Framkvæmdastjórar SVÞ og BGS tjá sig um fyrirhugað kílómetragjald.

Framkvæmdastjórar SVÞ og BGS tjá sig um fyrirhugað kílómetragjald.

Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda

Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.

Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;

UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI

Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.

Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti

Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.Bifreiðagjöld frumvarp til breytinga

Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.

Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.

„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“

Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.

Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“

Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.

Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.

Markviss skot geiga síður

Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.

Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.

Hliðaráhrifin

Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.

Úr hvaða veski?

En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.

Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.

Tækifæri til úrbóta

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.

Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

_____________________

Grein MBL 25.10.2024

SVÞ gagnrýna styrki til Bíós Paradísar sem skekkja samkeppni

SVÞ gagnrýna styrki til Bíós Paradísar sem skekkja samkeppni

SVÞ vara við ríkisstyrkjum til Bíós Paradísar – skekkja samkeppni á kvikmyndamarkaði

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa lýst yfir áhyggjum af því að styrkbeiðni Bíós Paradísar um 50 milljóna króna framlag frá ríkinu skekki samkeppni á kvikmyndamarkaðnum. Samtökin telja að slíkir ríkisstyrkir, sem Bíó Paradís hefur nú óskað eftir annað árið í röð, séu óhjákvæmilega skaðlegir fyrir önnur kvikmyndahús sem einnig leggja mikið af mörkum til félagslegrar og menningarlegrar starfsemi.

Vitnað er í Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóra SVÞ, sem bendir á að: „Það er áhyggjuefni að ekki sé tryggt jafnræði í stuðningi við kvikmyndahús. Rekstrargrundvöllur Bíós Paradís virðist byggður á ríkisstyrkjum og slíkt skapar ósanngjarnt samkeppnisumhverfi. Við verðum að gæta þess að önnur bíóhús, sem eins og Bíó Paradís sinna menningarhlutverki og styðja íslenska kvikmyndagerð, fái einnig tækifæri til að blómstra.“

Þá leggur SVÞ einnig áherslu á nauðsyn þess að lækka virðisaukaskatt á kvikmyndahúsamiða úr 24% í 11%, til að jafna samkeppnisstöðu kvikmyndahúsa gagnvart erlendum streymisveitum. „Þetta misræmi er ósanngjarnt og dregur úr getu kvikmyndahúsa til að keppa á jafnréttisgrundvelli við risastórar erlendar veitur,“ segir Benedikt að lokum.

Smellið hér til að lesa alla greinina.

*Mynd frá vef VB.

Verslanir verða fyrir barðinu á erlendum þjófagengjum

Verslanir verða fyrir barðinu á erlendum þjófagengjum

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, kom Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, fram og lýsti áhyggjum af stöðugum innbrotum í verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Hann greindi frá því að erlendir glæpahópar séu nú sérstaklega virkir í að herja á íslenskar verslanir.

„Við höfum fengið upplýsingar um að þjófagengi frá útlöndum starfi hér á landi með mjög skipulegum hætti,“ sagði Benedikt ma. í viðtalinu.

„Gengin eru með ákveðið kerfi þar sem menn koma inn í stórum hópum. Þar hafa t.d. einn til tveir  það hlutverk að ná í vörur en hinir  villa um fyrir starfsfólki svo auðveldara sé að koma vörunum undan,“

Samkvæmt Benedikt hafa verslanir orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna þessara innbrota. Hann hvatti bæði almenning og verslunareigendur til að vera á varðbergi. „Það er gríðarlega mikilvægt að verslanir efli sínar varnir, t.d. með því að endurskoða öryggismyndavélakerfi og tryggja að öryggisþjónustur séu virkar,“ sagði hann.

Benedikt minnti einnig á að lögreglan hafi ítrekað kallað eftir aðstoð almennings við að tilkynna grunsamlega hegðun.

Þjófgengi ræna af eldri konum

Lögreglan hefur tvisvar á síðustu vikum varað við þjófagengjum á Facebook sem herja á eldar fólki í verslunum. Þá hafa Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) varað sérstaklega við slíkum þjófnuðum.

Í grein Visis er vitnað í Skúla Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem veit um fimm slík tilvik á nokkrum vikum. Um sé að ræða skipulagða starfsemi af hálfu þjófagengja.

„Þjófarnir eru þá gjarnan nokkrir saman í hóp og aðgerðin er klárlega skipulög. Í þessum tilvikum sem hafa komið upp nýlega eru þetta erlendir aðilar. Þeir hafa verið að  beina spjótum sínum að eldri konum um áttrætt.“

„Menn hafa verið gripnir við það að horfa yfir öxlina á eldri borgurum og virðast vera að safna frá þeim pinnúmerum,“ bendir Benedikt einnig á.

Hægt er að lesa alla greinina og horfa á viðtalið HÉR.

SVÞ gagnrýna ummæli Neytendasamtakanna | Viðskiptablað Morgunblaðsins

SVÞ gagnrýna ummæli Neytendasamtakanna | Viðskiptablað Morgunblaðsins

Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag, 28.ágúst 2024,  viðtal við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing samtakanna en SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa lýst yfir óánægju með ummæli Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, sem fullyrti að samkeppnisaðilar á dagvörumarkaði hefðu haft með sér þögult samkomulag um að halda markaðnum óbreyttum. Tilefni ummælanna var opnun lágvöruverðsverslunarinnar Prís við Smáralind í Kópavogi fyrr í ágúst.

SVÞ telja að Breki hafi með þessum orðum borið fyrirtækin á markaðinum þungum sökum án rökstuðnings. Þeir benda á að afkomutölur fyrirtækjanna sýni ekki merki um slíkt samkomulag og að það sé alvarlegt að setja fram slíkar ásakanir án sannana.

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir ma., í viðtali við Morgunblaðið, að „það sé óraunhæft að saka fyrirtækin um að viðhalda stöðugleika á markaðnum þar sem afkomutölur sýni að þau hafi ekki grætt óeðlilega. Hann bendir á að verðkannanir séu eðlilegur hluti af samkeppni, bæði hér á landi og erlendis.“

Að lokum taka SVÞ fram að þau fagna aukinni samkeppni með innkomu Prís og telja að gagnrýni á markaðsaðstæður sé á misskilningi byggð.

Viðskiptablað Morgunblaðsins 28.ágúst 2024

Aukin innbrot og skipulögð glæpastarfsemi í verslunargeiranum

Aukin innbrot og skipulögð glæpastarfsemi í verslunargeiranum

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu lýsa yfir áhyggjum vegna aukinna innbrota og skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. Innbrot valda miklu tjóni og flest mál komast ekki til ákæru.

Í viðtali við VISI.is kallar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, eftir aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við þessum vanda. Hann bendir á að skipulögð glæpastarfsemi frá erlendum aðilum sé vaxandi vandamál. SVÞ hefur lengi bent á þetta vandamál og biðlað til stjórnvalda að taka málið fastari tökum.

Lestu alla fréttina HÉR!

Um traust og vantraust | Visir.is

Um traust og vantraust | Visir.is

Visir.is birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni; ‘Um traust og vantraust’

Um traust og van­traust

Traust er ein meginundirstaða viðskipta. Alþingi hefur í ýmsu tilliti stutt við bak einstaklinga og ýmissa hópa til að stuðla að jafnri stöðu í viðskiptum. Til grundvallar liggur sú hugmynd að jöfn staða stuðli að trausti og tilvist trausts liðki fyrir viðskiptum. Viðskipti eru meðal forsendna þróunar, framleiðni, nýsköpunar, tæknibreytinga o.fl.

Slíkar hugmyndir liggja að baki fjölmörgum lagabálkum sem lúta að samningum. Neytanda sem kaupir vöru í netverslun er samkvæmt lögum heimilt að skila henni allt að 14 dögum eftir pöntun enda hefur hann ekki fengið tækifæri til að sjá hana berum augum. Af svipuðum meiði er í samkeppnislögum lagt bann við ýmiskonar samstarfi fyrirtækja enda geta áhrif þess á neytendur verið alvarleg og þeim algerlega á huldu. Allir þekkja alvarlegar afleiðingar brota gegn því banni og því skapar bannið traust.

Að efla traust

Árið 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið þremur fyrirtækjum á sviði kjötafurða að sameinast þrátt fyrir að slíkt samstarf væri í raun bannað í ljósi neikvæðra áhrifa á samkeppni og þar með á neytendur og bændur. Málinu lauk með sátt, hið sameinaða fyrirtæki skuldbatt sig til að takast á hendur skilyrði sem áttu að tryggja að dregið yrði úr áhrifunum. Í fyrsta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færðu viðskipti sín annað eftir sameininguna. Í öðru lagi skuldbatt það sig til að aðgreina slátrun og vinnslu í eigin bókhaldi og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun, sögun og annarri nánar skilgreindri þjónustu í tiltekinn tíma. Í þriðja lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að selja frá sér eignarhluti í samkeppnisaðilum. Í fjórða lagi skuldbatt það sig til að eiga áfram, um tiltekinn tíma, viðskipti við fyrirtæki sem voru því mjög háð þannig að þau dyttu ekki af markaði vegna samrunans. Í fimmta og síðasta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að setja sér samkeppnisstefnu, tryggja að unnið væri eftir sáttinni og m.a. að haldin yrði skrá um samskipti við samkeppnisaðila. Orðin „gagnsæi“ og „afltakmörkun“ eru e.t.v. ágæt til að lýsa skilyrðunum. Brot gegn sátt hefur afleiðingar.

