11/04/2017 | Fréttir, Greining, Greiningar, Verslun
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar koma aukin umsvif í byggingaframkvæmdum greinilega fram í sölutölum byggingavöruverslana í marsmánuði. Þetta á bæði við um almennar byggingavörur svo og sérhæfðar verslanir sem selja gólfefni. Sömuleiðis var umtalsverð veltuaukning hjá húsgagnaverslunum og verslunum sem selja stór heimilistæki. Velta húsgagnaverslana jókst um 21,2% frá mars í fyrra og verð á húsgögnum lækkaði um 8,9% á þessu tímabili og velta byggingavöruverslana jókst um 13,3% en verð á byggingaefni hélst óbreytt frá mars í fyrra. Velta stórra raftækja jókst um 9,5% og verð þeirra var 5,9% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Athyglisvert er að velta í dagvöruverslun var nokkru meiri í mars síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra. Þetta þrátt fyrir að páskarnir hafi verið í mars í fyrra en mánuði síðar ár, – en páskamánuðurinn er jafnan mun söluhærri en næstu mánuðir á undan og eftir. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nam veltuaukning dagvöruverslana 5,1%. Verð á dagvöru fer lækkandi, eins og á flestum öðrum vörutegundum, og var 2,2% lægra en fyrir ári síðan.
Velta fataverslunar í mars var 6,4% minni en í sama mánuði í fyrra. Kemur þar annars vegar til að hætt var rekstri nokkurra stórra fataverslana í byrjun þessa árs og hins vegar að staðið hefur yfir endurskipulagning á öðrum fataverslunum að undanförnu. Þar að auki má ætla að töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fari fram erlendis þar sem mikil aukning hefur orðið í ferðum landsmanna til útlanda. Fatakaupmenn sem RSV hefur rætt við eru almennt sammála um að þó dregið hafi úr fatasölu á heildina litið sé aukning í sölu á dýrari merkjavöru, sem sé mjög samkeppnisfær við sambærilegar vörur í erlendum verslunum. Þannig virðist sem mestur samdráttur sé í sölu ódýrari fatnaði.
Óvenjulegt er að merkja samdrátt í sölu snjallsíma, eins og reyndin var í mars. En sala þeirra dróst saman um 16,9% frá sama mánuði í fyrra. Líklegasta skýringin er að í mars fyrir ári var nýkomin á markað ný útgáfa af vinsælum snjallsímum en sú var ekki raunin í ár.
Velta í dagvöruverslun jókst um 0,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 2,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta áfengisverslana í mars saman um 100% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,2% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 6,4% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 5% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 6,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í mars um 0,1% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 21,2% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,8% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 11,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 13,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 13,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 15,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í mars um 4,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 16,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 9,5% á milli ára.
Fréttatilkynning RSV.
03/04/2017 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Verslun
Samantekt
Segja má að verslun standi á tímamótum hvað framtíðina varðar og því er engin tilviljun hversu áberandi umræða er í samfélaginu um netverslun og önnur málefni verslunar. Verslunin mun breytast meira á næstu 5 árum en hún hefur gert síðustu 50 ár. Í því tilliti má nefna að Svensk Handel, systursamtök SVÞ í Svíþjóð, spá að verslunum í Svíþjóð muni fækka um allt að 5 þúsund til og með árinu 2025 sökum aukinnar samkeppni við netverslanir. Gera má ráð fyrir að nokkur straumhvörf séu að verða í viðhorfi fólks þar sem neytendur eru nú sífellt kröfuharðari; þeir vilja fjölbreytni og að vörurnar séu afhentar með þeim hætti sem best samræmist daglegu lífi þeirra. Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem leiðir til lægri verðbólgu í stað þess að hækka verð. Alþjóðavæðingin nær ekki síður til verslunarinnar vegna aukinnar samkeppni milli staðbundinna verslana hér á landi þar sem fyrirhugað er að stórir erlendir aðilar komi inn á markaðinn. Þessi aukna samkeppni mun að óbreyttu leysa úr læðingi krafta sem koma samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri sem síðar geta stuðlað að lægra verði til neytenda. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Þróun kaupmáttar launa undanfarin misseri, fjölgun ferðamanna og afnám tolla og vörugjalda hafa ýtt undir vöxt innlendra verslana. Það er hins vegar margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum.
Skýrsluna má nálgast hér.
05/01/2017 | Fréttir, Greining, Greiningar, Skýrslur
Samantekt
Sænski seðlabankinn birti í peningamálaskýrslu greiningu á mögulegum áhrifum stafrænnar tækniþróunar á verðbólgu. Í greiningu bankans kemur m.a. fram að þróunin hafi dempandi áhrif á verðbólgu en óvíst sé hversu mikil áhrifin eru. Það er mat bankans að lág verðbólga í Svíþjóð sé þó fyrst og fremst tengd öðrum þáttum. Samfara tækniþróuninni geta orðið breytingar í þá átt að mörg störf tapist í ákveðinni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Á sama tíma opnast möguleikar á starfi annarsstaðar í hagkerfinu. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem kunna að opnast. Stafræna tækniþróunin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.
Skýrslan er aðgengileg hér.
19/12/2016 | Fréttir, Greiningar, Skýrslur, Verslun
Samantekt
Netverslun hefur að undanförnu fengið aukna athygli í umræðunni og er sú umræða ekki eingöngu bundin við Ísland. Þróun innlendrar netverslunar er í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum. Ef hlutfall netviðskipta á Norðurlöndunum á fyrri helmingi ársins er skoðað kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Svíar kaupa í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar hafa hæsta hlutfall viðskipta við erlenda netverslun. Ástæða þessa er m.a. sú að töluverður fjöldi af sænskum netverslunum starfa í hagstæðu og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi á víðtækum grunni. Sænsk netverslun nær því að skapa sér hagstæða stöðu á þessu sviði, aðallega á grundvelli fjölbreytt vöruúrvals , með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður, s.s. vefsíður fyrir farsíma og einfaldar lausnir hvað varðar kaupferlið. Því er mikilvægt að læra af reynslu Svía og útfæra svipaðar lausnir hér á landi m.t.t. hagsmuna neytenda.
Skýrslan er aðgengileg hér.
05/11/2016 | Fréttir, Greiningar
Samantekt
Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um að sterk staða krónunnar undanfarin misseri skili sér illa til neytenda í formi
lægra vöruverðs á mörgum innfluttum vörum. Í því samhengi er borin saman verðlagsþróun einstakra vöruflokka m.t.t. styrkingu
krónunnar. Raunveruleikinn er talsvert flóknari en slíkur einfaldur samanburður gerir ráð fyrir þar sem horft er framhjá
veigamiklum þáttum sem hafa áhrif á vöruverð í landinu. Þessar aðferðir taka til dæmis ekki tillit til mögulegra áhrifa vegna
verðþróunar erlendra aðfanga, þróunar launakostnaðar, flutningskostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar sem hefur áhrif á
rekstur þessara fyrirtækja og þ.a.l. á verðþróun vara á innlendum markaði. Eins hafa breytingar á vsk talsverð áhrif. Til
samanburðar má benda á að vísitala innfluttra mat- og drykkjavara reiknuð án vsk lækkar um 5,1% borið saman við 1,54% án vsk
– þar sem vsk breyttist úr 7% í 11% þann 1.janúar 2015 er nauðsynlegt að taka tillit til slíkra breytinga.
Lykilorð: Verðþróun, launaþróun, kaupmáttur, vísitala neysluverðs, gengi
11.2016 – Verðdýnamík
17/03/2016 | Fréttir, Skýrslur
Ársskýrsla SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu fyrir starfsárið 2015-2016 gefin út á rafrænu formi.
Nálgast má skýrsluna hér.