Bylting og breytingar í þjónustu og verslun – opin ráðstefna fimmtudaginn 23. mars

Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur, mun fjalla um í sinni framsögu áhrif stafrænu byltingarinnar á verslun og þjónustu og þær breytingar sem eru framundan í þeim efnum. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu í dag. Þróunin er hröð og á sér stað um allan heim því verður fróðlegt að heyra í einum helsta sérfræðingi nútímans á þessu sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu. Þá mun Landsbankinn kynna niðurstöður nýrrar greiningar á stöðu, þróun og horfum í íslenskri verslun. Jafnframt mun formaður SVÞ, Margrét Sanders, og ráðherra ferðamála, iðnaðar, og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir halda tölu.

Oops! We could not locate your form.

 

Auglýsing

Minni kortavelta á hvern erlendan ferðamann í janúar

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í janúar 17 milljörðum króna samanborið við 12 milljarða í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða tæplega helmings aukningu frá janúar 2016. Þó um töluverða aukningu sé að ræða jókst kortaveltan ekki í sama hlutfalli og fjöldi þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í mánuðinum. 136 þúsund ferðamenn komu til landsins um Leifsstöð í janúar eða 75% fleiri en í sama mánuði í fyrra og var kortavelta á hvern ferðamann því tæplega 15% lægri í janúar síðastliðnum samanborið við janúar í fyrra. Gengi krónunnar hefur styrkst töluvert undanfarið ár en ef sama breyting frá janúar í fyrra er reiknuð í bandaríkjadal dróst kortavelta á hvern ferðamann  einungis saman um tvö prósent. Þá hefur verðlag ferðaþjónustuafurða farið hækkandi undanfarna tólf mánuði en sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 11% frá janúar í fyrra, veitingastaða um 5% og pakkaferða innanlands um 13% mælt í íslenskum krónum. Af þessu má ráða að Íslandsferð í janúar síðastliðnum var töluvert dýrari fyrir erlenda ferðamenn en sambærileg ferð í janúar í fyrra og kann það að útskýra neyslubreytingar að hluta.

Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem inniheldur ýmsar skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa nam rúmum þremur milljörðum í janúar, 44% meira en í janúar í fyrra. Greiðslukortavelta flokksins er jafnan fjörug í byrjun árs enda eru margar skipulagðar ferðir pantaðar og greiddar fyrirfram. Í janúar var þessi útgjaldaliður næst veltuhæstur í tölum um kortaveltu erlendra ferðamanna á eftir farþegaflutninga og velti hærri fjárhæðum en gistiþjónusta sem jafnan vermir annað sætið.

Erlendir ferðamenn greiddu í janúar 57,9% meira fyrir gistiþjónustu með kortum sínum en í sama mánuði í fyrra. Alls nam greiðslukortavelta til gististaða rúmum 2,9 milljörðum í janúar eða ríflega milljarði meira en í sama mánuði í fyrra. Upphæðin nú er ríflega tvöfalt hærri en árið 2015 og þrefalt hærri en árið 2014.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna til bílaleiga jókst um 52,7% frá janúar í fyrra og nam 1,1 milljarði í mánuðinum. Þá nam greiðslukortavelta veitingaþjónustu tæpum einum og hálfum milljarði í janúar og var 56,4% meiri en í janúar 2016.

Í janúar greiddu erlendir aðilar 4,5 milljarða með kortum sínum fyrir flugsamgöngur samanborið við 3,2 milljarða í janúar í fyrra. Er um 43,6% aukningu að ræða á milli ára. Þó ársaukningin nú sé rífleg er hún nokkuð lægri en árshækkun milli sömu mánaða eins og hún hefur birst í tölum RSV undanfarið ár, en á milli áranna 2015 og 2016 jókst velta flokksins 136%. Ekki er ótrúlegt að hluti þeirrar aukningar sem verið hefur á greiðslukortaveltu flokksins undangengna 12 mánuði hafi verið vegna aukinna erlendra umsvifa íslenskra flugfélaga í ársbyrjun 2016.

Erlend greiðslukortavelta í verslunum jókst um 45% í janúar frá sama mánuði í fyrra, eða sem nemur tæpum 1,7 milljarði kr.. Mest jókst veltan í dagvöruverslun og tollfrjálsri verslun, um 80% frá fyrra ári en minnst í annarri verslun, 12,9% og fataverslun 27,1%.Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 128 þús. kr. í janúar, eða um 7% meira en í desember. Það er um 15% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.Meðalvelta pr. ferðamann 01 2017
Ferðamenn frá Kanada greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í janúar eða 227 þús. kr. á hvern ferðamann. Svisslendingar eru í öðru sæti með 213 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

 

Kuðungurinn – Umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála sem er veitt árlega.
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2016. Kuðungurinn verður afhentur á Degi umhverfisins 25. apríl.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 17. mars næstkomandi, merktar ,,Kuðungurinn 2016″, á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Upplýsingar á vef ráðuneytisins um fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa Kuðunginn.

Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn fyrir árið 2016

Orr skartgripaverslun hlýtur Njarðarskjöldinn og er ferðamannaverslun ársins 2016. Verðlaunaafhendingin fór fram í Hafnarhúsi, Listasafns Reykjavíkur þann 16. febrúar en þetta er í 21. skipti sem verðlaunin eru veitt.

