Ábyrgð fylgir frelsi

Ábyrgð fylgir frelsi

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 15.2.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Enn á ný er til umfjöllunar á Alþingi sem og á samfélags- og fréttamiðlum frumvarp til laga þar sem lagðar eru til breytingar á smásölu áfengis. Eins og oft áður þegar mál þetta er til skoðunar er opnað á miklar og heitar umræður þeirra aðila sem taka afstöðu með eða á móti slíkum breytingum. Skoðanaskipti um mál sem okkur varða eru mikilvæg og til þess fallin að draga fram sjónarmið ólíkra skoðana og aðstoða okkur við taka upplýsta ákvörðun í þeim málum. Hins vegar er mikilvægt að öll sjónarmið nái fram að ganga og tekið sé tillit til þeirra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Í umræðunni um boðaðar breytingar hefur verið áberandi m.a. það sjónarmið að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki varðandi eftirfylgni með ströngum skilyrðum um sölu áfengis. Sem afleiðing þessa muni áfengisneysla aukast vegna aukins aðgengis og meinta tilslökun á smásölu og afhendingu á áfengi. Hagsmunagæsla mismunandi sjónarmiða er því mikil varðandi þetta mál. Greina þarf þó á milli gagnrýni sem annars vegar grundvallast á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar tvískinnungs hagsmunaaðila sem telja að aukin samkeppni ógni einokun þeirra á vöruhillum og útstillingum ríkisins.

Verslunin telur mikilvægt að virða þær opinberu og lagalegu kröfur sem gerðar eru til hennar á hvaða sviði sem það er og væri áfengi þar engin undantekning á. SVÞ bendir á að nú þegar hefur einkaaðilum undanfarna áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, hvort sem það er sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heilindi til að sinna þessum verkefnum og hafa þessir aðilar staðið undir þeirri ábyrgð.

Í þessari umræðu má einnig bera saman þróun varðandi sölu og notkun á annarri vöru sem gjalda þarf varhug við út frá lýðheilsusjónarmiðum, þ.e. tóbak. Tóbak hefur um áratugi verið selt í verslunum samkvæmt ströngum reglum um þá sölu. Þrátt fyrir aukið aðgengi að þeirri vöru hafa opinberar upplýsingar sýnt fram á að reykingar hafa dregist verulega saman hér á landi og eru reykingar hér á landi hvað minnstar í Evrópu. Þessu til stuðnings vísast m.a. til Talnabrunns – Fréttabréfs landlæknis um heilbrigðismál (9. árg. 5. tölublað. Maí 2015). Taka verður undir það sem fram kemur í umræddu fréttabréfi að þennan árangur má rekja til öflugs tóbaksvarnarstarfs. Verður að draga þá ályktun að sömu sjónarmið hljóta að eiga við um aðra vöru, s.s. áfengi, að þar skipti mest máli að halda úti öflugu forvarnarstarfi og fræðslu um skaðsemi vörunnar og skiptir það jafnvel meira máli en hver sölustaðurinn er hverju sinni. Því ber að fagna þeirri tillögu frumvarpshöfunda að leggja til aukið fjármagn í lýðheilsusjóð og að Lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna.

SVÞ telja því mikilvægt að upplýst ákvörðunartaka um hvort smásala á áfengi eigi að færast frá hinu opinbera yfir til einkaaðila verði að grundvallast á öðrum þáttum en eingöngu þeim sjónarmiðum að versluninni sé ekki treystandi að annast þá sölu. Með skýrum skyldum á verslunina og öflugu forvarnarstarfi er unnt að viðhalda skýrri lýðheilsustefnu í áfengismálum og mun þar tilfærsla á smásölustöðum ekki hafa úrslitaáhrif varðandi neysluhegðun er viðkemur áfengi. Verslunin er tilbúin að taka á sig þá ábyrgð og virðingu gagnvart almannaheill sem smásala áfengis hefur í för með sér. Hefur verslunin þegar tekið á sig ábyrgð varðandi aðra viðkvæma vöruflokka og gengið til þeirra verka af fullum heilindum.

