13/01/2017 | Fréttir, Greining
Í takt við aukinn kaupmátt og vöxt í einkaneyslu jókst verslun í desember eins og við var að búast samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Neyslumynstrið í jólaversluninni hefur samt breyst nokkuð og fer hún nú fyrr af stað en áður. Þannig var hærra hlutfall jólaverslunar sem fór fram í nóvember en áður hefur sést. Líklega hefur Black Friday og aðrir söluhvetjandi viðburðir í nóvember áhrif á þessa þróun.
Töluverður munur var á veltu hinna ýmsu tegunda verslunar á milli vöruflokka í desember á nafnverði í samanburði við desember árið áður. Þannig varð 1,7% samdráttur í veltu fataverslana og 2,8% samdráttur í skóverslun. Á sama tíma jókst velta í húsgögnum um 31,9%, velta stórra raftækja jókst um 12,6% og í byggingavöruverslunum var aukningin 21,8%. Veltuaukning í dagvöru í desember var hófsamari, eða sem nam 3,6% að nafnvirði.
Verðlækkun hefur orðið í flestum vöruflokkum. Þannig lækkaði verð á dagvöru um 0,7% frá desember árinu áður, verð á fötum var 5,9% lægra, 2,2% verðlækkun var á skóm og húsgögn lækkuðu um 1,2%. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum verðbreytingum sjást raunbreytingar í veltu. Þannig jókst sala á fötum að raunvirði um 4,5% og velta svokallaðra brúnna raftækja (sjónvörp og minni raftæki) um 22,5%. Samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar hefur verð á snjallsímum lækkað um 9,3% á einu ári. Sala snjallsíma í desember var að raunvirði 10% meiri en fyrir ári.
Erlend netverslun – 64% aukning í desember
Í desember jókst fjöldi þeirra pakkasendinga sem Íslandspóstur sá um dreifingu á frá útlöndum, og ætla má að sé vegna netverslunar, um 64% frá sama mánuði árið áður. Í nóvember og desember samanlagt nam þessi ársaukning pakkasendinga 61% . Mest aukning sendinga var frá Kína og öðrum Asíulöndum.
Þannig má ætla að Íslendingar hafi gert töluvert af jólainnkaupunum erlendis fyrir jólin. Bæði gegnum erlendar netverslanir og auk þess var mikil aukning í ferðir til útlanda síðustu tvo mánuði ársins. Brottfarir Íslendinga til útlanda gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, voru alls 86.424 (um 26% þjóðarinnar) í nóvember og desember, sem er 26% aukning í fjölda farþega frá sömu mánuðum árið áður.
Jólaverslun útlendinga á Íslandi
Á móti aukinni verslun Íslendinga erlendis kemur mikill vöxtur í verslun erlendra ferðamanna hér á landi. Í desember greiddu erlendir ferðamenn með greiðslukortum sínum í íslenskum verslunum fyrir liðlega tvo milljarða króna. Það er fjórðungsaukning frá desember árið áður. Stærstur hluti erlendrar kortaveltu í verslunum í desember var til kaupa á dagvöru, eða 467 millj. kr.
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,6% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 3,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í desember 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 17,9% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í desember um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í desember síðastliðnum og 0,5% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 1,7% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 2,8% í desember á breytilegu verðlagi og minnkaði um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í desember um 2,2% frá desember í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 31,9% meiri í desember en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,5% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 49,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 34,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 1,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í desember um 21,8% í desember á breytilegu verðlagi og jókst um 22,5% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,5% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í desember um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 0,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,6% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV.
12/01/2017 | Fréttir, Viðburðir
Aðalfundur SVÞ verður haldinn fimmtudaginn 23. mars nk. Hefðbundin aðalfundastörf verða afgreidd á lokuðum fundi fyrir hádegi en eftir hádegi verður haldin ráðstefna sem vert er að vekja athygli á. Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavik Nordica og verður öllum opin.
Nánari dagskrá auglýst síðar.
