11/06/2018 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld, Verslun
Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt álit sitt vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutning á svokölluðum sérostum. Um er að ræða mál sem upp kom í kjölfar lögfestingu á búvörusamningum en við þinglega meðferð málsins kom fram vilji Alþingis um að liðka fyrir innflutningi á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Því átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári tollasamningsins, þ.a. á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þá skyldi þeim ostum vera úthlutað samkvæmt hlutkesti en ekki undirorpnir útboðsgjöldum. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.
Fyrir liggur að mistök þessi voru tilkomin vegna atvika er varða lagaskrifstofu Alþingis og var í kjölfarið þrýst á um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum til að koma þessum tollfrjálsa innflutningi á. Því lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á tollalögum til að leiðrétta þessi mistök og var í frumvarpinu lagt til að opna skyldi tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði 230 tonn.
Hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga. Þá leggur nefndin einnig til að fyrir 1. nóvember 2018 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum.
SVÞ gagnrýna harðlega þessa afgreiðslu atvinnuveganefndar og telja hana atlögu af þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækanna sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Telja SVÞ afgreiðslu þessa ganga freklega gegn hagsmunum bæði verslunar og neytenda til þess eins að vernda innlenda hagsmuni án þess þó að framleiðsla sérosta eigi sér hér stað.
30/05/2018 | Fréttir, Stjórnvöld
Í desember 2011 sendu SVÞ kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins sem að mati samtakanna hafi ekki verið í samræmi við þá löggjöf. Íslenskar reglur fela þannig í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða því að sækja um sérstakt leyfi til innflutnings á þessum vörum og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins hvað varðar frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að íslensk löggjöf hvað varðar innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins sem staðfesti einnig ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.
Þessu til viðbótar liggur fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá nóvember 2016 um ólögmæti þessara innflutningstakmarkana. Var það aðildarfélag SVÞ sem lét reyna á umræddar takmarkanir í því máli. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar. Nú liggur fyrir að mál þetta er komið á dagskrá Hæstaréttar og verður það tekið fyrir 28. september nk., eða rúmum 4 árum eftir að málið kom fyrst inn á borð héraðsdóms og 7 árum eftir að SVÞ sendu upphaflega kvörtun til ESA – kvörtun sem kom hreyfingu á málið og markaði upphaf þess.
Um leið og SVÞ fagna því að loks fari að sjá fyrir endann á þessu máli þá gagnrýna samtökin tregðu stjórnvalda að bregðast við fyrirliggjandi og vel rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla og eftirlitsaðila í málinu. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
07/05/2018 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.
Nánari upplýsingar gefa:
- Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
- Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225
Fréttatilkynning
Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti
13/04/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.
Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.
Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.
Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.
14/11/2017 | Fréttir
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins.
EFTA-dómstóllinn kvað fyrr í dag upp dóm sinn þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti og er niðurstaðan því í fullu samræmi við upphaflega kvörtun SVÞ. SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018.
SVÞ fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er enn einn áfangasigur í baráttu samtakanna í máli þessu sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Fréttatilkynning til útprentunar.
Dómur EFTA dómstólsins.