Morgunblaðið 15.2.2016 – Ábyrgð fylgir frelsi

Að vinna með atvinnulífinu en ekki gegn því

Að vinna með atvinnulífinu en ekki gegn því

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 10.2.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Samkeppniseftirlit hafa mikilvægu hlutverki að gegna í öllum þeim ríkjum sem líta á virka samkeppni sem helsta drifkraft atvinnulífsins. Þetta á við um við um öll ríki í okkar heimshluta, báðum megin Atlantsála, enda er samkeppnislöggöf mjög þróuð í þeim ríkjum öllum, ekki hvað síst í Bandaríkjunum. Íslensk samkeppnislöggjöf er í öllum aðalatriðum sambærileg evrópskri löggjöf á þessu sviði, enda er það ein forsendan fyrir því að innri markaður Evrópska efnahagssvæðisins virki. Hin lagalega umgjörð samkeppnismála hér á landi er því  að flestu leyti sambærileg og í þeim löndum sem við berum okkur að jafnaði saman við, þó þar séu óheppilegar undantekningar sem þarf að laga.

Af þessari lýsingu mætti því ætla að framkvæmd samkeppnislaga og –reglna sé í öllum aðalatriðum sambærileg á Íslandi  og í  nágrannalöndum okkar. Margt bendir til að svo sé ekki. Sá munur snýr einkum og sér í lagi að því hvernig Samkeppniseftirlitið hér á landi hagar samskiptum sínum við forsvarsmenn í atvinnulífinu. Þau samskipti virðast vera með öðrum hætti í mörgum nágrannalanda okkar.

Fullyrða má að allur þorri atvinnurekenda hafi það að leiðarljósi að virða lög og reglur í hvívetna. Það á ekki hvað síst við um samkeppnislög, enda geta brot á þeim lögum haft í för með sér víðtækar fjárhagslegar afleiðingar sem og orðsporshnekki fyrir fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra. Forsvarsmenn fyrirtækja verða því að geta sótt leiðbeiningar til Samkeppniseftirlitsins um „hvað má og hvað má ekki“, án þess að slíkt hafi einhverjar sérstakar afleiðingar í för með sér eða feli í sér viðurkenningu á meintu broti.

Því miður upplifa forsvarsmenn fyrirtækja viðhorf Samkeppniseftirlitsins oft þannig,  að eftirlitið líti á það sem sitt hlutverk að vinna gegn atvinnulífinu en ekki með því. Í mörgum tilfellum ríkir því fullkomið vantraust í atvinnulífinu í garð eftirlitsins. Forsvarsmenn fyrirtækja veigra sér við að gagnrýna störf eftirlitsins, af ótta við að kalla yfir sig það sem kalla mætti hefndaraðgerðir. Forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins tjá sig gjarnan með þeim hætti í fjölmiðlum að verið er að sá fræjum tortryggni í garð þeirra sem atvinnurekstur stunda.

Það skyldi þó ekki vera að þessi vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins á Íslandi endurspeglist í mismunandi viðhorfi almennings í Danmörku annars vegar og á Íslandi hins vegar eins og hún birtist í nýlegri könnun Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja. Í þeirri könnun var leitað eftir viðhorfi almennings til fyrirtækja og áhrifa þeirra á samfélagið. Munurinn milli þessara landa er sláandi mikill eins og sést á meðfylgandi samanburði.

Fréttablaðið 10.2.2016 – Að vinna með atvinnulífinu en ekki gegn því

Villandi skýrsla Bændasamtaka Íslands um matvöruverð á Íslandi

Hvað sagt er – og ekki síður ósagt látið

Fyrir nokkru sendu Bændasamtök Íslands frá sér skýrslu sem ber yfirskriftina: „Matvöruverð á Íslandi – úttekt á þáttum sem hafa áhrif á matvöruverð“. Það er góðra gjalda vert að Bændasamtökin sjái ástæðu til að benda á atriði sem betur megi fara á þessu sviði sem er mikilvægt fyrir allan almenning í landinu. Hin efnislega framsetning í skýrslunni orkar hins vegar mjög tvímælis, en hún inniheldur fjölmargar fullyrðingar sem virðast hafa þann tilgang einan að varpa rýrð á dagvöruverslunina sem atvinnugreinar. Í því sambandi er vert að minna á að um 40% þeirra vara sem dagvöruverslunin hefur til sölu eru framleiðsluvörur bænda.

