bak við sig væru því „þriðja stoðin“ í heilbrigðiskerfinu og hefðu því miklu hlutverki að gegna. Þá gerði Dagný að umtalsefni þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í viðræðum Læknafélags Reykjavíkur, f.h. sérgreinalækna, við Sjúkratryggingar Íslands, en þeir hafa verið samningslausir síðan haustið 2019.

Bjarni greindi frá þeim áherslum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt á þegar flokkurinn hefði farið með heilbrigðismálin. Vísaði m.a. í að Sjúkratryggingum Íslands var falið samingshlutverkið í tíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem heilbrigðisráðherra og þegar ákveðið var að fjármagn fylgdi sjúklingum í heilsugæslunni sem gert var í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Bjarni svaraði síðan fjölmörgum fyrirspurnum frá fundarmönnum sem allar litu með einum eða öðrum hætti að þeirri þröngu stöðu sem uppi er í samskiptum sjálstætt starfandi fyrirtækja í heilbrigðiskerfinu við hið opinbera.

Dagný Jónsdóttir var endurkjörin formaður SH til næsta starfsárs. Í stjórn til næstu tveggja ár voru kjörnir þeir Kristján Guðmundsson og Sigurður Ingibergur Björnsson, Varamenn í stjórn eru áfram þeir Stefán E. Matthíasson og Þórarinn Guðnason.

Samtök heilbrigðisfyrirtækja telja ekki lagastoð fyrir frestun skurðaðgerða

Samtök heilbrigðisfyrirtækja telja ekki lagastoð fyrir frestun skurðaðgerða

Samtök heilbrigðisfyrirtækja telja að landlækni hafi skort lagastoð fyrir að fresta valkvæðum skurðaðgerðum. Samtökin hafa sent heilbrigðisráðneytinu erindi og gert grein fyrir þeirri afstöðu. Virðist sem landlæknir hafa grundvallað fyrirmæli sín á lagaákvæði sem veitir slíkri frestun ekki stoð. Undir slíkum kringumstæðum verður að líta svo á að engin fyrirmæli hafi verið gefin út varðandi frestunina.

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Við setningu Læknadaga 2020 í Hörpu skrifuðu Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, undir uppfærðan samning um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. Siðareglurnar byggja á nýuppfærðum reglum EFPIA – Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Nokkur reynsla er komin á reglur sem þessar og hafa þær sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum framleiðenda lyfja og heilbrigðisstarfsfólks. Samkomulagið sem nú hefur verið uppfært og undirritað byggir á grunni fyrra samkomulags frá árinu 2013.

Sjá má umfjöllun um málið á Hringbraut/Fréttablaðinu hér.

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.

Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.

SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.

SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.