30/10/2023 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Tekjuöflun stjórnvalda af bílum vinnur beinlínis gegn markmiðum sömu stjórnvalda um orkuskiptin og samdrátt í losun koltvísýrings segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, og stjórnarmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu í nýjasta hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Egill segir meðal annars;
„Það er svo áhugavert að stefnumótun stjórnvalda er skýr. Þau eru með lögbundin markmið um að draga úr losun í samgöngum. Þetta er alþjóðleg skuldbinding og Guðlaugur Þór var að borga 350 milljónir í losunarheimildir vegna þess að við uppfylltum ekki skilyrðin. Ofan á þetta bætist markmið um 55 prósent lækkun losunar frá 2005 í stjórnarsáttmála og í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg.
Stefnumótunin er skýr en framkvæmdin er eitthvað skrítin. Það er þessi barátta milli tekjuöflunar ríkissjóðs og orkuskipta. Tekjuöflunin vinnur þvert gegn markmiðum orkuskiptanna,“ segir Egill.
„Þetta er sama ríkisstjórnin og þetta er alveg óskiljanlegt. Skilaboðin til bílgreinarinnar og kaupenda eru mjög misvísandi og fólk verður óneitanlega tvístígandi. Nú er að falla niður ívilnun upp á 1.320 þúsund um áramótin en á móti kemur kílómetragjaldið. Fólk veit ekki alveg hvað það á að gera. Það situr við eldhúsborðið og reynir að setja þetta upp í excel en það er ekki hægt að setja upp í excel þegar það vantar allar forsendur.
Við erum með stóráætlunina sem er að 2030 stefna stjórnvöld á að minnka losun koltvísýrings um 55 prósent miðað við árið 2005. Við vorum að losa 3,1 milljón tonna árið 2005 fyrir Ísland í heild, það sem er á beinni ábyrgð Íslands. Þá er ég ekki að tala um flugið og álverin sem eru í sérkerfi. Þetta eru þrjú kerfi og við erum með landnotkunina í þriðja kerfinu.“
Egill segir að á síðasta ári hafi bílar verið með 33 prósent af losuninni en stærsti hlutinn af losuninni er einmitt frá vegasamgöngum Þar af leiðandi liggi mestu tækifærin þar. Þarna sé líka auðveldast að sækja tækifærin vegna þess að tæknin er komin og síðan er búið að vera ívilnanakerfi til að hjálpa. Miklu fleiri aðgerðir þurfi samt..
„Ég fór fyrir vinnuhóp hjá Samtökum atvinnulífsins sem var að vinna með umhverfis- og loftslagsráðherra í því sem kallað er Loftslagsvegvísar atvinnulífsins. Hver atvinnugrein var tekin fyrir og við vorum að vinna með vegasamgöngur.
Við skiluðum af okkur í júlí til umhverfisráðherra 82 blaðsíðna skýrslu þar sem við greindum vegasamgöngur alveg í döðlur; hvað þær eru að losa, hvað það er mikið af bílum í landinu, hvað keyra þeir mikið, hvað brenna þeir miklu af eldsneyti, hvað nota þeir mikla raforku núna og hvað árið 2030, og fórum í gegnum þetta allt.
Ef við heimfærum stóra markmiðið á vegasamgöngur þá er þetta 55 prósent. Við losuðum 775 þúsund tonn árið 2005. Árið 2022 losuðum við 860 þúsund tonn þannig að þetta var upp einhver 11-12 prósent. Svo reiknuðum við okkur niður með tvær sviðsmyndir til ársins 2030. Þá þurfum við að vera niður um 55 prósent, eða niður í 350 þúsund tonn.
Í sviðsmynd eitt, sem við teljum vera raunhæfari sviðsmyndina, verður losunin 2030 12-15 prósentum meiri en árið 2005 en ekki 55 prósent minni.“
SMELLTU HÉR fyrir nánari upplýsingar og hlusta á þáttinn.
Mynd frá DV.is
25/10/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag niðurstöðu frá Gallup könnun um viðhorf atvinnurekenda og launþegar til launabreytinga. Þar kemur m.a. fram að meirihluti almennings telur lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitanda.
Þá telur yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins (SA), eða yfir 80 prósent, lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana. Þetta kemur fram í könnun sem framkvæmd var af Gallup fyrir SA en niðurstöðurnar voru birtar á dögunum. Þá kemur fram að mikil samstaða sé milli almennings og atvinnulífs um hvað eigi að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum. Yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA og almennings nefndi samninga sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu og samninga sem varðveiti kaupmátt og tryggi störf.
Sjá grein inná Viðskiptablaði Morgunblaðsins HÉR!
17/10/2023 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
TÚRISTI.is fjallar í dag um harða gagnrýni SVÞ og Bílgreinasambandsins [BGS] á stefnu stjórnvalda við skattlagningu á rafbílum og öðrum vistvænum ökutækjum.
Þar segir m.a.;
- Íslensk stjórnvöld hafa ekki sýnt hvernig þau ætla að ná markmiðum um græna framtíð og orkuskipti, þrátt fyrir að hafa kynnt stefnur.