Í skýrslu sinni vitna Bændasamtökin mikið til skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá mars 2015 sem ber yfirskriftina: „Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði – staða samkeppninnar 2015“. Það vekur hins vegar athygli að hvergi er minnst einu orði á þær mörgu tillögur sem Samkeppniseftirlitið setti þar fram um hvernig auka mætti samkeppni í landbúnaði. Þá er heldur hvergi minnst á þátt aðfangakeðjunnar í verðmyndun á dagvörumarkaði í skýrslu Bændasamtakanna og hvernig samkeppni er háttað þar. Staðreyndin er nefnilega sú að birgjar dagvöruverslunarinnar í mjólk, ostum, grænmeti, brauði, alifuglakjöti, lambakjöti og svínakjöti eru einungis á bilinu einn til þrír. Það að Bændasamtökin sneiði algerlega fram hjá því að fjalla um þessa mikilvægu þætti í skýrslu sinni dregur mjög úr trúverðugleika hennar.

  1. Arðsemi í matvöruverslun – ónákvæmur samanburður

Í skýrslu Bændasamtakanna er því haldið fram að arðsemi í matvöruverslun sé almennt góð og hafi farið batnandi árin 2011 – 2013. Þessu til stuðnings er vitnað í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá mars 2015. Í henni metur Samkeppniseftirlitið meðalarðsemi eigin fjár skráðra dagvörusmásala (e. grocery retailers) á Íslandi 35% – 40% í samanburði við meðalarðsemi eigin fjár 13% í Evrópu og 11% í Bandaríkjunum. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að samanburður Samkeppniseftirlitsins tekur aðeins til ársins 2013. Þegar hins vegar árin 2014 og 2015 eru metin á sama mælikvarða verður niðurstaðan talsvert önnur því þá sést að árið 2014 stóðu bandarísk félög í sama flokki best að vígi í þessum samanburði, á meðan erfið ár blöstu við í dagvöruverslun í Evrópu og kemur það vel fram í þessum sama samanburði.

Frtk. 9.2.2016 graf 1

Meðalarðsemi skráðra dagvöruverslana skv. iðnaðarflokkun Damodaran (Heimild: Capital IQ). *Upplýsingar vegna ársins 2015 liggja ekki fyrir.

  1. Áhrif gengisbreytinga á verðlag

Bændasamtökin halda því fram í skýrslu sinni að verð á innfluttri matvöru hafi hækkað meira en verð á innlendri búvöru, jafnframt því sem verðið hafi verið gífurlega sveiflukennt.

Samtök verslunar og þjónustu hafa gagnrýnt þessa framsetningu þar sem hún gefur ekki rétta mynd af því hvernig verðlag innfluttra vara hefur þróast og verður sýnt fram á það á næstu þremur myndum hversu ónákvæm framsetning bæði Bændasamtaka Íslands og Samkeppniseftirlitsins er.

Þessar myndir sýna verðþróun innfluttra vara á þremur mismunandi tímabilum. Í öllum tilfellum er reiknuð vísitala innfluttra vara borin saman við verðvísitölu Hagstofu Íslands. Reiknaða vísitalan er mynduð af gengisáhrifum, erlendri verðbólgu, innlendum launakostnaði og öðrum innlendum kostnaði. Ef reiknuð vísitala er hærri en verðvísitala Hagstofunnar er álagning í verslun að minnka.

Reiknaða vísitalan er leiðrétt fyrir afnámi vörugjalda 1. jan 2015.

Frtk. 9.2.2016 graf 2Frtk. 9.2.2016 graf 3Frtk. 9.2.2016 graf 4

Ef horft er á þróunina frá 2008 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 96 af 96 tilvikum hagstæðari en verðvísitala Hafstofunnar. Ef horft er á þróunina frá 2011 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 40 af 60 tilfellum hagstæðari en verðvísitala Hagstofunnar og ef horft er á árin 2014 og 2015 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 12 af 24 tilvikum hagstæðari en vístitala Hagstofunnar.

  1. Þáttur birgja

Það vekur sérstaka athygli að skýrsla Bændasamtakanna minnist ekki einu orði á þátt birgja í verðmyndun á smásölumarkaði. Það er öllum ljóst að til þess að unnt sé að fjalla um verðmyndun á þessum markaði með réttum hætti þarf að taka fyrir þátt hvers aðila í ferlinu frá framleiðanda (bónda) til neytenda.

Eins og Samkeppniseftirlitið tekur sérstaklega fram í skýrslu sinni var ekki leitað skýringa á hækkuðu verði á einstökum innlendum vöruflokkum á s.l. 3-4 árum. Þar fór t.d. ekki fram greining á verðþróun frá bændum til afurðastöðva ofl. sem gætu skýrt umrædda verðhækkun.

