Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni var á Hótel Reykjavík Natura sl. þriðjudag þar sem fjallað var um annmarka við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Að málþinginu stóðu stærstu viðsemjendur Sjúkratrygginga Íslands: Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfara og Tannlæknafélag Íslands. 

Á málþinginu kynnti Svanbjörn Thoroddsen, stjórnarformaður KPMG niðurstöður greiningar fyrirtækisins á starfsumhverfi þjónustuveitenda í heilbrigðisþjónustu sem benda til mikilla brotalama í innkaupaferlum ríkisins við kaup á þessari þjónustu 

Í skýrslunni kemur m.a. eftirfarandi fram: 

  • vinnubrögð og fyrirkomulag við innkaup eru óskýr,  
  • starfsumhverfi rekstraraðila sem semja við SÍ er ótryggt,  
  • hlutverk aðila í stjórnkerfinu og ábyrgð eru óskýr og  
  • vegna skorts á mannafla sé takmörkuð fagþekking er hjá SÍ til að annast greiningar, gerð og eftirlit samninga.  


Vantrausti lý
st á gallað fyrirkomulag

Niðurstöður skýrslunnar voru ennfremur staðfestar í máli frummælenda, forsvarsmanna ofangreindra félaga auk Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns og lögmanns Læknafélags Íslands. Í grein sem birtist sl. mánudag höfðu fulltrúar félaganna jafnframt lýst yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu og krafist þess að stjórnvöld gripu inn í áður en varanlegar skemmdir yrðu á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna. 


V
innubrögð SÍ gagnrýnd

Í máli frummælenda kom ítrekað fram gagnrýni á vinnubrögð Sjúkratrygginga Íslands í viðræðum við aðila um kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og staðfestu þar með flest af því sem kom fram í skýrslu KPMG. Þau atriði sem einkum hlutu gagnrýni voru þau að samningaferli stofnunarinnar þykir óskýrt, misræmi tí undirbúningi og gerð samninga, lítil formfesta sé við samningsgerð og vantraust ríki í samskiptum auk þess sem misræmi sé milli verðlagningar og kröfulýsingar. Af því sem hér kemur fram má ráða að flest, sem aflaga getur farið í samskiptum Sjúkratrygginga Íslands við viðsemjendur stofnunarinnar, geri það. Umræður á málþinginu endurspegluðu þessa stöðu mjög vel og sú skýlausa krafa var uppi að stofnunin tæki þegar upp ný og bætt vinnubrögð.  

Þeir sem að málþinginu stóðu hvetja stjórnvöld og stofnanir til að skoða vel þær ábendingar sem þar komu fram og beita sér fyrir því að koma á samskiptum og samningaviðræðum milli aðila sem byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu. Með því móti verði ferlið við kaup á heilbrigðisþjónustu markvissara, þannig að fjármagn nýtist sem best við að hámarka gæði og þjónustu fyrir notendurna, sem er meginmarkmið okkar allra. 

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Í grein sem birtist á Vísi í dag lýsa forsvarsmenn fimm félaga í heilbrigðisþjónustu yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og krefjast þess að stjórnvöld grípi inní áður en varanlegar skemmdir verða á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Í nýrri úttekt KPMG kemur fram að verulegar brotalamir eru á núverandi kerfi sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuveitanda og þjónustuþega. Ennfremur segja greinarhöfundar að Sjúkratryggingar Íslands valdi ekki núverandi hlutverki sínu og séu engan veginn í stakk búnar til að taka við innkaupum á allri heilbrigðisþjónustu, líkt og fyrirhugað er skv. núverandi heilbrigðisstefnu.

Greinina í heild sinni má lesa hér á vefnum visir.is.

Greinina skrifa:
Elín Sigurgeirsdóttir, f.v. formaður Tannlæknafélags Íslands
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Haraldur Sæmundsson, formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Jón Gauti Jónsson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur

Nýr formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja

Nýr formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja

Á aðalfundi Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, sem haldinn var fyrir skömmu, var kosinn nýr formaður. Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica er nýr formaður samtakanna og tekur hann við af Stefáni Einari Matthíassyni, sem verið hefur formaður allt frá stofnun, eða s.l. tíu ár. Við óskum Jóni Gaut til hamingju með formennskuna.

Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Ekki verður betur séð en að heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhverskonar afneitun þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet,  birti fyrir nokkrum dögum úttekt  á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnst.Hin almenna heilbrigðisþjónusta byggir á þremur grunnstoðum: Heilsugæslu, starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og sjúkrahússþjónustu. Nokkuð góður samhljómur hefur verið um þessa þrískiptingu fram til þessa. Hér skiptir mestu að þarfir neytandans séu ávallt hafðar í forgangi. Sjúklingar hafi gott aðgengi að þjónustunni á sínum forsendum, gæði hennar séu fyrsta flokks og kostnaður, sem ávallt skal greiddur af hinu opinbera, sé samkeppnishæfur við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.

Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi. Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. Þeir framkvæmdu meðal annars um átján þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margskonar lífeðlisfræðilega rannsókna. Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en  göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins.

Um 350 læknar starfa á samningnum í ýmsum sérgreinum. Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum. Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil er athyglisvert að hún tekur einungis til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr miðað við nágrannalöndin og með gott aðgengi sjúklinga. Gæðin þarf enginn að draga í efa. Það er vandséð annað en að hér sé vel sé farið með hverja krónu skattfjárins.

