Löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk í andstöðu við EES samninginn

Eftirlitsstofnun EFTA sendi frá sér neðangreinda fréttatilkynningu í dag. Þess ber að geta að þessi niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar kemuesa_logo_col_600r í beinu framhaldi af niðurstöðu EFTA dómstólsins um innflutningsbann á hráu kjöti, en Samtök verslunar og þjónustu áttu frumkvæði að þeim málarekstri.

Fréttatilkynningin
Innri markaður: Innflutningstakmarkanir á Íslandi á vörum úr eggjum og mjólk brjóta í bága við EES – samninginn

Íslensk löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum er ekki í samræmi við EES-samninginn. Innflutningstakmarkanirnar geta valdið innflutningsaðilum erfiðleikum við að koma vörum sínum á markað. Þetta er niðurstaða rökstudds álits sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi frá sér í dag.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á hráum eggjum og vörum úr þeim sem og ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun 89/662/EBE um eftirlit með dýraheilbrigði.

Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagsvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu.  Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. Yfirgripsmikið regluverk ESB, sem er hluti af EES-samningnum, er sérstaklega hannað til að  draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana er við lýði ef hætta skapast á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs í EES-ríkjum.

Í dómi sínum í máli E-17/15 Ferskar kjötvörur ehf v. íslenska ríkið komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að sambærilegar kröfur íslenska ríkisins varðandi innflutning á hráu kjöti stönguðust á við tilskipun 89/662/EBE. ESA telur hið sama gilda um innflutningstakmarkanir á vörum úr eggjum og mjólk.

ESA rekur einnig samningsbrotamál gegn Íslandi vegna innflutnings á hráu kjöti og sendi stofnunin íslenskum yfirvöldum rökstutt álit í október 2014. Þá hefur ESA einnig óskað eftir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í kjölfar niðurstöðu EFTA dómstólsins. Enn sem komið er hafa engar laga-eða reglubreytingar átt sér stað.

Rökstutt álit er annað skref í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Til frekari upplýsinga er eftirfarandi hlekkur inn á heimasíðu ESA þar sem fjallað er um málið: http://www.eftasurv.int/press–publications/press-releases/internal-market/innri-markadur-innflutningstakmarkanir-a-islandi-a-vorum-ur-eggjum-og-mjolk-brjota-i-baga-vid-ees-samninginn

Aðgerðarleysi stjórnvalda skaðar starfsemi faggiltra fyrirtækja

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.

SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.

Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA

SVÞ efast um að búvörusamningar standist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.

Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.

Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.

Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.

Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga

Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál

Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 19.5.2016
Um 64% af innfluttum fatnaði og skóm báru 15% tolla fram að síðustu áramót þegar tollurinn var feldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega 8% verðlækkunar á þessum vöruflokkum.

Þegar skoðað er hvort tollaniðurfellingin hafi skilað verðlækkun til neytenda þarf að skoða fleiri þætti en opinberar álaglögur. Innkaupsverð varanna, gengi gjaldmiðla, laun og annar innlendur kostnaður eru meðal þess sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þar af leiðandi á þróun verðs á innlendum markaði.

Við mat á því hvort tollalækkanirnar hafi skilað sér með fullnægjandi hætti til neytenda þarf að skoða þróun annarra kostnaðarliða frá því að tollaniðurfellingin tók gildi. Því hefur efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins reiknað vísitölu sem vegur saman þessa kostnaðarliði og ber hana saman við verðþróunina eins og hún hefur verið skv. verðvísitölu Hagstofunnar.

Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa verðlækkanir á fötum og skóm í innlendum fataverslunum verið svipaðar og við mátti búast samkvæmt reiknuðu vísitölunni. Frá desember í fyrra fram í apríl s.l. lækkaði verð að meðaltali um 3,9% en reiknaða vísitalan gerir ráð fyrir 3,7% verðlækkun.

Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollabreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til,  er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða. Hæst bera miklar launahækkanir en á tímabilinu hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 4,8% og annar innlendur kostnaður um 0,7%. Þetta dregur úr áhrifum tollaniðurfellingarinnar og hagstæðrar gengisþróunar. En eftir stendur að niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um 4% lægra verði á fötum og skóm.

Verðbreytingar koma ekki fram strax og ný lög taka gildi, það þarf að hafa í huga í umræðu um skattkerfisbreytingar. Í fataverslun á meðalkaupmaðurinn um 120 daga vörubirgðir og því getur það því tekið 4 – 5 mánuði að sjá áhrif slíkra breytinga koma endanlega fram í verði vöru. Engu að síður sýna kannanir að verulegar lækkanir eru þegar komnar fram í einstaka vöruflokkum, s.s. kvenskóm, sem hafa lækkað um 17%.

SVÞ er ekki í minnsta vafa um að niðurfelling tolla af fötum og skóm muni skila sér til neytenda á sama hátt og skattkerfisbreytingar fyrri ára hafa gert það. Nýjasta dæmið í því sambandi er afnám vörugjalda um áramótin 2014-2015, en allar mælingar sýna að afnám þeirra gjalda skilaði sér í fullu til neytenda.

Fréttatilkynning 19.5.2016- Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm

SVÞ kvarta undan starfsemi Fríhafnarinnar

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem og markaðssetningu verslana fyrirtækisins, þ.m.t. pöntunarþjónusta sem boðið er upp á. Þá hafa samtökin bent á að með þessum verslunarrekstri er ríkið í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi og hafa samtökin í því samhengi bent á að þessar verslanir Fríhafnarinnar ehf. gera út á þennan aðstöðumun í markaðssetningu sinni þar sem auglýst er að verð er allt að fimmtíu prósent lægra í fríhöfninni en í miðbæ Reykjavíkur.

Þessu til viðbótar hafa SVÞ gagnrýnt pöntunarþjónustu verslana Fríhafnarinnar ehf. en samtökin telja að með þeirri þjónustu, sem á margan hátt er sambærileg netverslun, þar sem hver sem er getur pantað vörur án þess þó að fela í sér það skilyrði að sá hin sami sæki þær vörur, hafi þessar verslanir farið inn á hinn almenna markað utan flugstöðvarinnar og því sé sú starfsemi í virkri samkeppni á þeim markaði.

SVÞ benda á að gagnrýni samtakanna á starfsemi Fríhafnarinnar ehf. kemur ekki eingöngu frá SVÞ heldur hefur fjármálaráðherra einnig sett út á þá starfsemi. Í þessu samhengi vísast til ummæla fjármálaráðherra á fundi SVÞ hinn 17. mars sl. þar sem ráðherra sagðist vera ósáttur við að sjá skilti í Fríhöfninni sem auglýsa að verðið sé allt að fimmtíu prósentum lægra en í miðbænum og taldi hann að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði. Þá sagði ráðherra það einnig vera rangt þar sem útsöluverðið í Fríhöfninni sé gert hærra með gríðarhárri leigu sem Isavia innheimtir af fyrirtækjunum sem eiga þar pláss.

Að mati SVÞ hefur starfsemi þessi skaðleg áhrif á samkeppni á innlendum markaði og skert til muna samkeppnisskilyrði á markaði með þær vörur sem seldar eru í verslunum Fríhafnarinnar ehf. Hafa SVÞ nú þegar sent erindi á Samkeppniseftirlitið þar sem kvartað var undan þessari starfsemi. Var skorað á Samkeppniseftirlitið að taka mál þetta skoðunar og vekja athygli viðkomandi ráðherra á þeim ágöllum sem þessi opinbera starfsemi felur sannarlega í sér. Samhliða erindi SVÞ á Samkeppniseftirlitið hafa samtökin ákveðið að óska eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki álitamál þetta til skoðunar enda felur framkvæmd þessi í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins að mati SVÞ.