Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ásamt forsvarsfólki SVÞ og skólastjórnendum í Verzlunarskóla Íslands hittu á dögunum nemendur á nýrri stúdentsbraut skólans þar sem áherslan er á stafræna verslun og viðskipti. Brautin er samstarfsverkefni SVÞ, Verzló og fleiri aðila og er ætlað að undirbúa nemendur betur undir störf í viðskiptalífi þar sem stafrænar lausnir skipa sífellt stærri sess. Spennandi nýbreytni í náminu er náið samstarf skólans og atvinnulífsins, en nemendur á brautinni munu stunda starfsnám innan hinna ýmsu fyrirtækja. Er starfsnáminu ætlað að styrkja bönd menntunar og atvinnulífs, undirbúa nemendur undir störf í raunumhverfi og skapa hagnýta leið til kennslu.

Fjör var á viðburðinum þar sem til máls tóku menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, skólastjóri Verzlunarskólans, Ingi Ólafsson, þróunarstjórinn Guðrún Inga Sívertsen auk Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandsklippu frá þessum skemmtilega morgni:

Stafrænt nám við Verzlunarskólann

Stafrænt nám við Verzlunarskólann

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið:

Samtök verslunar og þjónustu hafa undanfarin misseri lagt mikla áherslu á mikilvægi menntunar í því skyni að efla veg þeirra starfa sem unnin eru í verslunar– og þjónustufyrirtækjum. Menntun hefur gríðarlega miklu hlutverki að gegna þegar horft er til þeirra öru breytinga sem eru nú að eiga sér stað í öllum störfum, ekki síst störfum í verslun og þjónustu. Hin stafræna bylting hefur þegar haft umtalsverð áhrif á störf í þessum atvinnugreinum og þau áhrif munu aðeins aukast á næstu árum.

Ný námslína við Verzlunarskóla Íslands, unnin í samstarfi við SVÞ, er því mikið fagnaðarefni. Markmið námsins er að koma til móts við nýjar þarfir fyrirtækja í verslun og þjónustu. Þarfir sem lúta með beinum hætti að þeirri stafrænu byltingu sem er að eiga sér stað. Netverslun og -þjónusta eykst hröðum skrefum og upp er að vaxa kynslóð sem mun sækja meirihluta sinnar verslunar og þjónustu á netið. Í kjölfarið tekur umhverfi starfsfólks stórstígum breytingum og því skiptir öllu máli að sú hæfni sem nýr veruleiki krefst sé byggð upp með góðri menntun.

Þessari áskorun hafa SVÞ ákveðið að mæta með samstarfi við Verzlunarskóla Íslands. Nú í haust bauðst nýnemum að hefja nám á nýrri stafrænni viðskiptalínu. Eftirspurn eftir náminu fór fram úr björtustu vonum og komust mun færri að en vildu. Verslunar- og þjónustufyrirtæki munu gegna lykilhlutverki við framkvæmd og þróun námsins, annars vegar með því að miðla af eigin reynslu við innleiðingu stafrænna lausna innan fyrirtækjanna og hins vegar með því að vera leiðbeinendur og bjóða upp á vinnustaðanám fyrir ungmenni á þessari nýju námslínu við Verzlunarskólann.

Það eru mikil tímamót, nú þegar fyrsti nemendahópurinn leggur af stað í þessa vegferð. SVÞ væntir mikils af samstarfinu við Verzlunarskólann og munu vinna ötullega með skólanum að þróun námsins. Það er trú samtakanna að námið muni skila af sér öflugu fólki sem verður í stakk búið til takast á við krefjandi viðfangsefni í nýju og breyttu starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja.

Nýtt diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun fyrir verslunarfólk í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst

Sífellt eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda í atvinnulífinu hvað menntun varðar og eru stjórnendur flestir með háskólanám að baki. Nýtt fagháskólanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er ætlað að gefa verslunarstjórum færi á að styrkja sig í starfi með því að bæta aukinni menntun við reynslu sína og hæfni auk þess að gefa einstaklingum með víðtæka reynslu af verslunarstörfum tækifæri til að mennta sig í verslunarstjórnun.

Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, VR og SVÞ en styrkt af Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntastjóði verslunarinnar og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Nánari upplýsingar um námið og umsóknir er að finna hér.

Menntafyrirtæki ársins 2017 kynnir áherslur sínar í menntamálum

Fundaröðin Menntun og mannauður heldur áfram í Húsi atvinnulífsins þriðjudaginn 7. nóvember 2017.

Á fundinum munu Magnús Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Guðný B. Hauksdóttir, mannauðsstjóri skýra hvernig menntun og þjálfun starfsmanna fyrirtækisins fer fram og hverju þetta skilar starfsmönnum og fyrirtækinu.

Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017 eins og kynnt var á menntadegi atvinnulífsins í febrúar.

Fundarstjóri er Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.

Heitt verður á könnunni og létt morgunhressing í boði frá kl. 8.15.

SKRÁNING FER FRAM HÉR

Menntun og færni á vinnumarkaði. Hvert stefnir Ísland? – 9. nóv.

Vinnumálastofnun ásamt ASÍ, SA og Hagstofu Íslands standa fyrir ráðstefnu um menntun og færni á vinnumarkaði. Á ráðstefnunni munu sérfræðingar í fremstu röð í færnispám frá Bretlandi, Svíþjóð og Írlandi fara yfir þær aðferðir sem beitt er í heimalöndum þeirra og annarsstaðar í Evrópu. Á Íslandi hefur ekki verið unnið markvisst við gerð færnispár og eru Íslendingar þar af leiðandi eftirbátar nágrannaþjóða í heildarstefnumótun m.t.t. þróunar færni, menntunar og vinnumarkaðar.

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Hótel Reykjavík Nordica þann 9. nóvember kl. 8.10 – 10.30

Ráðstefnan er opin öllum og aðgangur ókeypis

SKRÁNING HÉR

Dagskrá:

08.10-08.30
Skráning og kaffi

08.30-08.40
Setning ráðstefnu og inngangsorð um þörf fyrir færnigreiningu vinnuafls og þróun starfa

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra

08.40-09.05

Færnigreining á vinnumarkaði: Staða mála og horfur fyrir Ísland
Skills supply and demand and skills mismatch: Situation and outlook in Iceland

Rob Wilson, Prófessor við Warwick háskóla í Bretlandi

09.05-09.25
Spá um færniþörf í Svíþjóð – notkun skráargagna
The case of Sweden: Projections of skills needs and the use of register data

Karin Grunewald, sérfræðingur á Hagstofu Svíþjóðar

09.30-09.50
Greining á færniþörf á Írlandi með samþættum aðferðum
The Systematic Identification of Skills Needs in Ireland – an Integrated Approach

John McGrath, hagfræðingur við Solas – Sí- og endurmenntunarstofnun Írlands

09.50-10.30 Pallborðsumræður. Þátttakendur:

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR

Hlíf Böðvarsdóttir, framkv.stjóri mannauðssviðs hjá Securitas

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

Rob Wilson, prófessor við Warwick háskóla

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra

Stjórnandi: Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR

Dagskrá til útprentunar.

Þegar námsvalkosti vantar!

Árið 2016 höfðu um 27.000 manns atvinnu af heild- og smásöluverslun samkvæmt vinnumarkaðsgögnum Hagstofunnar. Störfin eru um 14% allra starfa í atvinnulífinu. Á sama tíma er námsferill fólks í verslun og þjónustu oft flókinn, langur og óskýr. Það er lítið sem ekkert framboð af námi fyrir ungt fólk sem vill velja sér starf í verslun og þjónustu. Það vantar upphafið, það vantar grunninn. Nær öll störf eru þjónustustörf. Rúmlega fjórðung af heildarveltu hagkerfisins má rekja til verslunarinnar. Átta prósent af landsframleiðslu Íslands árið 2015 kom frá versluninni og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi. Ferðaþjónustan vex hratt og glímir að hluta til við sömu áskoranir. Það eru því mikil tækifæri sem felast í því að í boði verði braut á framhaldsskólastigi sem nýtist í slíku starfi og jafnframt til áframhaldandi náms.

Starfshópur á vegum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hefur unnið að undirbúningi slíkrar námsbrautar í samvinnu við Tækniskólann. Stúdentsbraut með áherslu á stafrænar lausnir þar sem lögð verður áhersla á sérhæfingu innan markaðsfræði, rekstarmála, mannlegra samskipta og starfsnáms.  Stefnt er að því að nemendur sem útskrifast af brautinni verði vel í stakk búnir til þess að skapa sín eigin viðskiptatækifæri, hafi góða þekkingu á stafrænum lausnum  ásamt því að fá góðan undirbúning fyrir fjölbreytt ábyrgðarstörf tengdum verslun og þjónustu.  Að auki verður nám á fagháskólastigi í verslun og þjónustu sett á laggirnar um áramótin en námið verður í boði bæði í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Þetta er fagnaðarefni enda tilheyra tæplega 5.000 íslensk fyrirtæki þessum hópi eða 6,9% allra fyrirtækja í landinu.

Þessir valkostir munu svara mikilli eftirspurn atvinnulífsins á starfskröftum með slíka menntun.

Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ

Greinin til útprentunar.