Brotalamir í burðarvirki matvælaeftirlits

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.5.2017
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

Hver gætir varðmannanna?
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkur hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.

Í báðum þessum málum brást MAST þeim skyldum sem á stofnunina eru lagðar, annars vegar með þögn sinni um ófullnægjandi aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og hins vegar með gildishlöðnum yfirlýsingum um tiltekna matvælaframleiðslu. Málin eru til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um starfshætti MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda og því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Blaðagreinin á pdf sniði.

Fullgilding landbúnaðarsamnings Íslands og ESB dregst til áramóta

Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. SVÞ hafa fylgst náið með framgangi málsins á vettvangi ESB og er staða mála sú að samningurinn hefur verið samþykktur af ESB en hins vegar mun fullgilding hans dragast vegna tafa hjá Evrópuþingi. Því mun samningurinn að óbreyttu ekki koma til framkvæmda fyrr en um og kringum næstu áramót. SVÞ munu áfram fylgjast með málinu og upplýsa aðildarfyrirtæki um gang mála.

Eftirlitsstofnun EFTA telur að rekstur á fríhafnarverslun standist ríkisstyrkjareglur

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem starfar í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi.

Í ljósi þessa sendu SVÞ í apríl 2016 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) enda telja samtökin að núverandi framkvæmd feli í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Samhliða umræddri kvörtun SVÞ til ESA hafði stofnunin þá þegar haft til skoðunar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og afgreiddi ESA það mál í nóvember 2016.

ESA hefur nú lokið skoðun á málinu og birti stofnunin niðurstöðu sína í mars sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið hvað varðar rekstur hins opinbera á fríhafnarverslun feli ekki í sér brot gegn ríkisstyrkjarreglum EES-samningsins. Telur ESA að íslensk stjórnvöld hafi í máli þessu sýnt fram á mikilvægi slíks rekstrar hins opinbera til að sporna gegn smygli og undanskotum hvað varðar opinber gjöld. Þá sé slíkt fyrirkomulag til þess fallið að einfalda tollaeftirlit í flugstöðinni. Niðurstaða þessi er í fullu samræmi við fyrri niðurstöðu ESA frá nóvember 2016 hvað varðar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og ljóst að stofnunin taldi þau sjónarmið sem þar komu fram eiga við hvað varðar svipaða starfsemi hér á landi.

SVÞ harma þessa niðurstöðu ESA í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi fyrirkomulag raski að verulegu leyti samkeppni hér á landi og hafi skaðleg áhrif á þá samkeppni. Er með öllu óumdeilt að innlend verslun getur ekki keppt við opinbera starfsemi á sama sviði sem nýtur yfirburðarstöðu í formi niðurfellingar á opinberum gjöldum í þeirri samkeppni. SVÞ ítreka að samtökin hafa einnig þegar sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins og er það mál enn til skoðunar hjá eftirlitinu.

SVÞ fagna frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.3.2017

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis, þar sem bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu, fagna samtökin markmiði þess um afnám þess einkaleyfis.

SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. SVÞ ítreka í þessu samhengi mikilvægi þess að hið opinbera dragi sig út úr smásölurekstri hvers konar en sama skapi verði lagaumgjörð þannig úr garði gerð að einkaaðilum verði treyst til að annast slíkan rekstur sem hér um ræðir. Þannig verði með lögum búið þannig um þessa starfsemi að gætt verði að þeim sjónarmiðum sem gæta þarf að þegar um er að ræða sölu á áfengi eða aðra vöru sem kallar á aðgát hvað varðar eiginleika hennar.

Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi. Þá fagna SVÞ sérstaklega því frumkvæði í frumvarpinu um að fella úr lögum banni við áfengisauglýsingum enda hefur núverandi bann ekki staðið í vegi fyrir að áfengisauglýsingar hafi birst hér á landi, m.a. í erlendum miðlum, og þannig mismunað framleiðendum eftir hvort um er að ræða innlenda eða erlenda aðila.

SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.

Fréttatilkynningin á pdf sniði

Umsögn SVÞ um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Eftirlitsstofnun EFTA vísar innflutningsbanni á fersku kjöti til EFTA-dómstólsins

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Hlekkur á frétt ESA.

SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.