Samkeppnislegur ómöguleiki

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.9.2016
Höfundar: Jón Björnsson, varaformaður SVÞ og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
„Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.“ Þessi hástemmdu orð eru inngangur landsfundarályktunar annars af ríkisstjórnarflokkunum um verslun og þjónustu. Sannarlega lofandi yfirlýsing frá flokki sem kennir sig við frelsi í viðskiptum og ætti að vera vegvísir um virðingu fyrir viðskiptafrelsi á samkeppnislegum forsendum.

Samkeppni er hampað í hvívetna þegar kemur að vel flestum athöfnum í daglegu lífi en þegar pottur er brotinn í innlendum viðskiptum er skorti á samkeppni kennt um að ekki hafi betur farið.

Hins vegar  er það svo að samkeppni á ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að innlendri mjólkur- og kjötframleiðslu og ræktun einstakra grænmetistegunda og lúta einstaka fyrirtæki í þeim geira ekki almennum lögmálum samkeppnislaga. Laga sem ætlað er að efla samkeppni í viðskiptum og vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að innlendum markaði. Rúmur þriðjungur matarútgjalda hjá venjulegu íslensku heimili fer til kaupa á innlendum landbúnaðarvörum. Þrátt fyrir þá vernd sem greinin býr við virðast framleiðendur svínakjöts og kjúklingakjöts vera þeir einu sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi, um það vitna ársreikningar fyrirtækja í þeim greinum. Skoðun ársreikninga fyrirtækja í almennri kjötvinnslu og mjólkurvinnslu leiðir hins vegar í ljós að það er ekki ábatasamur rekstur, þrátt fyrir samkeppnisverndina. Ekki er hagur bænda frábær. Á sama tíma og erlendir ferðamenn streyma til landsins og veitingahús landsins eru yfirfull, þarf að lækka verð til bænda fyrir lambakjöt. Og þar erum við stödd með þetta ólánskerfi sem enginn er ánægður með. Það sem verra er að það virðist alla stjórnmálaflokka skorta vilja eða þor til að gera hagsmunaaðilum ljóst að það sé þeirra að koma með raunhæfar úrbætur á kerfinu.

Með búvörusamningum er enn og aftur meitluð í stein opinber niðurgreiðsla til handa einni atvinnugrein ásamt því að undanþiggja áfram tiltekna grein ákvæðum samkeppnislaga. Þá lét Alþingi sem vind um eyru þjóta gagnrýni varðandi úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur þar sem allt samkeppnislegt hagræði til handa innlendum neytendum er afnumið með álagningu útboðsgjalda. Gjöld sem í eðli sínu eru skattur og keyra upp verð á innfluttum matvælum. Íslensk stjórnvöld höfðu tækifæri til að láta Mjólkursamsöluna og fleiri fyrirtæki vinna hylli neytenda í krafti betri vara og verðs en valdi fremur að pakka fyrirtækinu í þægilegar tollverndarumbúðir og halda áfram sömu vegferð og s.l. 20 ár.

Það er mikið til af hreinni og góðri íslenskri landbúnaðarvöru sem íslenskir framleiðendur ættu að gera meira af að segja frá. Séríslenskar vörur eins og skyr og lambakjöt ættu að vera á óskalista hvers ferðamanns  og við ættum að vera leiðandi  í dýravelferð og lífrænni ræktun. Við höfum allt til þess nema hinn samkeppnislega hvata.

Þrátt fyrir hávær mótmæli úr ýmsum áttum um ágalla á landbúnaðarkerfinu þá á það kerfi sér marga stuðningsmenn á Alþingi. Skiptir hér engu hvort um er að ræða rótgróinn flokk sem viðheldur íhaldssömum gildum í landbúnaði eða flokk sem hefur að stefnu að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Samtök verslunar og þjónustu eru einfaldlega þeirrar skoðunar að nýgerðir búvörusamningar komi ekki til með að skila bændum neitt fram á veginn, miklu fremur að verið sé að festa í sessi óbreytt ástand til næstu ára. Hins vegar er hægt að fullyrða að þeir muni ekki skila íslenskum neytendum neinum ávinningi.. Binda verður vonir við að það þing sem kosið verður í næsta mánuði verði þannig samansett að hægt verði að gera sér raunhæfar vonir um breytingu á þessu kerfi sem verði bæði bændum og neytendum til framdráttar.

Greinin í Fréttablaðinu.

SVÞ telja breytingar á búvörusamningum ganga of skammt

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 30.8.2016
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt nefndarálit vegna búvörusamninga. SVÞ hafa verið gagnrýnin á umrædda samninga, t.d. varðandi fjárskuldbindingar vegna þeirra, tímalengd þeirra og að ekki eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum málefnum s.s. framkvæmd úthlutunar á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Í umsögn sinni um málið bentu SVÞ á að með þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með undirritun samninganna sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál. Þá gagnrýndu SVÞ framkvæmd varðandi úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þ.e. þá skyldu að leggja útboðsgjöld á kvótanna sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum, og lögðu samtökin til breytingu á núverandi fyrirkomulagi.