Engu að síður eru þeir til sem þreytast ekki á að agnúast út í þessa sjálfstæðu starfsemi  lækna. Ýmist virðist sá málflutningur byggður á vanþekkingu, þráhyggju eða hagsmunagæslu – og stundum ef til vill allt í senn. Við hvetjum embættismenn í kerfinu, stjórnmálamenn og ekki síst ráðherra heilbrigðismála til að viðurkenna þær staðreyndir um ágæti og hagkvæmni þessarar þjónustu sem blasa við öllum þeim sem skilja vilja.

Samningur sérfræðilækna og SÍ rennur út um næstu áramót. Læknar hafa án árangurs kallað eftir áætlunum ráðherrans um margra mánaða skeið. Vísbendinguna fengu þeir loks í gegnum örstutta sjónvarpsfrétt. Samningurinn er að hennar mati til óþurftar og stórfelld uppbygging göngudeilda sjúkrahúsanna það sem koma skal í staðinn. Nokkuð sem gengur þvert á þróun í öðrum löndum.  Öllum er ljóst að slík uppbygging tæki mörg ár og enginn sparnaður mun af hjótast. Við spurningu fréttamannsins um hvað myndi gerast í millibilsástandinu kom ekkert svar annað en að ráðherrann hefði ekki svarið. Margir sjúklingar eiga bókaða tíma hjá sérfræðilæknum eftir áramót og langt inn í næsta ár. Þeir hafa svarið ekki heldur.

Ein af helstu röksemdum, en um leið rangfærslum, ráðherrans er að samningurinn sé opinn og að til hans streymi ótakmarkað fé. Það er einfaldlega rangt og við leyfum okkur að fullyrða að ráðherrann veit betur.  Sjúkratryggingar tryggja sér „einkarétt“ á þjónustu læknis á samningnum. Nýliðun í stétt sérfræðilækna á stofu hefur algerlega verið stöðvuð í meira en tvö ár. Til þess hafa stjórnvöld reyndar margsinnis þurft að þverbrjóta samninginn  en ráðherrann virðist láta sér það í léttu rúmi liggja, væntanlega með það í huga að tilgangurinn helgi meðalið.

Með því að loka á nýliðun og læsa unga lækna úti í orðsins fyllstu merkingu er ráðherrann ekki að draga úr eftirspurn heldur minnka þjónustu og rýra gæði hennar. Veruleg hætta er á því að læknar sem ekki komast heim þegar þeim hentar ílengist erlendis og snúi jafnvel aldrei til baka. Samninginn þarf að opna strax. Verði hann látinn renna út án endurnýjunar er tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri kaupa sér forgang endanlega orðið að veruleika. Þjóðin hefur aldrei getað hugsað sér slíkt fyrirkomulag. Ráðherrann sýnist hins vegar stefna þangað með þessum háskalega leik sínum.

Höfundar:

Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur

Ný einkarekin heilsugæslustöð fer vel af stað

Þann 1. júní s.l. opnaði ný heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, að Bíldshöfða 9, í gamla Hampiðjuhúsinu. Þetta er fyrsta heilsugæslustöðin til að opna á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár og er stofnsett á grundvelli útboðs sem fram fór á s.l. ári þar sem boðinn var út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi heilsugæslustöðvarinnar fer mjög vel af stað en þegar hafa um 4500 manns skráð sig en ætlunin er að sinna a.m.k. þrefalt þeim fjölda.

Um áramótin voru innleiddar breytingar hjá Sjúkratryggingum Íslands þannig að fólk getur valið sér heimilislækni og heilsugæslustöð óháð því hvar þeir búa. Mikilvægt er að kynna þessa breytingu betur, en nokkuð hefur vantað á að fólk geri sér grein fyrir þessum breytingum á réttindum sínum til að sækja heilsugæsluþjónustu þar sem það óskar. Allir skjólstæðingar Heilsugæslunnar Höfða, sem þess óska, munu fá sinn eigin heimilislækni og geta þá einnig skráð fjölskylduna alla hjá sama lækni.  Gjaldtaka er eins og á öllum öðrum heilsugæslustöðvum og ákvörðuð af Sjúkratryggingum Íslands.

Lögð verður áhersla á gott aðgengi og stuttan biðtíma.  Þess vegna hefur sú nýjung verið innleidd að auk hefðbundinna tímabókana og síðdegisvakta frá kl. 16 -18 verði opin móttaka milli kl 8 og 10 á morgnana þar sem óþarft er að bóka tíma fyrirfram, ætlað fyrir stutt eða bráð erindi. Þannig verður stuðlað að því að engum sé vísað frá og skjólstæðingar þurfi ekki að leita annað nema í algerri neyð utan dagvinnu. Heilsugæslan Höfða mun þannig leitast við að gera heilsugæsluna að raunverulegum fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.
Heilsugæslan Höfða mun jafnframt bjóða upp á alla grunnþjónustu eins og mæðravernd, ungbarnavernd, hjúkrunarmóttöku og einnig verður ákveðin áhersla á lífstílssjúkdóma og vinnu í teymum fyrir skjólstæðinga með langvinna sjúkdóma.

Að heilsugæslunni standa 10 heimilislæknar og á henni starfa 6 hjúkrunarfræðingar þar af 2 ljósmæður, 5 ritarar og framkvæmdastjóri. Allt er þetta starfsfólk með mikla reynslu og mikinn áhuga á að bæta og styrkja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Vonandi er opnun þessarar einkareknu heilsugæslustöðvar fyrsta skrefið í áframhaldandi þróun á því sviði og við megum sjá fleiri slíkar stöðvar opna á næstunni. Slíkt væri í fullu samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar að undanförnu, en bæði í Noregi og Svíþjóð hafa verið tekin afgerandi skref í átt til aukins einkareksturs í heilsugæslunni á undanförnum einum og hálfum áratug. Í Danmörku hefur heilsugælsan verið einkarekin áratugum saman.