Ferska kjötið inn á borð Hæstaréttar

Ferska kjötið inn á borð Hæstaréttar

Í desember 2011 sendu SVÞ kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins sem að mati samtakanna hafi ekki verið í samræmi við þá löggjöf. Íslenskar reglur fela þannig í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða því að sækja um sérstakt leyfi til innflutnings á þessum vörum og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

 

SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins hvað varðar frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

 

Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að íslensk löggjöf hvað varðar innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins sem staðfesti einnig ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.

 

Þessu til viðbótar liggur fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá nóvember 2016 um ólögmæti þessara innflutningstakmarkana. Var það aðildarfélag SVÞ sem lét reyna á umræddar takmarkanir í því máli. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar. Nú liggur fyrir að mál þetta er komið á dagskrá Hæstaréttar og verður það tekið fyrir 28. september nk., eða rúmum 4 árum eftir að málið kom fyrst inn á borð héraðsdóms og 7 árum eftir að SVÞ sendu upphaflega kvörtun til ESA – kvörtun sem kom hreyfingu á málið og markaði upphaf þess.

 

Um leið og SVÞ fagna því að loks fari að sjá fyrir endann á þessu máli þá gagnrýna samtökin tregðu stjórnvalda að bregðast við fyrirliggjandi og vel rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla og eftirlitsaðila í málinu. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.

 

Fréttatilkynning – Neytendasamtökin og SVÞ hafa óskað upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti

Fréttatilkynning – Neytendasamtökin og SVÞ hafa óskað upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti

Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.

Nánari upplýsingar gefa:

  • Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225

Fréttatilkynning

Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti

Tafir á innleiðingu persónuverndarlöggjafar

Tafir á innleiðingu persónuverndarlöggjafar

Í sameiginlegri umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands voru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.

Fulltrúar samtakanna fylgdu umsögninni eftir með fundi með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og embættismönnum. Á þeim fundi kom fram vilji til að koma til móts við einhverjar athugasemdir samtakanna, en hvergi nærri allar.

Þá er mjög líklegt að innleiðingu á löggjöfinni verði ekki lokið fyrir 25. maí nk., þegar hún tekur gildi í Evrópusambandinu.

Samtökin hafa varað við því að hætta gæti verið á því að einhver erlend fyrirtæki væru tregari til að ganga til samninga við íslensk fyrirtæki þar sem reynir á vernd persónuupplýsinga. Til þess að koma í veg fyrir það gæti þurft að útskýra fyrir þeim að persónuupplýsingar séu nægjanlega verndaðar hér þótt reglugerð Evrópusambandsins hafi ekki enn verið innleidd.

Samtökin lögðu áherslu á það á fundinum að ráðuneytið myndi setja upplýsingar um stöðu innleiðingarinnar á íslensku og ensku á vef sinn fyrir íslensk fyrirtæki og viðsemjendur þeirra.

Sjá nánar:

Skortur á stefnu og heildarsýn í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum

Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).

Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.

Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en  á bensíni.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir  útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.

Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI)  fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.

Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.

Samantektina má nálgast hér.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu

Enn frekari tafir á gildistöku landbúnaðarsamnings Íslands og ESB

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 12.7.2017
Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. Upphaflega var gert ráð fyrir að samningurinn kæmi til framkvæmda um næstu áramót. SVÞ hafa hins vegar borist þær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti að samningurinn hafi enn ekki verið staðfestur af hálfu ESB og samkvæmt sömu upplýsingum mun mál þetta koma á dagskrá Evrópuþingsins í september nk. Í umræddum samningi er ákvæði um gildistöku þar sem segir að hann muni taka gilda fyrsta dags þess mánaðar að sjö mánuðum liðnum frá staðfestingu hans og því mun hann ekki taka gildi og koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl 2018. Því er ljóst að gildistaka þessa samnings mun dragast enn frekar og harma SVÞ þann drátt sem rekja má til atvika er varða samþykkt hans innan ESB.

Fréttatilkynning til útprentunar.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts

Í umsögn til Samkeppniseftirlitsins gera SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu athugasemdir við framkomna beiðni Markaðsráð kindakjöts um undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga vegna boðaðs samstarfs fyrirtækja í útflutningi á kindakjöti. SVÞ telja að í framkominni undanþágubeiðni hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði slíkrar undanþágu séu uppfyllt.

Markaðsráð kindakjöts hefur sent beiðni á Samkeppniseftirlitið þar sem óskað er eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislega vegna samstarfs hagsmunaaðila hvað varðar markaðssetningu á kindakjöti erlendis. Telur ráðið nauðsynlegt til að koma á laggirnar samstarfi aðila og sameiginlegu markaðsátaki til að takast á við erfiðleika í útflutningi á kindakjöti sem stafi m.a. af mikilli styrkingu krónunnar og aðrar neikvæðar breytingar vegna gengisþróunar ásamt því að aðgengi að ýmsum mörkuðum hafi lokast eða er skert.

Í umsögn sinni benda SVÞ á að tilvísaðir erfiðleikar sem blasa við markaðssetningu kindakjöts eru á margan hátt sambærilegir þeim starfsskilyrðum sem aðrar útflutningsgreinar hér á landi fást við og hafa haft áhrif á starfsemi þeirra. Nú þegar hefur hið opinbera hlaupið undir bagga með framleiðendum kindakjöts þar sem segir að íslenska ríkið hafi þegar lagt til 100 milljónir króna í sérstöku markaðsátaki vegna óhagstæðra aðstæðna á evrópskum kjötmörkuðum og hækkunar krónunnar.

Þá ítreka SVÞ að undanþáguheimild samkeppnislaga grundvallast á því að öll skilyrði slíkrar heimildar séu uppfyllt að fullu en ekki að hluta og verða þeir sem óska undanþágu á grundvelli umræddrar undanþáguheimildar að sýna fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Í umsögninni benda SVÞ að ekki eru uppfyllt skilyrði samkeppnislaga um að neytendur njóti góðs af slíku samstarfi, þ.e. að stuðla að enn frekari skort á tilteknum pörtum kindakjöts en að óbreyttu er vöntun á innanlandsmarkaði eftir tilteknum pörtum, s.s. hryggjum, sem hefur haft í för með sér hækkun á verðsskrám afurðarstöðva og felur í sér hækkun á verði til neytenda.

Er það mat SVÞ að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki í fyrirliggjandi beiðni tekist að sýna fram á að öll skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá ákvæðum laganna séu uppfyllt. Telja SVÞ að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu og hagsmuni sem umbeðin undanþága muni hafa í för með sér gagnvart neytendum og veita þeim sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem að boðuðu samstarfi hlýst.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts