Formaðurinn kallar eftir opnu samtali við stjórnvöld

Formaðurinn kallar eftir opnu samtali við stjórnvöld

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, kallaði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi eftir fyrirsjáanleika í sóttvarnaraðgerðum og óskaði eftir opnu samtali við stjórnvöld. Jafnvel þótt atvinnulífið hafi hagsmuna að gæta búi verslunarfólk yfir reynslu af beitingu aðgerða.

„Ég held að það sé nú hygginna manna háttur að hlusta á ráðin. Hvaðan sem þau koma. Það þarf líka að meta það að við höfum þó reynsluna af því að vinna úr þessum aðgerðum. Þetta samtal skiptir svo miklu máli til þess að við getum leyst úr þessu með skilvirkum hætti. Þetta snýst ekki bara um hvernig sóttvarnayfirvöld meta ástandið. Þetta snýst líka um pólitíska forrystu og við getum ekki látið atvinnulífið eða samfélagið stoppa. Við verðum að sjá til þess að hér geti daglegt líf gengið áfram. Við þurfum bara að gera það með öruggum hætti og ég held að það sé allt í lagi að það sé hlustað á það sem við höfum að segja,“ segir Jón

Einnig benti hann á að varhugavert væri að draga of miklar ályktanir af einstökum viðburðum og vísar þar í ummæli sóttvarnalæknis um smit í verslunarmiðstöð á upplýsingafundi almannavarna í gær Þau ummæli auk ummæla Rögnvaldar Ólafssonar, deildarstjórar ríkislögreglustjóra um málið, urðu til þess að fréttir birtust af smiti í Kringlunni en hið rétta var að smit kom upp á skrifstofu í byggingu við hlið Kringlunnar.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA Á VÍSI

 

Stefnir í óefni og biðraðir út um allar trissur

Stefnir í óefni og biðraðir út um allar trissur

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í Morgunútvarpi Rásar 2 mánudaginn 23. nóvember og ræddi jólaverslunina.

Andrés segir aðkallandi að fjöldatakmarkanir í verslun séu rýmkaðar. Nú sé að fara í hönd stærsta helgin í jólaverslun, allavega á netinu, með svörtum föstudegi og rafrænum mánudegi. Þessi vika mun skipta miklu máli í því hvernig greininni vegnar í jólavertíðinni.

Þrátt fyrir að netverslun hafi aukist mikið segir Andrés hana ekki ná að brúa það bil sem verður ef takmarkanir haldast eins og þær eru. Hann segir stefna í óefni og biðraðir út um allar trissur og biðraðirnar skapi líka verulega smithættu. Engin smit hafi komið upp íverslun hingað til svo samtökin viti til. Rætt var einnig að stórar verslanir með heilmiklu plássi megi einungis hafa 10 manns, nema að skipt sé  upp í hólf með ærnum tilkostnaði og ekki sé víst einu sinni að það skapi smithættu. Ósamræmið á milli þess og t.d. að lyfjaverslana í litlu húsnæði megi hafa 50 manns inni veldur verslunarfólki óánægju.

Verslunin er ein þeirra greina sem hafa komið nokkuð vel út úr þessu ástandi og mikilvægt sé að skaða hana ekki, enda skapar hún miklar tekjur í ríkissjóð m.a. í gegnum virðisaukaskatt.

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA

 

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Leiðin út úr kófinu er stafræn

Eftirfarandi grein eftir Þórönnu K. Jónsdóttur birtist í Viðskiptablaðinu þann 19. nóvember, en Þóranna sér um verkefni innan SVÞ sem snúa að stafrænni þróun.

Nýr veruleiki

Fyrir flest okkar hefur heimsfaraldur COVID-19 snarbreytt sumum þáttum lífs okkar. Í stað þess að mæta á skrifstofuna vinnum við að heiman með hjálp netsins og tækninnar, í stað þess að hittast tökum við fundi á Teams, Zoom og fjölmörgum öðrum stafrænum vettvöngum. Í stað þess að fara út í búð sitjum við heima og veljum í matarkörfuna í tölvunni, fáum hlutina senda heim, eða a.m.k. sækjum bara allt heila klabbið á einn stað. Krakkar sem áður sátu í skólastofu eru flest búin að kynnast námi yfir netið, hvort sem það hefur verið vegna sóttkvíar, skiptingar nemenda í hópa eða, eins og framhalds- og háskólanemarnir okkar þekkja, vegna þess að allt nám hefur færst yfir í fjarnám. Fyrir þá sem ekki hafa hugað að þessum málum hingað til er þetta oft stærsta stafræna umbreytingin sem fólk er virkilega meðvitað um að hafa tekið þátt í.

Ímyndaðu þér ástandið núna ef við hefðum ekki þessa stafrænu tækni til að geta haldið áfram að vinna, geta haldið áfram að versla það í matinn sem við erum vön, geta haldið áfram að læra og til að geta hitt fólk í hljóði og mynd á netinu þegar við getum ekki eins auðveldlega hist í raunheimum.

Stafræn umbreyting á ógnarhraða

Stafræn tækni hefur ekki bara bjargað fjölmörgu á þessum kórónuveirutímum heldur hefur hraði stafrænnar umbreytingar einnig margfaldast. Satay Nadella, forstjóri Microsoft, sagði nýlega að hraði breytinganna væri að aukast svo mikið að fyrirtækið væri að sjá þróun sem venjulega tæki 2 ár núna taka einungis 2 mánuði.

Þessi ógnarhraða stafræna þróun er góð – eða er hún slæm? Hún er tvíeggja sverð. Það er gott að við skulum hafa tæknina til að geta haldið hlutunum gangandi, en það er ekki gott ef að við höfum ekki hæfnina til að nýta hana – eða þegar sumir hafa hana og aðrir ekki, sem veldur ójöfnuði meðal fólks, meðal fyrirtækja – og meðal þjóða. Það eru t.d. ekki allir sem geta bara farið að vinna heima með hjálp tækninnar. Mörg störf bjóða ekki upp á það, og efnahagsáhrif faraldursins verða jafnframt til þess að fjölmörg störf glatast. Hvað þá?

Lykillinn að endurreisn efnahagkerfa

Sérfræðingum ber saman um að stafræn umbreyting, þ.e. aukin notkun stafrænnar tækni til að leysa hin ýmsu verkefni, sé lykillinn að því að endurreisa efnahagskerfi heimsins. En hvernig?

Jú, ólíkt því sem margir halda, þá veldur stafræn umbreyting ekki bara því að störf hverfa, heldur skapar hún fjölmörg störf. Innan OECD hafa 4 af hverjum 10 störfum sem skapast hafa sl. áratug verið innan stafrænt væddra atvinnugreina og OECD hefur lýst því yfir að hræðslan við fækkun starfa vegna tækniþróunar hafi ekki raungerst, heldur þvert á móti stuðlað að verulegri starfasköpun.

Stafræn tækni er einnig samofin nýsköpun og frumkvöðlastarfi – og fólk er almennt sammála um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er ein öflugasta leiðin til sköpunar bæði starfa og verðmæta. Án tækni verður nýsköpun ósköp fátækleg – jafnvel bara engin. Stafræn tækni gerir okkur líka kleift að þróa vörur og þjónustur sem auðvelt er að selja og yfir netið, og geta jafnvel kallað á minni fjárfestingu og minni áhættu en t.d. hefðbundnar áþreifanlegar vörur. Að ekki sé talað um þá miklu möguleika sem felast í því að nýta netið og stafræna tækni betur til sölu og markaðssetningar á alþjóðlega markaði.

Síðast en ekki síst gerir stafræn tækni okkur kleift að vinna, læra og taka þátt í hinum ýmsu verkefnum – og samfélaginu sjálfu – óháð staðsetningu, sem er fagnaðarefni í landi þar sem fáir búa dreift á stóru landsvæði.