Þar sem ekki liggur fyrir greining af hálfu eftirlitsaðila á því hver hlutur birgja er í verðmyndun á dagvörumarkaði verður það sundurlausa mat í skýrslu Bændasamtakanna um þætti sem hafa áhif á matvöruverð að teljast harla ótrúverðugt. Á meðan svo er verður ekki við annað miðað í þessu sambandi en þá mynd sem Samkeppniseftirlitið dregur upp í skýrslu sinni þess efnis að framlegð stærstu verslanasamstæða á dagvörumarkaði hafi staðið í stað á því tímabili sem skýrsla eftirlitsins tekur til, þ.e. áranna 2010 til 2014 (tafla bls. 47 í skýrslu SKE). Það er því ekkert sem bendir til annars en að álagning í dagvöruversluninni hafi haldist óbreytt mörg undanfarin ár, eins og fulltrúar verslunarinnar hafa raunar ítrekað haldið fram.

  1. Ábendingar Samkeppniseftirlitsins

Eins og áður segir setur Samkeppniseftirlitið fram fjölmargar ábendingar um aðgerðir til að bæta samkeppni í landbúnaði í skýrslu sinni frá 2015. Í mörgum tilfellum er þar um að ræða tillögur sem eftirlitið hefur ítrekað sett fram og beint til ráðherra og stofnana. Í flestum tilfellum hafa stjórnvöld látið hjá líða að fara eftir ábendingum SKE. Margar ábendinganna beinast að opinberum samkeppnishömlum sem eru til staðar í landbúnaðarkerfinu og eru til þess fallnar að skerða hag bæði neytenda og bænda. Það sker í augu að Bændasamtökin hafi ekki séð ástæðu til að fjalla einu orði um þessar ábendingar Samkeppniseftirlitsins. Fullyrða má að ef stjórnvöld færu að tillögum Samkeppniseftirlitsins í landbúnaðarmálum kæmu slíkar aðgerðir neytendum í landinu mjög til góða með beinum hætti.

  1. Búvörusamningur

Um nokkurra mánaða skeið hafa staðið yfir viðræður milli Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda um gerð nýs búvörusamnings. Áætlað er að samningurinn verði gerður til tíu ára og muni kosta skattgreiðendur nær 14 milljarða króna á ári eða nálega 140 milljarða á þessu tíu ára tímabili. Lengst af fóru samningaviðræðurnar hljótt og virtist sem litið væri svo á að þær væru einkamál bændaforystunnar og stjórnvalda. Vegna utanaðkomandi þrýstings hefur nú orðið breyting á og búið að opinbera helstu efnisatriði fyrirhugaðs samnings. Eins og ljóst má vera er hér um gífurlega dýran samning að ræða og er þá ótalinn sá óbeini stuðningur sem landbúnaðurinn býr við í formi tollverndar sem almennt er metin á um 9 milljarða króna á ári. Stjórnvöld virðast engin áform hafa um að minnka þá tollvernd. Að óbreyttu mun því bæði beinn og óbeinn stuðningur aukast við landbúnaðinn á næstu árum. Má því gera ráð fyrir að almenningi verði sendur reikningur upp á 220 til 240 milljarða króna á næstu tíu árum í því skyni að halda uppi nær óbreyttu landbúnaðarkerfi. Það skyldi þó ekki vera tilviljun að skýrsla Bændasamtakanna hafi verið sett fram á akkúrat þessum tímapunkti. Það skyldi þó ekki vera að tilgangurinn hafi verið sá að draga athyglina frá væntanlegum búvörusamningi og þeim feita reikningi sem ætlunin er að senda almenningi að undirskrift lokinni?

Fréttatilkynning til útprentunar.

Þjóðaratkvæði um 180 milljarða?

Þjóðaratkvæði um 180 milljarða?

VIÐSKIPTABLAÐIÐ DESEMBER 2015 – JANÚAR 2016

Skoðun – Finnur Árnason forstjóri Haga
Það er sagt að listin í stjórnsýslu sé að taka peninga af einum og gefa öðrum og George Bernard Shaw orðaði það þannig að stjórnvöld sem ræna Pétur til að borga Páli, geti alltaf reiknað með stuðningi Páls. Þetta hljómar bæði kunnuglega og sem sannindi, ekki síst ef við horfum á Pétur sem þig lesandi góður, íslenska neytandann.