- Ákvarðanir um aukna gjaldtöku á vistvænum bílum, s.s. rafbílum, samræmast ekki yfirlýstu stefnunni og hafa haft hamlandi áhrif.
- Vitnað er í Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar,sem leggur áherslu á óvissu og skort á fyrirsjáanleika í áætlunum um kílómetragjald á rafbíla.
- Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bílgreinasambandið (BGS) styðja við innheimtu kílómetragjalds af hreinorku- og tengiltvinnbílum, en eru óánægð með útfærslu og álagningar. SVÞ og BGS telja samkvæmt þessu að 6 króna gjald á hvern ekinn kílómetra, eins og stefnt er að því að leggja á eigendur rafbíla frá áramótum, sé of hátt.
- Fráhvarf frá orkuskiptastefnunni hefur skapað óvissu fyrir neytendur og fyrirtæki sem fjárfesta í umhverfisvænari ökutækjum.
Samtökin segja fyrirvara við innleiðingu nýs kerfis alltof stuttan og í andstöðu við stöðugt ákall um fyrirsjáanleika.
Niðurstaðan er þessi:
„Aðgerðir stjórnvalda eru því í andstöðu við hröðun orkuskipta sem veldur ringulreið og óvissu meðal neytenda og hinna fjölmörgu aðila sem starfa á markaðnum við að gera orkuskiptin möguleg hvort sem er við innflutning og sölu hreinorkuökutækja, rekstur almenningssamgangna, sölu og uppsetningu búnaðar fyrir innviði, framleiðslu og dreifingu á orku og svo mætti lengi telja.“
Spurningin er: „Erum við að reyna að vera græn eða bara að fylla ríkissjóð?“
SJÁ FRÉTT INNÁ TURISTI.IS
25/09/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Veltan er mælaborð sem sýnir stefnur og strauma í verslun!
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur sett í loftið mælaborð þar sem stjórnendur fyrirtækja geta fylgst með straumum og stefnum í verslun og þjónustu. Lausnin ber nafnið Veltan, en mælaborðið fylgist með kortaveltu Íslendinga sem er sett niður á flokka í verslun og þjónustu. Einnig er fylgst með þróun ferðamanna hér á landi, í hvað þeir eyða, hvaða þjóðir eyða mest og þá er fylgst náið með netverslun hérna heima og hversu miklu við eyðum í netverslun erlendis.
Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 og hefur í gegnum tíðina fylgst með neytendahegðun Íslendinga. Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður RSV segir í viðtali við Morgunblaðið s.l. helgi að stofnunin hafi sett mælaborð á laggirnar 2022 en markmiðið með veltan.is sé að auka sýnileika gagnanna og gefa fyrirtækjum í verslun og þjónustu tækifæri á að fylgjast betur með kortaveltu íslendinga.
Kynntu þér málið.
Rannsóknasetur verslunarinnar er þessi misserin að að funda með fólki og fyrirtækjum og kynna möguleika.
Hægt er að bóka kynningarfund inná vefsvæði Veltunnar – SMELLTU HÉR!
19/09/2023 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum
Morgunblaðið birtir í dag, 19.september 2023, viðtal við Maríu Jónu Magnússdóttur, framkvæmdastjóra BGS (Bílgreinasambandsins) þar sem m.a. kemur fram að neytendur flykkjast nú í bílaumboðin til að tryggja sér rafbíl áður en þeir hækka um áramótin þegar virðisaukaskattur verður lagður á þá og hver bíll hækkar um 1.320.000 kr.
Í viðtalinu gagnrýnir María stjórnvöld fyrir að hafa ekki enn sýnt á spilin um mögulegar ívilnunaraðgerðir til mótvægis við álagningu skattsins.
„Við vitum ekki hvaða leið stjórnvöld ætla að fara,“ segir María Jóna Magnúsdóttir. Á meðan er ekki hægt að verðleggja rafbíla sem selja á í upphafi 2024 og eru jafnvel á leiðinni til landsins.
Smellið hér fyrir viðtalið inná Mbl.
16/09/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Morgunblaðið birtir í dag, 16.september 2023 grein um hlutfall matar og drykkjar af einkaneysluútgjöldum heimilanna samkvæmt tölum frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.
Þar segir m.a. að Ísland er þar með þrettánda lægsta landið í Evrópu þegar kemur að þessum lífsnauðsynjum þegar horft er á þennan mælikvarða. Lægst er hlutfallið á Írlandi (8,3%), í Lúxemborg (9,9%) og í Sviss (10,3%). Ef horft er til nágrannaþjóða Íslands þá er hlutfallið í Danmörku 11,8%, í Finnlandi 12,2%, 12,4% í Noregi og 12,6% í Svíþjóð. Langhæsta hlutfall einkaneyslu sem fer í mat og drykk er í Albaníu, eða 42,4%, og þar á eftir fylgja löndin á Balkanskaga með ríflega 30% hlutfall.
Þessar tölur taka til útgjalda í hverju landi, óháð þjóðerni þeirra sem útgjöldin bera, þannig að mismikill fjöldi ferðamanna í löndunum getur skekkt myndina, samkvæmt
upplýsingum Hagstofu Íslands.
Frá Morgunblaðinu 16.september 2023.