09/01/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Viðskiptamogginn bauð framkvæmdastjórum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að horfa fram á næsta ár og svara þessari spurningu: Hvað geta stjórnvöld gert á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?
Samtök verslunar og þjónustu: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri
„Á undanförnum árum hefur meginmarkmið okkar hjá SVÞ verið að gera rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar eins líkt rekstrarumhverfi verslunar annars staðar á Norðurlöndum og kostur er. Með afnámi almennra vörugjalda og afnámi flestra tolla höfum við nálgast þetta markmið mjög. Það er hins vegar enn margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum. Stjórnvöld hafa mismunandi mikla möguleika til að hafa áhrif á þessa þætti. Stóra áskorunin við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu er hins vegar tvímælalaust sú, að leita leiða til að koma í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar. Við Íslendingar vitum það allra þjóða best að slíkt leiðir til harðrar lendingar fyrr eða síðar. Þó ekki sé hægt að bera þær aðstæður sem nú eru saman við aðstæðurnar fyrir hrun, er ljóst að frekari styrking á gengi krónunnar er ógnun við stöðugleika í efnahagslífinu. Ljóst er að hækkandi raungengi getur leitt til erfiðleika í efnahagsmálum og því er mikilvægtað vinna á móti þenslunni til að koma í veg fyrir of snarpa og djúpa niðursveiflu í kjölfarið.“
Greinin í heild sinni. Úr viðskiptablaði Moggans 29.12.2016
09/01/2017 | Fréttir, Viðburðir
SVÞ boðar til félagsfundar um öryggismál þriðjudaginn 17. janúar nk. kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Boðið verður upp á kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
SVÞ hafa undanfarin ár haft til skoðunar ýmis mál er varða þjófnað úr verslunum og öðrum brotum gegn hagsmunum aðildarfyrirtækja samtakanna. Í því starfi SVÞ hafa samtökin vakið athygli stjórnvalda á þessari vá sem steðjar að fyrirtækjum og hafa samtökin leitað leiða til að vinna sameiginlega með stjórnvöldum í þessum málum. Er það mat SVÞ að sú glæpastarfsemi hefur á undanförnum árum farið oftar en ekki að bera öll helstu einkenni að vera skipulögð starfsemi.
Til að ræða þessi mál mun:
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri og
Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlunardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
halda erindi á fundinum og ræða ýmis mál er varða þjófnað úr verslunum og önnur álitamál því tengt. Farið verður m.a. yfir tölfræði afbrota og til hvaða aðgerða hefur þegar verið gripið til að stemma stigu við þessari glæpastarfsemi.
SKRÁNING HÉR
Oops! We could not locate your form.
05/01/2017 | Fréttir, Greining, Greiningar, Skýrslur
Samantekt
Sænski seðlabankinn birti í peningamálaskýrslu greiningu á mögulegum áhrifum stafrænnar tækniþróunar á verðbólgu. Í greiningu bankans kemur m.a. fram að þróunin hafi dempandi áhrif á verðbólgu en óvíst sé hversu mikil áhrifin eru. Það er mat bankans að lág verðbólga í Svíþjóð sé þó fyrst og fremst tengd öðrum þáttum. Samfara tækniþróuninni geta orðið breytingar í þá átt að mörg störf tapist í ákveðinni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Á sama tíma opnast möguleikar á starfi annarsstaðar í hagkerfinu. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem kunna að opnast. Stafræna tækniþróunin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.
Skýrslan er aðgengileg hér.
28/12/2016 | Fréttir, Viðburðir
– verður haldinn 2. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica
Menntadagur atvinnulífsins fer fram fimmtudaginn 2. febrúar 2017 á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá verður birt þegar nær dregur en m.a. verða menntaverðlaun atvinnulífsins afhent.
Við hvetjum félagsmenn til að taka daginn frá!
Þetta er í fjórða skipti sem menntadagur atvinnulífsins er haldinn en hann er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samorku, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Í Sjónvarpi atvinnulífsins er hægt að horfa á svipmyndir frá dagskránni 2016 og horfa á innslög um Icelandair hotels og Securitas sem hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2016.