09/12/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir, í sjónvarpsfréttum RÚV þann 8. desember, breytingar á sóttvarnarráðstöfunum sem gildi taka fimmtudaginn 10. desember mjög ánægjulegar fyrir verslanir. Hann segir þær munu draga úr biðröðum fyrir framan verslanir en samtökin hafa haft áhyggjur af því að það sé meiri smithætta í allskonar biðröðum fyrir utan verslanir heldur en inni í vel rúmgóðum og loftræstum verslunarrýmum.
Skv. breytingum sem búið er að boða að verði gerðar á sóttvarnarráðstöfunum og taka gildi 10. desember næstkomandi mega allar verslanir taka á móti 5 manns á hverja 10m2 en að hámarki 100 manns.
02/12/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í Reykjavík síðdegis 1. desember þar sem hann ræddi óbreyttar sóttvarnaraðgerðir til 9. desember. Óskir samtakanna eru að í matvöru- lyfjaverslunum sem eru yfir 1 þúsund fermetrar að stærð geti verið allt að 100 manns í einu og svo 1 fyrir hverja 10 fermetra í viðbót, og í öðrum verslunum upp í 20 manns. Þannig var fyrirkomulagið í vor. Hann segir samtökin hafa haft ástæðu til að ætla að hljómgrunnur hefði verið fyrir þessari tillögu áður en þriðja bylgjan hófst en svo hafi ekki orðið.
Samtökin gagnrýna einnig skort á fyrirsjáanleika, samræmi og samráði bæði við verslanir og atvinnulífið almennt. Erfitt sé fyrir fyrirtæki að skipuleggja sig þegar upplýsingar berist með stuttum fyrirvara, líkt og t.d. var núna þegar aðgerðir voru framlengdar. Ósamræmi er í því t.d. að litlar lyfjaverslanir geti haft 50 manns inni hjá sér, á meðan risastórar verslanir, t.d. byggingavöruverslanir, mega einungis hafa 10 manns í einu.
Andrés segir lítið sem ekkert samráð vera við sóttvarnaryfirvöld, þau séu helst í gegnum fjölmiðla og ekki hafi borist nein almennileg viðbrögð við þessum sjónarmiðum.
Ljóst er að nýliðinn mánuður verður metmánuður í netverslun en jafnramt liggur fyrir að það mun ekki brúa það bil sem þarf til að bæta upp að fólk geti ekki verslað með hefðbundnum hætti. Mikið vanti upp á að sóttvarnaryfirvöld horfi lausnamiðuð á málin.
Hlustaðu á viðtalið hér:
01/12/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, gagnrýnir ófyrirsjáanleika sóttvarna stjórnvalda í fréttum Stöðvar 2 þann 30. nóvember. Hann segir skort á fyrirsjáanleika, skort á samræmi og skort á samráði við atvinnulífið.
Andrés kallar eftir því að hámarksfjöldi í verslunum verði hækkaður upp í tuttugu og að stærri verslanir fái heimild til að taka á móti allt að hundrað manns í einu. „Það er staða sem við getum auðveldlega lifað með til jóla.“
30/11/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var mjög skýr í þegar Mbl.is ræddi við hann um hugmyndir starfshóps heilbrigðisráðherra um sykurskatt. Sagði hann samtökin vera alfarið á móti svona neyslustýringasköttum og hafa alltaf verið það. Hann sagði sambærilegan skatt á árunum 2009-2013 vera eina verstu skattheimtu sem hann hafi þurft að eiga við á öllum ferli sínum í hagsmunagæslu og að hann hafi ekki skilað markmiðum sínum, hvorki lýðheilsu- né tekjumarkmiðum.
30/11/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í Reykjavík síðdegis föstudaginn 27. nóvember og ræddi m.a. verslun á svörtum föstudegi og áhrif sóttvarna á verslunina. Samtök atvinnulífsins kalla eftir meira samræmi í sóttvarnarreglum og SVÞ hefur ítrekað gagnrýnt að verslanir í stóru húsnæði, sem ekki selja matvöru eða lyf, mega eingöngu hafa 10 manns inni, á meðan t.d. lítil apótek mega hafa 50 manns.
Hann ræddi einnig hugmyndir um sykurskatt og sagði slæma reynslu hafa verið af sykurskatti 2009-2013. Það hafi verið flókin skattheimta og ógagnsæ sem t.d. skapaði 3 auka stöðugildi hjá Tollstjóranum í Reykjavík til að halda utanum þennan skatt. SVÞ er alfarið á móti því að stýra neyslu með skattheimtu. Mikið nær sé að hvetja fólk til breyttra lífshátta. Rannsóknir og dæmi úr ýmsum löndum sýna að sykurskattur hefur ekki þau áhrif sem vonast er eftir.
Hlustaðu hér fyrir neðan:
27/11/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, kallaði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi eftir fyrirsjáanleika í sóttvarnaraðgerðum og óskaði eftir opnu samtali við stjórnvöld. Jafnvel þótt atvinnulífið hafi hagsmuna að gæta búi verslunarfólk yfir reynslu af beitingu aðgerða.
„Ég held að það sé nú hygginna manna háttur að hlusta á ráðin. Hvaðan sem þau koma. Það þarf líka að meta það að við höfum þó reynsluna af því að vinna úr þessum aðgerðum. Þetta samtal skiptir svo miklu máli til þess að við getum leyst úr þessu með skilvirkum hætti. Þetta snýst ekki bara um hvernig sóttvarnayfirvöld meta ástandið. Þetta snýst líka um pólitíska forrystu og við getum ekki látið atvinnulífið eða samfélagið stoppa. Við verðum að sjá til þess að hér geti daglegt líf gengið áfram. Við þurfum bara að gera það með öruggum hætti og ég held að það sé allt í lagi að það sé hlustað á það sem við höfum að segja,“ segir Jón
Einnig benti hann á að varhugavert væri að draga of miklar ályktanir af einstökum viðburðum og vísar þar í ummæli sóttvarnalæknis um smit í verslunarmiðstöð á upplýsingafundi almannavarna í gær Þau ummæli auk ummæla Rögnvaldar Ólafssonar, deildarstjórar ríkislögreglustjóra um málið, urðu til þess að fréttir birtust af smiti í Kringlunni en hið rétta var að smit kom upp á skrifstofu í byggingu við hlið Kringlunnar.