23/08/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Í gær lét formaður Neytendasamtakanna efnislega í ljós í viðtali að hann teldi samkeppnisaðila á dagvörumarkaði hafa haft með sér það sem hann kallaði „nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa þetta eins og þetta er“.
Framangreind ummæli formannsins verða ekki skilin á annan hátt en að hann telji ráðandi fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa átt með sér ígildi samráðs eða samstilltra aðgerða sem fara í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga.
SVÞ mótmæla framangreindum ummælum formanns Neytendasamtakanna. Formaðurinn færði hvorki nokkur rök máli sínu til stuðnings né gerði tilraun til að útskýra mál sitt nánar. Ummælin eru haldlaus. Til að mynda gefa afkomutölur fyrirtækja á dagvörumarkaði hið gagnstæða til kynna.
Í huga SVÞ er alvarlegt að formaður neytendasamtaka skuli hafa látið ummælin falla. Í þeim felst nokkuð harkaleg ásökun sem SVÞ fá ekki séð að eigi við nokkur rök að styðjast.
Aukin samkeppni er af hinu góða. Fyrirsvarsmenn fyrirtækja á dagvörumarkaði hafa í viðtölum fagnað innkomu Prís á markaðinn. SVÞ fagna innkomunni sömuleiðis. Aukin verðsamkeppni kemur neytendum ekki aðeins til góða heldur getur aukin samkeppni hvatt keppinauta á dagvörumarkaði til hagræðingar og nýsköpunar og þannig aukið skilvirkni markaðarins.
Nánari upplýsingar veitir:
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ
Sími: 864 9136
12/08/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Samstarf og gagnsæi lykilatriði í þróun viðskiptaveltu RSV
Rekstur greiðslumiðlunarfyrirtækja hefur tekið miklum breytingum að undanförnu, sem hefur haft áhrif á gagnagrunn RSV – Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Í frétt frá RSV – segir að mikilvægt sé að tryggja áreiðanleg gögn fyrir verslunar- og þjónustugeirann, og því er RSV í samstarfi við stjórnvöld til að bæta aðgengi að gögnum. Fjölgun nýrra fyrirtækja og hæg gagnaskil frá stærri aðilum hafa skapað áskoranir fyrir RSV sem þakkar þolinmæðina á meðan unnið er að lausnum og munum upplýsa áskrifendur um framvindu mála fljótlega.
08/08/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Þjónusta
Klara Símonardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarseturs Verslunarinnar (RSV).
Klara kemur með umfangsmikla reynslu úr verslunar- og markaðsgeiranum, en hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri Petmark. Hún hefur einnig víðtæka þekkingu á markaðsrannsóknum og viðskiptafræði, með BSc gráðu frá Háskólanum á Bifröst og MBA nám frá Háskólanum í Reykjavík.
“Það er fengur fyrir Rannsóknarsetrið að fá Klöru inn í hlutverk forstöðumanns en hún hefur stjórnunarreynslu úr íslenskri verslun og þekkingu á þörfum verslunarinnar á gögnum og hagnýtingu þeirra en einnig hefur hún bakgrunn úr markaðsrannsóknum og útgáfu sem kemur til með að nýtast afar vel við þróun starfseminnar”,
segir María Jóna Magnúsdóttir formaður stjórnar RSV í sérstakri fréttatilkynningu.
12/07/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september næstkomandi. Kristinn mun starfa sem lögfræðingur samtakanna og staðgengill framkvæmdastjóra.
Kristinn Már útskrifaðist með M.A. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi 2012 og doktorsgráðu frá Háskólanum í Árósum 2015.
Á starfsferlinum hefur Kristinn Már m.a. annast kennslu á háskólastigi, starfað sem fulltrúi á lögmannsstofu, unnið ráðgjafarstörf fyrir opinberar stofnanir og starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu, Íslandspósti ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur.
