22/11/2017 | Fréttir, Menntun
Sífellt eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda í atvinnulífinu hvað menntun varðar og eru stjórnendur flestir með háskólanám að baki. Nýtt fagháskólanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er ætlað að gefa verslunarstjórum færi á að styrkja sig í starfi með því að bæta aukinni menntun við reynslu sína og hæfni auk þess að gefa einstaklingum með víðtæka reynslu af verslunarstörfum tækifæri til að mennta sig í verslunarstjórnun.
Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, VR og SVÞ en styrkt af Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntastjóði verslunarinnar og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um námið og umsóknir er að finna hér.
01/11/2017 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Fundaröðin Menntun og mannauður heldur áfram í Húsi atvinnulífsins þriðjudaginn 7. nóvember 2017.
Á fundinum munu Magnús Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Guðný B. Hauksdóttir, mannauðsstjóri skýra hvernig menntun og þjálfun starfsmanna fyrirtækisins fer fram og hverju þetta skilar starfsmönnum og fyrirtækinu.
Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017 eins og kynnt var á menntadegi atvinnulífsins í febrúar.
Fundarstjóri er Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.
Heitt verður á könnunni og létt morgunhressing í boði frá kl. 8.15.
SKRÁNING FER FRAM HÉR
31/10/2017 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Vinnumálastofnun ásamt ASÍ, SA og Hagstofu Íslands standa fyrir ráðstefnu um menntun og færni á vinnumarkaði. Á ráðstefnunni munu sérfræðingar í fremstu röð í færnispám frá Bretlandi, Svíþjóð og Írlandi fara yfir þær aðferðir sem beitt er í heimalöndum þeirra og annarsstaðar í Evrópu. Á Íslandi hefur ekki verið unnið markvisst við gerð færnispár og eru Íslendingar þar af leiðandi eftirbátar nágrannaþjóða í heildarstefnumótun m.t.t. þróunar færni, menntunar og vinnumarkaðar.
Ráðstefnan verður haldin á Hilton Hótel Reykjavík Nordica þann 9. nóvember kl. 8.10 – 10.30
Ráðstefnan er opin öllum og aðgangur ókeypis
SKRÁNING HÉR
Dagskrá:
08.10-08.30
Skráning og kaffi
08.30-08.40
Setning ráðstefnu og inngangsorð um þörf fyrir færnigreiningu vinnuafls og þróun starfa
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra
08.40-09.05
Færnigreining á vinnumarkaði: Staða mála og horfur fyrir Ísland
Skills supply and demand and skills mismatch: Situation and outlook in Iceland
Rob Wilson, Prófessor við Warwick háskóla í Bretlandi
09.05-09.25
Spá um færniþörf í Svíþjóð – notkun skráargagna
The case of Sweden: Projections of skills needs and the use of register data
Karin Grunewald, sérfræðingur á Hagstofu Svíþjóðar
09.30-09.50
Greining á færniþörf á Írlandi með samþættum aðferðum
The Systematic Identification of Skills Needs in Ireland – an Integrated Approach
John McGrath, hagfræðingur við Solas – Sí- og endurmenntunarstofnun Írlands
09.50-10.30 Pallborðsumræður. Þátttakendur:
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR
Hlíf Böðvarsdóttir, framkv.stjóri mannauðssviðs hjá Securitas
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Rob Wilson, prófessor við Warwick háskóla
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra
Stjórnandi: Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR
Dagskrá til útprentunar.
20/10/2017 | Fréttir, Menntun
Árið 2016 höfðu um 27.000 manns atvinnu af heild- og smásöluverslun samkvæmt vinnumarkaðsgögnum Hagstofunnar. Störfin eru um 14% allra starfa í atvinnulífinu. Á sama tíma er námsferill fólks í verslun og þjónustu oft flókinn, langur og óskýr. Það er lítið sem ekkert framboð af námi fyrir ungt fólk sem vill velja sér starf í verslun og þjónustu. Það vantar upphafið, það vantar grunninn. Nær öll störf eru þjónustustörf. Rúmlega fjórðung af heildarveltu hagkerfisins má rekja til verslunarinnar. Átta prósent af landsframleiðslu Íslands árið 2015 kom frá versluninni og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi. Ferðaþjónustan vex hratt og glímir að hluta til við sömu áskoranir. Það eru því mikil tækifæri sem felast í því að í boði verði braut á framhaldsskólastigi sem nýtist í slíku starfi og jafnframt til áframhaldandi náms.
Starfshópur á vegum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hefur unnið að undirbúningi slíkrar námsbrautar í samvinnu við Tækniskólann. Stúdentsbraut með áherslu á stafrænar lausnir þar sem lögð verður áhersla á sérhæfingu innan markaðsfræði, rekstarmála, mannlegra samskipta og starfsnáms. Stefnt er að því að nemendur sem útskrifast af brautinni verði vel í stakk búnir til þess að skapa sín eigin viðskiptatækifæri, hafi góða þekkingu á stafrænum lausnum ásamt því að fá góðan undirbúning fyrir fjölbreytt ábyrgðarstörf tengdum verslun og þjónustu. Að auki verður nám á fagháskólastigi í verslun og þjónustu sett á laggirnar um áramótin en námið verður í boði bæði í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Þetta er fagnaðarefni enda tilheyra tæplega 5.000 íslensk fyrirtæki þessum hópi eða 6,9% allra fyrirtækja í landinu.
Þessir valkostir munu svara mikilli eftirspurn atvinnulífsins á starfskröftum með slíka menntun.
Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ
Greinin til útprentunar.
18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 12.10.2017
Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.
Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.
Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.
Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.
Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.
Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.
Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!
Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.
Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.
Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla
11/10/2017 | Fréttir, Menntun
Atvinnulífið er farið að leggja aukna áherslu á menntun mannauðs og það er jákvætt. Þróunin hefur verið hröð síðustu misseri og útfærslur eru ólíkar og fjölbreyttar. Fræðsla og þjálfun starfsfólks er komin í góðan farveg hjá mörgum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin geta gert meira í krafti stærðar sinnar á meðan lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa að finna nýjar leiðir og vinna saman. Þar spilar tæknin stórt hlutverk sem veitir okkur gríðarleg tækifæri, tækifæri sem við verðum að grípa! Fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma og fara yfir mikið efni í alltof löngun tíma. Tæknin gefur tækifæri til að ,,streama“ efni og fyrir upptökur. Og starfsmenn geta farið yfir efnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við á miklu skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana – en ekki þegar mannauðsstjórinn er búinn að bóka sal og fyrirlesara! Stafræn þjálfun gefur svo fjölbreytta möguleika, möguleika sem verður að nýta!
Menntun eykur virði fyrirtækja
Menntun skiptir fyrirtækin máli. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem fá tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækja öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Skýr menntastefna hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Þetta allt skiptir máli enda er ör starfsmannavelta fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast og vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.
Það er því mikilvægt að í boði séu fjölbreytt tækifæri hvort sem það er innan fyrirtækjanna sjálfra, hjá símenntunarmiðstöðvunum, í framhalds- fag- og háskólum, einkaaðilum eða öðrum fræðsluaðilum. Fullorðinsfræðsla er fjármögnuð af samfélaginu vegna þess að við teljum hana mikilvæga. Endurmenntun má ekki bara vera skírteini upp á vegg sem nýtist ekkert. Það þarf að skila sér í auknum tækifærum – bæði fyrir einstaklingana og fyrir fyrirtækin.
Vinnumarkaðurinn breytist hratt, talið er að allt að helmingur núverandi starfa muni breytast töluvert eða hverfa! Fjórða iðnbyltingin er hafin og við verðum að hlaupa með. Á meðan vinnumarkaðurinn breytist hratt hefur menntakerfið sem heild tilhneigingu til að breytast afskaplega hægt. Kerfi eru í eðli sínu þung og svifasein og við verðum að gæta þess að stjórnsýslan og lagaumhverfi torveldi ekki þeirri framþróun sem er byrjuð og þarf að eiga sér stað.
Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ
Greinin til útprentunar.