03/02/2020 | Fréttir, Stjórnvöld
Við vekjum athygli á fréttatilkynningu frá Ríkisskattstjóra sem snertir alla lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þ.m.t útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga:
Á grundvelli laga nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda þurfa allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá að skrá raunverulega eigendur sína inn á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is.
Frestur til skráningar er til 1. mars 2020
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Skattsins, www.rsk.is/raunverulegur
29/01/2020 | Fréttir, Öryggishópur, Stjórnvöld, Verslun, Þjónusta
Mjög gagnlegar umræður voru á vel sóttum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í morgun. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kynnti innri vinnu sem hefur verið í gangi hjá lögreglunni, árangur af henni og ýmislegt sem til mun koma í framhaldinu. Mikið var rætt um mögulegar aðgerðir til að bregðast með áhrifaríkari hætti við þjófnaði í verslunum og afgreiðslu brotamála. Í framhaldi af fundinum mun öryggishópur SVÞ vera í frekara sambandi við lögreglu varðandi samstarf og mögulegar aðgerðir.
Við hvetjum fólk til að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan og félagsmenn að setja sig í samband við okkur ef þeir hafa áhuga á að koma að frekari vinnu að þessum málum. Netfangið er svth(hjá)svth.is og síminn 511 3000.
24/01/2020 | Fréttir, Stjórnvöld, Verslun
Hinn 27. nóvember sl. staðfestu Evrópuþingið og ráðið tilskipun (EU) 2019/2161 sem inniheldur breytingar á Evrópulöggjöf og á að bæta framfylgd aðildarríkjanna á ákvæðum um neytendavernd. Ákvæði tilskipunarinnar snúa m.a. að viðurlögum við brotum á evrópskri neytendalöggjöf og ýmsum þáttum sem snerta netverslun bæði innan einstakra ríkja og milli ríkja á EES-svæðinu.
Athygli vekur að í 2. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem gæti með óbeinum hætti dregið úr svigrúmi verslunarmanna til að bjóða afslætti. Efnislega er í ákvæðinu kveðið á um þá meginreglu að í auglýsingum um tilboð eða afslætti skuli koma fram á hvaða verði varan hefur áður verið seld. Það verð sem þannig á að tilgreina sem fyrra verð er lægsta útsöluverð síðustu 30 daga.
Í Danmörku hafa fjölmiðlar og verslunarmenn velt því fyrir sér hvort slík regla muni takmarka eða jafnvel útrýma möguleikum verslunarinnar til þess að bjóða vörur á tilboði eða afsláttum í desember í ljósi sérstakra tilboðsdaga í nóvember, t.d. „Black-Friday“ eða „Singles-day“. Tilskipunin kemur til framkvæmda í ríkjum ESB hinn 28. maí 2022 en upptaka hennar í EES-samninginn er enn á skoðunarstigi á EES-EFTA ríkjunum.
15/01/2020 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Stjórnvöld
Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.
Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.
Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.
Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.
SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.
SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.
20/12/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Kjarnann í dag, föstudaginn 20. desember:
Við lestur greinar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) skrifaði í Kjarnann í gær kemst maður ekki hjá því að álykta sem svo að hann hafi fundið til sviða við lestur greinar minnar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Meðal annars sakar framkvæmdastjórinn mig um „að skrifa gegn betri vitund“, fara með „rökleysu“ og jafnvel aðhyllast lagabreytingar sem muni leiða af sér vöruskort. Í greininni reifar framkvæmdastjórinn efni umsagna FA um umrætt lagafrumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og bendir á eitt og annað sem þar hafi komið fram máli sínu til stuðnings.
Hugsanlega var meginefni greinar minnar frá 19. desember sl. ekki nógu skýrt í huga framkvæmdastjórans og því tel ég rétt að koma útskýringu á framfæri.
Það ætti öllum að vera ljóst að breytingar á regluverki sem snertir búvöruframleiðslu með einum eða öðrum hætti eru viðkvæmar og erfiðar viðfangs. Hagsmunir bænda og búgreina njóta jafnan ríks stuðnings meðal þingmanna. Af þeim sökum hafa verið tekin afar stutt skref í átt sem gagnast gæti neytendum. Það er ekki annað hægt en að ætla að þessu hafi framkvæmdastjórinn gert sér grein fyrir.
Það væri hægt að eyða mörgum orðum í umfjöllun um hvort mikill munur sé á afstöðu FA og SVÞ til einstakra atriða lagafrumvarps ráðherra. Til að mynda lýstu SVÞ einnig efasemdum um niðurstöðu starfshóps um úthlutun tollkvóta landbúnaðarráðherra og töldu tillögu fulltrúa Neytendasamtakanna mun betri en sú sem endaði í frumvarpinu. Þá hafa SVÞ jafnframt lýst því yfir að árstíðarbundin og föst úthlutun tollkvóta fyrir tilteknar vörur gæti ekki orðið óbreytanleg og varanleg lausn. Slík umfjöllun eða samanburður mundi hins vegar ekki bæta neinu við. Ástæðan er sú að grundvallarmunurinn á afstöðu SVÞ og FA til lagafrumvarps ráðherra birtist einfaldlega ekki í umsögnum eða annarri opinberri umfjöllun heldur í gjörðum FA. Þrátt fyrir að FA hafi, líkt og SVÞ, síst talið frumvarpið gallalaust viðurkennir framkvæmdastjórinn það beinlínis í grein sinni að neytendur munu hið minnsta njóta tímabundins ávinnings af því breytta útboðsfyrirkomulagi tollkvóta sem nú hefur verið lögfest. SVÞ taldi að með því væri stigið skref í rétta átt þó vissulega hefði skrefið mátt vera annað og stærra. Umsögn FA um frumvarpið verður í ljósi greinar framkvæmdastjórans ekki skilin öðruvísi en að félagið hafi alfarið hafnað því skrefi. Lokahnykkinn rak FA svo með þátttöku í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóranum gat ekki dulist að mundi valda vatnaskilum. Enda fór svo að meiri hluti atvinnuveganefndar setti fram tillögur sem styttu skrefið enn meira en ráðherra lagði upp með. Við það tilefni gaf framsögumaður málsins, alþingismaðurinn Halla Signý Kristjánsdóttir frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:
„[…] undirrituð fullyrðir að þær gagnrýniraddir sem bárust frá ólíkum hagsmunasamtökum bænda, félagi atvinnurekanda og neytendasamtökunum fengu framsögumann málsins til að taka í handbremsuna en með seiglunni og góðs stuðnings þingflokksins náðist að koma þeim í höfn.“
Þrátt fyrir alla ágallana á lagafrumvarpi ráðherra var það eindregin skoðun SVÞ að á heildina litið mundi samþykkt þess skila neytendum ábata. Mat ráðherra var að sá ábatinn gæti numið 240–590 milljónum króna á ári. SVÞ hafði ekki forsendur til að rengja það mat og ekki verður séð að það hafi FA heldur gert. Slíkur ábati hefði vissulega ekki verið nein himnasending en þó skref í rétta átt.
Nú hefur Alþingi fengið frumvarpinu lagagildi og virðist yfirlýsing FA hafa átt ríkan þátt í því að neytendaábatanum var að miklu leyti varpað fyrir róða.
Það var í framangreindu samhengi sem ég leyfði mér að vísa til svohljóðandi kínversks málsháttar í grein minni hinn 19. desember sl.: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Í efnissamhengi greinarinnar var merkingin sú að það skiptir í raun ekki máli þó þú berjist opinberlega fyrir tilteknum sjónarmiðum ef gjörðir þínar bera vott um að annarskonar hagsmunir ráði för.