Kristinn Már segir starfið leggjast afar vel í sig: „Ég er ákaflega ánægður með tækifærið sem felst í því að ganga til liðs við SVÞ. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess sem samtökin standa fyrir ásamt nýju samstarfsfólki og aðildarfélögunum sjálfum. Miklar breytingar standa yfir í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ekki sér fyrir endann á og margar áhugaverðar áskoranir til að takast á við.“
Benedikt S. Benediktsson, verðandi framkvæmdastjóri SVÞ, hefur lýst ánægju með ráðningu Kristins Más: Kristinn Már býr yfir bæði þekkingu og reynslu sem mun gagnast samtökunum og aðildarfyrirtækjum þeirra afar vel. Umhverfismál eru þegar orðin umfangsmikið viðfangsefni aðildarfyrirtækjanna auk þess sem þekking hans á réttarhagfræði, fyrirtækjarétti, skattarétti og samkeppnisrétti verður mjög góð viðbót við þá þekkingu sem þegar er til staðar hjá SVÞ. Við á skrifstofu SVÞ hlökkum mikið til að Kristinn Már bætist í okkar hóp á komandi hausti.
16/04/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september nk.
Benedikt útskrifaðist með Mag. Jur. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010. Hann var nefndarritari á nefndasviði Alþingis 2010–2015, deildarsérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti 2015–2019 og hefur frá ársbyrjun 2019 gegnt starfi lögfræðings SVÞ ásamt því að vera staðgengill framkvæmdastjóra.
Benedikt hefur sem lögfræðingur SVÞ aðstoðað aðildarfyrirtæki samtakanna á breiðu sviði, ásamt því að annast almenna og sértæka hagsmunagæslu fyrir hönd samtakanna. Hann þekkir því starfsemi samtakanna afar vel.
Benedikt segir starfið leggjast afar vel í sig: „Starfsemi aðildarfyrirtækja SVÞ er á afar breiðu sviði, viðfangsefnin fjölbreytt og við stjórnendum blasa sífelldar áskoranir. Við finnum að fyrirtækin reiða sig oft samtakamáttinn sem starf SVÞ grundvallast á og það er verðugt verkefni að gæta hagsmuna rúmlega fjögur hundruð fyrirtækja. Það er eitt megin verkefni SVÞ að tryggja að til staðar séu tækifæri til hagræðingar, ekki síst með nýtingu stafrænnar tækni og gervigreindar. EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel en honum fylgja líka áskoranir. Innleiðing viðbótakrafna verður að taka mið af mati á getu fyrirtækja til að takast á við þær. Ég þakka traustið og stuðninginn sem stjórn SVÞ hefur sýnt mér en vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki aðildarfyrirtækja samtakanna því án ykkar stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú.“
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ kveðst afar ánægður með þessa niðurstöðu: „Það var einhugur innan stjórnar samtakanna um að ráða Benedikt sem framkvæmdastjóra. Hann hefur sýnt það í störfum sínum fyrir samtökin sl. fimm ár að hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að bera sem án vafa mun nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóra. Hann þekkir innviði stjórnsýslunnar, er vanur samskiptum við stjórnvöld og hefur haldgóða þekkingu og reynslu af áskorunum sem blasa við atvinnulífinu á borð við stafræna umbreytingu, sí- og endurmenntun starfsfólks og auknar kröfur um sjálfbærni.“
14/03/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir
Ný stjórn SVÞ kjörin á aðalfundi samtakanna
Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í morgun, fimmtudaginn 14.mars í Hyl, Húsi atvinnulífsins.
Á fundinum var kosið um þrjú sæti meðstjórnenda. Alls bárust sex framboð til meðstjórnenda.
Réttkjörin í stjórn SVÞ til tveggja starfsára eru eftirtalin: Guðrún Aðalsteinsdóttir, Festi hf., Pálmar Óli Magnússon, Dagar ehf., og Edda Rut Björnsdóttir, Eimskipafélag Íslands hf.
Stjórn er því skipuð eftirfarandi aðilum starfsárið 2023-2024:
- Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Marga, formaður SVÞ
- Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs og samskiptasviðs Eimskips
- Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar
- Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku
- Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar
- Pálmar Óli Magnússon, framkvæmdastjóri Dagar.
- Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar
Nánari upplýsingar veitir:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500
________________
SMELLIÐ HÉR FYRIR Úrslit kosninga 2024
SMELLIÐ HÉR FYRIR FULLTRÚARÁÐ SVÞ Í SA 2024-2025
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ NÁLGAST ÁRSSKÝRSLU STJÓRNAR 2023-2024
Síða 3 af 11«12345...10...»Síðasta »