18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 11.10.2017
Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.
Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.
Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.
Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.
Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.
Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.
Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.
Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).
26/04/2017 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Nýkjörin stjórn, frá vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Jón Örn Valsson, Ída Jensdóttir, Kristján Ómar Björnsson formaður, Guðmundur Pétursson, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Sigríður Stephensen og María Sighvatsdóttir.
Á aðalfundi SSSK sem haldinn var þriðjudaginn 25. apríl síðast liðinn í Kviku, Húsi atvinnulífsins var Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri Grunnskólans NÚ kjörinn formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður.
Meðstjórnendur voru kjörnir: Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf., Ída Jensdóttir skólastjóri leikskólans Sjálands og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn vor kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf. og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ stýrði fundi.
Fyrir hefðbundin aðalfundarstörf ávarpaði Andrea Róbertsdóttir mannauðsstjóri og ráðgjafi aðalfundargesti.
08/03/2017 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Það ríkti mikil gleði og kátína á glæsilegri ráðstefnu SSSK 3. mars sl. í Hörpunni. Yfirskrift ráðstefnunnar sem haldin var í fullum sal Norðurljósa var „SKÖPUM FRAMTÍÐINA – Nýjasta tækni og vísindi“
Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og og nefndi mikilvægi þess að við höfum ólíka og fjölbreytta valkosti í skólastarfi.
Að loknu ávarpi formanns steig í pontu forsetafrú Íslands Eliza Reid, sem heillaði ráðstefnugesti með alúðlegri framkomu og persónutöfrum.
Fyrirlestra fluttu Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri NÚ með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Stofnaðu skóla! Áhugasviðstengdir grunnskólar. Er það framtíðin?, Ingvi Hrannar Ómarsson, verkefnastjóri í nýsköpun, skóla- og tækniþróun í grunnskólum í Skagafirði með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Framtíðin þeirra“, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og eigandi Köru Connect og Tröppu ehf. var með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Netfæddir nemendur“. Síðust tók til máls Anna Steinsen stofnandi og eigandi KVAN og jógakennari með erindi sem var með yfirskriftina „Lykill að hamingju barna er að þjálfa samskipti og styrkleika“
Miklar og góðar undirtektir voru við erindum allra fyrirlesara. Milli atriða voru ráðstefnugestir þjálfaðir í keðjusöng og tilheyrandi klappi og hreyfingu undir leiðsögn Nönnu Hlífar Ingvadótturfrá Landakotsskóla. Skemmtu allir sér mjög vel í þessu atriði sem var óvænt og skemmtilegt.
Ráðstefnan fór fram undir styrkri stjórn Ingibjargar Jóhannsdóttur skólastjóra Landakotsskóla.
Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar í Björtuloftum.
Myndir frá ráðstefnu.
31/01/2017 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Þriðjudaginn 24. janúar sl. bauð SSSK upp á námskeið fyrir skólastjórnendur um ánægju og vellíðan á vinnustað. Á námskeiðinu var farið yfir grundvallaratriði varðandi starfsánægju og samskipti, samskiptafærni, fjallað um viðhorf til verkefna, og vinnustaðar. Sérstaklega var unnið með hrós og endurgjöf og fleiri leiðir til að hlúa að góðu andrúmslofti / vinnustaðamenningu.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og framkvæmdastjóri SHJ ráðgjafar sá um námskeiðið og var með framsögu.
Námskeiðið var mjög vel sótt og almenn ánægja með námsefnið og fyrirlesarann.
Nánari upplýsingar um Sigríði Huldu
07/10/2016 | Fréttir, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið útbúa leiðbeiningar um innra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum og sent til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Leiðbeiningarnar:
Innra mat leikskóla
Innra mat grunnskóla
Innra mat framhaldsskóla
Til þess að leiðbeiningarnar nýtist skólum sem best við gerð innra mats fer ráðuneytið þess á leit við þá skóla sem nota leiðbeiningarnar í vetur að þeir sendi athugasemdir og tillögur um breytingar á innihaldi og texta leiðbeininganna á netfangið postur@mrn.is fyrir 10. júní 2017. Allar tillögur eru vel þegnar.
19/08/2016 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla

Síða 6 af 7« Fyrsta«...34567»