EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, í samvinnu við UNI Europe, sem eru samtök launafólks í Evrópu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á evrópsk stjórnvöld að styðja við verslunarfyrirtækin með því að efla stafræna hæfni fyrirtækja og starfsfólks í verslunum. Skilaboðin bæði til Evrópusambandsins og ríkisstjórna í álfunni eru skýr:

Við höfum staðið vaktina í heimsfaraldri, nú er komið að ykkur að styðja verslunargeirann í stafrænni hæfni og umbreytingu.

Þetta er í fullkomnu samræmi við hvatningu SVÞ og VR til stjórnvalda um að styðja við íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra í þessari stóru umbreytingu. Eins og kunnugt er hafa þessi tvö samtök, ásamt Háskólanum í Reykjavík, leitað eftir stuðningi stjórnvalda við að koma á klasasamstarfi um eflingu stafrænnar hæfni. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að í framhaldinu komist á sem víðtækast og öflugast samstarf um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði almennt.

Í fréttatilkynningu EurocCommerce, sem lesa má í heild sinni hér, er m.a. haft eftir framkvæmdastjóra EuroCommerce, Christian Verschueren:

„Verslun snýst um fólk, þjónustu við fólk. Allir sem vinna í verslun hafa unnið hörðum höndum til að tryggja að neytendur hafi áreiðanlegt aðgengi að nauðsynjavörum nú í COVID-19 faraldrinum. Margir smásalar sem ekki selja matvöru hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af endurteknum og löngum lokunum í mörgum löndum. Faraldurinn hefur hraðað stafrænni umbreytingu og netsölu gríðarlega. Evrópusambandið og stjórnvöld í ríkjum Evrópu þurfa nú að hjálpa fyrirtækjunum okkar, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að byggja upp þá færni sem starfsfólki þeirra er nauðsynleg til að nýta sem best þessi stafrænu tól.”

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, eins og allir vita. Langflest fyrirtæki í verslun í Evrópu eru annað hvort lítil eða meðalstór og veita um 28 milljónum manna vinnu. Það skiptir því sköpum fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar hvernig henni tekst að aðlaga sig að þeim stafrænu umbreytingum sem eru þegar skollnar á allt í kring um okkur. Stjórnvöld, hvar sem er í Evrópu, geta ekki setið hjá á þess að koma að þessari vegferð með atvinnulífinu. Þessi skilaboð geta ekki verið skýrari.