30/04/2021 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun, Stafræna umbreytingin, Stjórnvöld
Í dag, föstudaginn 30. apríl, birtist eftirfarandi sameiginleg grein formanna SVÞ og VR á Vísi undir yfirskriftinni, Sköpum fleiri störf og brúum stafræna bilið.
Göngum í takt
Þróun og nýting stafrænnar tækni hefur tekið risavaxin og hröð skref síðustu misserin. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur þessi þróun orðið svo ör í t.d. verslunar- og þjónustugreinum, að ekki er hægt að lýsa því öðruvísi en sem byltingu.
Fyrirtæki og starfsmenn þeirra eru mjög misvel undirbúin því hvernig takast á við þessa byltingu, en gríðarlega miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, jafnt efnahagslegir sem menningarlegir. Stafræn hæfni okkar allra er því það lykilatriði sem getur skorið úr um hvernig þjóðfélag okkar mun þróast á næstu árum og mun segja til um stöðu okkar í alþjóðlegu samfélagi.
SVÞ, VR og Háskólinn í Reykjavík hafa nú um nokkurt skeið unnið að því að koma á samstarfsvettvangi um eflingu stafrænnar hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði. Markmið slíks samstarfsvettvangs er ekki síst það að brúa það stafræna bil sem er á milli þeirra sem nýtt geta tækni stafrænnar umbreytingar í sína þágu og þannig notið ávinningsins af henni, og hinna sem eftir sitja. Á það jafnt við fyrirtækin og launafólkið sem hjá þeim starfa.
Þar sem um er að ræða samfélagslegt verkefni sem kemur okkur öllum við og hefur það að markmiði að auka lífsgæði með þróun starfa og aukinni þjálfun einstaklinga í ný verkefni sjá VR og SVÞ ekki annað fært í stöðunni en að vinna að því í sameiningu. Þegar kemur að svo stóru samfélagslegu máli verða önnur ágreiningsmál að víkja. VR og SVÞ eru ekki sammála um allt, en í þessu máli göngum við fullkomlega í takti!
Stjórnvöld gefi skýr skilaboð
Við sem ýtt höfum þessu verki úr vör leggjum áherslu á að stjórnvöld komi að verkefninu af nokkrum lykilástæðum:
- a. Til að gefa skýr skilaboð um að við viljum skapa einn öflugan samstarfsvettvang þvert á samfélagið þar sem við getum sameiginlega unnið að þessu stóra verkefni.
- b. Til að undirstrika mikilvægi verkefnisins.
- c. Og til að sýna stuðning við íslenskt atvinnulíf og fólk á vinnumarkaði í verki.
Sama er að segja um okkar fólk í Evrópu allri, en nýlega sendu EuroCommerce, samtök verslunarinnar í Evrópu, og UNI Europe, samtök launafólks í Evrópu frá sér sameiginlega áskorun til Evrópusambandsins og ríkisstjórna aðildarríkjanna um að styðja fyrirtæki og starfsfólk í stafrænni umbreytingu.
Stafræna bilið er raunverulegt – hættan er raunveruleg
Einstaklingar, fyrirtæki – og þjóðir – sem ekki hafa þá stafrænu hæfni sem þarf, verða á endanum undir. Hér á landi er þetta bil raunverulegt og það fer stækkandi.
Stafræna bilið hjá einstaklingum er munurinn á þeim sem kunna að nota tæknina í lífi og starfi og hinna sem ekki kunna það. Störf eru að breytast. Störf sem þarfnast lítillar færni hverfa en þau störf sem skapast kalla á stafræna hæfni og framfarahugarfar. Rannsóknir sýna að með stafrænni umbreytingu eru tækifæri til að skapa fleiri störf en þau sem hverfa. Störfin eru betur launuð, verðmætari og færa má rök fyrir því að þau séu meira gefandi fyrir einstaklinginn. Einhæf handavinna hverfur fyrir skapandi hugsun. Breytingarnar eru því þannig að það er eftir miklu að slægjast fyrir einstaklinginn og samtök verzlunarmanna mun auðvitað standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni að réttlát skipting verði á þeim verðmætum sem skapast með aukinni stafrænni tækni.
Stafræna bilið hjá fyrirtækjunum er munurinn á þeim sem ákveða að nota tæknina til að auka samkeppnishæfni sína og hinna sem eftir sitja, verða undir og munu að lokum að leggja upp laupana. Það þýðir að bæði stjórnendur og starfsfólk þurfa að hafa til að bera stafræna hæfni og framfarahugarfar.