Samkvæmt skýrslum OECD nemur stuðningur neytenda við landbúnaðarkerfið á Íslandi um 18 milljörðum króna árlega. Það þýðir einfaldlega að neytendur borga 18 milljörðum króna of mikið fyrir þennan flokk nauðsynjavara ár hvert. Hægt er að skipta stuðningi við landbúnaðinn í tvo flokka. Annars vegar beingreiðslur frá skattgreiðendum til bænda í gegnum ríkissjóð og hins vegar að neytendur greiða hærra verð en eðlilegt er vegna tollverndar, en flestar þessar vörur njóta verndar með svokölluðum ofurtollum. Helstu einkenni núverandi kerfis eru að neytendur greiða hátt verð, bændur bera lítið úr býtum og kostnaður ríkissjóðs er umtalsverður.

Nú ræðir sérhagsmunahópur um mikilvægi þess að gera nýjan búvörusamning til 10 ára, en núgildandi samningur nær til ársins 2017. Þeir sem eiga að greiða reikninginn, þ.e. neytendur, eru ekki aðilar að þeim viðræðum. En nýr samningur þýðir í raun að ætlast er til þess að neytendur greiði áfram hærra verð en eðlilegt er fyrir sjálfsagðar nauðsynjavörur. Samningur  til 10 ára þýðir skattlagningu í 10 ár. Samningurinn kemur til með að binda tvær næstu ríkisstjórnir, þó hvor um sig sitji fullt kjörtímabil. Núverandi ríkisstjórn ætlar því að ákveða útgjöld a.m.k. tveggja næstu ríkisstjórna og binda fjárveitingarvaldið til útgjalda á kostnað neytenda til ársins 2027.

Ég spyr mig hvort rétt sé að ríkisstjórnin taki ákvörðun um 180 milljarða skattlagningu á neytendur til næstu 10 ára og gefi hvorki neytendum, né tveim næstu ríkisstjórnum færi á því að hafa skoðun á svo umfangsmiklum skuldbindingum. Eðlilegt er að ítarleg umræða fari fram um málið áður en ákvörðun er tekin. Það má spyrja sig hvort neytandinn Pétur eigi engan málsvara á Alþingi. Samningur af því tagi sem hér er nefndur leggur álögur á Pétur neytanda til þess að hægt sé að borga sérhagsmunahópi Páls. Páll mun styðja þessa skattheimtu og berjast með kjafti og klóm gegn öllum þeim sem ætla að svipta hann þessum fyrirhafnarlausa tekjupósti.

Í haust upplýsti landbúnaðarráðuneytið í fréttatilkynningu að náðst hefði tímamótasamningur við ESB um tollfrjálsan innflutning á öllum unnum landbúnaðarvörum, nema jógúrti. Unnar kjötvörur, sbr. skinka og unnar mjólkurvörur, sbr. ostar falla ekki undir skilgreininguna „unnar landbúnaðarvörur“ í landbúnaðarráðuneytinu og þennan tollfrjálsa innflutning. Það gera aftur á móti hinar alræmdu landbúnaðarvörur súkkulaði og frosnar pitsur. Sagt var að tollar féllu niður á yfir 300 vöruflokkum, en staðreyndin er að yfir 200 vöruflokkar sem nefndir voru bera í dag enga tolla. Neytendur eru því ítrekað blekktir með misvísandi orðalagi og ósannindum. Með þessum vinnubrögðum kemur ráðherra upp um sig sem helsti andstæðingur neytenda. Hann segir ósatt og blekkir neytendur í þeirri von að geta áfram skattlagt þá fyrir sérhagsmunahópinn sinn.

Ýmis tilefni hafa verið nefnd til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar á meðal málefni sem varða fjárhagslegar skuldbindingar þjóðarinnar, sbr. Icesave. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins frá maí 2012 hefði kostnaður vegna Bucheitsamningsins numið 64 milljörðum króna, nettó. Sambærilegt mat GAMMA á kostnaði vegna Icesave-samningsins í apríl 2012 var 59 milljarðar eftir að tekið hafði verið tillit til vaxtagreiðslna annars vegar og framlags úr tryggingasjóði innstæðueigenda hinsvegar. Er það fráleit hugmynd að almenningur fái að kjósa um það hvort hann vilji verja 180 milljörðum í að viðhalda úreltu landbúnaðarkerfi?Nýr búvörusamningur er á við þrefalda Icesave skuldbindingu miðað við framangreindar forsendur. Börnin okkar borga þennan reikning sem neytendur og í mínum huga er ákvörðun um þennan samning eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila. Því er eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nýjan 180 milljarða búvörusamning.

Greinin til útprentunar.