- 73% Íslendinga hafa verslað á netinu.
- Erfitt að finna einstaklinga á aldursbilinu 18-24 ára sem ekki hafa verslað á netinu.
- Það að reka netverslun og verslun saman eykur sölu.
- Íslenskar verslanir þurfa að bæta tiltekin atriði ef þær vilja ekki að erlendar netverslanir taki yfir markaðinn.
Á morgunverðarfundinum Netverslun: nýtum tækifærin þann 24. febrúar sl. var farið um víðan völl þegar kemur að málefnum er varða netverslun á Íslandi. Fundurinn var mjög fjölsóttur en um 160 manns úr atvinnulífinu mættu sem sýnir þann gríðarlega áhuga sem Íslendingar hafa á netverslun. Að fundinum stóðu Samtök verslunar og þjónustu í samstarfi við Póstinn.
Ólafur Elínarson, viðskiptastjóri hjá Gallup, kynnti glænýjar tölur um íslenska netverslun en þar kom meðal annars fram að 73% aðspurðra höfðu keypt vörur á íslensku eða erlendu vefsvæði á síðustu 12 mánuðum. Það kom einnig fram að konur eru í meirihluta þeirra sem höfðu keypt vörur á netinu síðustu 12 mánuði, en þeir karlar sem höfðu yfir höfuð keypt vörur á netinu versluðu að meðaltali oftar en konurnar. Það kom einnig fram að allir aðspurðir á aldursbilinu 18-24 ára höfðu keypt vörur á netinu.
Fulltrúar tveggja íslenskra netverslana, Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúran.is og Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir vefstjóri Elko, sögðu frá reynslu sinni af því að reka netverslun og hefðbundna verslun samhliða. Samhljómur var með erindum þeirra að samspil þessa tveggja þátta sé neytendum til góðs og auki sölu beggja eininga. Báðir aðilar voru einnig sammála um að líta mætti á netverslun sem búðarglugga inn í verslunina þar sem viðskiptavinir kanna oft vöruúrval og verð í netverslun en mæta síðan í verslunina til að ljúka kaupum og öfugt.
Að lokum tók til máls Peter Somers, en hann er einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins SKS Partners sem sérhæfir sig í netverslun. Erindið fjallaði um möguleika netverslunar og þau áhrif sem afhendingarmöguleikar hafa á hana. Peter var ómyrkur í máli þar sem hann talaði um að ef íslenskir smásöluaðilar tækju sig ekki á og opnuðu netverslun samhliða eigin verslun myndu erlendir aðilar bola þeim út af markaðnum. Hann taldi einnig gríðarlega mikil vannýtt tækifæri í útflutningi á íslenskum varningi og hönnun.
Hér má nálgast pdf útgáfur af glærukynningum:
Íslensk netverslun í tölum – Ólafur Elínarson, Gallup
Netverslun verður búð – Rakel Hlín Bergsdóttir, snuran.is
Netverslun styður hefðbundna verslun – Gestur Hjaltason og Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir, Elko
Importance of E-commerce – Peter Somers, Sprintpack
Lausnir fyrir netverslanir – Pósturinn
[rev_slider Netverslun]