Yfirfært á íslenskan veruleika þá er þetta bil enn ískyggilegra og hættan mjög raunveruleg því að hinumegin eru ekki eingöngu tæknivædd íslensk fyrirtæki, heldur risastórir alþjóðlegir tæknirisar sem draga í auknum mæli til sín viðskipti Íslendinga, án þess að skilja nokkuð eftir í þjóðarbúinu. Þessi fyrirtæki greiða hér litla sem enga skatta og þau skapa hér engin störf.
Brúarsmíði – allir njóti ávinningsins
Að þessu sögðu er það ljóst að brúa þarf stafræna bilið hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða einfaldlega bilið á milli Íslands og annarra þjóða, til að við fáum öll notið ávinningsins sem fylgir stafrænni umbreytingu. Þar má enginn verða útundan. Að óbreyttu drögumst við á endanum það mikið aftur úr að bilið verður ekki brúað.
Þessi brú yfir stafræna bilið verður ekki byggð nema með samstilltu átaki. Svo stórt samfélagslegt verkefni kallar á samstarf og samstöðu þvert á þjóðfélagið. Hin Norðurlöndin hafa náð gríðarlega góðum árangri í stafrænni umbreytingu og ljóst að víðtækt samstarf er þar algjört grundvallaratriði. Til að brúa stafræna hyldýpið þarf samstarf atvinnulífs og vinnumarkaðar, samstarf hins opinbera og einkageirans, samstarf við háskólasamfélagið og menntageirann eins og hann leggur sig. Samstarf um verkefni sem varðar samfélagið allt.
Komum okkur að verki – saman!
Samtal okkar við stjórnvöld hefur verið mjög jákvætt og eindreginn stuðningur við verkefnið. Nú er hins vegar kominn tími til að láta hendur standa fram úr ermum svo hefja megi brúarsmíðina.
Við aðra í samfélaginu sem vilja vinna að þessu mikilvæga verkefni með okkur segjum við einfaldlega, komið fagnandi. Hafið samband. Þið getið fundið frekari upplýsingar um verkefnið og hugmyndirnar að baki því á stafraent.is.
Í sameiningu brúum við stafræna bilið.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR og Jón Ólafur Halldórsson formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
29/04/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í Fréttablaðinu í dag, 29. apríl, birtist umfjöllun þar sem rætt er við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ um fullyrðingar verðlagseftilits ASÍ um að álagning smásölufyrirtækja hafi aukist að undanförnu. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Það er athyglisvert hvernig verðlagseftirlit ASÍ les í þessa stöðu þar sem því er haldið fram að álagning smásölufyrirtækja hafi aukist að undanförnu, án þess að sú fullyrðing hafi verið rökstudd með einhverjum hætti,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Markaðinn.
„Verðlagseftirlit ASÍ hlýtur að gera sér grein fyrir því að þær gífurlegu, erlendu verðhækkanir sem fyrirtækin hafa verið að horfast í augu við að undanförnu, hafa áhrif hér á landi.“
Bendir Andrés að aðildarfyrirtæki hafi miklar áhyggjur af tilkynningum sem berast frá erlendum birgjum um hækkanir á hrávöruverði á sama tíma og flutningskostnaður er að hækka gífurlega.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA Í HEILD SINNI
Mynd: Fréttablaðið/Valli
27/04/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í Reykjavík síðdegis 14. apríl sl. þar sem hann ræddi um rétt fyrirtækja til að neita að taka við reiðufé.
Skv. túlkun Seðlabankans á viðeigandi lögum er fyrirtækjum í sjálfsvald sett hvort þau taka við seðlum og klinki sem greiðslu. Æ fleiri fyrirtæki hafa tekið ákvörðun um að taka ekki við reiðufé og hefur COVID faraldurinn ekki síst ýtt undir þá þróun. Einnig er þessi þróun liður í því að uppræta ólöglega starfsemi og draga úr skattsvikum. Mikið hagræði er í því að taka við greiðslum með rafrænum hætti frekar en reiðufé með tilheyrandi umstangi.
SVÞ er um þessar mundir að afla sér betri upplýsinga um hvernig verið er að gera þessa hluti í öðrum löndum, og þá ekki síst í Svíþjóð, en Svíar hafa sett sér það markmið að gera landið seðla- og myntlaust innan örfárra ára.
Hlusta má á viðtalið hér fyrir neðan:
23/03/2021 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Eftifarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. mars:
Þegar allt í kringum okkur er gengið hröðum skrefum og stórum til framtíðar, verða stuttu skrefin þannig að engu er líkara en að um kyrrstöðu eða afturför sé að ræða. Þetta má segja um frumvarp dómsmálaráðherra sem kemur til móts við umtalsverða grósku smærri brugghúsa er sprottið hafa upp um land allt. Verði það að lögum fá brugghúsin leyfi til þess að selja sitt fjölbreytta úrval af handverksbjór á framleiðslustað. Sú nýbreytni er til þess fallin að auka tilbreytingu í verslun og vera eftirsótt viðbót í ferðaþjónustu.