Til að nýta þurfum við að kunna

En til þess að geta nýtt stafræna tækni til allra þessara góðu hluta þurfum við að kunna á hana. Stafræn hæfni er lykilatriði og hún er ekki eitthvað sem við fæðumst með. Jú, við erum klár að nota tölvurnar okkar og símana sem neytendur og notendur tækninnar – en við þurfum að verða öflugri í því að nýta hana til að skapa og að hafa frumkvæði að því að nýta hana okkur til framdráttar.

Þess vegna þarf stafræna hæfni. Og þess vegna hafa SVÞ og VR lagt áherslu á það í hvatningu til íslenskra stjórnvalda að efla þurfi stafræna færni og m.a. hafið samstarf að undirbúningi Stafræns hæfniseturs, ásamt Háskólanum í Reykjavík, til að stuðla að aukinni stafrænni hæfni meðal íslenskra stjórnenda og starfsfólks. Því þannig getum við nýtt tæknina í botn til að koma okkur á sem hraðastan og öflugastan hátt út úr kófinu!

Gæti stefnt í óefni ef ekki linnir brátt

Gæti stefnt í óefni ef ekki linnir brátt

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í fréttum Bylgjunnar og í umfjöllun á Vísi um jólaverslunina og áhrif sóttvarnayfirvalda á hana.

Hann segir að þrátt fyrir að jólaverslun sé að færast framar, bæði vegna afsláttardaga í nóvember á borð við dag einhleypta, svartan föstudag og netmánudag, og vegna sóttvarnartakmarkana, þá stefni í óefni í desember ef ekki verði tilslakanir á þeim fjöldatakmörkum sem nú eru við lýði.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA

Fullyrðingum um hækkun matvöruverðs umfram tilefni vísað til föðurhúsanna

Fullyrðingum um hækkun matvöruverðs umfram tilefni vísað til föðurhúsanna

Í hádegisfréttum RÚV í dag, þann 20. nóvember, og í umfjöllun á vef RÚV vísar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ fullyrðingum ASÍ um að matvöruverð hafi hækkað umfram tilefni, til föðurhúsanna. Skýringin á hærra verði sé veiking krónunnar og launahækkanir.
 

Andrés bendir verðlagseftirliti ASÍ á það að 1. desember í fyrra stóð gengisvísitalan í 176 en í dag standi hún í u.þ.b. 208. Þau atriði sem hafa helst áhrif á verðlag innfluttrar vöru á Íslandi er gengi íslensku krónunnar og launin í landinu. Þarna sést vel hversu mikið gengi krónunnar hefur veikst á þessum tíma. Hann segir einnig alla vita hverjar umsamdar launahækkanir hafa verið á liðnu ári. Í þessu ljósi sé ekkert annað að gera en að vísa þessum fullyrðingum til föðurhúsanna.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Í HÁDEGISFRÉTTUM

Fullyrðingum um hækkun matvöruverðs umfram tilefni vísað til föðurhúsanna

Framkvæmdastjóri SVÞ gagnrýnir tilslakanirnar harðlega

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var bæði á RÚV, Vísi og í fréttum Stöðvar 2 síðastliðna daga þar sem hann gagnrýnir harðlega þær tilslakanir sem gerðar voru á sóttvanaraðgerðum þann 13. nóvember sl.

Hann segir hætt við því að aðgerðirnar muni hafa alvarleg áhrif á verslunarstarfsemi nú þegar háannatími greinarinn er að hefjast og að það skjóti skökku við að fjöldi þeirra sem megi vera inni í verslun á hverjum tíma miðist ekki við stærð þess húsnæðis sem um ræðir. Andrés bendir réttilega á að röskun sem þessi á atvinnulífinu muni hafa bein áhrif á skatttekjur ríkissjóðs.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ Á RUV.IS

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ Á VISIR.IS

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ UMFJÖLLUN UM MÁLIÐ Í FRÉTTUM STÖÐVAR 2