Nú liggur fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt til m.a. þær breytingar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára  og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, þ.e. ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi.

SVÞ telja jákvætt að loksins hafi náðst fram eitt af baráttumálum samtakanna sem er tollfrjáls innflutningur á ostum sem hingað til hafa borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar. Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra. Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar aukningar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna.

Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörum.

Fréttatilkynning á PDF sniði.

SVÞ efast um að búvörusamningar standist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.

Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.

Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.

Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.

Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga

Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál

Búvörusamningar sæta mikilli gagnrýni

Fundur sem haldinn var í byrjum þessa mánaðar um nýgerða búvörusamninga leiddi vel í ljós hversu illa var staðið að undirbúningi þeirra samninga. Að þessum fundi stóðu fjölmörg hagsmunasamtök, bæði atvinnurekenda og launþega, m.a. SVÞ. Viðræður, milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um gerð nýrra búvörusamninga höfðu þá staðið yfir allt frá því s.l. haust. Lengst af bárust litlar fréttir af gangi viðræðnanna og var það raunar ekki fyrr en skömmu fyrir áramót, að hópur hagsmunaaðila óskaði eftir því að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þegar stjórnvöld hófu að gefa upplýsingar um efni og innihald væntanlegra samninga kom í ljós að nær ekkert var tekið tillit til annarra hagsmuna en bænda eingöngu. Þrátt fyrir að þarna væri verið að véla um gífurlega langan samning sem snérist um háar fjárhæðir, þótti ekki ástæða til að kalla aðra aðila að málinu, þó ekki væri nema til ráðgjafar.

Sú bylgja gagnrýni sem fór af stað í þjóðfélaginu eftir að nýir búvörusamningar voru undirritaðir í lok febrúar, sýndi og sannaði að málið er stærra í sniðum en svo að unnt sé að líta á það sem einkamál stjórnvalda og bændaforystunnar. Málið snýst fyrst og fremst um hagsmuni neytenda. En eins og fram kom í máli Daða Más Kristóferssonar, lektors við HÍ á umræddum fundi, eru hagsmunir neytenda að engu hafðir í þessum samningum. Tækifærið, sem stjórnvöld höfðu til að hefja undirbúning að kerfisbreytingu á fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn, var ekki gripið. Að óbreyttu munu það áfram verða neytendur sem bera skarðan hlut frá borði.

Staðan á málinu nú er sú að samningarnir eiga eftir að koma til kasta Alþingis. Þeir öðlast því ekki gildi fyrr en nauðsynlegar lagabreytingar sem þeir kalla á, hafa verið samþykktar af Alþingi. SVÞ, sem og fjölmörg önnur hagsmunasamtök, hafa sent umsagnir sínar um búvörusamningana til þingsins, jafnframt því að fara á fund fjárlaganefndar til að skýra viðhorf sitt til þeirra. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið verður að gera ráð fyrir því að komið verði til móts við þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið og samningunum breytt, og/eða að samhliða verið gerðar ráðstafanir til að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur, neytendum til hagsbóta.

Frá fundi um búvörusamningana.

Frá fundi um búvörusamninga og hagsmuni neytenda

Frá fundi um búvörusamninga og hagsmuni neytenda

Samtök verslunar og þjónustu stóðu fyrir fundi þriðjudaginn 1. mars undir yfirskriftinni „Skipta búvörusamningar neytendur máli?“ásamt Félagi atvinnurekenda, Viðskiptaráði Íslands, Neytendasamtökunum, ASÍ, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtökum skattgreiðenda og Öryrkjabandalagi Íslands.

Framsögu hafði Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Beindi Daði Már sjónum að því hvort hagsmuna neytenda væri gætt í nýjum búvörusamningum. Í framsögu Daða Más kom m.a. fram að kjúklingaræktin hér á landi fengi í raun 66% stuðning í formi tollverndar, þrátt fyrir að ekki væri um neinn beinan stuðning við greinina að ræða. Daði Már var gagnrýninn á þá skort á framsýni f.h. landbúnaðarins sem birtist í nýgerðum búvörusamningum og sagði að þær breytingar sem þó væri lagt upp með gerðust mjög hægt. Á fyrstu fimm árum samningsins yrðu t.a.m. engar raunverulegar breytingar á því styrkjafyrirkomulagi sem greinin hefði búið við undanfarna áratugi.

Hér má nálgast glærur Daða Más Kristóferssonar.

Að lokinni framsögu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

Í pallborði sátu:
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Reifuðu þau niðurstöður í erindi Daða Más og svöruðu fyrirspurnum fundargesta ásamt framsögumanni.

Fundarstjóri var Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu

Umfjöllun í fjölmiðlum:
visir.is
mbl.is
Stöð 2
RÚV