Alls voru 11 verslanir tilnefndar til Njarðarskjaldarins í ár; Epal í Hörpu, Eymundsson í Austurstræti og á Laugavegi, Gilbert úrsmiður á Laugavegi, Gjóska á Skólavörðustíg,  GÞ skartgripir og úr í Bankastræti, Handprjónasambandið á Skólavörðustíg, Islandia í Bankastræti, Nordic Store í Lækjargötu, Upplifun í Hörpu og Orr gullsmiðir á Laugavegi.
Njarðarskjöldurinn er viðurkenning og hvatningarverðlaun sem veitt eru árlega til verslana eða verslunareigenda fyrir góða þjónustu og ferskan andblæ í ferðaþjónustu. Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.

Í dómnefnd Njarðarskjaldarins sitja fulltrúar frá Höfuðborgarstofu fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Miðborginni okkar, Félagi atvinnurekanda, Samtökum verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtökum Íslands, Global Blue á Íslandi og Premier Tax Free  á Íslandi.  Í rökstuðningi tilnefningarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Orr gullsmiðir er afsprengi Kjartans Kjartanssonar. Verslunin sem er jafnframt gullsmíðaverkstæði hefur frá fyrstu tíð verið staðsett í miðborg Reykjavíkur. Lengi vel var hún staðsett neðarlega við Laugaveginn en fluttist nýlega um set og hefur haldið sínum takti. Hönnun Orr hefur frá fyrstu tíð verið feikilega vinsæl á meðal erlendra ferðamanna enda er hún einstök og efnisval og frágangur fyrsta flokks. Gullsmíðaverkstæðið er staðsett í sama húsi og verslunin sem gefur henni aukna dýpt. Þjónustustig og tungumálakunnátta starfsfólks er til fyrirmyndar sem og aðgengi að versluninni. Orr skartgripaverslun er björt og stílhrein með góða lýsingu þannig að vörurnar njóta sín til fulls. Stílhreint útlit, glæsileg hönnun, hæft starfsfólk ,sem hefur hvort í senn gaman af vinnunni og faglega þekkingu á vörunni gerir Orr að ákjósanlegum stað til verslunar fyrir erlenda ferðamenn.“

Viðtal við Kjartan Kjartansson í sjónvarpi mbl.is

Vöxtur í öllum flokkum nema fötum og skóm

Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar fór velta í smásöluverslun í janúar almennt vaxandi líkt og undanfarna mánuði að undanskilinni fata- og skóverslun, sem dróst nokkuð saman frá janúar í fyrra. Verðlag var lægra í öllum vöruflokkum sem mælingin nær til nema áfengi, sem hækkaði þó aðeins um 0,5% frá janúar í fyrra.
Velta í stærsta vöruflokknum, dagvöruverslun, jókst í janúar um 4,3% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra og um 7,5% þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi ásamt daga- og árstíðabundnum þáttum. Verð á dagvöru var 1,3% lægra en tólf mánuðum áður. Þá jókst sala áfengis um 5% í mánuðinum miðað við janúar í fyrra.
Svo virðist sem frekar dauft hafi verið yfir fataútsölum í janúar af veltutölum að ráða. Veltan dróst saman um 12,1% á breytilegu verðlagi. Hafa verður í huga að fataverslunum fækkaði um áramótin og neytendur virðast ekki hafa fært innkaupin til þeirra verslana sem fyrir eru, alla vega ekki enn sem komið er. Verð á fötum var 2,9% lægra en í sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.
Mun meiri verðlækkun var á útsölum með raftæki í janúar og meiri vöxtur í sölutölum. Þannig var verð á svokölluðum brúnum raftækjum 14,5% lægra en fyrir ári síðan. Í þeim flokki eru t.d. sjónvörp, hljómflutningstæki o.fl. Stærri heimilistæki, eða svokölluð hvít raftæki, lækkuðu í verði um 9% á milli ára. Velta í hvítum raftækjum jókst um 23,8% að krónutölu og velta í brúnum raftækjum var óbreytt á milli ára.
Velta byggingavöruverslana jókst um 20,2% frá janúar í fyrra. Þar ræður miklu að byggingaframkvæmdir og viðhald húsnæðis er mikið um þessar mundir auk þess sem veðurfar hefur verið einkar hagstætt til byggingaframkvæmda.

Í janúar var greiðslukortavelta heimilanna hér innanlands 9% meiri en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í janúar var 7,1 milljarður kr. sem er 17,6% hærri upphæð en fyrir ári síðan. Erlendir ferðamenn sem hingað koma hafa vaxandi áhrif á íslenska verslun. Þannig var greiðslukortavelta útlendinga hér á landi 17,4 milljarðar kr. í janúar sem er 49% aukning frá síðasta ári.

Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 7,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í janúar um 15,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í janúar síðastliðnum og 1,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,1% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 9,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,9% lægra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði árið áður.

Velta skóverslunar minnkaði um 3,2% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 1,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í janúar um 2,9% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 11,4% meiri í janúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 22,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 23,8% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 2,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 20,2% í janúar á breytilegu verðlagi og jókst um 20,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 1,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í janúar um 15,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 15,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, var óbreytt á milli ára á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 23,8% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.