Jafnræði í nýjum veruleika
Veruleikinn hefur þó farið mörgum skrefum frammúr okkur með tilkomu alþjóðlegrar vefverslunar. Í vaxandi mæli fá Íslendingar vín og bjór sendan heim til sín eftir þeim leiðum. Umfang netverslunar vex með ógnarhraða og auglýsingar frá vín- og bjórframleiðendum erlendis eru áberandi á samfélagsmiðlum, þeim miðlum sem er orðin hin almenna leið til að afla sér upplýsinga og þekkingar. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) um það takmarkaða afnám einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er einmitt lögð höfuðáhersla á jafnræði til vefverslunar.
Óboðlegt viðskiptaumhverfi
Það hreinlega gengur ekki upp að erlendum vefverslunum sé heimilt að höndla án takmarkana með bjór og léttvín á íslenskum markaði á sama tíma og innlendar vefverslanir eru útilokaðar. Veruleikinn er einfaldlega sá að innlendir bjórframleiðendur flytja nú þegar afurðir sínar frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda þær aftur til landsins í gegnum erlendar vefverslanir, t.d. verslun Amazon í Bretlandi. Svona viðskiptahættir eru ekki boðlegir í dag, hvort sem litið er til jafnræðissjónarmiða eða kolefnisfótspors.
Hverjir réðu afturförinni?
Á undirbúningsstigi umrædds frumvarps voru drög að því birt í tvígang á samráðsgátt stjórnvalda, www.Island.is. Í bæði skiptin var gert ráð fyrir að heimilaður yrði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með vissum takmörkunum. Til grundvallar lágu þau rök að æskilegt væri að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar í ljósi þess að almenningi væri heimilt að kaupa áfengi í gegnum netverslun frá útlöndum og flytja til landsins til einkaneyslu á meðan slík verslun væri ekki heimil í vefverslun sem starfrækt væri hér á landi. Með því að heimila innlenda vefverslun með áfengi væri lagaleg staða innlendrar og erlendrar vefverslunar með áfengi jöfnuð. Vandséð er hvernig hægt er að réttlæta bann við atvinnurekstri sem snýst um sölu á vöru sem almenningur getur flutt inn að vild til einkaneyslu. Fróðlegt væri að fá upplýst hversvegna þessu sjálfsagða jafnræðissjónarmiði var kippt út úr frumvarpinu. Hverjir knúðu fram þá afturför?
Skref sem myndu bæta stöðuna
SVÞ hafa ávallt hafa lagt ríka áherslu á viðskiptafrelsi. Afstaða samtakanna er sú að stefna beri að því í markvissum skrefum að aflétta einokun ríkisins á viðskiptum með bjór og vín. Mikilvægt er að framkvæmdin sé skýr og afmörkuð þannig að engin óvissa skapist og vel sé um alla umgjörð búið. Reynsluna af hverju skrefi í afnámi einokunar á verslun með áfengi þarf að meta og hafa til hliðsjónar við töku næsta skrefs. Að sjálfsögðu þarf að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og vönduðum vinnubrögðum í hvívetna, eins og gildir um alla þróun verslunar og þjónustu. Það er afstaða SVÞ að ekki sé hægt að styðja afgreiðslu frumvarpsins, sem hér er til umræðu, þótt það sé jákvætt í eðli sínu, nema því verði breytt á þann hátt að innlend netverslun með bjór og léttvín verði heimiluð samhliða því að innlendum framleiðendum verði heimiluð smásala á framleiðslustað. Það væru skref sem um munaði og myndu stuðla að jafnræði í verslun og jafnfætisstöðu í samkeppni, bæði íslenskra vefverslana og framleiðenda á Íslandi.
29/01/2021 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Í Fréttablaðinu þann 28. janúar birtist umfjöllun þar sem Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir erfitt að horfa upp á tilvik þar sem fyrirtæki séu nálægt því að uppfylla skilyrði tekjufallsstyrks stjórnvalda, en gera það ekki í ljósi strangra lagaskilyrða og óheppilegra tímasetninga. Í umfjölluninni eru talin upp nokkur álitamál sem SVÞ hefur skoðað í þessu sambandi, s.s. er varða nýlega stofnuð fyrirtæki, lítil fyrirtæki þar sem eigendur gripu til þeirra ráða að greiða ekki laun á viðmiðunartímabilinu, fyrirtæki sem fengu einhverjar tekjur í sumar og fyrirtæki sem skráð voru á launagreiðendaskrá en ekki virðisaukaskattsskrá.
>> Umfjöllunina má lesa í heild sinni á vef Fréttablaðsins hér.