Annars konar traust

Eins og þekkt er tók Alþingi sérstakt skref fyrir skemmstu. Orð stjórnmálamanna bera með sér að tilteknum fyrirtækjum sé frekar treystandi en öðrum. Nýfengið traust Alþingis endurspeglaðist í breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hafa það m.a. í för með sér að skilyrði á borð við þau sem Samkeppniseftirlitið setti árið 2021 þurfa ekki að vera uppfyllt lengur. Það var niðurstaða hagsmunamats Alþingis að traust til eigenda fyrirtækjanna væri svo ríkt að óþarft væri að gæta að stöðu bænda og neytenda, óþarft væri að tryggja gagnsæi og afltakmarkanir væru óþarfar.

Um helgina voru fluttar fréttir af kaupum KS á Kjarnafæði Norðlenska. Af ummælum sem fallið hafa má draga þá ályktun að traust Alþingis hafi í raun ráðið niðurstöðunni. Samþjöppun er leyfileg og markaðsafl sameinaðs fyrirtækis eykst. Stjórnmálamenn og talsmenn bænda virðast í ýmsu tilliti enn sannfærðir, leyfa sér að treysta því að stöðu bænda verði ekki ógnað og að ekki verði gengið á stöðu neytenda. Hryggilegast er að það gætti sameiginlegs skilnings á hagræðingarþörf í framleiðslu nautgripa- og lambakjöts og að stöðu bænda þyrfti að bæta. Það var viðfangsefni lagafrumvarps matvælaráðherra sem Alþingi breytti með þeim hætti að stuðningurinn sem til stóð að veita endaði hjá viðsemjendum þeirra. Þá hefur engin vakið máls á vanda framleiðslu svína- og kjúklingakjöts eða eggja. Afurðastöðvum í þeim bransa treysti Alþingi á sama hátt og öðrum.

Vantraust?

Ekki fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár mun matvælaráðherra flytja Alþingi skýrslu og segja frá hvernig til tókst, upplýsa hvort fyrirtækjunum hafi í raun og veru verið treystandi. Í millitíðinni er Samkeppniseftirlitinu ætlað að passa upp á að fyrirtækin sem Alþingi treysti safni afurðum frá öllum bændum á sama verði, selji þær öðrum fyrirtækjum á sömu viðskiptakjörum og tengdum fyrirtækjum, hamli því ekki að bændur fari með viðskipti sín annað og haldi úti þjónustuúrvali við bændur um afmarkaða þætti. Á þeim tíma má beinlínis gera má ráð fyrir að mun fleiri fyrirtæki muni hefja samstarf, sameinast og efla afl sitt í ljósi þess trausts sem Alþingi hefur sýnt þeim enda mega þau óáreitt bergja af þeim brunni. Afleiðingar yfirsjóna verða engar.

Að rúmlega þremur árum liðnum verður fyrst hægt að sjá hvernig ógagnsæið og aflaukningin nýttist fyrirtækjunum, hvort traustið var þess virði. Á þeim tímapunkti verður okkur fyrst fært að átta okkur á hvort og hvernig þau huguðu að stöðu bænda og neytenda og gengu ekki á stöðu samkeppnisaðila. Þá fyrst er okkur ætlað að ræða hvers vegna fyrirtækjunum var treyst og þá fyrst ræðum við mögulega um fyrirtækið eitt, kjötafurðastöð Íslands.

Á tímum vantrausts

Samkeppniseftirlitið hefur verið vængstíft m.t.t. háttsemi tiltekinna fyrirtækja og við það munum við því miður búa næstu árin. Undir þeim kringumstæðum getum við annað hvort látið þetta yfir okkur ganga eða gripið til eigin aðgerða.

Verkefnið er að veita aðhald sem jafnast á við það sem Samkeppnieftirlitið getur ekki veitt lengur. Verslunin og samkeppnisaðilar verða að beita sér og tjá sig og neytendur líka, m.a. með buddunni. Bændur verða að gæta sín og vera tilbúnir til viðspyrnu. Að óbreyttu mun engin annar gæta þess að ábati hagræðis rati til neytenda og bænda en ekki eitthvert annað.

Greinin inn á visir.is