18/01/2019 | Fréttir, Greining
Samantekt
Hrávörumarkaður er að margra áliti meira spennandi en mörg önnur svið viðskipta. Ekki þarf að tíunda mikilvægi hrávöruviðskipta fyrir bæði framleiðendur og neytendur. Verðbólgan var undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands samfellt frá febrúar 2014 til mars 2018, m.a. vegna verðlækkunar olíu og annarra hrávara. Lækkandi hrávöruverð á heimsmarkaði hafði áhrif á vöruverð innfluttra neysluvara. Lægra hrávöruverð hafði jafnframt óbein áhrif á hérlent söluverð vara vegna lægri kostnaðar í innlendri matvælaframleiðslu sem háð er innflutningi á erlendum hrávörum. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða þróun og horfur á hrávörumarkaði. Samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans, sem kom út í byrjun árs um horfur í heimshagkerfinu, er því spáð að hrávöruverð verði stöðugt á þessu ári eftir miklar sveiflur á síðasta ári. Olíuverð var að meðaltali um 68 Bandaríkjadalir fyrir fatið árið 2018 eða um 30% hærra en árið 2017. Alþjóðabankinn spáir því að olíuverð verði að meðaltali um 67 Bandaríkjadalir fyrir fatið á yfirstandandi ári.
Hér má nálgast greininguna í heild sinni
22/10/2018 | Fréttir, Greining, Greiningar
Samantekt frá SVÞ um þróun undirliða vísitölu neysluverðs í september 2018.
Hér má lesa greininguna í heild sinni.
26/09/2018 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Verslun
Á tímabilinu 2008 til 2017 hækkaði framleiðni vinnuafls í heild- og smásöluverslun um 3,7% á ári. Framleiðnivöxturinn var meiri í smásölu en heildverslun og meiri en í atvinnulífinu í heild. Þannig var árlegur vöxtur í framleiðni vinnuafls í smásölu 4,5%, um 1,8% í heildverslun og um 1,5% hjá öllum atvinnugreinum í heild sinni. Ein skýring sem nefnd hefur verið fyrir lægri vexti í framleiðni í heildverslun er sú að lítið hafi verið um tækninýjungar í greininni.
Skýrslan er hugsuð sem viðbót við skýrsluna Íslensk netverslun –áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni.
Skýrsluna má nálgast hér.
25/09/2018 | Fréttir, Greining, Verslun
Á dögunum gaf Rannsóknarsetur verslunarinnar út skýrsluna Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni þar sem fjallað er um áhrif stafrænnar tækni á verslun og verslunarhegðun Íslendinga.
Í skýrslunni birtast í fyrsta sinn tölur um veltu innlendar netverslunar og netverslun Íslendinga frá öðrum löndum. Gagnasöfnunin sem tölurnar byggja á er einstök og ekki er vitað til að slík gagnasöfnun hafi átt sér stað áður.
Á skýringarmyndinni hér fyrir neðan má sjá helstu tölur varðandi netverslun Íslendinga innanlands og skýrsluna í heild sinni má sjá á svth.is/netverslun.

20/09/2018 | Fréttir, Greining
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst kortavelta Íslendinga í innlendri fataverslun um 13,1% í ágúst síðastliðnum og nam tæpum 2,2 milljörðum í ágúst nú samanborið við rúman 1,9 milljarða í ágúst í fyrra. Raunar hefur fataverslun einnig vaxið undanfarna mánuði og hefur kortavelta í flokknum aukist um 17% ef tímabilið apríl til ágúst 2018 er borið saman við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur 1,6 milljörðum yfir tímabilið. Er þetta til marks um ágætan kaupmátt landsmanna þessi misserin og þá kann opnun H&M hérlendis í lok ágúst í fyrra að skýra vöxtinn að hluta.
Netverslun Íslendinga hjá innlendum netverslunum með föt jókst á sama tímabili um 29% og nam 379 milljónum í samanburði við ríflega 11 milljarða í búðum og nam netverslunin því 3,4% af kortaveltu flokksins.
Raftækjaverslun var ágæt fyrir HM í fótbolta
Maí- og júnímánuðir standa nokkuð upp úr þegar kortavelta í raf- og heimilistækjum er skoðuð í samanburði við mánuðina í kring. Þannig jókst velta raftækja um 11,5% í júní og júlí, frá sömu mánuðum í fyrra, samanborið við hóflegri vöxt mánuðina áður og nokkurn samdrátt í júlí. Ekki er ólíklegt að heimsmeistaramótið í fótbolta sem hófst í júní hafi átt sinn þátt í aukningunni og margir hafi ákveðið að endurnýja sjónvarpstækin fyrir keppnina.
Raf- og heimilistækjaverslun er sú gerð verslunar sem er hvað lengst komin í netverslun en 7,8% þeirrar verslunar fór í gegn um netið í ágúst síðastliðnum. Hlutfallið sveiflast þó nokkuð milli mánaða en sem dæmi fór það hæst í 12,2% í nóvember 2017 í tengslum við Svartan föstudag (Black friday) og netmánudag (Cyber Monday).
14/09/2018 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Stafræn viðskipti, Verslun
Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur gefið út skýrsluna „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“, en útgáfa skýrslunnar var styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og VR. Höfundur er Emil B. Karlsson.
Skýrslan sem greinist í þrjá kafla og fjallar á greinargóðan hátt um miklu breytingar sem verslun sem atvinnugrein stendur nú frammi fyrir, vegna þeirra stórstígu breytinga sem eru að verða í verslun og verslunarháttum hvar sem er í heiminum.
Í fyrsta kafla skýrslunnar er farið yfir áhrif og afleiðingar stafrænnar tækni á verslun almennt, með sérstakri áherslu á þau áhrif sem líklegt er að slíkt hafi á íslenska verslun. Í öðrum hluta skýrslunnar eru birtar niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskri verslun, þar sem m.a. er birt ítarleg samantekt á umfangi netverslunar hér á landi og netverslunar frá útlöndum, upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Einnig er þar að finna niðurstöður úr viðamikilli skoðanakönnun á netverslunarhegðun Íslendinga. Í þriðja kafla skýrslunnar eru síðan settar fram ályktanir byggðar á þeim rannsóknum sem kynntar eru í skýrslunni.
SVÞ fagna útkomu skýrslunnar, en hún kemur út á hárréttum tíma og er tímabært innlegg í umræðu um stöðu greinarinnar nú þegar hún stendur frammi fyrir meiri og víðtækari breytingum á allra næstu árum, en orðið hafa marga síðustu áratugi. Eru allir hagsmunaaðilar og áhugamenn um íslenska verslun og framtíð hennar hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér.