10/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla var á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember sl. ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.
Rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar og mál því tengd.
Sara Dögg bendir m.a. á að kjarasamningar kennara séu íþyngjandi að því leyti að þar sé of mikil stýring á
störfum kennara. Það skapi umhverfi með endalausum hindrunum fyrir framþróun og vexti skólastarfs og skortur sé á trausti milli sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara.
Hlusta má á þennan hluta þáttarins hér: https://www.visir.is/k/154a02c4-ae95-4ed0-bc5c-d27addf2b7d0-1575802502064
08/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, var í viðtali í Brennslunni á FM957 þann 6. desember sl. í kjölfar greinar sem hún skrifaði á Vísi 5. desember sl. Hún ræddi um hægagang menntakerfisins og hversu erfitt virðist vera að gera breytingar. Einnig ræðir hún m.a. þröngar tímaskorður í kjarasamningum kennara sem koma í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika, kerfið sem ver sjálft sig og að í þessum málum virðist gleymast að eiga samtalið við kennara. Sjálfstæðir skólar eru hlutfallslega mun fleiri í nágrannalöndunum, þ.á.m. á Norðurlöndunum, gefa fólki valkosti í menntakerfinu og reynslan af þeim er almennt mjög góð. Þrátt fyrir það eiga sjálfstæðir skólar á brattann að sækja í íslensku menntakerfi.
Hlusta má á viðtalið í upptöku af þættinum hér, og hefst viðtalið á ca. 54:35 mín: https://www.visir.is/k/617dc052-3d40-4dc1-82b7-20c0314c3ac7-1575626409684
07/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fimmtudaginn 5. desember sl. þar sem ræddar voru niðurstöður Pisa könnunarinnar, sjálfstæðir skólar og möguleikarnir sem í þeim búa til að auka fjölbreytileika, brjótast úr viðjum kerfisins og koma skriði á málin í skólakerfi sem ferðast á hraða snigilsins.
Þú getur hlustað á viðtalið hér: https://www.visir.is/k/1b0159f2-584f-4225-a404-4d8851f7e457-1575565879399
06/12/2019 | Fréttir, Greinar, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, skrifar á Vísi fimmtudaginn 5. desember sl.
Niðurstöður í alþjóðlegu Pisa-könnuninni valda vonbrigðum. Enn á ný vefst lesskilningur, túlkun og ályktunarhæfni fyrir íslenskum nemendum. Skýringa er leitað og nefnt að ekki sé farið nógu djúpt í viðfangsefnin í skólanum; skólakerfið svamli um á yfirborðinu. Er það kannski svo að kerfið sjálft sé statt á endastöð einhvers konar sjálfskapaðrar tilvistarkreppu? Niðurnjörvað í úreltum kjarasamningum fortíðar, sem eru fyrir óralöngu hættir að ríma við nútímann? Mæling kennslustunda upp á mínútur hér og þar virðist upphaf og endir allra kjarasamninga. Ekkert flæði, ekkert svigrúm, engin nýsköpun í uppbyggingu skólanna. Allir skulu mótast í nákvæmlega sama mót. Allir grunnskólar á Íslandi, alls staðar, bjóða upp á allt eins.
Þessi lýsing er mögulega nokkuð harðorð í garð kerfisins en það er full ástæða til að taka djúpt í árinni. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum talað fyrir sveigjanleika, nýsköpun og frelsi til athafna og á okkur hafa sumir viljað hlusta en svo sannarlega ekki allir. Sjálfstæðir skólar þykja með einhverjum óskiljanlegum hætti ógna kerfinu. Þessu svifaseina kerfi, sem virðist að mörgu leiti komið í þrot.
Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla teljum mikilvægt að búa við fjölbreytta skóla. Skóla sem þora að fara út fyrir hefðbundinn ramma og gefa þannig foreldrum meira vald til ákvarðana. Raunverulegt val um hvað hentar börnum þeirra best hverju sinni. Í skólakerfinu, rétt eins og annars staðar, hentar ekki öllum að vera felldir í sama mótið. Sjálfstæðir skólar hafa annars konar nálgun á menntun en hefðbundna skólakerfið. Sjálfstæðir skólar hafa sýnt frumkvæði og getu til breytinga og sýna það og sanna að nýsköpun og drifkraftur skiptir máli fyrir alla. Kennara jafnt sem nemendur. Og það er lykilfólkið í menntakerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft. Grundvallaratriði er að nemendum farnist vel og að kennurum sé skapað rými og tími til athafna. Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru afar fáir og miklu færri en þeir ættu að vera. Aðeins rúm 2% grunnskóla hér á landi eru sjálfstætt starfandi skólar, en svo lágt hlutfall er hvergi að finna í nágrannalöndum okkar, þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem útkoman í Pisa-könnunum telst góð.
Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru fámennir, faglegir og framsæknir. Allt gríðarlegir kostir þegar kemur að því að ná til allra nemenda, hafa yfirsýn og veita hefðbundna kerfinu einhvers konar viðmið eða samanburð. Sjálfstæðir skólar eru hvatning til annarra að fara nýjar leiðir til að breyta kerfinu til batnaðar og rjúfa vítahring endurtekninga.
Við þurfum fjölbreytni og frelsi svo foreldrar geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um skólaval. En ekki síður til þess að kennarar hafi val um ólíkt starfsumhverfi og geti hrist af sér þann doða sem getur svo auðveldlega skapast í kerfi sem er ætlað að vera eins fyrir alla.
Af hverju eru enn svo fáir sjálfstætt starfandi skólar? Við hvað erum við hrædd? Varla óttumst við lélega útkomu í Pisa-könnunum? Væri ekki nær að viðurkenna að við þurfum að rétta þá skekkju í skólakerfinu, sem veldur því að nemendur ná ekki allir að blómstra? Sjálfstæðir skólar geta uppfyllt þarfir þeirra, sem finna sig ekki í hefðbundnu skólakerfi. Og hver veit nema niðurstöður í Pisa-könnunum færu þá batnandi.
11/11/2019 | Fréttir, Menntun, Verslun
Nýtt nám fyrir starfsfólk í verslun hefur göngu sína í janúar 2020. Námið er 90 eininga nám á framhaldsskólastigi og er blanda af fjarnámi hjá Verzlunarskóla Íslands og vinnustaðanámi sem fer fram úti í fyrirtækjunum.
Umsækjendum með viðeigandi starfsreynslu úr verslun og þjónustu stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími. Raunfærnimat er ferli þar sem ákveðin aðferðarfræði er notuð til þess að meta og staðfesta færni án tillits til þess hvar hennar hefur verið aflað. Þeir sem fara í raunfærnimat og fá hæfni sína staðfesta á formlegan hátt, geta látið staðar numið þar og nýtt niðurstöðuna til starfsþróunar. Aðrir, sem það kjósa, geta nýtt raunfærnimatið til styttingar á Fagnámi verslunar og þjónustu.
Sjá frekari upplýsingar hér á vef Stafsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks